Hoppa yfir valmynd
13. september 2005 Innviðaráðuneytið

Stjórnarráðsvefurinn og aðgengismál

Í stefnu ríkisstjórnarinnar Auðlindir í allra þágu - Stefna ríkisstjórnarinnar um upplýsingasamfélagið 2004-2007 segir meðal annars um aðgengismál:

Tryggt verði að rafræn þjónusta opinberra aðila taki mið af þörfum ólíkra hópa, s.s. blindra, sjónskertra og fatlaðra. Fyrirtæki verði hvött til að gera hið sama. Viðmið eða leiðbeiningar verði mótaðar af samráðshópi um stjórnarráðsvef í samráði við félagsmálaráðuneyti.
Ábyrgð: Forsætisráðuneyti og félagsmálaráðuneyti.

Í samræmi við ofangreint markmið hafa forsætis- og félagsmálaráðuneytis unnið að skýrslu um aðgengi fatlaðra að vefnum og liggja nú fyrir drög að skýrslu með tillögum um aðgerðir stjórnvalda. Þar er m.a. fjallað um hvernig vinna megi að því að rafræn þjónusta og vefsvæði opinberra aðila standist alþjóðleg viðmið, þýðingu alþjóðlegra reglna um aðgengismál á íslensku og viðmiðunarreglur hins opinbera.

Hvað hafa stjórnvöld gert?

Tekið er tillit til alþjóðlegra viðmiða
Á vef W3C - www3.org/WAI/ eru birtar viðmiðunarreglur sem hafa þarf í huga við vefsíðugerð til að tryggja aðgengi sem flestra hópa. Á honum er m.a. að finna mjög ítarlegar útlistanir á kröfum um aðgengi allra að vefnum, svo sem ýmis forgangsröðuð viðmið, tækni sem þarf að beita og gátlista fyrir notagildi vefs. Á stjórnarráðsvefurinn hefur verið tekið tillit til þessara krafna eftir því sem kostur er og stefnt er að því að fylgja þeim enn betur.

Endurhönnun stjórnarráðsvefs 2001 tók mið af þörfum fatlaðra
Við endurhönnun stjórnarráðsvefs árið 2001 var þess gætt að bæta aðgengi blindra og sjónskertra. M.a. var komið fyrir hnappi, sem hljóðgervlar skynja, efst á öllum síðum sem gerði notendum kleift að fara beint í stjórnborð vefsins eða beint í meginmál í stað þess að þurfa að lesa allar valmyndir á hverri síðu fyrst. Þá var þess einnig gætt að setja alt–texta á allar myndir og hnappa.

Reglubók bætir verklag
Í framhaldi af endurhönnun var tekin saman reglubók um vefinn þar sem tekið var á ýmsum þáttum varðandi verklag við innsetningu efnis, uppbyggingu vefsins, útlitsreglur, leturgerðir og stærðir. Sérstaklega var tekið á aðgengismálunum og reynt að tryggja einsleitni vefjanna eins og kostur var m.a. með samræmingu valmynda o.fl. Þá gekkst vefurinn undir notendaprófanir og voru niðurstöður þeirra notaðar til að þróa hann enn frekar. Haft var samráð við Öryrkjabandalagið sem gaf góð ráð varðandi aðgengismál.

Nýtt vefumsjónarkerfi 2004 bætir enn aðgengi
Með innleiðingu nýs vefumsjónarkerfis 2004 var enn stigið eitt skref í að bæta aðgengi blindra og sjónskertra að stjórnarráðsvefnum. T.d. er vefsíðum ráðuneytanna nú raðað sérstaklega saman fyrir þá sem nota hljóðgervla. Jafnframt er einsleitni vefjanna aukin til hagræðis fyrir notendur. Notast er við töflulaust html ásamt css-stílsniðum og auðveldar það mjög að bregðast við mismunandi þörfum ólíkra hópa.

Breytingar sem bæta aðgengi lesblindra
Um þessar mundir er unnið að breytingum á útliti vefja ráðuneytanna. Ekki er um byltingarkenndar breytingar að ræða heldur er byggt á fyrri hönnun. Þannig kemur leiðarkerfi vefjanna til með að halda sér og helstu atriði sem hafa einkennt stjórnarráðsvefinn. Bakgrunnur vefsíðna verður hvítur og komið verður fyrir hnappi sem bætir aðgengi lesblindra.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum