Hoppa yfir valmynd
15. apríl 2005 Dómsmálaráðuneytið

Mannanafnanefnd, úrskurðir 15. apríl 2005

Fundur í mannanafnanefnd haldinn föstudaginn 15. apríl 2005 í húsakynnum Orðabókar Háskóla Íslands, Neshaga 16, Reykjavík. Fundur hófst kl. 12:00. Mætt voru Aðalheiður Jóhannsdóttir (AJ), Guðrún Kvaran (GK) og Haraldur Bernharðsson (HB).

Eftirfarandi mál voru á dagskrá:

Mál nr. 27/2005

Eiginnafn: Mír (kk.)

Kveðinn er upp svohljóðandi úrskurður:

Með bréfi dagsettu þann xxxxx sl. skaut xxxx, f.h. úrskurðarbeiðenda, nafninu Mir til úrskurðar mannanafnanefndar. Jafnframt óskaði dóms- og kirkjumálaráðuneytið eftir úrskurði nefndarinnar um sama nafn með bréfi dagsettu xxxxx sl. Í framhaldi af þessu kvað nefndin upp leiðbeinandi úrskurð þann 7. mars sl., sbr. mál nr. 10/2004. Úrskurðarbeiðendur hafa síðan sent sjálfstæða beiðni til nefndarinnar og er hún dagsett þann xxxxx sl. Óska þau eftir því að eiginnafnið Mir verði með öðrum rithætti og ritað Mír.

Eiginnafnið Mír tekur eignarfallsendingu (Mírs) og telst uppfylla ákvæði 1. mgr. 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn og er beiðnin tekin til greina.

Úrskurðarorð:

Beiðni um eiginnafnið Mír er tekin til greina og skal það fært á mannanafnaskrá.“

Mál nr. 28/2005

Eiginnafn: Ríkharð (kk.)

Kveðinn er upp svohljóðandi úrskurður:

Eiginnafnið Ríkharð tekur eignarfallsendingu (Ríkharðs) og telst uppfylla ákvæði 1. mgr. 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn.

Úrskurðarorð:

Beiðni um eiginnafnið Ríkharð er tekin til greina og skal það fært á mannanafnaskrá.“

Mál nr. 29/2005

Eiginnafn: Hilaríus (kk.)

Kveðinn er upp svohljóðandi úrskurður:

Eiginnafnið Hilaríus tekur eignarfallsendingu (Hilaríusar) og telst uppfylla ákvæði 1. mgr. 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn.

Úrskurðarorð:

Beiðni um eiginnafnið Hilaríus er tekin til greina og skal það fært á mannanafnaskrá.“

Mál nr. 30/2005

Eiginnafn: Gía (kvk.)

Kveðinn er upp svohljóðandi úrskurður:

Samkvæmt beiðni þeirri sem barst nefndinni óskar beiðandi eftir úrskurði nefndarinnar um millinafnið Gía í samræmi við 6. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn. Eftir samtal við beiðanda þann xxxx sl. er ljóst að átt er við eiginnafn í samræmi við 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn og byggist niðurstaða nefndarinnar á því.

Eiginnafnið Gía tekur tekur eignarfallsendingu (Gíu) og telst uppfylla ákvæði 1. mgr. 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn.

Úrskurðarorð:

Beiðni um eiginnafnið Gía er tekin til greina og skal nafnið fært á mannanafnaskrá.“

Mál nr. 31/2005

Eiginnafn: Vísa (kvk.)

Kveðinn er upp svohljóðandi úrskurður:

Eiginnafnið Vísa tekur eignarfallsendingu (Vísu) og telst uppfylla ákvæði 1. mgr. 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn.

Úrskurðarorð:

Beiðni um eiginnafnið Vísa er tekin til greina og skal það fært á mannanafnaskrá.“

Mál nr. 32/2005

Millinafn: Sævarr

Kveðinn er upp svohljóðandi úrskurður:

Mannanafnanefnd hefur borist beiðni um millinafnið Sævarr. Um millinöfn gildir 6. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn. Í 2. mgr. 6. gr. laganna segir: „Nöfn, sem aðeins hafa unnið sér hefð sem annaðhvort eiginnöfn karla eða eiginnöfn kvenna, eru ekki heimil sem millinöfn.“ Nafnið Sævar hefur unnið sér hefð sem eiginnafn karla. Rithátturinn Sævarr (í stað Sævar) getur auk þess ekki talist í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls, sbr. ákvæði 4. mgr. 6. gr. Þar af leiðandi telst millinafnið Sævarr ekki uppfylla þau skilyrði sem getið er í 6. gr. laga tilvitnaðra laga.

Úrskurðarorð:

Beiðni um millinafnið Sævarr er hafnað.“

Mál nr. 33/2005

Eginnafn : Hávarr

Kveðinn er upp svohljóðandi úrskurður:

Þann 18. mars sl. kvað mannanafnanefnd upp úrskurð í máli nr. 25/2005, en óskað var eftir því að mál nr. 92/1999 yrði tekið fyrir að nýju. Nefndin vísaði málinu frá með úrskurði sínum þann 18. mars sl., sbr. mál nr. 25/2005. Í þessu tilviki hefði átt að styðjast við 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þar sem í lögum nr. 45/1996 um mannanöfn eru ekki sérstakar reglur um endurupptöku mála sem til meðferðar hafa verið hjá nefndinni.

Í 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 segir orðrétt:

Eftir að stjórnvald hefur tekið ákvörðun og hún verið tilkynnt á aðili máls rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný ef:

1. ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, eða

2. íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Eftir að þrír mánuðir eru liðnir frá því að aðila var tilkynnt um ákvörðun skv. 1. tölul. 1. mgr., eða aðila var eða mátti vera kunnugt um breytingu á atvikum þeim sem ákvörðun skv. 2. tölul. 1. mgr. var byggð á, verður beiðni um endurupptöku máls þó ekki tekin til greina, nema að fengnu samþykki frá öðrum aðilum málsins. Mál verður þó ekki tekið upp að nýju ef ár er liðið frá fyrrgreindum tímamörkum nema veigamiklar ástæður mæli með því.

Hvort sem miðað er við dagsetningu úrskurðar í máli nr. 92/1999 frá 7. október 1999 eða niðurstöðu í máli nr. 118/2001 frá 18. desember 2001, er ljóst að fresturinn sem tilgreindur er í lok 2. mgr. 24. gr. er liðinn. Að mati mannanafnanefndar hafa ekki verið tilgreindar neinar veigamiklar ástæður sem mæla með því að málið verði tekið upp að nýju og á þetta bæði við beiðni yðar dags. 17. janúar sl., sbr. úrskurð frá 23. mars sl., mál nr. 25/2005, og þá beiðni sem dagsett er 1. apríl sl.

Úrskurðarorð:

Beiðni um endurupptöku er hafnað.

Mál nr. 34/2005

Eiginnafn: Bíbí (kvk.)

Kveðinn er upp svohljóðandi úrskurður:

Eiginnafnið Bíbí tekur eignarfallsendingu (Bíbíar) og telst uppfylla 1. mgr. 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn.

Úrskurðarorð:

Beiðni um eiginnafnið Bíbí er tekin til greina og skal það fært á mannanafnaskrá.“

Mál nr. 35/2005

Eiginnafn: Betanía (kvk.)

Kveðinn er upp svohljóðandi úrskurður:

Eiginnafnið Betanía tekur eignarfallsendingu (Betaníu) og telst uppfylla ákvæði 1. mgr. 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn.

Úrskurðarorð:

Beiðni um eiginnafnið Betanía er tekin til greina og skal það fært á mannanafnaskrá.“

Mál nr. 36/2005

Millinafn: Gnurr

Kveðinn er upp svohljóðandi úrskurður:

Millinafnið Gnurr er af íslenskum orðstofni en til er sögnin gnurra (-aði) ‘marra, braka’ og dæmi um hvorugkynsnafnorðið gnurr í merkingunni ‘marr, brak; urr’ er að finna í ritmálssafni Orðabókar Háskólans. Millinafnið Gnurr telst því uppfylla skilyrði 6. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn.

Úrskurðarorð:

Beiðni um millinafnið Gnurr er tekin til greina og skal það fært á mannanafnaskrá.“

Mál nr. 37/2005

Eiginnafn: Snæringur (kk.)

Kveðinn er upp svohljóðandi úrskurður:

Eiginnafnið Snæringur tekur eignarfallsendingu (Snærings) og telst uppfylla skilyrði 1. mgr. 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn.

Úrskurðarorð:

Fallist er á beiðni um eiginnafnið Snæringur og skal nafnið fært á mannanafnaskrá.“

Fleira gerðist ekki. Fundi lauk kl. 14:00.

AJ



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum