Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Mál nr. 25/2005. Ákvörðun kærunefndar útboðsmála:

Ákvörðun kærunefndar útboðsmála 23. ágúst 2005

í máli nr. 25/2005:

Pfaff-Borgarljós hf..

gegn

Flugstöð Leifs Eiríkssonar hf.

Með bréfi dagsettu 15. ágúst 2005, sem barst kærunefnd útboðsmála 16.. s.m., kærir Félag íslenskra stórkaupmanna, f.h. Pfaff-Borgarljóss hf.. útboð Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar hf., auðkennt „Endurnýjun hljóðkerfis."

Kærandi gerir eftirfarandi kröfur í málinu:

  1. Að samningsgerð verði stöðvuð.
  2. Að kærunefnd útboðsmála úrskurði að ákvörðun kærða að taka tilboði ID Electronic í útboðinu sé felld úr gildi eða að henni skuli breytt.
  3. Til vara að kærða verði gert „að bjóða útboð 4990-01, „Endurnýjun hljóðkerfis", út að nýju án tafar."
  4. Að kærunefnd útboðsmála gefi álit á hugsanlegri skaðabótaábyrgð kærða gagnvart kæranda.
  5. Þá er í öllum tilvikum gerð krafa um kostnað við að hafa kæruna uppi.

Kærði krefst þess að hafnað verði kröfum kæranda.

I.

Í maí 2005 óskaði kærði eftir tilboðum í endurnýjun hljóðkerfis í flugstöðinni. Um er að ræða verk sem felur í sér almenna endurnýjun á núverandi hljóðkerfi. Útboðið var almennt og voru tilboð opnuð 14. júní 2005. Fimm aðilar skiluðu inn samtals ellefu tilboðum. Kærandi skilaði inn tveimur tilboðum, aðaltilboði að fjárhæð kr. 48.283.654,- og frávikstilboði að fjárhæð 37.714.099,-. ID Electronics ehf. skilaði inn fimm tilboðum en þar af voru þrjú frávikstilboð. Með bréfi kærða til ID Electronics, dags. 10. ágúst 2005, var tilkynnt að ákveðið hefði verið að ganga til samninga við félagið á grundvelli frávikstilboðs A, sem var að fjárhæð kr. 19.897.530,-. Kom fram í bréfinu að kominn væri á verksamningur skv. ákvæðum ÍST 30.

Með bréfi 15. ágúst 2005 kærði kærandi ákvörðun kærða. Kærði kom að sínum sjónarmiðum við stöðvunarkröfu kæranda með bréfi, dags. 19. ágúst sl.

II.

Kærandi byggir á því að útboð kærða falli undir lög nr. 94/2001 um opinber innkaup. Kærði uppfylli skilyrði 3. gr. laganna til að teljast opinber aðili. Kærði sé í eigu íslenska ríkisins og lúti endanlega valdi eiganda síns.

Kærandi byggir á því að tilboð hans hafi verið hagstæðast eins og sjá megi af fundargerð opnunarfundar. Kærandi vísar til 26. gr. laga um opinber innkaup nr. 94/2001 en þar sé áréttuð sú grunnregla að forsendur fyrir vali tilboðs skuli koma fram í útboðsgögnum, sbr. einnig 23. gr. sömu laga. Þá segi í ákvæðinu að tilgreina skuli forsendur fyrir vali tilboðs með eins nákvæmum hætti og framast er unnt. Regla 26. gr. skipti sköpum við að tryggja gegnsæi við opinber innkaup með því að bjóðendur eigi að virtum útboðsgögnum að geta áttað sig á því fyrirfram hvernig staðið verði að mati á hagkvæmasta tilboði og eigi að geta hagað boðum sínum í samræmi við það. Ef engar forsendur fyrir vali tilboðs séu tilgreindar í útboðsgögnum verði litið svo á að tilboð sé valið á grundvelli verðs.

III.

Kærði bendir á að þegar hafi verið tekið einu tilboði í umræddu útboði. Það tilboð hafi verið langhagstæðast. Þá hafi tilboð kæranda ekki staðist þær kröfur sem gerðar hafi verið í útboðsgögnum.

Rangt sé að kærði falli undir 3. gr. laga um opinber innkaup nr. 94/2001. Hið rétta sé að ákvæði 6. gr. laganna taki til kærða, sbr. reglugerð nr. 705/2001, en með henni hafi ákvæði Evróputilskipunar um veitu- og samgöngufyrirtæki, sem kærði teljist vera, verið leidd í landsrétt.

IV.

Kærandi hefur í máli þessu krafist stöðvunar samningsgerðar, sbr. heimildir kærunefndar útboðsmála samkvæmt 80. gr. laga um opinber innkaup nr. 94/2001. Kærunefnd útboðsmála telur rétt að taka afstöðu til kröfunnar í ákvörðun þessari áður en endanlega er leyst úr efnislegum ágreiningi málsins. Í 1. mgr. 83. gr. laganna kemur fram að eftir að samningur hefur verið gerður verði hann ekki felldur úr gildi eða honum breytt þótt ákvörðun kaupanda um framkvæmd útboðs eða gerð samnings hafi verið ólögmæt. Í málinu liggur fyrir að kærði hefur tilkynnt með bréfi dagsettu 10. ágúst sl. að ákveðið hafi verið að ganga til samninga við ID Electronics ehf. á grundvelli tiltekin frávikstilboðs félagsins. Kærunefnd útboðsmála getur ekki gripið inn í þá samningsgerð. Þegar að þessu virtu verður að hafna kröfu kæranda um stöðvun samningsgerðar.

Ákvörðunarorð:

Kröfu kæranda, Pfaff – Borgarljósa hf., um stöðvun samningsgerðar í útboði kærða, Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar hf., auðkenndu „Endurnýjun hljóðkerfis" er hafnað.

Reykjavík, 23. ágúst  2005

Páll Sigurðsson

Stanley Pálsson

Sigfús Jónsson

Rétt endurrit staðfestir,

Reykjavík, 23. ágúst 2005.

 Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn