Hoppa yfir valmynd
17. febrúar 2005 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Mál nr. 21/2004. Úrskurður kærunefndar útboðsmála:

Úrskurður kærunefndar útboðsmála 17. febrúar 2005

í máli nr. 21/2004:

Jöfnun ehf.

gegn

Vegagerðinni

Með bréfi dagsettu 4. júní 2004, sem barst kærunefnd útboðsmála sama dag, kærir Jöfnun ehf., þá ákvörðun Vegagerðar ríkisins, að meta tilboð kæranda ógilt og útiloka hann frá vali á tilboði í verkið „Yfirlagnir og styrkingar á Suðursvæði 2004".

Kærandi krefst þess að kærunefnd útboðsmála úrskurði að sú ákvörðun kærða, að meta tilboð kæranda í verkið „Yfirlagnir og styrkingar á Suðursvæði 2004" ógilt verði ógild. Jafnframt að kærunefnd úboðsmála stöðvi samningsgerð og leggi fyrir kærða að ganga til samninga við kæranda á grundvelli fyrirliggjandi tilboðs. Verði ekki á það fallist er krafist að kærunefnd útboðsmála tjái sig um skaðabótaskyldu kærða og grundvöll skaðabóta. Þá er gerð krafa um að kærða verði gert að greiða kostnað við að hafa kæruna uppi.

Kærði krefst þess að öllum kröfum kæranda verði hafnað.

Með tölvubréfi 8. júní 2004 til ritara kærunefndar útboðsmála féll kærandi frá kröfu um að samningsgerð yrði stöðvuð.

I.

Kærði bauð í maí 2004 út yfirlögn og styrkingu á Suðursvæði. Helstu verkþættir voru samkvæmt útboðslýsingu uppsetning aðstöðu og undirbúningur framkvæmda, merkingar, hreinsun eldra slitlags, flutningur og útlögn slitlagsefnis, sópun og umhirða uns afhending færi fram og hreinsun og frágangur vinnusvæðis.

Kærandi skilaði inn tilboði í verkið. Þann 18. maí 2004 voru tilboð í verkið opnuð. Kærandi var lægsbjóðandi með tilboð að fjárhæð kr. 53.464.000,-. Með bréfi, dags. 18. maí 2004, var óskað eftir upplýsingum frá honum um fjárhagslega getu hans. Þannig var óskað eftir ársreikningi síðastliðinna tveggja ára, yfirlýsingu viðskiptabanka um viðskipti hans, skriflegri yfirlýsingu frá innheimtuaðilum ríkis og sveitarfélags þess efnis að kærandi væri ekki í vanskilum með opinber gjöld og skriflegri yfirlýsingu frá lífeyrissjóði starfsmanna um að kærandi hefði greitt iðgjöld í lífeyrissjóð og væri ekki í vanskilum að því leyti.

Kærandi sendi umbeðin gögn 27. maí 2004. Með bréfi, dags. 31. maí 2004, tilkynnti kærði kæranda að tilboð kæranda væri ógilt og kæmi því ekki til skoðunar við val á tilboði í verkið.

II.

Kærandi telur að ákvörðun kærða, um að ógilda tilboð hans, fái ekki staðist. Ákvæði 1.8 í útboðsskilmálum verði að túlka svo að miðað sé við samanlagða veltu með virðisaukaskatti miðað við þrjú ár. Óskað hafi verið upplýsinga um þetta tímabil í hinu kærða útboði. Orðalag ákvæðisins geri ekki ráð fyrir að miðað sé við veltu hvers árs fyrir sig.

Kærandi og Styrking ehf. séu að mestu leyti í eigu sömu aðila og stjórnendur séu þeir sömu. Mikil og náin tengsl séu á milli þessara aðila og því sé unnt við mat á kæranda að hafa til hliðsjónar veltu Styrkingar ehf. Vegagerðin hafi óskað eftir ársreikningum síðastliðin tvö ár en samkvæmt þeim sé velta kæranda með virðisaukaskatti kr. 30.223.100,-. Tilboðsfjárhæðin hafi verið kr. 50.564.000,- og 50% af því sé kr. 25.282.000,-. Kærandi hafi því uppfyllt að öllu leyti skilyrði útboðsgagna um veltu. Þar sem fyrirtækið hafi verið stofnað 2002 þá liggi fyrir tveir ársreikningar eins og óskað hafi verið eftir. Kærði hafi ekki óskað eftir öðrum upplýsingum um veltu og geti ekki gert kröfu um að fyrirtækið hafi starfað í þrjú ár, enda hafi ekkert slíkt skilyrði verið í útboðsgögnum.

Kærandi bendir á að hann sé eini aðilinn á landinu, sem er með fullbúinn tvöfaldan klæðningarflokk. Þá sé hann vel tækjum búinn að öðru leyti. Honum hafi ekki verið gefinn kostur á að skýra mál sitt og sýna fram á getu sína og þekkingu.

Í VIII. kafla laga um opinber innkaup sé tilgreint hvaða lagaskilyrði leggja eigi til grundvallar þegar metið er hvaða tilboði skuli tekið í opinberum útboðum. Í 50. gr. laganna sé gengið út frá því, að við val á bjóðanda skuli gengið út frá hagkvæmasta tilboði, sem sé það boð sem sé lægst að fjárhæð eða það boð sem fullnægi þörfum kaupanda best samkvæmt þeim forsendum, sem settar hafi verið fram í útboðsgögnum. Auk þess skipti hér máli hvaða gögn kaupandi hafi sjálfur óskað eftir varðandi fjárhag bjóðanda. Kærandi telur að tilboð sitt hafi verið lægst og þar með hagkvæmast.

III.

Kærði reisir kröfur sínar á því að ákvörðunin um að meta tilboð kæranda ógilt og ganga til samninga við næstlægstbjóðanda í verkið hafi verið lögmæt og réttmæt. Kærandi hafi ekki uppfyllt lágmarkskröfur, sem gerðar hafi verið til bjóðenda í útboðslýsingu, þ.e. grein 1.8, og hafi tilboð hans því verið ógilt og ekki heimilt að líta til þess við val á tilboðum.

Kærði mótmælir túlkun kæranda á ákvæði 1.8. Með því að áskilja tiltekna ársveltu sé verið að vísa til veltu hvers árs fyrir sig en ekki samanlagðrar veltu á tímabilinu. Allt að einu hafi kærandi ekki fullnægt því skilyrði útboðslýsingar að ársvelta sé a.m.k. 50% af tilboði hans.

Kærði mótmælir því að tengsl kæranda við Styrkingu ehf. hafi nokkra þýðingu. Styrking ehf. hafi hvorki verið bjóðandi í verkið, sem um er deilt, né hafi félagið verið getið sem undirverktaka kæranda í verkinu. Styrking sé ekki á neinn hátt ábyrgt fyrir tilboði kæranda í verkið og hefði kærði ekki getað getað gert kröfu til þess að félagið tæki á sig neina skuldbindingu gagnvart kærða.

Auk þess að uppfylla ekki lágmarkskröfur um veltu hafi ekki legið fyrir að kærandi hafi uppfyllt kröfur útboðslýsingar um sambærileg verk á sl. fimm árum. Engin verkreynsla hafi verið tilgreind í tilboðsskrá. Kærandi hafi lagt fram upplýsingar um þrjú verk en aðeins eitt hafi uppfyllt kröfur sem gerðar hafi verið. Það hafi verið verk sem hafi verið framkvæmt áður en kærandi var stofnað.

IV.

Í málinu er deilt um lögmæti ákvörðunar kærða að ógilda tilboð kæranda. Einkum er deilt um túlkun á ákvæði greinar 1.8 í útboðsskilmálum hins kærða útboðs. Ákvæðið er svohljóðandi:

Til að koma til álita við val á verktaka er gerð sú krafa að bjóðandi hafi áður unnið sambærilegt verk á síðastliðnum fimm árum. Með sambærilegu verki er átt við verkefni svipaðs eðlis og að upphæð verksamnings hafi að lágmarki verið 50% af tilboði í þetta verk eða verkhluta. Einnig er gerð sú krafa að ársvelta fyrirtækis bjóðanda hafi að lágmarki verið sem nemur 50% af tilboði bjóðanda í þetta verk síðastliðin 3 ár.

Verktaki skal hafa á að skipa reyndum starfsmönnum við útlögn klæðningar. Verkstjórar ásamt tæknilegum yfirstjórnanda skulu hafa unnið að minnsta kosti eitt ár (útlagnatímabil) við sambærileg verkefni.

Samkvæmt upplýsingum, sem kærandi veitti kærða, var velta fyrirtækisins kr. 30.223.100,- með virðisaukaskatti síðastliðin tvö ár fyrir tilboðsgerð. Kærandi telur að miða eigi við samtölu veltu áranna við mat á því hvort félagið hafi fullnægt áskilnaði um 50% veltu af tilboði hans í verkið. Kærunefnd útboðsmála telur að samkvæmt orðanna hljóðan ákvæðis 1.8 útboðsskilmála verði þeir ekki skildir öðruvísi en að krafist hafi verið að velta hvers árs hafi náð sem svaraði a.m.k. 50% af tilboði bjóðenda í verkið. Gögn málsins eru ótvíræð um að kærandi hafi ekki náð því marki í hinu kærða útboði. Þá telur kærunefndin, að tengsl kæranda við annað félag, Styrkingu ehf., hafi ekki getað haft þýðingu við mat á tilboði kæranda, enda það félag ekki bjóðandi í hinu kærða útboði. Með vísan til þessa og að öllum gögnum málsins virtum, er það mat kærunefndar útboðsmála að kærða hafi verið heimilt að áskilja tiltekna lágmarksveltu og að kærandi hafi ekki uppfyllt þau skilyrði sem sett voru í ákvæði 1.8 útboðsskilmála. Verður því að hafna kröfum kæranda í máli þessu.

Beðist er velvirðingar á því hve úrskurður hefur dregist mjög í máli þessu.

Úrskurðarorð:

Kröfum kæranda, Jöfnunar ehf., vegna útboðs kærða, Vegagerðarinnar, í útboði tilgreindu „Yfirlagnir og styrkingar á Suðursvæði 2004" er hafnað.

Reykjavík, 17. febrúar 2005

Páll Sigurðsson

Stanley Pálsson

Sigfús Jónsson

Rétt endurrit staðfestir,

Reykjavík, 17. febrúar 2005

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum