Hoppa yfir valmynd
12. apríl 2005 Innviðaráðuneytið

Ólöglegar aðgerðir sem beint er gegn almannaflugi

Tekið hefur gildi reglugerð samgönguráðuneytisins um flugvernd nr. 361/2005

Almennt um reglugerðina

Eftir atburði 11. september 2001 hefur eftirlit með flugi verið stórhert. Meginmarkmið með setningu reglugerðarinnar nú, um flugvernd, er að koma á og framkvæma viðeigandi ráðstafanir til að hindra ólöglegar aðgerðir sem beint er gegn almannaflugi.

Til að ná þessu markmiði eru settar fram grunnkröfur um flugverndarráðstafanir og komið upp viðeigandi kerfi til eftirlits. Reglugerðin gildir um allt millilandaflug á alþjóðaflugvöllum sem jafnframt eru landamærastöðvar á Íslandi, en innanlandsflugið er undanskilið.

Með reglugerðinni er verið að innleiða reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins nr. 849/2004 frá 29. apríl 2004 um breytingu á reglugerð nr. 2320/2002 frá 16. desember 2002 um sameiginlegar reglur um flugvernd í almenningsflugi auk annars regluverks ESB um flugvernd þar með talin reglugerð framkvæmdastjórnarinnar nr. 622/2003 frá 4. apríl 2003 um ráðstafanir til framkvæmdar sameiginlegum grunnreglum um flugvernd og reglugerð framkvæmdastjórnarinnar nr. 68/2004 frá 15. janúar 2004 um breytingu á reglugerð framkvæmdastjórnarinnar nr. 622/2003 um ráðstafanir til að fylgja sameiginlegum grunnreglum um flugvernd.

Helstu nýmæli

Með reglugerðinni er aukið eftirlit á flugvöllum lögfest, meðal annars með skimun farþega, starfsmanna, farangurs og varnings sem fer um borð. Auk þess eru kröfur auknar um afmörkun og reglubundið eftirlit með svæðum sem tengjast þessari starfsemi. Meiri kröfur eru gerðar um bakgrunnsathugun á starfsmönnum á flugvöllum er starfa við flugstarfsemi. Flugfélög og aðrir sem hafa starfsemi með höndum á flugvöllum verða að starfa eftir samþykktum flugverndaráætlana.

Verklag

Reglugerðin sem tekur gildi nú var unnin af samgönguráðuneyti og Flugmálastjórn, með aðkomu fleiri aðila. Meðal annars var haft samráð við utanríkisráðuneyti, dómsmálaráðuneyti, Ríkislögreglustjóra og sýslumanninn á Keflavíkurflugvelli. Þegar reglugerðin lá fyrir í drögum var hún send fjölmörgum hagsmunaaðilum til umsagnar auk flugráðs.

Reglugerðin er sett samkvæmt heimild í 70. gr., 2. mgr. 78. gr. sbr. 145. gr. laga um loftferðir nr. 60/1998 með síðari breytingum.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum