Hoppa yfir valmynd
31. maí 2005 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Opinn hugbúnaður

Í apríl 2005 kom út skýrsla um opinn hugbúnað. Hún fjallar um það hvort og hvernig opinn hugbúnaður geti verið valkostur við séreignarhugbúnað. Fyrirtækið ParX – viðskiptaráðgjöf IBM vann skýrsluna fyrir Verkefnisstjórn um rafræna stjórnsýslu. Markmiðið með henni er að undirbúa stefnumótun stjórnvalda um notkun opins hugbúnaðar.

Opinn hugbúnaður nýtur vaxandi vinsælda erlendis, ekki síst í opinberri starfsemi. Hann byggir á forritunarkóða sem gerður er aðgengilegur notendum en er að öðru leyti ekki frábrugðinn öðrum hugbúnaði í eðli sínu. Tilkoma opins hugbúnaðar hefur stuðlað að aukinni samkeppni á markaði sem áður einkenndist af yfirburðastöðu fárra framleiðenda.

Aðgangur að forritunarkóða gefur aukna möguleika á aðlögun, auk möguleika á skoðun hugbúnaðarins með öryggisatriði í huga. Mögulegt er að halda áfram þróun hugbúnaðarins ef framleiðendur hætta henni af einhverjum orsökum. Opinn hugbúnaður býður auk þess upp á möguleika varðandi kennslu sem ekki eru til staðar þegar um séreignarhugbúnað er að ræða. Kostnaður vegna leyfa fyrir opinn hugbúnað er lægri og notkun opins hugbúnaðar getur framlengt líftíma vélbúnaðar. Helstu ókostir opins hugbúnaðar eru samskipti við séreignarhugbúnað, skortur á framboði lausna og skortur á þjónustuaðilum.

Notkun opins bakkerfishugbúnaðar þykir skila sparnaði og auknu rekstraröryggi, þrátt fyrir að uppsetning hans og viðhald krefjist meiri þekkingar tæknifólks. Kostir við notkun opins notendahugbúnaðar eru umdeildari. Til dæmis er ekki hægt að segja með óyggjandi hætti að munur sé á eignarhaldskostnaði opins notendahugbúnaðar og sambærilegs séreignarhugbúnaðar, enda fer eignarhaldskostnaður mjög eftir aðstæðum hverju sinni. Hagkvæmni opinna lausna ber því að meta á grundvelli ítarlegs samanburðar við aðrar lausnir hverju sinni.

Á Íslandi virðist notkun opins hugbúnaðar almennt ekki vera útbreidd. Þó hefur vefþjónshugbúnaður náð umtalsverðri markaðshlutdeild. Nokkuð skortir á að þjónusta við annan opinn notendahugbúnað sé nægilega aðgengileg en líklegt er að framboð slíkrar þjónustu aukist við aukna útbreiðslu hans.

Niðurstaðan er að opinn hugbúnaður sé kostur sem beri að skoða jafnfætis séreignarhugbúnaði í leitinni að hagkvæmustu lausnum fyrir ríkisaðila á sviði upplýsingatækni. Velja skal þá lausn sem hagkvæmust er hverju sinni á grundvelli óhlutdrægs mats á eignarhaldskostnaði og kostum og göllum fyrir viðkomandi starfsemi. Hafa skal í huga að kostnaður við öflun hugbúnaðar er aðeins hluti heildarkostnaðar við innleiðingu. Við val á hugbúnaði er mikilvægt að tryggja möguleika á samþættingu við annan hugbúnað og samskiptum við notendur annarra tegunda hugbúnaðar.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum