Hoppa yfir valmynd
4. október 2005 Innviðaráðuneytið

Rafræn þjónustuveita - Ísland.is

Mynd: Rafræn þjónustuveita - forsíða skýrslu
Mynd: Rafræn þjónustuveita - forsíða skýrslu

Í maí 2005 kom út skýrsla um rafræna þjónustuveitu ríkis og sveitarfélaga. Höfundur er Halla Björg Baldursdóttir, forsætisráðuneyti, og er skýrslan unnin sem lokaverkefni í MBA-námi hennar við Háskólann í Reykjavík. Tilefni skýrslunnar er verkefni í stefnu ríkisstjórnarinnar, Auðlindir í allra þágu, en þar segir: „Komið verði upp rafrænni þjónustuveitu sem gegni lykilhlutverki í miðlun upplýsinga og rafrænnar stjórnsýslu. Hún verði miðuð við þarfir innlendra og erlendra einstaklinga og fyrirtækja sem eiga í samskiptum við opinbera aðila. Markmið hennar verði að auðvelda aðgengi að opinberri þjónustu á þann hátt að notandinn þurfi ekki að vita fyrirfram hvaða stofnun veitir þá þjónustu sem hann þarf á að halda. Þjónustan verður aðgengileg alla daga ársins, allan sólarhringinn.“

Stjórnendasamantekt

Tilgangur skýrslunnar er að svara því hvernig rafrænni þjónustuveitu fyrir stjórn­sýsluna eigi að vera háttað og hvernig eigi að standa að því að innleiða hana. Stofnun rafrænnar þjónustuveitu er liður í stefnu ríkisstjórnarinnar um upplýsinga­samfélagið fyrir árin 2004-2007. Verkefnið er á ábyrgð forsætisráðuneytis.

Rafræna þjónustuveitu má skilgreina sem eins konar hlið eða gátt inn í stjórnsýsluna sem opnar nýjar leiðir til að nálgast eina eða fleiri gerðir rafrænnar þjónustu án tillits til þess hvaða stofnun eða stofnanir bera ábyrgð á henni. Markmiðið er að bæta og einfalda aðgengi að stjórnsýslunni, lækka kostnað og auka gæði þjónustunnar.

Þessar nýju leiðir snúast ekki eingöngu um tæknibreytingar, heldur mun fremur um breytingar á innri ferlum og menningu stofnana. Þroskaferli rafrænnar þjónustu má skipta í fernt, einfalt vefaðgengi, gagnvirk samskipti, samþættingu ferla og þjónustu eftir þörf, þvert á stofnanir. Erfiðasti hjallinn er talinn vera milli annars og þriðja skrefs.

Ísland er framarlega í alþjóðlegum könnunum varðandi rafræna þjónustu og rafræna færni, en kannanirnar gefa þó vísbendingar um verkefni sem brýnt er að framkvæma til að landið verði áfram í fremstu röð upplýsingasamfélaga. Einnig er hið pólitíska, efnahagslega, samfélagslega og tæknilega umhverfi að mestu leyti hagstætt. Eitt erfiðasta atriðið varðandi rafræna þjónustu er að tryggja öryggi upplýsinga og gefa þarf því sérstakan gaum.

Rafræn þjónustuveita, Ísland.is, mun verða sett saman úr mörgum einingum sem saman mynda eina heild. Þar mun verða upplýsingagátt með fræðslu um þjónustu allra opinberra aðila, óháð stofnanaskipulagi. Smám saman mun bætast við þróaðri rafræn þjónusta. Má þar nefna til dæmis þjónustu eins og skrán­ingu á nýju fyrirtæki, umsóknir um leyfi og skírteini, tilkynningu um búsetuskipti og aðgang að félagslegri þjónustu. Mikilvægt er að öll verkefnin byggi á skýrum viðskipta­áætlunum.

Yfir marga erfiða hjalla er að fara til að ná markmiðum með rafrænni þjónustuveitu og því þarf samhliða að huga að verkefnum sem undirbúa jarðveginn og leysa vandamál sem margir eiga við að glíma. Dæmi um slík verkefni eru staðlar, rafrænn gagnaflutningur og rafrænar undirskriftir.

Enn fremur þarf við val verkefna og forgangsröðun að leitast við að taka mið af markmiðum um rafræna þjónustuveitu en ekki síður af raunveru­legum aðstæðum og því umhverfi sem verið er að fást við. Þannig er mikilvægt að velja verkefni sem nýtast sem flestum, eru fjárhagslega raunhæf, skila árangri tiltölulega fljótt og eru ekki mjög áhættusöm.

Velja þarf rekstrarform sem líklegt er til að sameina stofnanir og stuðla að samvinnu á milli þeirra. Lagt er til að stofnuð verði sérstök rekstrareining um rafræna þjónustu­veitu sem legði megináherslu á þjónustu við almenning og fyrirtæki. Rekstrar­einingin yrði annað hvort stofnuð sérstaklega í þessum tilgangi eða sett undir hatt einhvers fyrirtækis.

Rafræn þjónustuveita snertir alla stjórnsýsluna, bæði ríki og sveitarfélög. Huga þarf að þessu þegar settur er skipulagslegur rammi um þjónustuveituna. Gert er ráð fyrir stýrihópi með fulltrúum stjórnsýslu, ríkisstofnana og sveitarfélaga. Einnig er gert ráð fyrir að ráðinn verði framkvæmdastjóri til að koma verkefninu af stað og hafa yfirumsjón með útfærslu og framkvæmd. Auk þessa þarf að skipa samráðshópa með sem breiðustum hópi frá ríki og sveitarfélögum ásamt fulltrúum atvinnulífsins.

Gert er ráð fyrir að undirbúningur að rafrænni þjónustuveitu hefjist þegar á árinu 2005 og að vefnum http://www.island.is verði hleypt af stokkunum um mitt ár 2006. Áætlað er að hann muni í fyrstu vera að mestu upplýsingalegs eðlis en ný sérþjónusta bætist við smám saman.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum