Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið

Yfirmatsgerð á arðskrá fyrir Veiðifélag Blöndu og Svartár

YFIRMATSGERÐ

á arðskrá fyrir Veiðifélag Blöndu og Svartár

 

I.

Undirmat. Beiðni um yfirmat.

Hinn 6. september 2002 luku þeir Gísli Kjartansson sparisjóðsstjóri og Magnús B. Jónsson þáverandi rektor mati á arðskrá fyrir Veiðifélag Blöndu og Svartár. Höfðu þeir verið dómkvaddir til starfans af Héraðsdómi Norðurlands vestra 5. apríl 2001. Mati þeirra fylgir einnig viðbótargreinargerð eða skýringar 9. október 2002.    

Þessu arðskrármati hafa allmargir veiðiréttareigendur skotið til yfirmats með bréfum til stjórnar veiðifélagsins, sem hún hefur komið á framfæri við yfirmatsmenn. Þau bréf, sem um er að ræða, eru þessi:

1.  Bréf eigenda Hamars, Kagaðarhóls, Grænuhlíðar, Köldukinnar og Köldukinnar II 10. nóvember 2002, en þeir eiga veiðirétt í Blöndu.

2. Fimm bréf 10., 12. og 18. nóvember 2002, undirrituð af tuttugu og einum eiganda eða umráðamanni jarða við Svartá.

3.  Bréf Sifjar Konráðsdóttur hæstaréttarlögmanns 25. nóvember 2002 til yfirmatsmanna f.h. eiganda Æsustaða, sem á veiðirétt í Blöndu og Svartá.

Arðskrármat undirmatsmanna var kynnt veiðiréttareigendum á félagsfundi 26. september 2002. Erindi framangreindra veiðiréttareigenda eru nægilega snemma fram komin, sbr. 3. mgr. 101. gr. laga nr. 76/1970 með áorðnum breytingum. Skilyrði eru samkvæmt því uppfyllt til að undirmat á arðskránni verði tekið til endurskoðunar.

II.

Upphaf matsstarfa. Vettvangsganga.

Nokkrir veiðiréttareigendur lýsa sjónarmiðum sínum.

Að ósk yfirmatsmanna boðaði stjórn Veiðifélags Blöndu og Svartár eigendur veiðiréttar til fundar með yfirmatsmönnum 30. maí 2003 í félagsheimilinu Húnaveri. Á fundinn komu eigendur eða umboðsmenn þessara jarða: Hóls, Barkarstaða. Torfustaða, Syðri-Löngumýrar, Tunguness, Hamars, Æsustaða, Brúarhlíðar, Höllustaða, Köldukinnar, Eiríksstaða, Kárastaða, Fremstagils, Glaumbæjar, Kagaðarhóls, Holtastaða, Holtastaðareits, Blönduóssbæjar, Ennis, Skottastaða, Leifsstaða II, Fossa I, Fossa II, Gils, Bergsstaða, Köldukinnar II, Skeggsstaða, Geitaskarðs, Bólstaðarhlíðar og Ártúna.

Á þessum fundi var starfstilhögun yfirmatsmanna kynnt, en það hafði einnig verið gert með bréfi 27. desember 2002, sem sent var stjórn veiðifélagsins eftir móttöku þeirra erinda, sem getið var í I. kafla að framan. Var á fundinum óskað eftir athugasemdum um formhlið málsins og hæfi yfirmatsmanna, ef einhverjar væru. Engar athugasemdir komu fram. Kynntu yfirmatsmenn sér sjónarmið fundarmanna um skiptingu arðskrár og athugasemdir vegna undirmats og væntanlegs yfirmats og veittu svör við fyrirspurnum. Jafnframt var því beint til þeirra að senda yfirmatsmönnum skriflegar greinargerðir, ef þeir vildu kynna sjónarmið sín nánar. Skyldu þær hafa borist 30. september 2003. Eftirgreindir lýstu viðhorfum sínum til skiptingar arðskrár á fundinum eða í viðtölum við yfirmatsmenn að loknum fundi: Valgarður Hilmarsson vegna Fremstagils og Glaumbæjar, Erla Hafsteinsdóttir vegna Gils, Stefán Á. Jónsson vegna Kagaðarhóls, Jóna Fanney Friðriksdóttir vegna Blönduóssbæjar, Guðmundur Valtýsson vegna Eiríksstaða, Kristófer Kristjánsson vegna Köldukinnar II, Sigurður Ingi Guðmundsson vegna Syðri-Löngumýrar og Tunguness, Sigurjón Björnsson vegna Kárastaða, Þór Sævarsson vegna Brúarhlíðar, Ævar Þorsteinsson vegna Ennis, Tryggvi Jónsson vegna Ártúna, Páll Pétursson vegna Höllustaða, Guðmundur Guðbrandsson vegna Bergsstaða, Holti Líndal vegna Holtastaða, Finnur Björnsson vegna Köldukinnar, Jakob Sigurjónsson vegna Hóls, Þorkell Sigurðsson vegna Barkarstaða og Stefán Stefánsson vegna Æsustaða. Stjórnarmennirnir Ágúst Sigurðsson, Geitaskarði, Einar Kolbeinsson, Bólstaðarhlíð og Hrafn Þórisson, Skeggsstöðum, svöruðu athugasemdum og fyrirspurnum, sem fram komu frá fundarmönnum varðandi allmörg atriði í tengslum við undirmat og væntanlegt yfirmat, þar á meðal um mælingar á bakkalengd.

Sama dag og fundurinn var haldinn könnuðu yfirmatsmenn aðstæður á félagssvæðinu eftir því sem tök voru á. Við Blöndu var það gert undir leiðsögn Ágústs Sigurðssonar og Guðmundar Guðbrandssonar við Svartá. Á fundinum var mönnum bent á að þeir gætu sjálfir sýnt yfirmatsmönnum aðstæður fyrir sínum löndum, teldu þeir ástæðu til. Einn veiðiréttareigandi nýtti sér það við vettvangsgöngu.

Á fundinum og í framhaldi af honum hafa yfirmatsmönnum borist greinargerðir frá eigendum eða talsmönnum eftirgreindra jarða: Hamars, Sellands, Geitaskarðs (frá eigendum jarðarinnar og útskipts hluta), Fjósa, Eyvindarstaðaheiðar, Skeggsstaða og Gils (sameiginleg greinargerð), Tunguness, Kárastaða, Bólstaðarhlíðar og Æsustaða. Leitað var eftir upplýsingum eða andsvörum nokkurra veiðiréttareigenda, m.a. í tilefni fram kominna sjónarmiða í greinargerðum, sem yfirmatsmenn hafa fengið. Bárust af því tilefni athugasemdir frá eigendum Geitaskarðs og útskipts hluta jarðarinnar, Tunguness, Kárastaða, Bólstaðarhlíðar og Æsustaða. Vegna ágreinings um skiptingu arðs á svæðinu við ármót Blöndu og Svartár og við svonefnda Vargey var efnt til sérstakrar vettvangsgöngu yfirmatsmanna 9. júlí 2004 með þátttöku fulltrúa síðastnefndu fjögurra jarðanna.

Yfirmatsmenn hafa leitað til Veiðimálstofnunar, stjórnarmanna í veiðifélaginu og fleiri manna eftir margs kyns upplýsingum, auk þess sem sérfræðingar hjá Veiðimálastofnun hafa veitt svör við ýmsum álitaefnum varðandi viðfangsefnið, sbr. nánar hér á eftir.

III.

Um Veiðifélag Blöndu og Svartár.

Félagið heitir Veiðifélag Blöndu og Svartár og starfar samkvæmt samþykkt nr. 148/1978, sem staðfest var af landbúnaðarráðherra 8. febrúar sama árs. Kom hún í stað eldri samþykktar nr. 173/1960 fyrir Veiðifélagið Blöndu.

Í 2. gr. samþykktarinnar segir að félagið nái til „allra jarða og landa, sem land eiga að vatnakerfi Blöndu.“ Eru þessar jarðir og lönd síðan talin upp eftir þáverandi sveitarfélögum á svæðinu. Í Svínavatnshreppi eru þau 16 talsins, í Torfalækjarhreppi 6, í Engihlíðarhreppi 14 og í Bólstaðarhlíðarhreppi 50. Þá er Blönduóshrepps getið sem aðila að félaginu. Samkvæmt samþykktinni eru þannig 87 félagar í veiðifélaginu.

Samkvæmt 3. gr. er verkefnum félagsins lýst þannig að það skuli viðhalda og efla góða fiskgengd á félagssvæðinu með nánar tilgreindum aðferðum og laga farveg til að greiða fyrir fiskför. Þá skuli félagið reka alla lax- og göngusilungsveiði í fiskihverfinu og sé því öllum, sem veiðirétt eiga þar, óheimilt að stunda slíka veiði. Þá megi veiðifélagið selja á leigu stangaveiði og annan veiðirétt í fiskihverfinu.

Í 6. gr. er ákvæði þess efnis að allur sölukostnaður og annar kostnaður, sem félagið þurfi að hafa, greiðist af andvirði veiði eða veiðileigu. Síðan skuli arði af veiði eða veiðileigu skipt niður á félagsmenn samkvæmt arðskrá, sem gildi hverju sinni.

Gildandi arðskrá fyrir veiðifélagið er samkvæmt yfirmatsgerð 20. apríl 1988.

Gögn málsins bera með sér að á aðalfundi veiðifélagins 1996 og aftur á félagsfundi í nóvember sama árs hafi verið ákveðið að ný samþykkt skyldi leysa hina eldri af hólmi. Þá liggja fyrir yfirmatsmönnum bréfaskrif milli veiðifélagsins og landbúnaðarráðuneytis og veiðimálastjóra frá árinu 2004 varðandi þá málaleitan félagsins að ráðherra staðfesti nýja samþykkt fyrir félagið. Af því hefur enn ekki orðið af ástæðum, sem einkum koma fram í bréfum veiðimálastjóra til ráðuneytis og tilkynnt var veiðifélaginu með bréfi landbúnaðarráðuneytis 19. ágúst 2004. Þessu tengt er stofnun sérstaks veiðifélags fyrir efsta hluta vatnasvæðis Blöndu, sem nú er innan Veiðifélags Blöndu og Svartár samkvæmt samþykkt nr. 148/1978. Nefnist það Veiðifélag Auðkúlu- og Eyvindarstaðaheiða, en stofnfundur þess var 26. maí 2004. Samþykkt fyrir það félag hefur ekki heldur fengist staðfest af hálfu ráðherra. Veiðifélagið leitaði enn eftir staðfestingu ráðherra á nýrri samþykkt 5. október 2004.

Hin nýja en óstaðfesta samþykkt fyrir Veiðifélag Blöndu og Svartár hefur að geyma ýmsar breytingar frá gildandi samþykkt. Ekki eru efni til að rekja þær sérstaklega að öðru leyti en því að í henni eru taldar upp fjórar jarðir, sem gildandi samþykkt tekur ekki til. Eru það Hjaltabakki, Blöndubakki, Litla-Vatnsskarð og Teigakot. Bæði í gildandi arðskrármati frá 1988 og í undirmati nú var þessum jörðum metin hlutdeild í arði, en að baki því munu liggja samþykktir félagsfunda á sínum tíma. Teigakot mun hafa verið í enn eldri arðskrám veiðifélagsins. Verða þessar jarðir og nokkrar fleiri, sem hvorki er getið í samþykkt nr. 148/1978 né drögum að nýrri samþykkt, að því virtu einnig teknar með nú við skiptingu arðskrár, sbr. nánar í XI. kafla hér á eftir.

Í bréfi veiðifélagsins til yfirmatsmanna 19. júlí 2004 kemur fram að stjórn félagsins sé einhuga um að ný arðskrá taki ekki til þess hluta vatnasvæðis Blöndu, sem liggur framan við Blöndustíflu við Reftjarnarbungu. Kemur einnig fram að samningur hafi verið gerður milli Landsvirkjunar og eigenda heiðalandanna um bætur fyrir tjón, sem varð af því að Blöndustífla hindrar fiskför fram á heiðarnar. Bótafénu sé ætlað að mæta tekjutapi, sem heiðasvæðin verði fyrir. Stofnfundagerð Veiðifélags Auðkúlu- og Eyvindarstaðaheiða 4. júní 2004 liggur einnig fyrir með undirritun fulltrúa þeirra veiðiréttareigenda, sem í hlut eiga. Tekur félagið til alls vatnakerfis Blöndu ofan Blöndustíflu og Kólkustíflu, sbr. 2. gr. í drögum að samþykktum fyrir félagið. Í samræmi við þetta verður arði ekki úthlutað nú til eigenda veiðiréttar á svæði hins nýja félags.

IV.

Rekstur veiðivatna. Leigusamningar og tekjur.

Veiði í Blöndu, Svartá og hliðarám hefur í allmörg ár verið á hendi leigutaka en ekki veiðiréttareigenda sjálfra. Umsaminn leigutími hefur oft verið þrjú ár í senn, en um leiguverð hefur verið samið sérstaklega fyrir hvert ár leigutímans. Yfirmatsmenn hafa fengið ljósrit nokkurra leigusamninga, en samkvæmt þeim hefur útleigu veiðiréttar verið hagað sem hér segir:

1. Blanda, svæði I-III.

Með leigusamningi 31. mars 1997 seldi veiðifélagið Stangaveiðifélaginu Flugunni á Akureyri á leigu alla stangaveiði í Blöndu, svæði I og II og Auðólfsstaðaá, árin 1998-2000 að báðum árum meðtöldum. Með í leigunni fylgdi veiðihús. Leyft var að veiða með 8 stöngum í senn, 4 á hvoru svæði, og leyfilegt agn var maðkur, fluga „og önnur hófleg gervibeita“. Spænir og krækjur skyldu vera innan tiltekinna stærðarmarka. Umsamið árlegt leigugjald var 3.400.000 krónur, verðtryggt miðað við lánskjaravísitölu 1. desember 1994.

Með ódagsettum leigusamningi leigði veiðifélagið Stangaveiðifélaginu Lax-á veiði á svæðum I – III árin 2001 – 2003 að báðum meðtöldum. Mörk hvers svæðis voru skilgreind, þar sem efri mörk svæðis III voru ákveðin um 50 metrum neðan við affall Blönduvirkjunar. Tvö veiðihús fylgdu með í leigunni. Leyft var að veiða með 10 stöngum í senn, sem skiptust þannig að 4 voru á hvoru svæði I og II, en 2 á III. svæði. Sömu ákvæði giltu og áður um leyfilegt veiðiagn. Umsamið árlegt leigugjald var 11.150.000 krónur, verðtryggt miðað við lánskjaravísitölu 1. mars 2001. Tekið var fram að vegna raforkuvinnslu Blönduvirkjunar yrðu daglega nokkrar rennslisbreytingar á ánni, en leigusali skuldbindi sig til að reyna að ná samningi við Landsvirkjun um að ekki yrði hleypt úr yfirfalli Blöndulóns fyrr en í fyrsta lagi 15. ágúst ár hvert.

Loks liggur fyrir ódagsettur leigusamningur milli sömu aðila um stangaveiðirétt á svæðum I – III í Blöndu árin 2004 – 2006 að báðum meðtöldum. Mörk veiðisvæða eru hin sömu og áður sem og fjöldi leyfðra stanga að því frátöldu að einni stöng er bætt við til reynslu á II. svæði. Um leigugjald fyrir árið 2004 segir að það sé ákveðið þannig að grunngjald sé 11.150.000 krónur að viðbættri vísitöluhækkun 1. mars 2001 til 1. mars 2004, en ofan á þá fjárhæð komi síðan 15% hækkun. Leigugjald ársins 2005 sé að grunni hið sama og árið áður og verðtryggt miðað við lánskjaravísitölu 1. mars 2005. Á þá upphæð komi 5% hækkun, „þó því aðeins að áin komi ekki á yfirfall fyrr en 20. ágúst það ár, eða síðar.“  Sams konar ákvæði er um leigugjald fyrir árið 2006 utan þess að verðtrygging miðast við 1. mars 2006.

2. Blanda, svæði IV.

Veiðifélagið seldi Óskari Hrafni Ólafssyni á leigu stangaveiði á svæði IV í Blöndu með ódagsettum samningi árin 1999 – 2001 að báðum árum meðtöldum. Efri mörk svæðisins eru við Blöndustíflu. Árlegt endurgjald var 288.000 krónur, verðtryggt miðað við lánskjaravísitölu í mars 1999. Leyft var að veiða með 2 stöngum í senn og sömu ákvæði giltu um leyfilegt veiðiagn sem á öðrum svæðum í ánni.

Annar ódagsettur leigusamningur um veiði á svæðinu árið 2002-2004 að báðum meðtöldum liggur fyrir milli veiðifélagsins og Stangaveiðifélagsins Flugunnar. Umsamið árlegt endurgjald er 1.220.000 krónur, verðtryggt miðað við janúar 2002. Sömu ákvæði og áður gilda um fjölda stanga og veiðiagn.

3. Blöndulón og þverár Blöndu.

Einn leigusamningur 13. nóvember 1994 liggur fyrir um veiði í Blöndulóni með þverám Blöndu framan við stíflu að Seyðisá undanskilinni. Leigutakar voru Svínavatnshreppur og Bólstaðarhlíðarhreppur og gilti samningurinn fyrir næstu þrjú ár. Árlegt leigugjald var 200.000 krónur, verðtryggt miðað við 1. desember 1994. Heimilt var að veiða með 7 stöngum í ánum og 50 netum í Blöndulóni.

4. Seyðisá.

Ódagsettur leigusamningur liggur fyrir, þar sem veiðifélagið seldi Agni ehf. á leigu stangaveiðirétt í Seyðisá frá upptökum til ósa í Blöndulón, árin 2004 – 2006 að báðum meðtöldum. Árlegt endurgjald er 100.000 krónur. Heimilt er að veiða með 4 stöngum samtímis og sömu ákvæði eru um veiðiagn og getið var að framan um samninga í Blöndu.

5. Svartá norðan Hvamms.

Elsti samningurinn, sem liggur fyrir um laxveiðirétt á þessu svæði, er frá desember 1994, þar sem Jón Steinar Gunnlaugsson og Vilhjálmur H. Vilhjálmsson voru leigutakar. Gilti hann fyrir árin 1995 – 1997 að báðum meðtöldum. Veiðihús fylgdi í leigunni. Heimilt var að veiða með 3 stöngum í senn á svæðinu og leyfilegt veiðiagn var fluga og maðkur. Umsamið leigugjald fyrir 1995 var 4.200.000 krónur og sama grunngjald fyrir hvort hinna áranna tveggja, verðtryggt miðað við lánskjaravísitölu febrúar 1995 til jafnlengdar 1996 fyrir fyrra árið og vísitölu febrúar 1997 fyrir það ár.

Nýr leigusamningur milli sömu aðila var gerður 28. ágúst 1997, sem gilti fyrir árin 1998 – 2000 að báðum meðtöldum. Leigugjald fyrir veiðiréttinn 1998 var 5.200.000 krónur. Sama grunngjald var fyrir hvort hinna áranna tveggja og sams konar ákvæði um verðtryggingu og áður var samið um. Önnur ákvæði, sem voru nefnd að framan í samningi frá 1994, voru óbreytt.

Með leigusamningi 16. október 2000 seldi veiðifélagið Búð ehf. á leigu alla stangaveiði á svæðinu árin 2001 – 2003 að báðum meðtöldum. Sömu ákvæði giltu um veiðihús, stangafjölda og veiðiagn sem í fyrri samningum. Árlegt endurgjald fyrir veiðiréttinn var 6.336.000 krónur, verðtryggt miðað við lánskjaravísitölu 1. apríl 2001. Tekið var fram að vegna raforkuvinnslu Blönduvirkjunar væru daglega nokkrar sveiflur á rennsli Blöndu og að leigusali skuldbindi sig til að reyna að ná samningi við Landsvirkjun um að ekki yrði hleypt úr yfirfalli Blöndulóns fyrr en 15. ágúst ár hvert.

Loks liggur fyrir leigusamningur veiðifélagsins við Stangaveiðifélag Reykjavíkur 11. október 2003 um veiðirétt á svæðinu árin 2004 – 2006 að báðum meðtöldum. Árlegt leigugjald er 9.100.000 krónur, verðtryggt miðað við vísitölu neysluverðs 1. mars 2004. Ákvæði um stangafjölda, veiðiagn og notkun veiðihúss eru óbreytt frá fyrri samningum, sem og ákvæði í síðasta samningi um sveiflur á rennsli Blöndu og yfirfall úr Blöndulóni.

6. Svartá, fremsti hlutinn, og Fossá.

Veiðifélagið seldi Sigríði S. Þorleifsdóttur og Kristni V. Sverrissyni á leigu veiðirétt á þessu svæði með samningi 27. janúar 1998 og gilti hann fyrir árin 1998 – 2000 að báðum meðtöldum. Heimilt var að veiða með þremur stöngum í senn og um veiðiagn voru sams konar ákvæði og áður var getið um í samningum í Blöndu. Árlegt leigugjald var 115.000 krónur, verðtryggt miðað við lánskjaravísitölu 1. desember 1997.

Sömu aðilar sömdu að nýju um veiðiréttinn á svæðinu 7. nóvember 2000 og gilti hann fyrir árin 2001, 2002 og 2003. Ákvæði um stangafjölda og veiðiagn voru óbreytt. Árlegt endurgjald fyrir veiðiréttinn var 115.000 krónur, verðtryggt miðað við lánskjaravísitölu 1. apríl 2001.

Nýr samningur var gerður um veiðirétt á svæðinu 15. október 2003, þar sem Agn ehf. er leigutaki. Gildir hann fyrir árin 2004 - 2006. Óbreytt ákvæði eru um stangafjölda og veiðiagn. Árlegt endurgjald fyrir veiðiréttinn er 300.000 krónur, verðtryggt miðað við lánskjaravísitölu 1. desember 2003.

Samkvæmt rekstrarreikningum veiðifélagsins fyrir árin 2001, 2002 og 2003 voru tekjur þess fyrstnefnda árið samtals 18.369.722 krónur, 19.856.640 krónur árið 2002 og 21.329.076 krónur árið 2003.

V.

Gögn til afnota við matsstörfin.

Yfirmatsmenn hafa eftirtalin gögn til afnota við matsstörfin:

1.       Bréf stjórnar veiðifélagsins 14. nóvember 2002 með beiðni um yfirmat og sjö bréf veiðiréttareigenda sama efnis (áður getið).

2.       Arðskrármat undirmatsmanna 6. september 2002 og nánari skýringar þeirra 9. október sama árs (áður getið).

3.       Bréf yfirmatsmanna til stjórnar veiðifélagsins 27. desember 2002 varðandi verklag við yfirmat (áður getið).

4.       Samþykkt fyrir Veiðifélag Blöndu og Svartár (áður getið).

5.       Yfirmatsgerð á skiptingu arðskrár fyrir Veiðifélag Blöndu og Svartár 20. apríl 1988.

6.       Arðskrármat (undirmat) fyrir veiðifélagið 25. júlí 1986.

7.       Ársreikningar Veiðifélags Blöndu og Svartár 2001, 2002 og 2003.

8.       Veiðimannakort fyrir Blöndu (2. og 3. svæði).

9.       Landamerkjaskrár frá árunum 1880–1891 fyrir jarðirnar Æsustaði, Tungunes, Svínavatn (með Kárastöðum), Bólstaðarhlíð, Finnstungu, Ytra-Tungukot, Þröm og Rugludal.

10.   „Blanda og Svartá“, Bókaútgáfan Hofi 2003. Ýmsir höfundar.

11.   Ljósrit úr fundargerðabók veiðifélagsins 30. maí 2003 vegna fundar með yfirmatsmönnum og listi yfir fundarmenn.

12.   Gjörðabók Jóns Sigurðssonar og Ævars Þorsteinssonar 1985 um mælingar á  landlengd jarða að veiðivötnum á félagssvæðinu og yfirlýsing þeirra 16. ágúst og 17. september 2004.

13.   „Bakkamæling meðfram Blöndu“. Fjögur blöð Önnu Margrétar Jónsdóttur 29. apríl 2002, 14. og 19. ágúst sama árs og 16. ágúst 2004.

14.   „Mælingar á bakkalengd Svartár og Blöndu í Æsustaðalandi í Langadal.“ Stefán Stefánsson 27. september 2001 með skýringum 16. maí 2002.

15.   Skrár yfir veiðistaði í Blöndu og hvaða jörðum þeir tilheyra.

16.   Skrár yfir veiðistaði í Svartá og hvaða jörðum þeir tilheyra.

17.   Leigusamningar um stangaveiði (áður getið).

18.   Samantekt um veiði (lax – silungur) á félagssvæðinu 1988 – 2004 að báðum árum meðtöldum, auk veiðibóka frá 1988.

19.    „Hlutdeild Svartár og Blöndu“ 1982 – 2000. Súlurit.

20.   „Laxastofn Svartár og veiði í Laxá á Ásum“ 1982 – 1999. Línurit.

21.   Veiðimálastofnun: Rannsóknir á áhrifum Blönduvirkjunar, 13. september 1999.

22.   Greinargerðir nokkurra veiðiréttareigenda til yfirmatsmanna (getið í II. kafla að framan).

23.   Greinargerðir talsmanns Æsustaða til undirmatsmanna 15. maí 2002 og 14. júní sama árs.

24.   Bréf talsmanna Geitaskarðs og útskipts hluta (Þorbrandsstaða) til yfirmatsmanna 4. og 23. júní 2003, 15. júlí sama árs (með fylgiskjölum) og 30. september 2003 (með fylgiskjölum) og 30. desember 2004 (með fylgiskjölum).

25.   Svarbréf yfirmatsmanna, sbr. lið nr. 24, dags. 12. júní 2003, 7. og 23. júlí sama árs og 9. desember 2004.

26.   Bréf talsmanns Æsustaða til yfirmatsmanna 15. september 2003, 13. október sama árs, 1. nóvember 2003 (greinargerð), 3. og 25. mars 2004, 3. apríl sama árs (með fylgiskjölum), 13. júlí 2004, 25. ágúst sama árs, 8. september og 20. nóvember 2004.

27.   Bréf yfirmatsmanna til talsmanns Æsustaða 29. september 2003, 15. október sama árs, 11. febrúar 2004, 5., 22. og 31. mars 2004, 9. og 13. júlí 2004, 1. og 2. september sama árs, 3., 4., 24. og 29. nóvember 2004.

28.   Bréf og minnisblöð eiganda Æsustaða til undirmatsmanna 22. nóvember 2001 og 8. júní 2002 og til yfirmatsmanna 11. júlí 2004, 24. ágúst sama árs og 8. nóvember 2004.

29.   Bréf yfirmatsmanna 18. desember 2003 til eigenda/talsmanna Tunguness, Kárastaða, Auðólfsstaða, Bólstaðarhlíðar og Ártúna með fylgiskjölum og svarbréf eigenda Tunguness 8. janúar 2004 og Bólstaðarhlíðar 18. og 19. sama mánaðar (með fylgiskjölum, sbr. lið nr. 38).

30.   Bréf talsmanns Tunguness og Kárastaða til yfirmatsmanna 16. janúar 2004, 5. febrúar sama árs (tvö bréf með fylgiskjölum), 8. júní 2004 (með fylgiskjölum) og 18. nóvember 2004.

31.   Bréf yfirmatsmanna til talsmanns Tunguness og Kárastaða 19. janúar 2004, 7. apríl sama árs (með fylgiskjölum), 5. júlí og 1. september sama árs, 4. nóvember 2004 (með fylgiskjölum) og 24. og 29. sama mánaðar.

32.   Bréf yfirmatsmanna til eigenda Bólstaðarhlíðar 19. apríl 2004.

33.   Bréf talsmanns Bólstaðarhlíðar til yfirmatsmanna 4. júní 2004 (með fylgiskjölum) og 25. nóvember sama árs.

34.   Bréf yfirmatsmanna til talsmanns Bólstaðarhlíðar 5. júlí 2004, 4. og 24. nóvember sama árs.

35.   Bréf eiganda Bólstaðarhlíðar til yfirmatsmanna 26. ágúst 2004 (með fylgiskjölum).

36.   Skrár um örnefni í landi Tunguness, Æsustaða og Bólstaðarhlíðar.

37.   Loftmyndir af svæðinu við ármót Blöndu og Svartár og norðan þeirra. Einnig teikningar af sama.

38.   Gögn frá árunum 1982 til 1987 varðandi greiðslur Vegagerðarinnar til veiðifélagsins á skaðabótum fyrir eyðilagða veiðistaði í Svartá („hyljapeninga“) og um ráðstöfun þeirra.

39.   Samkomulag eigenda Bólstaðarhlíðar og Æsustaða 21. ágúst 2004 um landamerki við Blóta.

40.   Bréf stjórnar veiðifélagsins 19. apríl 2004 til yfirmatsmanna með beiðni um frestun á gildistöku nýs arðskrármats til 1. janúar 2005 ásamt ljósriti fundargerðar aðalfundar 17. apríl 2004.

41.   Svarbréf yfirmatsmanna 28. apríl 2004. Fallist á frestun gildistöku.

42.   „Mat á búsvæðum laxaseiða í vatnakerfi Blöndu Austur Húnavatnssýslu“ Veiðimálastofnun, júní 2004.

43.   Bréf yfirmatsmanna til stjórnar veiðifélagsins 15. júlí 2004 um að búsvæðamat verði kynnt félagsmönnum. Frestur veittur til að gera athugasemdir.

44.   Bréf yfirmatsmanna 23. september 2004 til Veiðimálastofnunar vegna athugasemda eiganda Æsustaða við búsvæðamat og svarbréf Veiðimálastofnunar 26. október 2004.

45.   Bréfaskipti veiðifélagsins og stjórnvalda vegna nýrrar samþykktar fyrir félagið (getið í III. kafla að framan).

46.   Bréf yfirmatsmanna 4. nóvember 2004 til veiðifélagsins varðandi skaðabætur frá Vegagerðinni 1985 fyrir eyðilagða veiðistaði. Beiðni um frekari gagnaöflun.

47.   Yfirlit veiðifélagsins 12. desember 2003 til yfirmatsmanna um veiðileigutekjur 1988-2004.

48.   Bréf veiðifélagsins 16. nóvember 2004 til yfirmatsmanna um gagnaöflun.

49.   Veiðimálastofnun: Ár á Blönduheiðum. Rannsóknir 1981-1990.

50.   Veiðimálstofnun: Vatnakerfi Blöndu 1999, 2000, 2001 og 2002. Fjórar rannsóknarskýrslur.

51.   Halldór B. Maríasson: Staðarnöfn við Svartá/Blöndu, 2004.

52.   Páll Pétursson: Nokkur örnefni við Svartá og Blöndu 2004.

53.   Klemens Guðmundsson: Handrituð blöð um örnefni og landamerki við Svartá og Blöndu, um 1970.

54.   Bréf stjórnar veiðifélagsins til yfirmatsmanna 19. júlí 2004 um að ný arðskrá taki ekki til svæðisins sunnan Blöndustíflu.

55.   Ódagsett bréf stjórnar veiðifélagsins til yfirmatsmanna (des. 2004) og meðfylgjandi ljósrit fundargerðar aðalfundar 15. maí 1987 og stjórnarfundar 15. desember 1988.

56.   Bréf yfirmatsmanna til stjórnar veiðifélagsins 28. desember 2004 varðandi friðunarsvæði við ármót og svar veiðifélagsins 2. janúar 2005.

57.   Stofnfundargerð Veiðifélags Auðkúlu- og Eyvindarstaðaheiða 4. júní 2004 og drög að samþykktum fyrir félagið.

VI.

Sjónarmið nokkurra eigenda veiðiréttar.

Áður var þess getið að nokkrir eigendur veiðiréttar hafa komið sjónarmiðum sínum á framfæri við yfirmatsmenn, ýmist munnlega eða skriflega. Hér á eftir verður þeim lýst í höfuðatriðum. Verða jafnframt tilfærð eftir því sem þarf viðhorf, sem birtast í greinargerðum til undirmatsmanna.

Gil og Skeggsstaðir:

Eigendur jarðanna hafa sent yfirmatsmönnum sameiginlega greinargerð. Er þess farið á leit að í yfirmatsgerð komi fram skipting eininga milli Svartár og Blöndu í tilvikum, þar sem jörð á land að báðum ánum. Þá er vefengd sú niðurstaða undirmatsmanna að meta uppeldisskilyrði hærra í síðarnefndu ánni, en samkvæmt munnlegum upplýsingum frá Veiðimálastofnun séu engin gögn tiltæk, sem styðji þá niðurstöðu, auk þess sem yfirfall yfir Blöndustíflu síðustu tvö sumur hafi leitt til þess að hrygning hafi mjög misfarist í Blöndu. Þá séu ekki rök fyrir þeirri miklu tilfærslu eininga frá Svartá til Blöndu, sem orðið hafi í undirmati. Svartá hafi gefið hærri leigutekjur að undanskildum þrem síðustu árunum. Blanda sé óveiðanleg mikinn hluta sumars vegna vatnsmagns en hún „kom á yfirfall“ í júlí 2003 og sé leigusamningur í uppnámi þess vegna. Á fyrrnefndum fundi með yfirmatsmönnum var nánar skýrt við hvaða aðstæður Blanda flæðir yfir stíflu og neikvæðar afleiðingar þess. Ennfremur að meðalveiði hafi hækkað í Svartá en lækkað í Blöndu og árin 1993-1995 hafi meira veiðst í fyrrnefndu ánni. Í beiðni eiganda Skeggsstaða um yfirmat segir að jörðin hafi lækkað í undirmati um rúm 30% þrátt fyrir mikla aukningu á veiði fyrir landi hennar. Þá hafi Svartá aflað veiðifélaginu yfir 50% heildarleigutekna í meira en helming viðmiðunartímans en aðeins verið úthlutað 38% tekna. Í beiðni eiganda Gils og fleiri jarðeigenda við Svartá um yfirmat var einkum gagnrýnd tilfærsla eininga frá jörðum við Svartá til Blöndu. Rökstuðning skorti í undirmat fyrir þeirri breytingu.

Eyvindarstaðaheiði:

Í greinargerð talsmanns þessa veiðiréttareiganda segir meðal annars að vatnasvæði hans taki til Fossár, Svartár og Blöndu. Engin skýring sé fram komin á því hvers vegna hlutur Eyvindarstaðaheiðar í undirmati sé aðeins um þriðjungur af hlut Auðkúluheiðar, en í yfirmati 1988 sé hann jafnhár þeim síðarnefnda.

Hamar, Kagaðarhóll o.fl.:

Í sameiginlegri beiðni eigenda þessara jarða um yfirmat og þriggja annarra, sbr. I. kafla að framan, var bent á að arðskrármat jarðanna, sem eigi land vestan Blöndu, lækki í undirmati frá eldra mati, mest um 13% (Hamar). Arðskrármat allra jarða, sem eigi land á móti austan ár, hækki hins vegar verulega og allt að 36,5%. Slíkt misræmi á milli árbakka, sem sama vatnið renni á milli, fái ekki staðist. Frekari umfjöllun um þetta er í bréfi eiganda Hamars til yfirmatsmanna. Sjónarmiðum þessara veiðiréttareigenda var fylgt eftir á fundi með yfirmatsmönnum og meðal annars gerð grein fyrir breytingu, sem orðið hafi á veiði fyrir landi Köldukinnar frá því yfirmat tók gildi 1988. Sérstök athygli var vakin á töflu, bls. 84 í matskjali nr. 10.

Eiríksstaðir:

Á fundi með yfirmatsmönnum gagnrýndi eigandi jarðarinnar undirmat og þá meðal annars fyrir hlut Svartár í því, sem hann taldi allt of lágan. Yrði það ekki réttlætt með því að veiðin í Blöndu, sem hingað til hefði einkum verið hjá tveimur veiðiréttareigendum, hefði nú færst fram dalinn. Þar hafi þurft að færa einingar á milli. Fram kom að ekki væri ágreiningur um einstaka veiðistaði í Svartá. Veiðihyljaskrá hefði hann sjálfur tekið saman með aðstoð Grettis Gunnlaugssonar og séu tölur ekki réttari annars staðar. Eiríksstaðir hafi fengið slæma útreið í undirmati, en Brún, sem eigi land handan árinnar, hafi lækkað mun minna þótt jarðirnar eigi sömu veiðistaði að jöfnu. Brúnarhylur í landi þeirra sé besti veiðistaðurinn í Svartá að ármótum frátöldum.

Fjós:

Talsmaður jarðarinnar lýsti í greinargerð sinni þeirri afstöðu að tilfærsla eininga í undirmati frá Svartá til Blöndu hafi verið allt of mikil. Hann mótmælir einnig athugasemd, sem fram hafi komið af hálfu eiganda Skeggsstaða, þess efnis að eftir breytingu á rennsli Svartár eigi hann land á kafla beggja vegna árinnar. Segir talsmaður Fjósa alla aðila hafa samþykkt breytingu á veginum og þar með að Svartá skipti merkjum milli jarðanna eftir sem áður.

Geitaskarð og útskiptur hluti:

Talsmaður, sem kveðst gæta hagsmuna ábúenda jarðarinnar og eigenda að ¾ hlutum hennar, lýsti þeirri skoðun í bréfi til yfirmatsmanna að undirmatsmenn hafi fyrir misskilning tekið til greina hluta af kröfu eigenda útskipts hluta jarðarinnar. Krafa þeirra  hafi lotið að því að þeir ættu 40% eininga, sem alls féllu í hlut Geitaskarðs í arðskrá. Undirmatsmenn hafi símleiðis borið kröfuna undir annan eigenda meirihlutans og hljóti slakt símsamband að hafa valdið þeim alvarlega misskilningi, sem fram komi í matsgerðinni, að hann gerði ekki athugasemdir við að útskipti hlutinn yrði sérmetinn. Þeirri hugmynd séu meirihlutaeigendur algerlega mótfallnir. Staðreynd málsins sé sú að minnihlutinn, sex bræður, hafi eignast fjórðung jarðarinnar frá föður sínum. Eignarhluti þeirra sé nyrst í heimalandi jarðarinnar og sé merkjum jarðarhlutans lauslega lýst í eignarskiptasamningi 18. desember 1982. Hafi meiri- og minnihlutinn lengi átt í deilum, sem meðal annars snúist um afmörkun jarðarhlutans. Sé fyllilega ljóst af fyrrnefndum samningi að útskipti hlutinn skyldi vera ¼ hluti jarðarinnar. Krafa um 40% eininga jarðarinnar í arðskrá eigi sér enga stoð og réttur minnihlutans umfram fjórðungshlutann sé enginn. Veiðiréttindi séu enn í óskiptri sameign í sömu hlutföllum og skiptist þannig í samræmi við 1. mgr. 4. gr. laga nr. 76/1970. Telur talsmaður meirihlutans landamerkjadeilur falla utan arðskrármats. Er þess krafist að fallið verði frá fyrri hugmyndum um að arðskrá fyrir Geitaskarð sé skipt.

Í bréfi talsmanns minnihlutans (eigenda Buðlunganess og Þorbrandsstaðalands) til undirmatsmanna 16. maí 2002 var þess krafist að útskipt land úr Geitaskarði, sem nú sé alls 284 hektarar, fá hlutdeild í nýrri arðskrá veiðifélagsins. Eru raktar deilur milli eigenda jarðarinnar og sagt að full ástæða sé til að halda úthlutun arðs aðskildri milli aðila þó ekki sé nema vegna forsögu málsins. Er um hana vísað til 22 skjala. Útskipti hlutinn sé 40% af heildarlandinu og liggi að Blöndu. Hlutdeild minnihlutans eigi að vera í samræmi við það. Í svari við áðurnefndu bréfi talsmanns meirihlutans var tekið fram að bréfið til undirmatsmanna ári fyrr hafi verið ritað f.h. fimm af sex sameigenda útskipta hlutans. Er mótmælt staðhæfingu um að slakt símasamband við undirmatsmann hafi valdið misskilningi eins og hermt sé í bréfi talsmanns meirihlutans. Annar meirihlutaeigandinn „samþykkti hið nýja arðskrármat á hinum úrskipta hluta“ í viðurvist beggja undirmatsmanna. Afturköllun komi ekki til greina og sé harðlega mótmælt. Meðfylgjandi var bréf undirmatsmanns 11. júlí 2003 þar sem staðfest var að annar meirihlutaeigandinn lýsti yfir í viðurvist beggja matsmannanna að hann gerði ekki athugasemdir við að hlutinn yrði sérmetinn. Þá greinir talsmaðurinn frá því að eftir innlausn meirihlutans með úrskurði matsnefndar eignarnámsbóta árið 2002 á hluta þess lands, sem tilheyrði minnihlutanum, hafi stærð þess síðarnefnda farið niður í 284 hektara. Landfræðilega hagi svo til að það land liggi að töluverðum hluta að Blöndu og hafi verið áætlað að hlutinn nemi allt að 40% af því landi, sem snýr að ánni, á móti 60% hluta Geitaskarðs. Krafan styðjist við það. Að auki sé ágætur veiðistaður (Buðlungur nr. 130) fyrir landi útskipta hlutans. Krafa felist ekki í því að fallist verði á að eignarhlutinn standi í 40% af heildarjörðinni, eins og komi fram í bréfi talsmanns meirihlutans. Áhersla er lögð á að útskipti hlutinn sé sjálfstæð eining og komi Geitaskarði ekki lengur við. Landbúnaðarráðherra hafi hafnað kröfu meirihlutans um innlausn á því landi, sem minnihlutinn eigi enn eftir. Mótmælt er túlkun talsmanns meirihlutans að veiðiréttindi séu enn í sameign og vísað um það til 4. gr. laga nr. 76/1970. Allri sameign hafi verið slitið með áðurnefndum úrskurði matsnefndar eignarnámsbóta. Jafnvel þótt komist verði að þeirri niðurstöðu að veiðiréttindi séu enn óskipt sé réttur minnihlutans engu að síður ótvíræður til að fá arði skipt, sbr. 1. mgr. 4. gr. laga nr. 76/1970. Þess er krafist að undirmat verði staðfest og minnihlutanum þannig tryggður réttur til framtíðar með úthlutun arðseininga í samræmi við útskipt land. Loks er þeirri skoðun lýst að hlutur Geitaskarðs (meirihlutans) í undirmati verði að teljast vel viðunandi þegar litið sé til þess að jörðin haldi jafn stórum hlut í arðskrá og næsta jörð, stórbýlið Holtastaðir.

Í andsvörum talsmanns meirihlutans var gerð nánari grein fyrir langvarandi deilum sameigendanna um sitthvað, sem varðar jörðina. Hafi málarekstur gagnaðilanna í þeim deilum jafnan verið umfangsmikill og tyrfinn. Þá voru gefnar nánari skýringar á samskiptum við undirmatsmenn og tekið fram að meirihlutaeigendur hafi ekki verið mótfallnir því að hlutur sameigenda að 25% heimalands jarðarinnar yrði sérmetinn ef unnt væri. Þeir hafi hins vegar aldrei samþykkt að hlutur þeirra yrði aukinn eða að í samþykki þeirra fælist viðurkenning á betri rétti minnihlutans eins og undirmatsmenn virðist hafa skilið annan eiganda meirihlutans. Fylgdi svarinu sérstök yfirlýsing þess síðastnefnda um samskiptin við undirmatsmenn. Því er mótmælt að gagnaðilunum verði metinn aukinn hlutur til arðskráeininga umfram fjórðungshlut. Þá sé ekki sátt um merkjapunkta útskipta hlutans. Eftir innlausnina 2002 standi eftir fjórðungur heimalands jarðarinnar, sem tilheyri honum. Spildu, sem taki til 25% heimlands, geti ekki fylgt veiðiréttur í skilningi 4. mgr. 2. gr. sbr. 3. gr. laga nr. 76/1970. Veiðirétt megi ekki skilja frá landareign nema um sé að ræða stofnun nýbýlis. Skipti þá engu máli hvort spildan liggi að veiðivatni eða ekki. Í tilefni þessarar umfjöllunar áréttaði minnihlutinn áður fram bornar kröfur sínar og sjónarmið, auk þess að kynna mótmæli til ráðherra við breytingu á samþykkt fyrir veiðifélagið.

Fremstagil og Glaumbær:

Á fundi með yfirmatsmönnum vakti eigandi jarðanna sérstaka athygli á breytingu, sem orðið hafi við tilkomu Blönduvirkjunar á veiði í ánni. Fyrir landi margra jarða væri nú veitt, sem ekki hafi verið áður en virkjað var, og það ætti við um jarðir hans. Þar séu nú menn að veiðum hvern dag veiðitímans. Miklu skipti því hve langt tímabil verður miðað við í þessum þætti arðskrármats. Sjónarmið séu ólík að þessu leyti og nauðsynlegt að vanda vel til niðurstöðu. Þá taldi hann rétt að ef efasemdir væru uppi um landlengd þyrfti að eyða henni með nýrri mælinu.

Æsustaðir:

Sjónarmiðum þessa veiðiréttareiganda hefur verið haldið til haga með afar ítarlegum hætti við undir- og yfirmat. Hafa bæði sérstakur talsmaður jarðarinnar og eigandi hennar sent matsmönnum greinargerðir og fjölmörg bréf og athugasemdir, svo sem getið er í V. kafla að framan í upptalningu gagna. Bréfum þessum hafa einnig fylgt mörg önnur skjöl. Þá skýrði eigandinn sjónarmið sín á fundi með yfirmatsmönnum og fór með þeim á vettvang og lýsti aðstæðum fyrir landi Æsustaða, bæði 30. maí 2003 og 9. júlí 2004, þegar efnt var til vettvangsgöngu til að kanna þetta svæði sérstaklega vegna andstæðra sjónarmiða, sem fram voru komin.

Hagsmunagæsla fyrir þessa jörð snýst í meginatriðum um þrennt. Í fyrsta lagi er um að ræða almenn sjónarmið, einkum varðandi Blöndu. Í annan stað varðar hún afleiðingar vegagerðar á alllöngum kafla sunnan Æsustaða á árunum 1975-1985, en ekki er við nákvæmar tímasetningar að styðjast um það. Þjóðvegur nr. 1 var þá færður ofan úr Æsustaðaskriðum niður á sléttlendi. Við það færðist Svartá til vesturs á alllöngum kafla og gjöfull veiðistaður, Blóti, eyðilagðist auk þess sem aðrar breytingar urðu á rennsli árinnar ofan ármóta hennar og Blöndu. Þá gerir jarðeigandinn kröfu til veiðistaða neðan ármótanna, sem jörðin hefur ekki notið veiði úr eða aðeins að hluta samkvæmt gildandi arðskrá. Í þessum þætti hefur hann krafist aukins arðskrárhluta, sem einkum yrði á kostnað Tunguness. Þriðji þáttur málatilbúnaðar Æsustaða felst í því að krafist er aukins arðskrárhluta á svæði, þar sem Kárastaðir eiga land á móti, og yrði óhjákvæmilega á kostnað þeirrar jarðar ef fallist yrði á sjónarmið eiganda Æsustaða. Á því svæði hafi breytingar orðið á rennsli Blöndu auk þess sem vegagerð kemur einnig við sögu. Talsmenn og eigendur áðurnefndra tveggja jarða hafa sett fram ítarleg andsvör fyrir yfirmatsmönnum við kröfugerð Æsustaða og verða þau rakin hér á eftir. Af hálfu Bólstaðarhlíðar eru einnig fram komin sjónarmið og kröfur.

Við meðferð málsins fyrir undirmatsmönnum lagði talsmaður Æsustaða greinargerð fyrir þá auk þess sem eigandinn sjálfur sendi þeim bréf og athugasemdir. Hið elsta þeirra er frá nóvember 2001, þar sem sjónarmiðum var lýst. Var þess getið í upphafi að Æsustaðir ættu land bæði að Blöndu og Svartá. Að því er fyrrnefndu ána varðaði var þess krafist að jörðin nyti ein allrar veiði úr veiðistöðum nr. 240-245 að báðum meðtöldum og að hálfu úr veiðistöðum nr. 250-253 á móti jörðum á vesturbakka Blöndu. Þá hefði mikil breyting átt sér stað á nýtingu Blöndu til veiða síðustu 5-6 árin og geti veiðireynsla á því tímabili endurspeglað hvað áætla megi að veiðist í næstu framtíð. Útboð á veiðirétti staðfesti væntingar leigutaka, sem greiði leigu í samræmi við það. Þá staðfesti skýrslur Veiðimálastofnunar að mikilvægar uppeldis- og hrygningarstöðvar lax séu fyrir landi Æsustaða. Veiði í Blöndu sumarið 2000 hafi verið óvenjuleg og skekki meðaltalsútreikninga milli svæða nr. I og efri svæða í ánni ef veiði þess árs er talin með. Veiði hafi gengið erfiðlega þetta ár á svæðum II og III í Blöndu, en áin hafi „farið á yfirfall“ í lok júlí. Veiðin í Langadal hafi því orðið miklum mun minni á aðalveiðitímanum þar en endranær. Árin 1997, 1998 og 1999 gefi glögga mynd af þessari sérstöku uppákomu. Að því er varðar Svartá krafðist eigandi Æsustaða þess að allur afli úr veiðistöðunum Gullkistu, Síkinu, Ármótum og Hestavígshólma komi hans jörð til góða. Er sérstaklega skýrð aðstaðan við ármót Svartár og Blöndu, þar sem Æsustaðir eigi báða bakka að Svartá og Blöndu, þar sem sú fyrrnefnda sameinast hinni. Landeigandi vestan Blöndu eigi rétt í miðja Blöndu. Vikið er að landamerkjadeilu milli Æsustaða og Bólstaðarhlíðar, þar sem ágreiningur sé um 165 metra langan kafla. Þá sé eðlilegt að horfa til 10 ára veiðireynslu í Svartá, en veiði þar sé lík frá ári til árs, andstætt því sem gildi um Blöndu, þar sem veiði hafi tekið miklum breytingum sl. 10 ár. Uppeldis- og hrygningarstöðvar í Svartá séu mikilvægar fyrir landi Æsustaða. Um landlengd var vísað til skjals frá september 2001 um eigin mælingu jarðeigandans eftir loftmynd á bökkum Blöndu og Svartár á landi Æsustaða, sem sýndi verulega lengri bakka en áður höfðu verið mældir. Undir það skjal ritar Ævar Hjartarson fyrrverandi ráðunautur með orðunum „hef yfirfarið mælingar þessar og eru þær réttar.“ Í þessu bréfi jarðeigandans er loks fjallað um friðun hugsanlegra veiðisvæða í Blöndu fyrir landi Æsustaða, sem veiðifélagið hafi ákveðið til að skilja milli veiða í Blöndu og Svartá. Þurfi að taka tillit til þessa. Er nánar fjallað um lengd svæðisins, sem á tímabili hafi verið um 1200 metrar en var stytt eftir það. Þá fyrst hafi þekktur veiðistaður, nr. 253, verið veiddur frá báðum bökkum. Álitaefni hljóti að vera hvernig fara eigi með veiðireynslu þar.

Annað bréf eða minnisblað veiðiréttareigandans er frá júní 2002 og fjallar um landamerki jarðarinnar til suðurs. Af landamerkjabréfi fyrir Bólstaðarhlíð er ályktað að sú jörð eigi land austan Blöndu að Blóta í Blöndu. Hefur hann síðar skýrt að sá hylur sé annar en Blóti í Svartá og liggi mun vestar og úti í meginkvísl Blöndu sunnan ármótanna. Blóti í Blöndu sé ekki veiðistaður nú. Jafnljóst sé af landamerkjabréfi fyrir Tungunes að sú jörð eigi ekki land að Svartá, enda ráði Blanda landamerkjum. Hestavígshólmi, sem tilheyri Tungunesi, liggi sunnan Blóta í Blöndu. Hestavígshólmi í Svartá sé veiðistaður, sem tengist ekki hólmanum, sem getið sé í landamerkjabréfi fyrir Tungunes. Veiðistaðurinn hafi orðið til þegar farvegi Svartár var breytt við vegagerð. Ármót Svartár og Blöndu í dag séu um 180 metrum norðan landamerkja Bólstaðarhlíðar og Æsustaða.

Nokkur skjöl jarðeigandans og talsmanns hans til undirmatsmanna frá maí og júní 2002 eru meðal málsskjala. Er meðal þeirra nánari skýring á eigin bakkamælingu. Í „leiðréttu eintaki“ greinargerðar talsmannsins (maí) eru rakin samskipti umbj. hans og matsmanna og þess getið að þeir síðastnefndu hafi sent jarðeigandanum ýmis gögn í tengslum við matið. Þá er vísað til ákvæða 50. gr. laga nr. 76/1970 og fjallað meðal annars um aðstöðu til stangarveiða og veiðireynslu. Stór hluti laxveiðinnar á vatnasvæðinu fáist fyrir landi Æsustaða. Skipting arðsins eigi að miðast við veiði eins og raunhæft sé að ætla að hún muni verða, en ekki eins og hún hafi verið fyrir alllöngum tíma. Það myndi skekkja matið. Mikil breyting hafi orðið við stækkun Blöndulóns 1996 á veiðireynslu í Blöndu og var vísað til dóma Hæstaréttar 1992 bls. 1886 og 1995 bls. 797 um áhrif utanaðkomandi breytinga á arðskrármat. Tilboð bjóðenda í veiði í Blöndu sýni glöggt að mat þeirra á arðsemi árinnar hafi breyst verulega. Veiðireynsla síðustu 5-6 ára eigi að vera miðuð við mat á réttmætri skiptingu arðs á komandi árum. Þá var því mótmælt að landlengd allra veiðiréttareigenda skyldi „mæld með ónákvæmum aðferðum, og miða svo arð til allra aðila að einhverju leyti út frá slíkum mælingum.“ Einnig var mótmælt að tekin yrði með landlengd við þverár eða Blöndu langt upp til heiða. Sé ótækt að slíkt hafi áhrif á úthlutun arðs svo neinu nemi. Vísað var til eigin mælingar eiganda Æsustaða, sem áður var nefnd, en af þeirri umfjöllun verður ráðið að hann hafi tekið með hólma fyrir landi jarðarinnar. Sérstakur fyrirvari var gerður um lögmæti mælingar á landlengd Æsustaða á vegum veiðifélagsins í apríl 2002. Í enn öðru „leiðréttu eintaki“ greinargerðar talsmannsins (júní) er lögð áhersla á að Tungunes eigi ekki land að Svartá og að Æsustaðir eigi alla veiði í ármótum Svartár og Blöndu. Þá var mótmælt að forsendur fyrri arðskrárgerðar hafi nokkra þýðingu nú, svo og veiðihyljaskrá veiðifélagsins. Vikið var að grashólma í Blöndu gegnt Kárastöðum, sem allur sé í landi Æsustaða. Að þeim þætti var vikið mun nánar við meðferð málsins fyrir yfirmatsmönnum.

Þessi veiðiréttareigandi var meðal þeirra, sem óskuðu yfirmats, sbr. I. kafla að framan. Eru í beiðninni gerðar fjölmargar athugasemdir við undirmat, s.s. að það sé byggt á röngum og ófullnægjandi gögnum, látið undir höfuð leggjast að taka afstöðu til margra atriða og að í engu hafi verið tekið tillit til sjónarmiða eiganda Æsustaða. Þessu var fylgt eftir með greinargerðum og bréfum talsmannsins og jarðeigandans og munnlega af hálfu hins síðarnefnda á fundi með yfirmatsmönnum og við vettvangsgöngur.

Greinargerð talsmanns jarðeigandans barst í nóvember 2003 að undangengnum bréfaskiptum við yfirmatsmenn og veittum frestum, en frestur hafði mörgum mánuðum fyrr verið settur til loka september. Eru þar áréttuð áður fram borin sjónarmið og fyrri mótmæli við undirmatið. Sérstaklega er mótmælt að eigin bakkamæling jarðeigandans skyldi ekki tekin til greina og að ekki væri í undirmati svarað kröfu um að bakkar hólma yrðu teknir með. Þá var mótmælt að veiðireynsla allt aftur til síðasta arðskrármats sé notuð sem viðmiðun við skiptingu arðskrár, sem ekki væri heldur útskýrt í undirmati. Loks hafi ekki verið tekið tillit til þess að mikilvægar hrygningar- og uppeldisstöðvar séu fyrir landi Æsustaða.

Að fenginn þessari greinargerð ákváðu yfirmatsmenn að kynna eigendum nágrannajarða, sem ættu hagsmuna að gæta, kröfur þessa veiðiréttareiganda. Var greinargerðin og öll fyrri gögn jarðeigandans og talsmanns hans send eigendum Tunguness, Kárastaða, Bólstaðarhlíðar, Auðólfsstaða og Ártúna í desember 2003. Viðbrögð þriggja þeirra fyrstnefndu bárust í byrjun árs 2004, svo sem síðar verður rakið.

Að veittum frestum og loks lokafresti til að svara sjónarmiðum nágrannanna bárust í byrjun apríl 2004 ítarleg bréf talsmanns Æsustaða með fylgiskjölum, en meðal þeirra var bréf eigandans 30. janúar 2004 og ódagsett minnisblað hans. Fólust andsvörin að hluta í að skýra nánar fyrri sjónarmið, en að öðru leyti að mótmæla afstöðu nágrannanna til ýmissa atriða. Öllum kröfum talsmanns Tunguness var andmælt að öðru leyti en því að fallið var frá fyrri kröfu um að veiðistaður nr. 250 tilheyrði Æsustöðum. Áfram var fjallað um örnefnið Blóta, en samkvæmt orðalagi landamerkjabréfa og örnefnaskrá fyrir Tungunes ráði Blóti í Blöndu merkjum milli þeirrar jarðar og Æsustaða. Vaðið Blóti á meginkvísl Blöndu hafi verið rétt neðan við hylinn Blóta. Heiti veiðistaða á síðari tímum, s.s. Blóti í Svartá og Hestavígshólmi, megi ekki hafa áhrif á hvar örnefni í landamerkjabréfum frá 19. öld væru. Voru sjónarmið hans m.a. studd við loftmyndir og haldið fram að ekkert sé fram komið um að meginfarvegur Blöndu hafi áður legið annars staðar og austar en hann sé nú. Þá sýni gögn frá Vegagerðinni að núverandi þjóðvegur liggi um Æsustaðaeyrar og að bætur hafi verið greiddar eiganda Æsustaða vegna vegarlagningarinnar. Sé því fullljóst að „á þessum tíma var umrætt land ekki talið eign Tunguness.“ Ekkert styðji þá fullyrðingu talsmanns Tunguness að jörðin eigi land austan núverandi meginkvíslar Blöndu. Sérstök umfjöllun er um hólmann Vargey, sem sé nokkru norðar í landi Æsustaða. Ágreiningur sé um stærð hans og er haldið fram að hann sé mun stærri en sá litli hólmi austan núverandi þjóðvegar, sem talsmaður Kárastaða haldi fram að sé umræddur hólmi. Því til stuðnings fylgdi umsögn tveggja manna, sem ólust upp á Æsustöðum á fjórða til sjötta áratug síðustu aldar. Samkvæmt þeim hafi allt svæðið verið nýtt til slægna á þeim tíma frá Æsustöðum. Kveður talsmaðurinn hólmann hafa áður verið óskiptan, en eftir miðja 19. öld hafi Blanda brotið sér leið í gegnum hann og falli stór kvísl hennar þar síðan. Stór grashólmi liggi eftir það vestan við meginána, en það breyti ekki að öll sé Vargey í eigu Æsustaða. Telur hann örnefnaskrá fyrir Æsustaði og loftmynd frá 1946 styðja þá staðhæfingu. Sérstök teikning af upphaflega hólmanum, sem teiknuð er ofan í loftmyndina, fylgdi einnig. Séu veiðistaðir nr. 240 – 244 að báðum meðtöldum í nefndum hólma og tilheyri Æsustöðum. Mótmælt var framlögðu vottorði manns frá Æsustöðum um hólmann. Maðurinn sé of ungur til að frásögn hans sé marktæk um hvernig aðstæður voru þarna áður. Fylgibréfin frá eiganda Æsustaða fjalla að mestu um sömu atriði og að framan voru rakin. Ástæða er þó til að geta að sérstaklega er þar fjallað um meðfylgjandi loftmynd frá 1946, sem tekin var löngu áður en vegagerð raskaði rennsli vatnsfalla norðan og sunnan við bæinn á Æsustöðum. Telur hann að landamerki þriggja jarða, Bólstaðarhlíðar, Tunguness og Æsustaða komi saman í einum punkti, þar sem hugsuð lína úr svokölluðum Skerpli í Æsustaðafjalli skeri núverandi meginkvísl Blöndu í Blóta, sem nefndur er „vaðhylur“. Blanda hafi iðulega breytt farvegi sínum, en loftmyndin frá 1946 sýni þrjá augljósa farvegi hennar á svæðinu. Miðkvíslin hafi verið „ráðandi“ farvegur og séu rök fyrir að hún hafi verið sú kvísl, sem landamerki voru miðuð við. Varðandi svæðið við Vargey var einkum vísað til landamerkjabréfs fyrir Æsustaði frá 1891, sem styðji áðurrakta frásögn um landbrot á Æsustaðaeyrum. Hið sama geri landamerkjabréf fyrir Kárastaði (Svínavatn). Loks taldi eigandi Æsustaða koma til álita, svo sátt mætti nást við Tungunes, að veiði yrði skipt úr nokkrum veiðistöðum, sem áður hafði verið krafist að féllu að öllu leyti til Æsustaða.

Eftir vettvangsgöngu 9. júlí 2004 sendi jarðeigandinn yfirmatsmönnum minnispunkta til áréttingar áður fram komnum sjónarmiðum um landamerki á svæðinu. Þá sendi talsmaður hans bréf í lok ágúst og mótmælti frestun á gildistöku nýrrar arðskrár, sem yfirmatsmenn höfðu ákveðið nokkrum mánuðum fyrr. Bréfinu var svarað 2. september 2004, en að þessu verður vikið nánar í XI. kafla hér að eftir. Var jafnframt óskað eftir fresti til að gera athugasemdir við búsvæðamat Veiðimálastofnunar frá júní 2004, sem yfirmatsmenn höfnuðu að veita. Athugasemdir við búsvæðamatið komu engu að síðar fram með bréfi talsmannsins í byrjun september, en með því fylgdi bréf eigandans um sama efni. Var það borið undir Veiðimálastofnun, sem svaraði með bréfi í lok október  2004. Eigandinn gerði síðan athugasemdir við svarið í nóvember 2004. Að þessu verður vikið sérstaklega í X. kafla hér á eftir.

Yfirmatsmenn sendu talsmönnum Bólstaðarhlíðar, Æsustaða og Tunguness bréf í byrjun nóvember 2004 ásamt gögnum, sem fram voru komin um greiðslu skaðabóta frá Vegagerðinni á níunda áratug síðustu aldar fyrir eyðilagða veiðistaði. Kynntu yfirmatsmenn hvað þeir teldu felast í gögnunum og hvaða áhrif ákvörðun, sem tekin var á þeim tíma um ráðstöfun skaðabóta, gæti haft á matsniðurstöður nú. Jafnframt beindu yfirmatsmenn því til stjórnar veiðifélagsins að skýra nánar ráðstöfun skaðabótanna á sínum tíma. Í svari talsmanns Æsustaða síðar í sama mánuði lýst hann sig ósammála viðhorfum yfirmatsmanna, sem lýst hafði verið í bréfi þeirra. Að þessu verður nánar vikið í IX. kafla hér á eftir.

Tungunes:

Í bréfi annars eigenda jarðarinnar til yfirmatsmanna í september 2003 var vakin athygli á því að fyrir landi Tunguness væri ekki leyfð veiði á u.þ.b. 1-1,5 km. svæði. Þar væri einn veiðistaður skammt ofan við Svarthyl. Stórir hólmar væru í landi jarðarinnar og hafi ekki fengist svör við því hverjir þeirra uppfylltu skilyrði til að vera mældir.

Eftir að yfirmatsmenn sendu eigendum Tunguness gögn er stöfuðu frá Æsustöðum, sbr. að framan, bárust ítarleg andsvör. Hið fyrsta var frá báðum eigendum Tunguness í janúar 2004 þar sem mótmælt var öllum kröfum Æsustaða eða annarra jarða um aukna hlutdeild í arðskrá á kostnað Tunguness. Bent var á að síðastnefnda jörðin ætti land að austustu kvísl Blöndu eins og hún hafi runnið um aldir alveg upp undir og meðfram Bólstaðarhlíðarfjalli og Æsustaðaskriðum austan við Hestavígshólma og umhverfis núverandi aðalós Svartár í Blöndu. Þá hafi Tungunes átt hálfan veiðirétt í Blendingi, þar sem bergvatnsáin Svartá og jökuláin Blanda runnu saman skammt neðan núverandi Svartárbrúar. Nafnið Blendingur skýri sig sjálft. Þá er greint frá því að lönd Tunguness, Æsustaða og Bólstaðarhlíðar liggi saman við hinn forna hyl Blóta. Þegar þjóðvegurinn var færður úr Æsustaðaskriðum niður á eyrarnar hafi hylurinn eyðilagst og farvegur Svartár færst til vesturs inn í land Tunguness. Spilda í eigu Tunguness hafi lent austan nýja vegarins, en ekki leyni sér hvar Blóti var. Breyting á austustu kvísl Blöndu samfara vegagerð hafi því orðið til að lengja farveg Svartár í landi Tunguness. Af örnefnalýsingu fyrir jörðina sé ljóst að allir hólmar séu taldir til hennar að austustu kvísl Blöndu eins og hún rann þá meðfram Æsustaðafjalli. Höfundur örnefnalýsingarinnar hafi engra hagsmuna átt að gæta um stærð jarðarinnar þegar hún var samin. Landamerki og veiðirétt Tunguness verði að miða við austustu kvísl Blöndu eins og hún rann um 1890-91 þegar landamerkjabréf jarðanna, sem um ræðir, voru samin og samþykkt af öllum eigendum þeirra. Ekki sé unnt að miða við austustu kvíslina eins og hún renni nú. Í því felist kjarni málsins.

Talsmaður landeigendanna fylgdi bréfinu eftir með ítarlegri greinargerð, sem studd var fylgiskjölum, þar á meðal loftljósmyndum allt frá 1946. Tekið var fram að eigendum Tunguness hafi verið ókunnugt um kröfur eiganda Æsustaða og gögn hans fyrr en þau bárust frá yfirmatsmönnum. Í öllum höfuðatriðum hafi til þessa verið góð sátt um skiptingu arðs á svæðinu ofan Auðólfsstaða og á ármótasvæðinu undangengin ár. Megi heita að um skiptingu arðs úr ýmsum veiðistöðum á svæðinu hafi farið eftir drengskaparsamkomulagi eigenda jarðanna frekar en hárnákvæmri greiningu á hvar eiginleg landamerki þeirra liggi. Með kröfugerð Æsustaða sé þessu samkomulagi augljóslega rift. Þar freisti jarðeigandinn þess, en þó af mikilli vankunnáttu, að færa rök að því að landamerki Æsustaða liggi annars staðar en rétt sé og á grundvelli þeirrar villu skuli honum einum úrskurðaður arður af fjölda veiðistaða, sem fram til þessa hafi verið skipt með öðrum. Vegna þessa málatilbúnaðar verði ekki komist hjá að leiðrétta það, sem missagt sé í greinargerðum og öðrum skjölum eiganda Æsustaða. Er í kjölfarið gerð grein fyrir landamerkjum Tunguness með tilvísun í landamerkjabréf fyrir þá jörð, Ytra-Tungukot (Ártún), Bólstaðarhlíð og Æsustaði. Í landamerkjabréfi Tunguness segi m.a.: „Jörðinni tilheyrir hálf veiði í Blending“. Sá hylur hafi verið 50-100 metrum neðan við núverandi brú á Svartá. Þar hafi lengstum verið ármót Svartár og Blöndu, en þessi kvísl Blöndu sé nú þurr. Er um þetta vísað í forn og ný vottorð kunnugra manna, en í þeim segir meðal annars að þar heiti Blendingur, sem kvísl úr Blöndu og Svartá komi saman. Í örnefnaskrá fyrir Tungunes sé fjallað um þrjár kvíslar í Blöndu, þ.e. Landkvísl, Miðkvísl og Landamerkjakvísl, en þar hafi hylurinn Blóti verið. Landamerkjabréfin komi vel saman við þá staðreynd að þá hafi Blanda runnið með Svartá þétt niður með hlíðinni að austanverðu og í hylinn Blóta, sem nú sé kominn á þurrt. Hafi þá verið breytilegt hversu lituð þessi kvísl var eftir því hve mikið var í hvorri ánni. Vætti þriggja staðkunnugra manna í Svartárdal er lagt fram um staðsetningu Blóta þétt upp við hlíðarfótinn. Til hans sé vísað í Tungunesbréfinu. Allt sé þetta í góðu samræmi við að í landamerkjabréfi Bólstaðarhlíðar sé Blanda sögð í merkjum á móti Tungunesi, en í Blendingi hafi Svartá sameinast Blöndu. Svartá sé hins vegar sögð í merkjum milli Bólstaðarhlíðar og Ytra-Tungukots. Allar geymi þessar skrár mikilvægar upplýsingar um legu landamerkja og þó sérstaklega að Blanda hafi sannanlega runnið þétt meðfram hlíðinni í Blóta um margra alda skeið og örugglega þegar landamerkin voru staðfest. Þótt farvegur hafi síðar horfið breyti það ekki merkjum eða eignarrétti, sbr. 2. mgr. 3. gr. vatnalaga nr. 15/1923, þótt breytt rennsli hafi áhrif á nýtingu veiðihlunninda. Eftir að þjóðvegur var færður í núverandi horf eigi Bólstaðarhlíð ekki land að Svartá norðan við hylinn Bakka, en Blendingur hafi ekki verið norðan hans. Hins vegar sé álitamál um merki Tunguness móti Æsustöðum norðan Blóta. Tvær kvíslar hafi fallið úr honum til norðurs, svo sem sjá megi á loftljósmynd frá 1946, önnur meðfram hlíðinni, en meginkvíslin hafi sveigt til vesturs og sameinast miðkvísl Blöndu nærri núverandi ármótum. Hér sé því haldið fram að austurkvíslin ráði merkjum, sbr. orðalag í landamerkjabréfi. Eigi Tungunes samkvæmt því allt land austan Blöndu frá nefndum farvegi, sem austasta kvíslin féll um, þar til hún sameinaðist meginál Blöndu neðan við bæjarhús á Æsustöðum. Loks styðji landamerkjabréf fyrir Kárastaði þennan skilning, en þar segi að merki gagnvart Æsustöðum sé austasta kvísl Blöndu, sem sé í samræmi við landamerkjabréf fyrir Tungunes. Telur talsmaðurinn málatilbúnað Æsustaða vera reistan á þeim misskilningi að landamerki jarðanna hafi sveiflast til með breytilegum farvegi Blöndu. Krefst hann þess að Tungunesi verði metinn veiðiréttur miðað við rétt landamerki. Samkvæmt því komi í hlut jarðarinnar öll veiði af eystri bakka Svartár neðan við Bakkahyl um ármót og niður með Blöndu að merkjum við Kárastaði í eystri kvísl Blöndu í línu við Merkjagil. Einnig af vesturbakkanum frá ármótum að Langhyl. Frá og með honum ráði sama skipting gagnvart Ártúnum/Finnstungu um bakkalengd og veiði og í gildandi mati frá 1988. Frá ármótum og upp með Blöndu séu þær athugasemdir gerðar við veiðistaðaskrá að Tungunes eigi eitt veiði úr hyljum nr. 310 og 320. Að öðru leyti verði skipting veiðiréttar á móti Ártúnum/Finnstungu sú sama og verið hefur. Í Blöndu eigi Tungunes þannig veiði að hálfu á móti Æsustöðum í veiðistað nr. 244, en alla veiði í stöðum nr. 245 og 250-253. Í Svartá eigi Tungunes hálfa veiði á móti Ártúnum/Finnstungu í Gæsatanga og Langhyl, en alla veiði í Hestavígshólma, Ármótum, Síkinu, Gullkistu og „Efri ármótum“. Verði ekki fallist á eignarrétt Tunguness á eystri bakka Svartár og Blöndu er þess krafist til vara að ármót Svartár reiknist Tungunesi að ¾ hlutum þar sem jörðin eigi allan vestari bakka Blöndu og syðri bakka Svartár í ármótum. Þá þurfi Tungunes að sæta miklum veiðitakmörkunum upp og niður fyrir ármótin í þágu þess veiðistaðar og Svartár almennt, sem taka verði tillit til. Loks er vikið að mælingu á bakkalengd, sem áskilinn er réttur til að láta fara fram að nýju þar sem hana vanti „svo endanlegu mati verði við komið.“

Talsmaðurinn sendi yfirmatsmönnum annað bréf í júní 2004 með fylgiskjölum, þar á meðal loftljósmyndum, í tilefni af fram komnum andsvörum af hálfu Æsustaða. Er þar farið enn nánar en áður ofan í orðalag landamerkjabréfa, s.s. orðin „Síðan ræður Blanda að austan merkjum.“ Landamerkjaskrá Finnstungu styðji einnig að merki hafi verið miðuð við austustu kvísl Blöndu. Áréttað er að ármót Svartár og Blöndu hafi verið rétt ofan við Blending þegar landamerkjaskrárnar voru gerðar. Eitt fylgiskjala er yfirlýsing staðkunnugs manns í Blöndudal, sem áður sat í stjórn veiðifélagsins og faðir hans enn áður. Kveður hann fyrsta hyl, eftir að árnar komu saman, hafa verið nefndan Blending, og hafi hann verið næsti hylur ofan Blóta. Veiðifélagið hafi hlutast til um að hindra blöndun ánna við Blending með því að stífla austustu kvíslina svo bergvatn Svartár væri sem lengst, en flestir hafi talið það heillavænlegast. Eftir að árnar komu saman segir talsmaður Tunguness Blöndu hafa ráðið nafni árinnar, svo sem sjá megi af landamerkjabréfi fyrir Bólstaðarhlíð. Samkvæmt merkjaskrám komi land þeirrar jarðar, Ytra-Tungukots og Tunguness saman í ármótunum, en Blendingur verið rétt neðan þeirra. Af því skýrist að Tungunes hafi eitt átt hálfa veiði í hylnum. Er vísað til loftmynda, þar sem sjá megi forna farvegi Blöndu. Landakort danska herforingjaráðsins (1925) sýni glöggt að Blanda rann þá þétt við austurlandið á þessu svæði. Þjóðvegurinn hafi þess vegna legið hátt uppi í hlíðinni. Þá kunni Hestavígshólmar að hafa verið tveir frekar en einn, en austasta kvísl Blöndu hafi runnið töluvert austan við þá báða. Þá fari eigandi Æsustaða langt úrleiðis við að staðsetja þann Blóta, sem skipti merkjum milli Æsustaða og Bólstaðarhlíðar, á vaði yfir Blöndu gegnt Tungunesi. Heimildir hans byggi á misskilningi og séu léttvægar gegn vottorðum fjölda staðkunnugra manna, sem staðfesti að Blóti var á þeirri kvísl Blöndu, sem féll niður með Æsustaðaskriðum neðan ármótanna við Blending. Blótavað hafi verið þar rétt neðan við. Hugrenningar um tvo hylji með fáeinna tuga metra millibili, sem báðir hafi heitið Blóti, séu tilhæfulausar getgátur. Þá örlitlu stoð, sem eigandi Æsustaða hafi í örnefnalýsingu fyrir Tungunes, megi skýra að fullu. Hún hafi hins vegar verið notuð til hreinna og ámælisverðra rangfærslna. Þá sé þögn hans um hylinn Blending  „beinlínis hrópandi enda ógerlegt að skýra hann út úr myndinni.“ Talsmaður og eigendur Tunguness skýrðu loks nánar sjónarmið sín við vettvangsgöngu 9. júlí 2004. Hefur komið fram af þeirra hálfu að jörðin hafi átt helming veiðinnar í Blóta eins og í Blendingi áður.

Í lok umfjöllunar að framan um Æsustaði var þess getið að yfirmatsmenn hafi í byrjun nóvember 2004 kynnt talsmönnum þriggja jarða fram komin gögn um skaðabætur fyrir eyðilagða veiðistaði. Talsmaður Tunguness svaraði síðar í sama mánuði. Þar kom fram að taka mætti undir ályktanir yfirmatsmanna varðandi þetta, sem féllu ágætlega saman við fyrri lýsingu sína um heiðursmannasamkomulag, sem áður gilti, og rift var að frumkvæði eiganda Æsustaða, sem að nokkru hafi notið tilstyrks eigenda Bólstaðarhlíðar gegn hagsmunum Tunguness. Engu að síður væri haldið við áður fram bornar kröfur.

Kárastaðir:

Um þessa jörð gildir hið sama og Tungunes að af hálfu talsmanns hennar komu fram ítarleg sjónarmið og andsvör í febrúar 2004 eftir að yfirmatsmenn höfðu sent eiganda hennar gögn, er stöfuðu frá Æsustöðum. Er í upphafi gerð grein fyrir að jörðin tilheyrði áður Svínavatni og eru landamerkin rakin í landamerkjaskrá frá 1890 fyrir þá jörð. Um mörkin gagnvart Æsustöðum segi þar: „Að austan ræður Blanda, hin austasta og stærsta kvísl hennar, á Svínavatn alla hólmana, nema hinn syðsta og austasta, er Æsustaðir eiga.“ Að norðan ráði Merkjagil gagnvart Tungunesi. Tilgreining á austustu kvíslinni sé í samræmi við landamerkjabréf fyrir Tungunes, sbr. áður. Einnig sé alveg ljóst að allir hólmar tilheyri Kárastöðum að einum undanskildum. Reyni þá á að staðsetja hann. Er um það jafnframt vísað til landamerkjaskrár fyrir Æsustaði (1891) þar sem fram komi að þrjátíu árum fyrr hafi Blanda brotist í gegnum Æsustaðaengi og skorið af því stóran grashólma, sem síðan liggi fyrir utan meginána. Landamerkin liggi síðan úr vörðu (sem nú er týnd) vestanvert á þessum hólma um Blöndu „allt að fyrrnefndum örnefnum“, þar sem Blóti verði fyrst fyrir. Í báðum landamerkjabréfunum sé greinilega rætt um sama hólmann, nema hvað tilurð hans sé sérstaklega skýrð í Æsustaðabréfinu. Loftmyndin frá 1946 komi að gagni þar sem vel sjáist hvaða hólmar komi til álita. Syðst og austast sé hólmi og sjáist vel að mikill straumur Blöndu falli austan hans eins og lýst sé í Æsustaðabréfi. Hann sé augljóslega sá hluti engisins, sem afskorinn var í flóðum og Æsustaðabréf segi frá. Á annarri loftmynd frá 1996 sjáist einnig að þessi hólmi sé nú austan nýja þjóðvegarins, orðinn á þurru eftir að Blöndu var bægt burt. Hann sé nú landfastur þótt vatn sitji í hluta gamla árfarvegarins. Vísar talsmaðurinn einnig í vottorð manns, sem ólst upp á Æsustöðum til 20 ára aldurs 1992, sem segi þennan hólma hafa verið nefndan Vargey. Kjarni málsins sé sá að Æsustaðir eigi aðeins einn hólma og augljóst sé af eldri loftmynd og staðháttum að það sé sá, sem hinn staðkunnugi maður vísi til. Alla aðra hólma í Blöndu fyrir landi Æsustaða og Kárastaða eigi síðarnefnda jörðin og þar með alla veiði í kvíslum milli þeirra og vestari bakka árinnar. Þótt farvegur Blöndu breytist hafi það ekki áhrif á mörk landareigna. Veiðiréttur Æsustaða rýrnaði hins vegar að því marki, sem hann kann að hafa verið í kvíslinni milli lands og hólmans, sem nú er kominn á þurrt. Augljóst sé af málatilbúnaði Æsustaða að nýr eigandi jarðarinnar sé ekki staðkunnugur og hafi því fallið í þá villu að finna fornum staðarnöfnum ný ból og þá gjarnan í landi nágranna sinna. Slíkt landnám eigi sér enga stoð. Krefst talsmaðurinn þess að Kárastöðum verði metinn veiðiréttur miðað við rétt landamerki. Samkvæmt því skiptist veiði í veiðistöðum 230-232 jafnt milli Kárastaða og Auðólfsstaða. Staður 233 (ármót) komi að hálfu í hlut Kárastaða, en að öðru leyti Auðólfsstaða og Æsustaða. Staðir nr. 240-241 falli að öllu leyti til Kárastaða. Þá geti Kárastaðir sætt sig við að skipta veiði að jöfnu með Æsustöðum úr veiðistöðum nr. 242 og 243, þótt leiða mætti rök að því að fyrrnefnda jörðin ætti þá veiði alla. Loks er vikið að mælingu á bakkalengd, sem áskilinn er réttur til að láta fara fram að nýju þar sem hana vanti „svo endanlegu mati verði við komið.“

Talsmaðurinn sendi yfirmatsmönnum annað bréf í júní 2004 með fylgiskjölum, þar á meðal loftljósmyndum, í tilefni af fram komnum andsvörum af hálfu Æsustaða. Er mótmælt að „meginkvísl“ Blöndu ráði merkjum, en fyrir því séu engar heimildir. Austasta kvíslin hafi skipt löndum, en bréfunum beri hins vegar saman um að hún hafi jafnframt verið sú stærsta. Af orðalagi landamerkjabréfs sé alveg ljóst að hólmar á svæðinu voru fleiri en tveir, sem gefi vísbendingu um að það hafi verið skilgreint sem hólmi þar sem álar skildu að land, hólma og eyjar. Sú skýring eiganda Æsustaða sé fráleit að líta framhjá lænum og álum og skilgreina allt svæðið þeirra á milli sem einn stóran, samfelldan hólma, þótt myndir og heimildir beri með sér að svæðið hafi verið sundurhlutað í hólma eyjar og sker. Þarna hafi því verið margir hólmar, sem Kárastaðir hafi alla átt utan einn. Í samræmi við það sé mótmælt að veiðistaðir nr. 240-244 séu allir innan þess stóra hólma, sem Æsustaðir telji sig eiga. Landamerki hafi verið fest 1891 þannig að engu skipti hvað var fyrir þann tíma áður en Blanda braut sér nýja farvegi. Frá 1891 ráði austasta kvíslin merkjum en þó þannig að Æsustaðir eigi austasta hólmann, en þó ekki endilega vestari bakka hans, sem snúi að Blöndu. Landamerkin hafi verið við vörðu vestan til á hólmanum. Þá sýni hönnunarteikning frá Vegagerðinni glöggt aðstæður þarna þegar vegarstæði var breytt. Stærð Vargeyjar sjáist þar og hvernig töluverð kvísl úr Blöndu hafi legið rétt vestan við nýja vegstæðið. Sjáist hún einnig á loftmyndinni frá 1946 og hafi augljóslega markað hólmann til vesturs. Kvíslin sé enn á sama stað þótt rennsli í henni hafi vafalaust aukist við vegarlagninguna, sem skipti þó ekki máli. Krafa eiganda Æsustaða um veiðistaði nr. 240 og 241 sé óskiljanleg og í engu rökstudd. Framlögð staðfesting eiganda Æsustaða á greiðslu frá Vegagerðinni fyrir landspjöll og malartekju á Æsustaðaeyrum skipti engu máli, en óumdeilt sé að þjóðvegur var lagður um land Æsustaða og vafalaust hafi Vegagerðin nýtt malartekju, hvort heldur var í landi þeirrar jarðar eða Tunguness þar sunnan við. Í þessu felist engin sönnun um eignarhald á landi vestan núverandi þjóðvegar, en geti hins vegar orðið eigendum Tunguness áminning um að þeir og fyrri eigendur jarðarinnar hafi ekki haldið eins fast á kröfum á hendur Vegagerðinni og eigandi Æsustaða.

Bólstaðarhlíð:

Eigandi jarðarinnar sendi yfirmatsmönnum athugasemdir sínar í janúar 2004 eftir að yfirmatsmenn höfðu kynnt honum gögn frá Æsustöðum. Segir þar að ljóst megi telja að rennsli Blöndu og Svartár utan brúar hjá Ártúnum sé nú með öðrum hætti en var seint á 19. öld þegar landamerkjaskrár voru gerðar. Óvíst sé hvar árnar runnu þá. Af lýsingu í skránum megi þó telja að Svartá hafi sameinast einhverjum hluta Blöndu mun ofar en nú er og þar hafi Svartá verið talin enda. Síðastnefnda áin hafi þannig lengst verulega, sem geri að verkum að landamerkjaskrárnar stangist á, en „hvernig landamerki eru ákveðin í slíkum tilfellum hlýtur að vera álitamál.“ Þá er lýst þeim skilningi að Svartá endi við veiðistaðinn Ármót og að allar kvíslar þar utan við teljist til Blöndu þrátt fyrir að vatn í sumum þeirra kunni að vera blátært við ákveðin skilyrði. Þá hafi eigandi Æsustaða bent á að Blanda ráði merkjum milli Tunguness annars vegar og Bólstaðarhlíðar og Æsustaða hins vegar og þar með eigi Tungunes ekki land að Svartá. Ef fallist verði á þau rök að Æsustaðir eigi báða bakka Svartár á kafla hljóti hið sama að gilda um Bólstaðarhlíð. Þá var bent á að Vegagerðin greiddi veiðifélaginu verulegar bætur vegna veiðistaða, sem urðu ónýtir vegna vegarlagningar neðan við Æsustaðaskriður. Hafi félagið greitt þær sem veiðiarð til allra félagsmanna og hafi tjón Bólstaðarhlíðar því aldrei verið bætt. Voru gögn um þetta frá árunum 1982-1987 afhent yfirmatsmönnum.

Gögn frá Tungunesi, sbr. áður, voru kynnt eigendum Bólstaðarhlíðar í apríl 2004. Bárust af því tilefni athugasemdir talsmanns jarðarinnar með nokkrum fylgiskjölum. Mótmælt var undirmati þar sem Bólstaðarhlíð hafi lækkað um 30% frá gildandi mati. Engar skýringar séu þó gefnar á hvað valdi. Þá verði ekki gert út um landamerkjaágreining í arðskrármati, en matsmenn bresti vald til úrlausnar um það. Við slíkar aðstæður beri að fylgja eldri viðmiðum og skilningi á mörkum jarða. Eigandi Tunguness vilji freista þess að hnekkja viðteknum viðmiðum um landamerki og ætli yfirmatsmönnum ranglega það verkefni. Varðandi efni málsins sé tekið undir „mótmæli eiganda Æsustaða við málatilbúnaði Tunguness um merkin á þessu svæði.“ Að mati eiganda Bólstaðarhlíðar sé „ekki verulegur meiningarmunur um staðsetingu Blóta.“ Málatilbúnaður eigenda Tunguness og landakröfur austan Blöndu sýnist byggja á vangaveltum um fyrri legu vatnsfallanna án þess að stuðst sé við afdráttarlaus gögn og „í beinni andstöðu við þau umráð lands og nýtingu sem viðhöfð hefur verið um áratuga skeið.“ Telji eigandi Bólstaðarhlíðar engan vafa leika á að Tungunesi tilheyri ekkert land austan núverandi farvegar Blöndu og því tilheyri báðir bakkar Svartár Bólstaðarhlíð sunnan merkja Æsustaða að merkjum Ártúna. Bréfinu fylgdi ódagsett minnisblað eigenda Bólstaðarhlíðar, þar sem lýst var þeirri skoðun að Blendingur sé gamalt heiti á Blóta. Þar hafi eiginleg blöndun ánna farið fram, en þær hafi runnið greinilega aðskildar í sama farvegi allt til Blóta.

Síðbúið bréf eigenda jarðarinnar barst í lok ágúst 2004. Er þar einkum fjallað um örnefnið Hestavígshólma og að ekki standist að sá hólmi, sem eigendur Tunguness bendi á, beri þetta nafn. Telja þeir hinn rétta Hestavígshólma liggja vestar og sunnar, en um það er einkum stuðst við örnefnalýsingu fyrir Tungunes. Ráði farvegur Blöndu austan þess hólma merkjum. Þá hafi allar einstakar kvíslar Blöndu, sem runnu til Svartár 1946, sbr. loftmynd, lokast eftir það. Hafi engar framkvæmdir af manna völdum ráðið því, aðeins duttlungar Blöndu sjálfrar. Enn barst bréf með fylgiskjölum í janúar 2005 löngu eftir að allir frestir voru liðnir. Er þar m.a. fjallað um bakkamælingar, en bréfið bætir í raun engu við það, sem áður var fram komið.

Svo sem getið var í lok umfjöllunar að framan um Æsustaði og Tungunes sendu yfirmatsmenn í nóvember 2004 einnig talsmanni Bólstaðarhlíðar gögn um greiðslu svonefndra „hyljapeninga“, en þau bárust fyrr á sama ári frá umbj. hans. Í svari talsmannsins kom fram að eigendur jarðarinnar gætu fallist á þann skilning, sem yfirmatsmenn höfðu lýst á framkvæmd og grundvelli yfirmats 1988. Jafnframt ítrekaði hann fram komin sjónarmið af hálfu þessa veiðiréttareiganda.

Ártún/Finnstunga:

Á fundi með yfirmatsmönnum skýrði einn eigendanna að Ártún eigi land að báðum ánum, en Finnstunga einungis að Blöndu. Hlunnindin séu hins vegar óskipt að jöfnu, en þeim beri ekki að skipta eins og gert hafi verið í undirmati.

Hóll:

Eigandi jarðarinnar gat þess á fundi með yfirmatsmönnum að hún hafi lækkað í undirmati, en jörðin handan árinnar hækkað. Einungis muni um 100 metrum í landlengd og sé engin skýring fram komin á þessu. Þá sé Hólslækur í landi jarðarinnar, þar sem víst sé að lax hrygni og seiði alist upp.

Bergsstaðir og Barkarstaðir:

Á fundi með yfirmatsmönnum lýstu eigendur jarðanna aðstæðum hjá sér, en þær liggi að Svartá hvor á móti annarri. Hafi þær báðar lækkað um 50% í undirmati án tilefnis. Veiði hafi ekki minnkað þótt hún sé sem fyrr misjöfn milli ára. Þá töldu þeir svæði nr. 3 og 4 í Blöndu hafa verið ofmetin í undirmati, en uppeldisskilyrði fyrir seiði séu þar léleg.

Holtastaðir og Holtastaðareitur:

Eigandi jarðanna skýrði breytingar, sem orðið hafi á veiðiaðstöðu við gerð grjótgarðs fyrir landi hans fáum árum áður til að beina ánni í einn farveg. Við það  hafi aðgengi að henni batnað. Þá hafi landlengd hans verið mæld á ný og reynst hærri en áður var talið.

Blönduós:

Á fundi með yfirmatsmönnum taldi bæjarstjóri lækkun hjá þessum veiðiréttareiganda hafa orðið hlutfallslega meiri í undirmati en hjá þeim, sem eigi land handan  Blöndu. Þurfi að kanna þetta sérstaklega, en engin skýring sé fram komin á þessu.

VII.

Skipting arðs. Almennt.

Í 1. mgr. 50. gr. laga nr. 76/1970 er að finna ákvæði um ákvörðun veiði eða arðs af veiði, sem koma skal í hlut hverrar jarðar eða jarðarhluta, sem veiðiréttur fylgir í vatni á félagssvæðinu. Þar segir: „Við niðurjöfnun veiði eða arðs af henni skal m.a. taka tillit til aðstöðu við netjaveiði og stangarveiði, landlengdar að veiðivatni, til hrygningarskilyrða og uppeldisskilyrða fisks.“

Samkvæmt 6. gr.  samþykktar fyrir Veiðifélag Blöndu og Svartár skal arði af veiði eða veiðileigu skipt niður á félagsmenn samkvæmt arðskrá, sem gildir hverju sinni, eftir að allur kostnaður hefur verið greiddur af veiði eða veiðileigu.

Í gildandi arðskrá fyrir félagið er arði skipt í einingar miðað við að heildarfjöldi eininga, sem kemur til skipta milli allra rétthafa, sé 1000. Sá háttur verður einnig hafður á nú. Við skiptingu arðskrár verða notaðar heilar tölur og einn aukastafur. Hér á eftir fara niðurstöður yfirmatsmanna um hvernig allar einingarnar skuli skiptast milli einstakra þátta, sem í framangreindri lagagrein eru sérstaklega tilgreindir, og hvort önnur atriði geta haft þar áhrif.

Við úrlausn um matsefnið verður að líta til þess í upphafi að meginvatnsföllin tvö á félagssvæði Veiðifélags Blöndu og Svartár eru á margan hátt ólíkari en í öðrum tilvikum þar sem eitt og sama veiðifélagið tekur til fleiri veiðivatna en eins. Kemur annars vegar til álita að líta framhjá þessum mun og skipta upp öllum einingunum eftir sömu aðferð á öllu vatnasvæðinu. Samkvæmt þeirri aðferð, sem almennt er viðhöfð af yfirmatsmönnum, yrði t.d. vægi fyrir veiði ákveðið hið sama alls staðar og hver veiddur fiskur gilti þá jafnt óháð því hvar hann hefur fengist. Hinn kosturinn er sá að taka tillit til sérstöðu hvorrar meginárinnar fyrir sig þannig að einstökum þáttum, sem ráða um úthlutun eininga, yrði beitt sjálfstætt gagnvart hvorri ánni fyrir sig. Hlutfallslegur fjöldi eininga, sem t.d. er úthlutað fyrir veiði, yrði þá ekki hinn sami í báðum tilvikum. Vegna sérstöðu Blöndu og að öllu gættu er niðurstaða yfirmatsmanna sú að ekki verði komist hjá því að ákveða sjálfstætt fyrir hvora ána um sig skiptingu eininga fyrir landlengd, veiði og uppeldis- og hrygningarskilyrði. Vegur þar þyngst að nýting ánna hefur verið ólík hvort heldur litið er til lengri eða skemmri tíma. Löng og jöfn veiðireynsla er fyrir hendi í Svartá, skipting afla á veiðistaði í  jafnvægi og almennt er veiði þar hefðbundin í samanburði við aðrar laxveiðiár. Öðru máli gegnir um Blöndu, þar sem veiði var á fyrri hluta viðmiðunartímabilsins 1988-2004 nánast einskorðuð við svæði nr. I. Eftir tilkomu Blönduvirkjunar jafnaðist veiði og varð líkari því, sem almennt er. Síðustu árin hefur áin hins vegar „farið á yfirfall“ á veiðitímanum og öll aðstaða til veiða gjörbreyst við það til hins verra. Þessu fylgir að veiðistaðir verða ótryggir, veiði hrapar og óvissu um hvort slíkt gerist fylgir margs kyns óhagræði. Forsendur eru því ekki fyrir hendi til að ákveða vægi þessa þáttar eins hátt fyrir Blöndu og annars staðar á félagssvæðinu þar sem veiði er jafnari og ekki háð slíkri óvissu. Vægi landlengdar eykst þá að sama skapi. Samkvæmt þessu verður vægi einstakra þátta ekki metið með sama hætti fyrir báðar árnar við skiptingu arðskrár, sbr. nánar hér á eftir. Verður þá jafnframt að ákveða í upphafi fjölda eininga, sem koma til skipta fyrir hvora ána um sig.

Í IV. kafla að framan var fjallað um leigusamninga fyrir veiði í Blöndu og Svartá síðustu árin. Liggja jafnframt fyrir upplýsingar frá stjórn veiðifélagsins um árlegar leigutekjur, sem hafa fengist af hvorri ánni allt frá 1988, þegar núgildandi arðskrá tók gildi. Er eðlilegt að tekjur vegi þungt við ákvörðun um fjölda eininga, sem fylgja skuli hvorri ánni um sig. Hlutfall tekjuöflunar fyrir Blöndu og Svartá hefur hins vegar verið mjög misjafnt eftir því hvort litið sé til fyrstu ára viðmiðunartímabilsins eða allra síðustu ára. Sé litið til tímabilsins í heild hefur Blanda unnið á jafnt og þétt við verðmætasköpun fyrir veiðifélagið. Fyrstu tíu árin (1988-1997) kom nærri 48,5% teknanna fyrir Blöndu, en 51,5% fyrir Svartá. Síðustu sjö ár viðmiðunartímans (1998-2004) kom nærri 58,8% fyrir Blöndu og 41,2% fyrir Svartá. Ef loks er litið einungis til fjögurra síðustu áranna er hlutur Blöndu nærri 64,5% en Svartár 35,5%. Skipting teknanna allan viðmiðunartímann er um 55% fyrir Blöndu, en 45% fyrir Svartá. Sá kostur er fyrir hendi að ákveða skiptingu eininga milli Blöndu og Svartár miðað við allt tímabilið frá 1988 í samræmi við síðastnefndar hlutfallstölur og mun nærlægara en að miða eingöngu við skiptingu tekna hin allra síðustu ár. Engu að síður verður þó ekki talið eðlilegt eða sanngjarnt að líta með öllu framhjá skiptingu teknanna eins og hún er nú. Óvissa um neikvæð áhrif yfirfalls vegna virkjunar á tekjuöflun fyrir Blöndu kemur þó þar á móti, en engin slík óvissa á við um Svartá, þar sem að auki varð veruleg hækkun á tekjum frá árinu 2004 með núgildandi leigusamningi. Þá er talin með í tekjuöflun fyrir Blöndu veiðileiga fyrir svæðið ofan stíflu, sem hér eftir fellur út. Að öllu virtu verður lagt til grundvallar að samtals 590 einingar komi til skipta til veiðiréttareigenda á vatnasvæði Blöndu, en samtals 410 einingar til veiðiréttareigenda á vatnasvæði Svartár. 

VIII.

Landlengd.

Meðal málsgagna er skrá frá árinu 1985 um landlengd jarða á vatnasvæði Blöndu og Svartár, rituð af Ævari Þorsteinssyni í Enni, sem jafnframt var til aðstoðar við mælinguna, sem unnin var fyrir veiðifélagið af Jóni Sigurðssyni héraðsráðunaut. Mælt var með stiku. Í inngangi að skránni segir að eigendur eða umráðamenn jarða hafi verið látnir skrifa undir mælinganiðurstöður. Þá hafi verið rituð þar nöfn helstu veiðihylja fyrir hverju landi, ef til væru. Við mælinguna hafi eigendur eða umráðamenn allra jarða verið fengnir á vettvang til að benda á landamerki. Hafi þau verið ágreiningslaus nema á milli Bólstaðarhlíðar og Æsustaða. Hliðarár hafi verið mældar eftir loftmyndum eða kortum með samþykki landeigenda.

Af hálfu veiðifélagsins var ekki tekin ákvörðun um nýja heildarmælingu vegna gerðar arðskrármats nú. Nokkrir veiðiréttareigendur munu hins vegar hafa óskað eftir að mælt yrði að nýju hjá þeim, og varð veiðifélagið við því. Á fundi með yfirmatsmönnum 30. maí 2003 ítrekaði stjórnin við félagsmenn að þetta stæði til boða hverjum þeim, sem óskaði eftir. Nýttu nokkrir veiðiréttareigendur sér það. Í öllum tilvikum mældi Anna Margrét Jónsdóttir héraðsráðunautur landlengd. Mældi hún á árinu 2002 með stiku landlengd Æsustaða, Holtastaða, Köldukinnar I, Köldukinnar II, Þorbrandsstaða, Rugludals, Þramar og lands í eigu Upprekstrarfélags Auðkúluheiðar úr landi síðastnefndu jarðarinnar. Þá mældi hún landlengd frá Vallgili suður að stíflu. Í skýrslu Önnu Margrétar segir að þrætuland á mörkum Köldukinnar II og Grænuhlíðar hafi ekki verið mælt. Á árinu 2004 mældi hún með GPS-mælitæki landlengd Hamars, Miðgils og Engihlíðar.  Eftir því sem næst verður komist hafa bakkar eyja og hólma hvergi verið mældir.

Við úthlutun eininga fyrir landlengd verða mælitölur frá 1985 lagðar til grundvallar nema þar sem ný mæling var gerð að tilhlutan veiðifélagsins, en þar verður í öllum tilvikum miðað við landlengdartölur samkvæmt henni. Spildu milli Bólstaðarhlíðar og Æsustaða, sem áður var deilt um, verður skipt jafnt milli jarðanna í samræmi við sátt, sem eigendurnir náðu haustið 2004. Eigandi Æsustaða hefur sjálfur mælt landlengd sinnar jarðar. Í engu öðru tilviki hefur veiðiréttareigandi krafist þess að hans eigin mæling verði lögð til grundvallar við skiptingu arðskrár, þótt veiðifélagið beri enga ábyrgð á mælingunni. Kemur þegar af þeirri ástæðu ekki til álita að byggja á niðurstöðum slíkrar mælingar. Breytir þá engu þótt ráðunautur, sem ekki fór á vettvang, hafi staðfest mælingarnar sem „réttar“, en ljóst er að þá er vísað til forsendna eigandans við mælingarnar. Af málatilbúnaði eigandans verður ráðið að aðferð hans hafi meðal annars falist í að hringmæla hólma, sem eru margir á svæðinu, en deilt er um eignarrétt að mörgum þeirra og þá einkum við svonefnda Vargey, sbr. nánar í IX. kafla hér á eftir. Einnig af þessari ástæðu kemur mæling eiganda Æsustaða ekki til neinna álita. Að framan var getið um mótmæli talsmanns Fjósa við breytingu á landlengdarmælingu gagnvart Skeggsstöðum vegna vegagerðar og að í skýrslu mælingamanns komi fram að ágreiningur sé milli Köldukinnar II og Grænuhlíðar um spildu milli jarðanna. Þótt þannig sé hermt að ágreiningur sé fyrir hendi hafa hvorki eigendur Skeggsstaða né Köldukinnar II haft uppi neinar kröfur við yfirmatsmenn af þessu tilefni, hvað þá að nokkrar frekari skýringar kæmu fram. Verða í samræmi við það óbreyttar mælitölur lagðar til grundvallar fyrir Skeggsstaði, Fjós og Grænuhlíð, en ný mæling fyrir Köldukinn II.

Í VI. kafla að framan voru ítarlega rakin sjónarmið eigenda og talsmanna Æsustaða, Tunguness og Bólstaðarhlíðar um landamerki við og ofan ármóta Svartár og Blöndu og rask, sem orðið hafi á rennsli austustu kvísla Blöndu fyrir alllöngu síðan og neðsta hluta Svartár vegna vegagerðar 1975-1985. Meðal annars var getið sjónarmiða talsmanns Bólstaðarhlíðar þess efnis að yfirmatsmenn séu ekki bærir til að leysa úr landamerkjaágreiningi. Þótt réttmæti þeirrar umfjöllunar talsmannsins verði ekki vefengt er einnig til þess að líta að yfirmatsmönnum er ekki heldur heimilt að víkjast undan því að skipta arðskrá milli rétthafa með vísan til þess að ekki sé fullt samkomulag þeirra á milli um einhver atriði, hvort heldur þau lúta að rétti til arðs af veiði úr tilteknum veiðistað, hverjum tiltekinn vatnsbakki skuli koma til góða eða önnur atriði, þar sem hagsmunir þeirra skarast. Verður þá að taka afstöðu til deiluefna eftir því, sem röksemdir aðila standa til, þótt sú úrlausn breyti ekki hvar rétt landamerki milli jarða liggja. Að þessu gættu verður þó jafnframt vegna ágreinings um landamerki ofan ármótanna að líta til þess að núgildandi arðskrá var gerð 1988 og þar með alllöngu eftir að rennsli Svartár var breytt vegna vegagerðar, sem á þessum stað var fyrir 1980. Ekkert liggur þó fyrir um að ágreiningur hafi þá orðið vegna landlengdar að veiðivötnum á ármótasvæðinu, hvað þá að það hafi orðið með þeim þunga, sem nú er raunin á.

Í 12. lið í V. kafla að framan er getið yfirlýsingar mælingamannanna Jóns Sigurðssonar og Ævars Þorsteinssonar frá 16. ágúst og 17. september 2004 um framkvæmd mælingar 1985. Þar er meðal annars fjallað um ósætti um 165 metra spildu, sem áður var vikið að, en síðan segir: „Landamerki milli Æsustaða, Bólstaðarhlíðar og Tunguness þóttu all flókin vegna færslu ánna á svæðinu sökum vegagerðar, voru því eigendur ofangreindra jarða kallaðir saman á svæðið en þeir voru Sverrir Haraldsson Æsustöðum, Jón Tryggvason Ártúnum og Stefán Theodórsson Tungunesi. Sögðu þeir nákvæmlega til um hvar landamerki lágu og var alls enginn ágreiningur milli þeirra um landamerkin enda allir fæddir og uppaldir á þessum slóðum, skrifuðu þeir allir undir til samþykktar mælingunni í áðurnefnda bók með öllu athugasemdalaust.“ Samkvæmt þessu var mælt í samræmi við hvar landamerki jarðanna lágu samkvæmt ábendingu eigendanna, en ekki kemur nánar fram hvernig merkjunum var lýst. Eigenda Bólstaðarhlíðar er ekki getið í þessu sambandi, en þeir hafa augljóslega sætt sig við niðurstöðuna. Lýsing mælingamannanna getur samrýmst umfjöllun talsmanns Tunguness um drengskaparsamkomulag, sem gert hafi verið á þeim tíma, sbr. að framan, en vegaframkvæmdirnar eða breytt rennsli ánna högguðu ekki réttum landamerkjum jarðanna. Bakkalengd á svæðinu hefur ekki verið mæld nú ef undan er skilin mæling á landi Æsustaða í heild, bæði ofan og neðan ármóta. Áskilnaður af hálfu Tunguness um nýja mælingu hefur ekki náð lengra. Gefur ítarlegur málatilbúnaður af hálfu áðurnefndra jarðeigenda ekki tilefni til annars en að leggja niðurstöður mælingarinnar 1985 fyrir Bólstaðarhlíð, Tungunes og Ártún til grundvallar. Um aðstöðuna á þessu svæði verður að öðru leyti fjallað nánar í IX. kafla hér á eftir.

Niðurstaða yfirmatsmanna er sú að hæfilegt sé að 210 einingar skuli skiptast milli veiðiréttareigenda í samræmi við landlengd að Blöndu og hliðarám hennar. Jafnframt er hæfilegt að 130 einingar skiptist milli veiðiréttareigenda í samræmi við landlengd að Svartá og hliðarám hennar. Við mat á vægi þessa þáttar sem og annarra er í senn litið til allra aðstæðna á svæðinu og gætt samræmis við matsgerðir yfirmatsmanna við skiptingu arðskrár almennt fyrir veiðifélag. Lög nr. 76/1970 verða ekki skýrð á annan hátt en þann að leggja beri mat á þennan þátt eins og aðra, sem ráða um úthlutun arðs. Verður samkvæmt því lagt sjálfstætt mat á gildi mældra lengdareininga bakka eftir því hvar á vatnasvæðinu þeir eru, sem leiðir til mismunandi niðurstöðu um vægi þeirra við úthlutun þessara eininga. Sú aðferð að vega einstaka bakka veiðivatns mishátt styðst auk þess við ríka hefð hjá veiðifélögum almennt í landinu. Að baki því liggur að gjarnan er litið svo á að úthlutun eininga fyrir landlengd sé endurgjald fyrir það vatnasvæði, sem markar lífsrými lax og silungs. Hefur mikið vatnsmagn á neðri hluta vatnasvæðis óhjákvæmilega mikið gildi að þessu leyti, jafnframt því sem gildi lækja og efstu draga veiðiár er að sama skapi einatt lítið í þessu tilliti og stundum nær ekkert. Samkvæmt þessum viðmiðunum er niðurstaða yfirmatsmanna sú að bakkar Blöndu frá óslínu að ármótum Svartár fá vægið 1,0. Þaðan að útfalli frá virkjun fá bakkar Blöndu vægið 0,8, en frá þeim stað að Rugludalsá 0,6. Eftir það fær Blöndugil að Refsá vægið 0,1. Á því svæði getur verið verulegt vatnsmagn þegar áin fer „á yfirfall“, en þess á milli er þarna tær, lítil á. Svæðið frá Refsá að stíflu fær vægið 0, en þar er vatnslaust meiri hluta árs. Auðólfsstaðaá er skipt í tvö svæði, þar sem hið neðra að Gautsdal fær vægið 0,05, en mældir bakkar þar fyrir ofan 0,01. Aðrar mældar hliðarár Blöndu hafa í raun vart nokkurt gildi í þessu tilliti og verður hverri lengdareiningu þar gefið vægið 0,005. Bakkar Svartár frá ósi í Blöndu að Hólslæk fá vægið 1,0, en þaðan að Fossá 0,5. Frá þeim stað að Bugakvísl fær Svartá gildið 0,075, en Bugakvíslar fá ekkert gildi. Fossá fær gildið 0,15 að Smjörmokstursgili, en ofan þess 0,0075. Hlíðará fær gildið 0,1. Landlengd annarra hliðaráa Svartár hefur ekki verið mæld og eru því ekki efni til að úthluta einingum fyrir bakkalengd til veiðiréttareigenda þar. Þeim verður hins vegar úthlutað einingum fyrir hrygningu og/eða uppeldi seiða í sumum þeirra lækja, sem hér um ræðir, sbr. X kafla hér á eftir. Bökkum friðunarsvæðis utan óslínu Blöndu verður loks gefið vægið 0,25.

IX.

Aðstaða til stangarveiði og netaveiði.

Í IV. kafla að framan er gerð grein fyrir tilhögun við rekstur ánna og í V. kafla er getið skýrslna, sem liggja fyrir yfirmatsmönnum um veiði á laxi og silungi 1988-2004 að báðum árum meðtöldum. Samtals hafa veiðst 13.802 laxar á þessu tímabili í Blöndu, en 5.265 í Svartá. Í síðarnefndu ánni er allur lax skráður á veiðistaði, en í Blöndu er bókun áfátt að þessu leyti, sem þó er misjafnt eftir svæðum. Mikil brögð eru að ónákvæmri skráningu á svæði I, en öllum afla þar verður skipt jafnt milli þeirra tveggja, sem eiga veiðiréttinn sitt hvoru megin árinnar. Á svæði IV hefur skráning verið í ólestri, en nærri lætur að þriðji hver fiskur, sem þar veiðist, sé einungis skráður veiddur „á svæði IV.“ Við skiptingu afla ganga yfirmatsmenn út frá að þessi þriðjungur hans skiptist á veiðistaði innan svæðisins í sama hlutfalli og sá afli, sem þar er færður til bókar á tiltekna veiðistaði. Á svæði II er skráning í allgóðu horfi, en óskráðum fiskum þar verður skipt eftir sömu aðferð og gert er á svæði IV. Á svæði III er skráning afla í mjög góðu lagi. Að silungsveiði á áðurnefndu tímabili og skiptingu aflans milli rétthafa verður nánar vikið í lok þessa kafla.

Varðandi þennan þátt í skiptingu arðskrár leggja yfirmatsmenn almennt til grundvallar allan afla, skráðan á veiðistaði, sem fengist hefur frá gerð síðustu arðskrár. Verður í samræmi við það tekið mið af allri veiði 1988-2004 að báðum árum meðtöldum. Veiðibækur frá 1992, sem í undirmati segir að séu týndar, hafa komið í leitirnar. Einungis vantar veiðibók á I. svæði í Blöndu frá 26. júlí 2004 út veiðitímann. Hafa yfirmatsmenn áætlað afla á því tímabili út frá bestu fáanlegum heimildum. Eigandi og talsmaður Æsustaða hafa mótmælt því að veiði allt aftur til upphafs  núgildandi arðskrármats verði lögð til grundvallar og krefjast þess að miðað verði við veiði síðustu 5-6 ára, en skipting arðs eigi að miðast við veiði eins og „raunhæft sé að ætla að hún muni verða.“ Á þetta sjónarmið verður ekki fallist. Við skiptingu yfirmatsmanna á arðskrám fyrir veiðifélög er annað óþekkt en að öll veiðireynsla frá gildistöku síðustu arðskrár til loka tímabilsins ráði um úthlutun eininga fyrir þennan þátt. Getur einhvers konar spá um veiði í framtíðinni ekki leyst þá reglu af hólmi.

Sjónarmið veiðiréttareigenda eru mjög öndverð um rétt til veiði á öllu svæðinu frá ósi Auðólfsstaðaár í norðri allt suður að veiðistaðnum Bakka í Svartá, en um það bil frá þeim stað niður undir ármót var farvegur Svartár færður til vesturs vegna vegagerðar. Auk Æsustaða varðar þessi ágreiningur einkum hagsmuni Tunguness og Bólstaðarhlíðar og nyrst á svæðinu einnig Kárastaða, en eigendur og talsmenn allra þessara jarða hafa skýrt afstöðu sína rækilega fyrir yfirmatsmönnum. Við úrlausn um skiptingu veiði verður að líta til einstakra hluta þessa svæðis í senn og þá fyrst syðsta hlutann frá ármótum suður að Bakka, þar sem mikið rask varð á þekktum veiðistöðum af völdum vegagerðar.

Elstu loftmyndirnar, sem áður var getið um, munu vera frá árinu 1946. Sést glöggt á þeim að austasta kvísl Blöndu féll þá í Svartá um það bil 50-100 metrum neðan við Svartárbrú og nærri núverandi veiðistaðnum Bakka. Þaðan runnu árnar í sama farvegi þétt meðfram hlíðinni niður í hylinn Blóta. Þótt langt hafi liðið frá gerð landamerkjabréfa þar til myndirnar voru teknar sýna þær engu að síður aðstæður fyrir vegagerðina 1975-1985 og fá vel samrýmst skýringum talsmanns Tunguness á landamerkjabréfum. Nýjar og gamlar heimildir liggi fyrir um að Blendingur hafi verið við þáverandi ármót og Blóti var þar nokkru neðar fast upp við hlíðina. Sá hylur var því í Blöndu þar til austasta kvísl hennar hætti að renna inn í Svartá einhvern tíma eftir 1946, en í Svartá eftir það uns hylurinn var eyðilagður um þrjátíu árum síðar. Staðhæfingar eiganda Æsustaða um að annar Blóti hafi verið í miðkvísl Blöndu hafa afar veika stoð í gögnum málsins. Af hálfu Tunguness hafa þannig verið færð fram veigamikil rök fyrir því að landamerki þeirrar jarðar og Bólstaðarhlíðar liggi um hinn forna farveg Svartár og áður Blöndu niður í Blóta austan núverandi þjóðvegar. Sýnist því flest benda til að á þeim kafla renni Svartá nú í landi Tunguness eftir að áin var færð til vesturs.

Þótt haldbetri rök hafi verið færð fram af hálfu Tunguness en annarra jarða um landamerki á svæðinu kemur fleira til, sem hér skiptir mál. Áður var getið um skiptingu arðskrár 1988 eftir að vegagerð var lokið og samkomulag, sem rétthafar gerðu þá um landlengd á svæðinu miðað við landamerki jarðanna. Eins og málið liggur fyrir verður ekki annað ráðið en að samkomulag hafi á þessum árum einnig orðið um skiptingu veiði á svæðinu eins og veiðistaðir voru orðnir eftir breytinguna. Það samkomulag hafi orðið á vettvangi veiðifélagsins sjálfs og þá sýnilega með samþykki rétthafanna, sem áttu í hlut. Um það vísast til gagna, sem áður var getið, frá árunum 1982-1987 um greiðslu skaðabóta frá Vegagerðinni fyrir eyðilagða veiðistaði og bréfs yfirmatsmanna 4. nóvember 2004 til rétthafa á svæðinu. Þau gögn eru meðal annars samkomulag Vegagerðarinnar og veiðifélagsins 1. júlí 1985 um greiðslu skaðabóta til veiðifélagsins fyrir veiðistaðina Blóta og Langhyl, þar sem mistekist hafi að gera nýja veiðistaði. Í samkomulaginu segir einnig að það taki til hugsanlegs tjóns, sem einstakir landeigendur kunni að hafa orðið fyrir. Aðalfundur veiðifélagsins 15. maí 1987 samþykkti samhljóða að krefjast þess að stjórnin leitaði eftir úrskurði lögmanns félagsins um meðferð þessara „hyljapeninga“ og færi eftir úrskurðinum í einu og öllu og borgaði út strax og hann lægi fyrir. Fundarritari var eigandi Æsustaða. Bréf lögmannsins til stjórnarinnar 9. september 1987 liggur einnig fyrir. Þar kemur meðal annars fram að formaður félagsins hafi skýrt honum frá því að vegaframkvæmdin hafi ekki gefið tilefni til breytinga á arðskrá félagsins. „Réttarstaða greindra landeigenda gagnvart veiðifélaginu hefur því ekki raskast frá því sem áður var.“ Í niðurstöðu segir síðan að röskunin hafi ekki leitt til minni veiði á svæðinu, heldur tilfærslu á veiðistöðum innan þess. Félagið hafi tekið þá áhættu að semja um fullnaðarbætur, en „svo vel virðist þó hafa til tekist að mælanlegt tjón á veiðihagsmunum hefur ekki hlotist af jarðraskinu.“ Sagði í álitsgerðinni að af þessu leiddi að eigendur Bólstaðarhlíðar, Ártúna og Tunguness ættu ekki rétt á umsömdum tjónabótum. Ætti samkvæmt því að úthluta þeim á grundvelli arðskrár eins og öðrum arði af starfsemi félagsins. Munu bæturnar síðan hafa verið greiddar út í samræmi við þessa niðurstöðu, en þó ekki fyrr en eftir skiptingu arðskrár 1. apríl 1988.

Þessi meðferð bótafjárins sýnir ótvírætt að forsenda þess að greiða það ekki tjónþolunum var sú að jarðirnar biðu ekki tjón. Við gerð arðskrár, sem þá var unnið að, varð því að tryggja að svo yrði ekki. Samkvæmt því skyldi Bólstaðarhlíð þá ekki skaðast við að Svartá var færð út úr landi jarðarinnar inn í land Tunguness. Lýsing í VIII. kafla að framan á samkomulagi um landlengd í samræmi við landamerki fær samrýmst því. Um uppbót fyrir glötuðu veiðistaðina tvo nýtur hins vegar ekki jafn glöggra heimilda. Blóti var afar gjöfull veiðistaður og sennilega sá besti í Svartá. Samkvæmt landamerkjabréfi átti Tungunes hálfa veiði í Blendingi og engin efni eru til að vefengja að jörðin hafi átt hálfa veiði í Blóta. Því fremur á það við ef Blendingur var fornt nafn á Blóta, eins og eigendur Bólstaðarhlíðar halda fram. Veiði úr Blóta hefur þá að öðru leyti skipst jafnt milli Æsustaða og Bólstaðarhlíðar. Veiðistaðaskrá var hluti af matsgögnum 1988, en samkvæmt henni fékk Bólstaðarhlíð hlutdeild í veiði í nýjum farvegi Svartár auk Ártúna, Tunguness og Æsustaða. Veiði í ármótum skiptist jafnt milli tveggja síðastnefndu jarðanna. Tjón Tunguness og Æsustaða við missi Blóta hefur þannig verið bætt með veiði í ármótum, sem sýnast að verulegu leyti hafa komið í stað Blóta með mikla veiði. Er fullvíst að Æsustaðir hafa ekki beðið tjón af þessu, því í stað fjórðungshluta í Blóta nýtur jörðin helmings veiðarinnar úr ármótum. Hins vegar er nærlægt að ætla að hallað hafi á Bólstaðarhlíð þrátt fyrir að jörðin hafi fengið hlutdeild í veiði á nýjum farvegi Svartár. Eigendur hennar virðast engu að síður hafa sætt sig í reynd við að gefa eftir tilkall til skaðabóta í trausti þess að fá tjón sitt bætt a.m.k. að hluta með arðskrá. Frásögn talsmanns Tunguness ber þess jafnframt vott að nokkurs virði hafi þótt að óvissa spillti ekki samkomulagi nágranna um skiptingu veiði á svæðinu.

Að frumkvæði eiganda Æsustaða hafa eigendur áðurnefndra jarða að Ártúnum undanskildum nú hagað málatilbúnaði sínum svo að samkomulag 1985-1988 gildi ekki lengur og unnt sé að gera ítrustu kröfur óháð því, sem áður var gert. Fer sú framganga mjög þvert á þá ákvörðun, sem áður var tekin, að svipta tjónþola skaðabótum og greiða þær þess í stað öllum félagsmönnum á þeirri forsendu að veiði færðist eingöngu til innan svæðisins og landeigendur myndu þess vegna ekki bíða tjón af eyðileggingu veiðistaða og færslu Svartár til vesturs. Sú forsenda sýnist fyllilega hafa staðist varðandi Æsustaði og hugsanlega einnig Tungunes. Öðru máli gegnir um Bólstaðarhlíð. Við gerð núgildandi arðskrár hefur sýnilega verið leitast við að mæta þessum forsendum við skiptingu á landlengd og veiði og það sættu þáverandi eigendur jarðanna sig við. Í málatilbúnaði Æsustaða felst hins vegar í raun að tjón Bólstaðarhlíðar skuli aðeins bætt tímabundið með arðskrá, en ekki til frambúðar eins og skaðabæturnar hefðu væntanleg gert, en tekið var við þeim sem fullnaðarbótum fyrir eyðilagða veiðistaði. Eigandi Æsustaða tók að sínu leyti við skaðabótafénu eins og aðrir félagsmenn. Með ákvörðun um ráðstöfun bótafjárins og viðtöku þess hafa bæði eigandi þeirrar jarðar, aðrir veiðiréttareigendur á svæðinu og veiðifélagið skuldbundið sig til að bæta raunverulegum tjónþola, sem var Bólstaðarhlíð, skertan hlut með arðskrá í stað skaðabóta, sem hann var sviptur. Verður lagt til grundvallar að sú jöfnun tjóns, sem gerð var 1988, skuli gilda áfram og að Bólstaðarhlíð þurfi ekki að bera nú tjón, sem áður var miðað við að ekki yrði. Að gættu öllu því, sem að framan er rakið, verður veiði úr veiðistöðum frá Ármótum að Bakka að báðum meðtöldum skipt með sama hætti og gert var í gildandi arðskrá.

Kemur þá næst til úrlausnar skipting veiði á miðhluta þrætusvæðisins frá ósi Auðólfsstaðaár að Bakka. Áður var þess getið að Tungunes krefst þess að farið verði eftir landamerkjabréfi og miðað við að þau liggi frá Blóta eftir farvegi austustu kvíslar Blöndu, sem áður rann úr hylnum meðfram hlíðinni allt að stað neðan við bæinn að Æsustöðum, þar sem kvíslin sameinaðist meginánni á ný. Í samræmi við það falli veiðistaðirnir Gullkista og Síkið að öllu leyti til Tunguness. Eigandi Æsustaða krefst þess hins vegar að miðað verði við „meginkvísl“ Blöndu vestast á svæðinu, sem leiði til þess að sú jörð eigi ein meðal annars þessa tvo veiðistaði. Á áðurnefndri loftmynd frá 1946 sjást tvær kvíslar Blöndu renna til norðurs úr Blóta. Sýnist sú austari hafa verið afar vatnslítil, en hin sveigði strax til vesturs og féll í meginána nærri núverandi ármótum. Var hún augljóslega til muna vatnsmeiri. Í veiðistaðaskrá 1988 var Gullkistu og Síkinu skipt jafnt milli Æsustaða og Tunguness. Gefur það vísbendingu um að eigendurnir, sem voru viðstaddir og bentu á landamerki, hafi verið ásáttir um að sú kvísl Blöndu neðan ármóta sem veiðistaðirnir eru í, ráði merkjum og að mælt hafi verið meðfram henni. Hefðu þeir talið merkin liggja þar sem austasta kvísl Blöndu rann áður úr Blóta hefðu þessir veiðistaðir væntanlega að öllu leyti verið taldir til Tunguness. Í ljósi þess að eigendurnir voru sammála um legu landamerkja 1985 og að hvorki Tungunes né Æsustaðir hafa nú fært fram nægjanlega haldgóð rök fyrir því að miða beri við að þau liggi annars staðar á svæðinu milli Merkjagils og ármóta, verður óbreytt veiðistaðaskrá lögð til grundvallar skiptingu afla úr veiðistöðum á þessu svæði. Samkvæmt því skiptist veiði jafnt úr veiðistöðum nr. 244 og 245 auk Gullkistu og Síkis. Tungunes á eitt veiði úr veiðistöðum nr. 250-253 að báðum meðtöldum auk 295 og 300. Afla úr nýjum veiðistöðum á svæðinu, sem ekki er getið í veiðistaðaskrá, verður skipt í samræmi við þetta. Afli úr veiðistað nr. 248 fellur þannig að jöfnu til Æsustaða og Tunguness, en allur afli úr veiðistöðum nr. 259, 290 og 291  fellur til Tunguness.

Þriðji hluti svæðisins, sem mestur ágreiningur ríkir um, er nyrsti hluti þess frá ósi Auðólfsstaðaár suður að Merkjagili, en þar eiga Æsustaðir land austan Blöndu en Kárastaðir vestan hennar. Sá ágreiningur sýnist fyrst hafa risið við skiptingu arðskrár nú. Á svæðinu eru margir hólmar og ljóst að farvegir Blöndu hafa breyst og verið með ýmsu móti á þeim langa tíma, sem hér skiptir máli. Áður var gerð grein fyrir landamerkjabréfum jarðanna og skýringum aðilanna á þeim. Verður að fallast á með talsmanni Kárastaða að orðalag bréfanna rennir eindregið stoðum undir að sá eini hólmi á svæðinu, sem tilheyrir Æsustöðum, sé nú austan þjóðvegarins og að kvíslin vestan hans ráði þá merkjum milli jarðanna. Breytir engu um þá niðurstöðu hvernig hólmasvæðið kann að hafa verið nytjað um miðja síðustu öld eða að Vegagerðin greiddi eiganda Æsustaða bætur fyrir malartöku í tengslum við vegagerð. Verður afla úr veiðistöðum á þessu svæði skipt með sama hætti og gert var í veiðistaðaskrá, sem er meðal málsgagna. Afli úr veiðistað nr. 233 (ós Auðólfsstaðaár) fellur þannig að hálfu til Kárastaða, en að öðru leyti að jöfnu til Auðólfsstaða og Æsustaða. Afli úr veiðistöðum nr. 240-243 að báðum meðtöldum skiptist að jöfnu milli Kárastaða og Æsustaða.

Af  hálfu Tunguness er krafist að jörðin eigi alla veiði úr veiðistöðum nr. 310 og 320, sem eru í Blöndu ofan ármóta hennar og Svartár. Samkvæmt veiðistaðaskrá skiptist veiði þar milli Ártúna og Tunguness. Nánari skýring fylgir ekki þessari kröfu Tunguness og Ártún hafa ekki látið málið til sín taka. Við landlengdarmælingu 1985 voru eigendur beggja jarða viðstaddir og bentu á landamerkin. Verður að því virtu óbreytt veiðistaðaskrá lögð til grundvallar milli þessara jarða.

Eigendur Bólstaðarhlíðar hafa lýst þeirri skoðun sinni að allur afli neðan ármóta Blöndu og Svartár ætti með réttu að teljast með öðrum afla úr Blöndu en ekki Svartá, þótt kvíslin í Blöndu, sem veiðistaðirnir Gullkista og Síkið eru í, sé tær við ákveðnar aðstæður. Yfirmatsmenn fallast á þetta sjónarmið. Er þá til þess að líta að bakkalengd þessarar kvíslar er talin til Blöndu sem og uppeldis- og hrygningarskilyrði þar. Eru ekki rök fyrir því að miða þann stað, sem Svartá endar, í einu tilliti við ákveðin mörk, en hafa þau annars staðar í öðru tilliti. Verður afli úr áðurnefndum tveimur veiðistöðum í samræmi við það metinn sem annar afli úr Blöndu. Ræður þá engum úrslitum þótt veiðifélagið hagi útleigu á þann veg að veiðimenn í Svartá fái að veiða á þessum veiðistöðum í Blöndu.

Yfirmatmenn telja hæfilegt að 200 einingar komi til úthlutunar vegna stangarveiði á vatnasvæði Blöndu, en af þeim komi 194 fyrir laxveiði og 6 fyrir silungsveiði. Þá er hæfilegt að 155 einingar komi til úthlutunar vegna stangarveiði á vatnasvæði Svartár, þar af 151 fyrir laxveiði og 4 fyrir silungsveiði. Einingar fyrir laxveiði skiptast á jarðir eftir veiðistöðum, svo sem áður var gerð grein fyrir. Óskráður afli hefur ekki áhrif á skiptingu þessara eininga.

Á vesturbakka Blöndu ofan og neðan ármóta Blöndu og Svartár hefur verið veiðibann á nokkrum kafla, sbr. VI. kafla að framan um sjónarmið veiðiréttareigenda. Í svari veiðifélagsins við fyrirspurn yfirmatsmanna um þetta veiðibann var tekið fram að það hafi upphaflega verið sett til að auðvelda fiskför upp í Svartá. Lengd bannsvæðisins hafi ekki verið mæld, en verulega hafi verið slakað á því síðustu árin. Síðastnefnda atriðið fellur saman við lýsingu eiganda Æsustaða, þar sem fram kom að nú væri heimilt að veiða frá báðum bökkum úr veiðistað nr. 253, sem áður hafi verið óheimilt. Sá veiðistaður tilheyrir Tungunesi, sbr. áður. Verður tekið tillit til þessa við skiptingu arðskrárinnar með úthlutun hálfrar einingar af þeim, sem koma fyrir laxveiði í Blöndu. Fellur hún til Tunguness, en ekki eru efni til að úthluta einingum sérstaklega til Æsustaða af þessu tilefni.

Silungsveiði hefur verið nokkur í báðum ánum á áðurnefndu tímabili. Eru skráðir 2.710 silungar veiddir í Blöndu, en bókun þessa afla er ekki síður áfátt en laxins. Verður fiskum, sem einungis eru skráðir veiddir á tilteknu svæði, skipt milli veiðistaða eftir sömu aðferð og áður var getið varðandi laxveiði. Einingar, sem koma fyrir silungsveiði í Blöndu, skiptast á jarðir eftir veiðistöðum. Í Svartá er 321 silungur skráður veiddur á tímabilinu á laxasvæði árinnar. Er öll sú veiði bókuð á tiltekna veiðistaði. Sá afli er svo óverulegur að ekki eru efni til að úthluta einingum sérstaklega fyrir hann. Fremsti hluti Svartár og Fossá eru leigðar úr sérstaklega, sbr. IV. kafla að framan. Engar upplýsingar liggja hins vegar fyrir um skráningu afla þar. Verður fjórum einingum skipt milli veiðiréttareigenda í samræmi við hlutdeild í landlengd á þeim hluta þessa svæðis, þar sem silungsveiðin er stunduð. Falla þær til Hvamms, Stafns, Kúfustaða, Fossa, Teigakots og Upprekstrarfélags Eyvindarstaðaheiðar.

X.

Uppeldis- og hrygningarskilyrði.

Í 42. lið í upptalningu gagna í V. kafla að framan er getið um skýrslu Veiðimálastofnunar frá júní 2004. Er þar gerð grein fyrir sérstakri rannsókn, svonefndu búsvæðamati, á uppeldis- og hrygningarskilyrðum í vatnakerfi Blöndu og Svartár. Hafa yfirmatsmenn jafnframt fengið nánari upplýsingar og skýringar í viðtölum við annan höfund skýrslunnar, Sigurð Guðjónsson, sérfræðing hjá Veiðimálastofnun.

Í skýrslunni er greint frá því að hún sé gerð að beiðni Veiðifélags Blöndu og Svartár, en sambærileg athugun hafi ekki verið gerð áður á vatnasvæðinu. Töluverð þekking hafi þó áður legið fyrir um viðfangsefnið, en um það er vísað til nokkurra rannsóknarskýrslna Veiðimálastofnunar frá seinni árum. Hafi rannsóknin haft að markmiði að meta einstaka hluta vatnasvæðisins með tilliti til skilyrða fyrir hrygningu lax og gæða einstakra árhluta eða búsvæða til framleiðslu á seiðum. Er sérstaklega tekið mið af búsvæðum fyrir laxaseiði. Einstökum vatnsföllum á svæðinu er nánar lýst, þar sem meðal annars kemur fram að tilkoma Blöndulóns hafi um margt breytt rennslisháttum árinnar neðan lónsins og því umhverfi, sem fiskstofnum þar er búið. Blöndulón hafi verið stækkað 1996, en með tilkomu stíflu í Blöndu vegna miðlunarlóns sé leið fisks fram á heiðar nú lokuð. Mikilvægasta fisktegund vatnasvæðisins neðan miðlunarlóns sé lax, en einnig finnist þar mikið af bleikju og sé hluti hennar sjógenginn. Staðbundinn urriði sé þar einnig í talsverðum mæli. Er síðan lýst að við búsvæðamat sé hlutdeild mismunandi botngerða hverrar ár metið og fundið út mikilvægi einstakra hluta hennar með tilliti til seiðaframleiðslu. Er ánni þannig skipt upp í einsleita kafla eftir grófleika botnsins og straumlagi. Á hverjum kafla voru að lágmarki tekin tvö snið yfir ána og botngerðin mæld, en fjöldi sniða réðist af lengd viðkomandi kafla. Mælt var dýpi, straumgerð, heildarbreidd árinnar og hlutfall mismunandi botngerða metið. Hið síðastnefnda ræðst af grófleika efna og urðu þannig til fimm flokkar, þar sem hverjum var gefið svokallað botngildi eftir því hversu heppileg botngerðin er til uppeldis seiða. Fær leir/sandur gildið 0,02, möl 0,2, smágrýti 0,55, stórgrýti 0,2 og klöpp 0,03. Kjörskilyrði fyrir laxaseiði er botn, sem er sambland af möl, smágrýti og stórgrýti, en lygn svæði í ám þar sem sandur eða leir er á botni, eru hins vegar rýr til uppeldis. Svipað gildir um klapparbotn. Með þessu móti fundu sérfræðingar Veiðimálstofnunar út framleiðslugildi hvers svæðis og loks fjölda svokallaðra framleiðslueininga þar. Tekið er fram að framleiðsla laxaseiða minnki þegar dýpi eykst og var því fjöldi framleiðslueininga helmingaður þar sem dýpi er 0,5-1 metri og ekki talinn með þar sem dýpi er enn meira. Tekið var tillit til annarra þátta eins og frjósemi, hitafars og seiðamagns, sem er sagt vel þekkt í vatnakerfinu. Samkvæmt þessu var Blöndu skipt í níu mislanga kafla eða búsvæði, Svartá sjö, Auðólfsstaðaá þrjú og Hlíðará í tvö einsleit svæði. Nokkrar aðrar hliðarár voru taldar nýtast að einhverju leyti fyrir seiðauppeldi og þá einkum neðsti hluti þeirra, en þar er um að ræða Breiðavaðslæk, Strjúgsá, Gilslæk, Steiná, Hólslæk og Hvammsá. Er ljóst að uppeldis- og hrygningarskilyrði eru afar misjafnlega góð milli búsvæða og fjöldi framleiðslueininga að sama skapi mismikill. Eru samtals tæplega 27% þeirra í Svartá og hliðarám, en rúmlega 73% í Blöndu og hliðarám hennar. Hefur seiðaframleiðsla þar aukist eftir að virkjað var. Mörk svæðanna eru tilgreind, en þau eru ekki dregin með tilliti til landamerkja.

Yfirmatsmenn telja hæfilegt að 180 einingar komi til úthlutunar vegna þessa þáttar til veiðiréttareigenda á vatnasvæði Blöndu og 125 til veiðiréttareigenda á vatnasvæði Svartár. Í samræmi við áðurnefnda skýrslu tekur skipting þessara eininga mið af því að skilyrði eru mjög misjöfn eftir því til hvaða kafla í ánum er litið. Er tekið tillit til þess að einstakar jarðir geta átt land að misjöfnum svæðum.

Að ósk yfirmatsmanna 15. júlí 2004 kynnti stjórn veiðifélagsins félagsmönnum  skýrslu Veiðimálstofnunar. Var tekið fram að athugasemdir þyrftu að hafa borist 25. ágúst. Talsmaður og eigandi Æsustaða sendu yfirmatsmönnum athugasemdir 8. september. Mótmælti talsmaðurinn því að búsvæðamatið væri „að einhverju leyti á vegum yfirmatsmanna, eða amk. tengt þeirra vinnu ...“. Var þess krafist að áður fram komin gögn um rafveiðar Veiðimálastofnunar á seiðum yrði notuð sem grundvöllur yfirmats. Eigandinn taldi búsvæðamat gefa glöggar upplýsingar um hvar búsvæði geti verið í vatnakerfinu, en ekki hvar uppeldi fari raunverulega fram nema að takmörkuðu leyti. Rafveiðar gefi hins vegar slíkar upplýsingar. Þar sem botn sé metinn heppilegur sé ekki sjálfgefið að framleiðsla seiða fari fram, en óþekkt atriði geti skipt sköpum um það. Þar sem flest seiði finnist fari mest seiðaframleiðsla fram, en skýrslum um rafveiðar beri illa saman við búsvæðamatið. Umsögn Veiðimálastofnunar um þessa gagnrýni barst í lok október sl. Taldi stofnunin að hér væri borin saman gögn, sem væru illa til þess hæf. Var síðan gerð nánari grein fyrir seiðamælingum í Blöndu, sem hafi haft þann tilgang að kanna ástand seiða og einstakra árganga þeirra. Engin rafveiðistöð sé á stórum svæðum í ánni. Þá verði aðferðinni illa beitt þar sem straumur er mjög lítill því þar komist seiði auðveldlega undan, einkum þau stærri. Í miklum rennslishraða gagnist rafveiði einnig illa. Ýmsar aðrar ástæður hafi áhrif á veiðarnar og komi ekki á óvart að misræmis gæti við samanburð þessara gagna. Er tekið fram að eigandi Æsustaða hafi nokkuð til síns máls þegar hann fjalli um framleiðslugetu svæða og framleiðslu. Slíkt ástand sé þó væntanlega aðeins tímabundið þar sem framleiðslugeta svæða ætti að fullnýtast ef laxastofn er í jafnvægi og þegar litið sé til lengri tíma. Hvað varðar rafveiði fyrir landi Æsustaða var tekið fram að þar hafi verið veitt á grunnu vatni með nokkuð fínni möl í botni. Þar væru kjörin hrygningarskilyrði og góð fyrir smá seiði, en rýrari fyrir hin eldri. Skipti jafnvel enn meira máli fyrir gildi hvers svæðis að skilyrði fyrir eldri seiði séu góð. Skilyrði til rafveiða séu ákjósanleg þarna og veiðist hærra hlutfall seiða á þessum stað en annars staðar þar sem dýpra er, straumhraði mikill eða mjög hægur. Eru í svarinu mun ítarlegri skýringar, en að framan eru raktar, á hvoru um sig, rafveiði og búsvæðamati, og lögð áhersla á að gögn um hið fyrrnefnda séu ekki þess eðlis að þau leyfi þann samanburð, sem gerður hafi verið, enda ætluð til ólíkra nota. Var í lokin tekið fram að ókleift væri að styðja ósk eiganda Æsustað um að rafveiði fái meira vægi en búsvæðamatið þegar metin eru uppeldisskilyrði og uppeldi seiða í vatnakerfi Blöndu. Eigandi Æsustaða sendi athugasemdir sínar við umsögn Veiðimálstofnunar í lok nóvember 2004 og ítrekaði áður fram sett sjónarmið.

Að virtum skýringum Veiðimálastofnunar, sem býr yfir sérfræðiþekkingu á þessu sviði, telja yfirmatsmenn ekki að gagnrýni eiganda Æsustaða dragi úr gildi búsvæðamatsins eða leiði til þess að víkja eigi því til hliðar að einhverju eða öllu leyti. Stendur óhögguð sú niðurstaða um skiptingu eininga í þessum þætti á grundvelli búsvæðamatsins, svo sem áður var getið.

XI.

Niðurstöður.

Ekki er fram komið tilefni til að aðrir þættir en þeir, sem að framan greinir, hafi áhrif á skiptingu arðskrárinnar. Kröfum einstakra veiðiréttareigenda um hlutdeild í arðskránni umfram það, sem leiðir af framangreindum matsaðferðum, er hafnað. Þar sem veiðihlunnindi eru óskipt milli tveggja jarða verður ekki hróflað við þeirri innbyrðis  hlutfallsskiptingu, sem gilt hefur í reynd, enda hafa ekki komið fram óskir í þá veru nema frá Glaumbæ og Engihlíð, sem áður voru metnar saman, en verða nú metnar hvor fyrir sig. Verður samkvæmt því einnig farið að fram komnum tilmælum um að skipta arðskrárhlut Ártúna/Finnstungu að jöfnu, svo sem gert var í yfirmati 1988. Samkvæmt eldri arðskrá fellur arður til fleiri jarða en þeirra, sem eiga aðild að veiðifélaginu samkvæmt samþykkt fyrir það, sbr. einnig umfjöllun í III. kafla að framan. Er um að ræða jarðir, sem eiga land að hliðarám á vatnasvæðinu eða ósasvæði Blöndu. Engar athugasemdir hafa verið gerðar við það og verður aðild þessara jarða að arðskrá óbreytt frá því sem verið hefur. Sérstaklega stendur á um Geitaskarð, sbr. hér á eftir. Sú breyting verður gerð frá síðustu arðskrá að Kálfárdalur, sem þar var metinn sérstaklega, verður nú með samþykki eigenda talinn með Botnastöðum. Mjóidalur náði í matinu ekki tíunda hluta úr einingu, en er engu að síður áfram skráður inni í arðskránni.

Í VI. kafla að framan var getið ágreinings eigenda Geitaskarðs og útskipts hluta jarðarinnar (lands Buðlunganess og Þorbrandsstaða) og rakin sjónarmið aðilanna. Eigendur útskipta hlutans eignuðust hann 1982, samtals 25% af jörðinni í heild, og sama hlutfall í óskiptum veiðiréttindum hennar. Í lands- og eignaskiptasamningi 18. desember 1982 var mannvirkjum og heimalandi jarðarinnar skipt með tilteknum hætti, en jafnframt tekið fram að samkvæmt 3. gr. landskiptalaga nr. 46/1941 megi ekki skipta veiðirétti. Að framan var einnig getið eignarnáms, sem gert var árið 2002 á mannvirkjum og hluta lands, sem tilheyrði útskipta hlutanum. Matsnefnd eignarnámsbóta tók þá beinlínis fram að hún liti svo á að heimild til innlausnar tæki ekki til veiðiréttinda. Samkvæmt framangreindu liggur ekki annað fyrir en að útskipta hlutanum tilheyri enn fjórðungur í óskiptum veiðiréttindum jarðarinnar. Sjálfstæðri félagsaðild útskipta hlutans að Veiðifélagi Blöndu og Svartár er ekki til að dreifa og verður hlutdeild hans ekki sérmetin heldur með arðshlut jarðarinnar í heild. Verður í nýrri arðskrá, sbr. XII kafla hér á eftir, sérskráð hver fjöldi eininga tilheyrir eigendum útskipta hluta jarðarinnar, þótt hann hafi ekki verið sérmetinn.

Beiðnir um yfirmat bárust yfirmatsmönnum í nóvember 2002 og í bréfi þeirra til veiðifélagsins 27. desember sama árs var fyrirhugað verklag kynnt. Meðal annars skyldu veiðiréttareigendur eiga þess kost að skila skriflegum greinargerðum til yfirmatsmanna, en frestur til þess yrði til loka ágústmánaðar 2003. Við upphaf matsstarfa 30. maí 2003 á fundi með veiðiréttareigendum framlengdu yfirmatsmenn frestinn til 30. september. Í áðurnefndu bréfi var tekið fram að stefnt yrði að því að ljúka matsstörfum um áramót 2003-2004, en stæðist sú tímasetning ekki yrði gildistaka nýs arðskrármats engu að síður miðuð við 1. janúar 2004. Að baki því lá að í öðrum tilvikum þegar matsstörfum yfirmatsmanna hefur lokið að vori, en þó fyrir upphaf nýrrar veiðivertíðar, er gildistaka arðskrármats yfirleitt miðuð við 1. janúar  á sama ári. Að öðrum kosti færist gildistaka að jafnaði til upphafs næsta árs. Með bréfi stjórnar veiðifélagsins til yfirmatsmanna 19. apríl 2004 var þess farið á leit að gildistöku nýrrar arðskrár yrði frestað til 1. janúar 2005. Með fylgdi fundargerð aðalfundar félagsins 17. apríl 2004 þar sem skráð er að tillaga þessa efnis hafi verið samþykkt „með þorra atkvæða gegn 3“. Þar kom einnig fram að eigandi Æsustaða mælti gegn tillögunni. Yfirmatsmenn féllust á tilmæli félagsins 28. sama mánaðar. Talsmaður Æsustaða mótmælti í lok ágúst og byrjun september 2004 frestun á gildistöku nýrrar arðskrár og krafðist þess að ákvörðun um það yrði endurskoðuð, sem yfirmatsmenn höfnuðu. Að þeirra dómi lágu þungvæg rök að baki óskar veiðifélagsins um frestun, en þyngst vó sú ákvörðun félagsins, sem þá fyrst hafði verið tekin, að hlutast til um við Veiðimálastofnun að búsvæðamat yrði gert á uppeldis- og hrygningarskilyrðum fyrir lax á vatnasvæðinu. Fullljóst var að slík rannsókn myndi skjóta mun styrkari stoðum undir niðurstöður yfirmatsmanna auk þess sem uppeldis- og hrygningarskilyrði vega jafnan hærra við arðskrármat þar sem unnt er að styðjast við slíka rannsókn heldur en þar sem henni er ekki til að dreifa. Þótt þessi ástæða og aðrar, sem tilgreindar voru af hálfu veiðifélagsins, nægðu fyllilega til að verða við ósk um frestun, kom jafnframt til að umfangsmikill málatilbúnaður Æsustaða og endurteknar beiðnir talsmanns jarðarinnar á ýmsum stigum málsins um fresti höfðu raskað tímáætlun yfirmatsmanna. Þótt sú ástæða hafi ekki ein og sér ráðið úrslitum var einnig litið til hennar við ákvörðun um að breyta upphaflegri áætlun um gildistöku nýrrar arðskrár, enda ekki vel samrýmanlegt að tefja framgang verksins, sbr. VI. kafla að framan, og mótmæla í kjölfarið frestun fyrri áætlunar um gildistöku nýrrar arðskrár.

Í tilvikum þar sem jörð á veiðirétt bæði í Svartá og Blöndu verður fjölda eininga í fyrrnefndu ánni sérstakalega getið.

Veiðifélag Blöndu og Svartár greiði kostnað af mati þessu.

Mat þetta gildir frá 1. janúar 2005. Arðskrá fyrir Veiðifélag Blöndu og Svartár skal vera svo sem greinir í XII. kafla hér á eftir.

XII.

Arðskrá fyrir Veiðifélag Blöndu og Svartár.

Jarðir.                                                                                                                    einingar

 1.   Rugludalur..............................................................................................               7,1                  

 2.   Bollastaðir (með Sellandi)........................................................................             16,9      

 3.   Eyvindarstaðir.........................................................................................               8,2      

 4.   Austurhlíð...............................................................................................               3,9      

 5.   Brandsstaðir...........................................................................................               4,9      

 6.   Blöndudalshólar......................................................................................               5,2      

 7.   Brúarhlíð.................................................................................................               6,2      

 8.   Finnstunga (þar af í Svartá 20,0 ein.).......................................................             30,1

 9.   Ártún (þar af í Svartá 20,0 ein.)...............................................................             30,1      

10. Æsustaðir (þar af í Svartá 22,8 ein.).........................................................             46,5

11. Auðólfsstaðir..........................................................................................               9,9

12. Gunnsteinsstaðir......................................................................................               4,8

13. Hólabær.................................................................................................               5,1

14. Strjúgsstaðir............................................................................................               4,1

15. Móberg/Skriðuland.................................................................................               5,3

16. Hvammur í Langadal...............................................................................               4,0

17. Fagranes.................................................................................................               1,4

18. Holtastaðir..............................................................................................               7,2

19. Geitaskarð..............................................................................................               9,5

20. Þorbrandsstaðir......................................................................................               3,2

21. Fremstagil...............................................................................................               9,3

22. Glaumbær...............................................................................................               5,6

23. Engihlíð...................................................................................................               6,9

24. Miðgil.....................................................................................................               6,1

25. Ystagil....................................................................................................               4,8

26. Björgólfsstaðir........................................................................................               6,3

27. Breiðavað...............................................................................................             11,7

28. Enni........................................................................................................             76,0

29. Blönduós................................................................................................           116,5

30. Kaldakinn I og II....................................................................................             26,2      

31.   Grænahlíð...............................................................................................               5,4

32.   Kagaðarhóll............................................................................................               6,4

33.   Holtastaðareitur......................................................................................               4,4

34.   Gunnfríðarstaðir......................................................................................               3,6

35.   Hamar....................................................................................................             12,3

36.   Ásar.......................................................................................................               9,3

37.   Kárastaðir..............................................................................................             18,7

38.   Tungunes (þar af í Svartá 25,3 ein.).........................................................             66,5

39.   Ytri-Langamýri.......................................................................................             11,1

40.   Syðri-Langamýri.....................................................................................               9,3

41.   Höllustaðir I............................................................................................               2,7

42.   Höllustaðir II...........................................................................................               2,7

43.   Guðlaugsstaðir........................................................................................               9,7

44.   Eiðsstaðir................................................................................................             10,7

45.   Eldjárnsstaðir..........................................................................................               8,8

46.   Þröm (hlutur Eldjárnsstaða).....................................................................               9,1

47.   Gautsdalur..............................................................................................               1,1      

48.   Mjóidalur................................................................................................               0,0      

49.   Mörk......................................................................................................               0,1

50.   Hvammur í Laxárdal................................................................................               0,1

51.   Litla Vatnsskarð......................................................................................               0,1

52.   Blöndubakki...........................................................................................               0,4

53.   Hjaltabakki.............................................................................................               0,3      

54.   Upprekstrarfélag Auðkúluheiðar..............................................................               2,3

55.   Bólstaðarhlíð...........................................................................................             51,2

56.   Húnaver..................................................................................................               4,4

57.   Þverádalur..............................................................................................               1,5

58.   Botnastaðir (með Kálfárdal)....................................................................               5,8

59.   Hlíðarpartur............................................................................................               6,4

60.   Gil..........................................................................................................               5,8

61.   Fjósar.....................................................................................................             17,4

62.   Brattahlíð................................................................................................             11,3

63.   Eiríksstaðir..............................................................................................             20,8

64.   Bergsstaðir.............................................................................................             18,5

65.   Leifsstaðir...............................................................................................             10,3

66.   Skottastaðir............................................................................................               5,8

67.   Hvammur í Svartárdal.............................................................................               6,0

68.   Kúfustaðir...............................................................................................               5,6

69.   Stafn.......................................................................................................             16,9      

70.   Teigakot.................................................................................................               8,9

71.   Hóll........................................................................................................               8,1

72.   Steiná.....................................................................................................               6,0

73.   Steinárgerði............................................................................................               3,8

74.   Barkarstaðir............................................................................................             12,8

75.   Torfustaðir..............................................................................................               7,0

76.   Brún.......................................................................................................             18,4

77.   Skeggsstaðir...........................................................................................             52,2

78.   Fossar....................................................................................................               7,1

79.   Mælifell..................................................................................................               2,0

80.  Upprekstrarfélag Eyvindarstaðaheiðar (þar af í Svartá 7,8 ein.)................               7,9

      

                                                                                               Samtals:               1000,00      

 

Reykjavík,    7.  febrúar 2005

Gunnlaugur Claessen

Þorsteinn Þorsteinsson

Sveinbjörn Dagfinnsson

 

Yfirmatsmenn samkvæmt lögum um lax- og silungsveiði.Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn