Hoppa yfir valmynd
8. ágúst 2005 Innviðaráðuneytið

Sérleyfi fólksflutninga boðin út í fyrsta sinn

Í gær auglýsti Ríkiskaup útboð á sérleyfisleiðum vegna áætlunar- og skólaaksturs fyrir árin 2006-2008.

Liður í því að efla almenningssamgöngur í landinu er ákvörðun samgönguráðherra um að fela Vegagerðinni að bjóða út öll rútusérleyfi. Er þetta í fyrsta sinn sem sérleyfi til fólksflutninga um allt land eru boðin út, en breytingin tekur gildi 1. janúar 2006.

Farin er sú leið að skipta landshlutum upp í fimm þjónustusvæði og bjóða fjölmargar sérleyfisleiðir til rútuflutninga út innan einstakra svæða.
Á undanförnum árum hefur það sýnt sig að á mörgum sérleyfisleiðum eru ekki rekstrarlegar forsendur til að halda uppi viðunandi þjónustustigi. Í útboðinu er því meðal annars óskað eftir tilboðum í umframkostnað á viðkomandi sérleyfisleið, það er mismunur áætlaðra tekna og gjalda sem bjóðandi telur sig þurfa til að geta staðið undir rekstri á viðkomandi leið.
Útboðsgögn verða seld hjá Ríkiskaupum Borgartúni 7 í Reykjavík frá og með þriðjudeginum 9. ágúst. Verð útboðsgagna er 3.500 kr. Skila skal tilboðum á sama stað fyrir kl. 10:45 fimmtudaginn 15. september 2005 og verða þau opnuð þar kl. 11:00 sama dag að viðstöddum þeim bjóðendum sem þess óska.

Fyrir áhugasama er auglýsingin eftirfarandi:


Útboðið
Ríkiskaup fyrir hönd Vegagerðarinnar, Fjölbrautaskóla Suður-lands, Fjölbrautaskóla Snæfellinga og Fjölbrautaskóla Suðurnesja óska eftir tilboðum í eftirfarandi: áætlunarakstur á sérleyfisleiðum á Íslandi, skólaakstur á Suðurlandi, skólaakstur á Snæfellsnesi og skólaakstur á Suðurnesjum á árunum 2006-2008.
Óskað er eftir tilboðum í áætlunarakstur á eftirtöldum þjónustu-svæðum:
1. Þjónustusvæði 1 – Suðurland
2. Þjónustusvæði 2 – Reykjanes
3. Þjónustusvæði 3 – Vesturland og Norðurland
4. Þjónustusvæði 4 – Vestfirðir
5. Þjónustusvæði 5 – Austfirðir

Nánari skilgreining á þjónustusvæðum í sérleyfisakstri fer hér á eftir:

Þjónustusvæði 1
F1 Reykjavík - Hveragerði - Selfoss: 40 eða 42 ferðir í viku. Í tengslum við þessar ferðir eru farnar 13 eða14 ferðir í viku austur í Hvolsvöll og í tengslum við þær ferðir eru farnar 4 eða 14 ferðir í viku áfram til Víkur eftir árstíma og þaðan eru svo farnar 4 eða 7 ferðir (eftir árstíma) í viku áfram til Hafnar í Hornafirði. Sjá næstu ferðir hér á eftir.
F2 Selfoss - Hella - Hvolsvöllur: 13 eða14 ferðir í viku eftir árstíma.
F3 Hvolsvöllur - Vík: 4 eða 14 ferðir í viku eftir árstíma
F4 Vík - Kirkjubæjarklaustur - Höfn: 4 eða 7 ferðir í viku eftir árstíma.
F5 Selfoss - Laugarvatn - Reykholt - Laugarás: 7 ferðir í viku.
F6 Selfoss-Flúðir: 12 ferðir í viku.
F7 Selfoss - Eyrarbakki - Stokkseyri: 13 ferðir í viku.
F8 Reykjavík - Þorlákshöfn: 13 eða 14 ferðir í viku.
F9 Höfn - Djúpivogur - Breiðdalsvík - Egilsstaðir: Einungis farið á sumrin, 7 ferðir í viku.

Þjónustusvæði 2
F10 Reykjavík - Leifsstöð: Sérleyfishafi er skuldbundinn til að fara í Leifstöð fyrir hverja brottför áætlunarflugvéla og til Reykjavíkur eftir hverja komu áætlunarflugvéla.
F11 Reykjavík - Vogar - Reykjanesbær: 31 ferð í viku.
F12 Reykjanesbær - Sandgerði - Garður: 12 ferðir í viku.
F13 Reykjavík - Grindavík: 14 ferðir í viku.

Þjónustusvæði 3
F14 Reykjavík - Borgarnes: 21 eða 22 ferðir í viku.
F15 Borgarnes - Reykholt: 2 ferðir í viku.
F16 Stykkishólmur - Vatnaleið - Borgarnes : 9 ferðir í viku.
F17 Hellissandur - Ólafsvík - Grundarfjörður - Vatnaleið: 9 ferðir í viku.
F18 Borgarnes - Búðardalur: 5 ferðir í viku. Í framhaldi af þessari ferð eru farnar 2 ferðir í viku að Reykhólum og komið við í Króksfjarðarnesi í þeim ferðum, að auki eru farnar 2 ferðir í Krókfjarðarnes. Í einni þessara ferða skal koma við í Staðarfelli.
F19 Búðardalur - Króksfjarðarnes: 4 ferðir í viku.
F20 Króksfjarðarnes - Reykhólar: 2 ferðir í viku.
F21 Reykjavík - Brú - Hvammstangi - Blönduós - Skagaströnd - Varmahlíð - Akureyri: 7 eða 14 ferðir í viku eftir árstíma.
F22 Brú - Hólmavík: 1 eða 3 ferðir í viku eftir árstíma. Í framhaldi af þessari ferð er farin 1 ferð í viku til Drangsness. Sjá næstu ferð.
F23 Hólmavík - Drangsnes: 1 ferð í viku.
F24 Sauðárkrókur - Varmahlíð: 14 ferðir í viku.
F25 Siglufjörður - Sauðárkrókur: 8 ferðir í viku. Þar af 5 ferðir í tengslum við áætlunarflug til Sauðárkróks og 3 ferðir í tengslum við áætlunarferðir, Reykjavík-Akureyri.
F26 Dalvík - Akureyri: 15 ferðir í viku. Í framhaldi af þessari ferð eru farnar 10 ferðir í viku áfram frá Dalvík til Ólafsfjarðar.
F27 Dalvík - Ólafsfjörður: 10 ferðir í viku.
F28 Húsavík - Akureyri: 18 eða 23 ferðir í viku eftir árstíma. Í framhaldi af þessari ferð eru farnar 5 ferðir í viku til Þórshafnar. Sjá næstu ferð.
F29 Húsavík - Raufarhöfn - Þórshöfn: 5 ferðir í viku.
F30 Akureyri - Laugar - Skútustaðir - Reykjahlíð - Egilsstaðir: 4 eða 7 ferðir í viku eftir árstíma.

Þjónustusvæði 4
F31 Bolungarvík - Ísafjörður: 22 ferðir í viku. Farnar eru 14 ferðir í viku í tengslum við flug til og frá Ísafirði og 8 ferðir í viku sem almennar samgöngur á milli sveitafélaganna.
F32 Patreksfjörður - Tálknafjörður - Bíldudalur: 6 eða 7 ferðir í viku í tengslum við flug til og frá Bíldudal.
F33 Ísafjörður - Brjánslækur - Patreksfjörður: Einungis er farið á sumrin, 3 ferðir í viku.
F34 Ísafjörður - Súðavík - Hólmavík: Einungis er farið á sumrin, 3 ferðir í viku í tengslum við ferðir frá Brú til Hólmavíkur.
F35 Ísafjörður - Súðavík: 12 ferðir í viku.

Þjónustusvæði 5
F36 Bakkagerði (Borgarfjörður eystri) - Egilsstaðir: 5 ferðir í viku.
F37 Seyðisfjörður - Egilsstaðir: 11 eða 15 ferðir í viku.
F38 Neskaupsstaður - Eskifjörður - Reyðarfjörður - Egilsstaðir: 12 ferðir í viku.
F39 Breiðdalsvík - Stöðvarfjörður - Fáskrúðsfjörður -Egilsstaðir: 5 ferðir í viku.
F40 Djúpivogur - Höfn - Árnesflugvöllur: 5 ferðir í viku í tengslum við flug til og frá Höfn.

Á þjónustusvæðum 1, 2 og 3 skal bjóða í allar leiðirnar innan hvers þjónustusvæðis í einu lagi, það er. S1, S2 og S3 en tilgreina skal verð í hverja einstaka leið Fx. Samtala tilboða allra leiða, (Fx), innan svæðisins myndar tilboðstöluna Sx að teknu tilliti til ferðafjölda. Tilboð í rekstur sérleyfisleiða á þjónustusvæðum 1, 2 og 3 verða ekki tekin til greina ef ekki er gert tilboð í allar leiðirnar innan svæðisins. Á þjónustusvæðum 4 og 5 skal bjóða í einstakar leiðir innan svæðisins (Fx) en bjóðendur hafa val um það í hversu margar leiðir þeir bjóða. Undantekningin frá þessu er sú að sá sem hyggst bjóða í einhverja af leiðum F33, F34 og F35 er skylt að bjóða í þær allar sem svæði S4.
Sérleyfi á leiðunum verður veitt þeim sem býður lægst í leiðirnar að teknu tilliti til ferðafjölda og að uppfylltum formsskilyrðum.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum