Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Mál nr. 47/2004. Úrskurður kærunefndar útboðsmála:

Úrskurður kærunefndar útboðsmála 26. janúar 2005.

í máli nr. 47/2004:

Birnir ehf.

gegn

Ríkiskaupum

Með bréfi 13. desember 2004 kærir Birnir ehf. verkefni Ríkiskaupa nr. 13705, vegna rannsóknaskipsins Drafnar RE-35. Með bréfi, dags. 15. desember 2004, óskaði nefndin eftir því að kærandi bætti úr kærunni þar sem að hún teldist ekki fullnægjandi. Með símbréfi hinn 20. desember 2004 bárust frekari gögn frá kæranda.

Kærandi gerir kröfu um „að samningar um sölu Drafnar RE-35 verði stöðvaðir og úrskurðað um hvort taka eigi hæsta tilboði í skipið og um sérútboð á þjónustusamningi við Hafrannsókn".

Kærða og Sigurbjörgu Jónsdóttur ehf. var gefinn kostur á að tjá sig um stöðvunarkröfu kæranda. Af hálfu beggja var krafist að kröfum kæranda yrði hafnað.

I.

Helstu málsatvik eru þau að kærði auglýsti skipið Dröfn RE til sölu. Tilboðsfrestur var til 25. nóvember 2004. Í auglýsingu kærða kom m.a. fram að skipinu gæti fylgt leiguskuldbinding. Hafrannsóknarstofnun vildi leigja skipið af væntanlegum kaupanda í a.m.k. 40 daga á ári næstu 2 árin með framlengingarheimild um tvisvar sinnum eitt ár. Leigutímabilið væri september til október. Í leigugjaldi skyldi vera innifalinn allur rekstur á skipinu á leigutímanum hverju nafni sem hann nefndist. Kærandi gerði tilboð í skipið. Kærði ákvað að ganga til samninga við Sigurbjörgu Jónsdóttur ehf.

Með ákvörðun kærunefndarinnar, dags. 21. desember 2004, var stöðvunarkröfu kæranda hafnað. Rökstuðningur nefndarinnar var svohljóðandi:

Í 80. gr. laga nr. 94/2001 er nefndinni veitt heimild til stöðvunar samningsgerðar þar til endanlega hefur verið skorið úr kæru. Í ákvæðinu sjálfu, sbr. og athugasemdir við ákvæðið í því frumvarpi sem varð að lögum nr. 94/2001, er skýrlega tekið fram að skilyrði fyrir beitingu heimildarinnar sé að verulegar líkur séu á því að brotið hafi verið gegn lögunum eða reglum settum samkvæmt þeim. Miðað við fyrirliggjandi gögn og upplýsingar, sem nefndin hefur farið ítarlega yfir, verður ekki talið að svo verulegar líkur liggi fyrir um brot gegn útboðslögum eða útboðsreglum að skilyrði séu til að taka kröfu kæranda um stöðvun til greina. Það athugast í því sambandi að umtalsverður vafi er á því að málið heyri undir nefndina. Með vísan til framangreinds verður því að hafna umræddri kröfu kæranda.

II.

Kærandi byggir á því að hann hafi verið hæstbjóðandi í skipið og telji sig því eiga fullan rétt á að fá það keypt.

III.

Kærði telur að kvörtun kæranda hafi verið sett fram eftir að fjögurra vikna frestur samkvæmt lögum um opinber innkaup leið. Því eigi að vísa málinu frá.

Þá telur kærði að sala skipsins heyri ekki undir kærunefnd útboðsmála, sbr. 2. mgr. 75. gr. laga um opinber innkaup. Um sölu eigna ríkisins gildi reglugerð um ráðstöfun eigna ríkisins nr. 206/2003 og eigi að beina kvörtun um meðferð sölumála til fjármálaráðherra.

Kærði bendir loks á að kærandi hafi boðið bæði í kaup og leigusamning skipsins og hann hafi verið með óhagstæðara leigutilboð heldur en sá aðili sem tilboð var tekið frá.

IV.

Kærandi hefur kært þá háttsemi kærða að taka kauptilboði Sigurbjargar Jónsdóttur ehf. í skipið Dröfn RE 35. Kærandi lítur svo á að hann hafi verið hæstbjóðandi og því eigi hann tilkall til að fá skipið keypt.

Kærði byggir á því að kæran sé of seint fram komin í skilningi 78. gr. laga um opinber innkaup nr. 94/2001 en þar er kveðið á um fjögurra vikna kærufrest frá því að kærandi vissi eða mátti vita um ákvörðun, athöfn eða athafnaleysi sem hann telur brjóta gegn réttindum sínum. Kærði vísar til þess að kæranda mátti vera kunnugt um leigufyrirkomulagið í síðasta lagi við birtingu seinni auglýsingar 14. nóvember 2004.

Í II. kafla laga um opinber innkaup er fjallað um gildissvið þeirra. Þar kemur fram í 1. mgr. 4. gr., að lögin gildi um samninga sem kaupendur gera við bjóðendur um innkaup á vörum, þjónustu og verkum. Til vörusamninga teljast samningar um kaup, leigu eða fjármögnunarleigu á vörum, með eða án kaupréttar, sbr. 2. mgr. 4. gr. laganna. Í hinu kærða útboði var um að ræða sölu á skipi í eigu ríkisins. Samkvæmt orðalagi 2. mgr. 4. gr. falla kaup á eigum ríkisins ekki undir hugtakið vörukaup. Þá er einsýnt að hvorki er um verkkaup né þjónustukaup í skilningi laganna að ræða. Fellur salan því ekki undir lög um opinber innkaup. Það mati breytir engu í þessu sambandi að mati kærunefndar útboðsmála, að lýst var yfir í auglýsingarferlinu að skipinu gæti fylgt leiguskuldbinding. Þá verður einnig að líta til þess að kærandi var ekki með hagstæðasta tilboðið í leiguþátt sölunnar.

Með vísan til framangreinds verður að hafna kröfum kæranda í máli þessu.

Úrskurðarrorð:

Kröfum kæranda, Birnis ehf., í verkefni Ríkiskaupa nr. 13705, vegna rannsóknaskipsins Drafnar RE-35, er hafnað.

Reykjavík, 26. janúar 2005.

Páll Sigurðsson

Stanley Pálsson

Sigfús Jónsson

Rétt endurrit staðfestir.

Reykjavík, 26. janúar 2005Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn