Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Mál nr. 26/2005. Úrskurður kærunefndar útboðsmála:

Úrskurður kærunefndar útboðsmála 12. október 2005

í máli nr. 26/2005:

HR Sölvason ehf.

gegn

Ríkiskaupum f.h. Fjölbrautaskóla Suðurnesja

Með bréfi dagsettu 8. september 2005 sem barst kærunefnd útboðsmála 9. september s.á., kærir H.R. Sölvason ehf. þá ákvörðun Ríkiskaupa f.h. kærða að hafna tilboði kæranda í útboðin nr.13869, auðkennt sem Ræsting húsnæðis Fjölbrautaskóla Suðurnesja.

Kærandi gerir eftirfarandi kröfur í málinu:

  1. að samningagerð verði stöðvuð um stundarsakir hafi samningar við ISS á Íslandi ehf. ekki þegar verið undirritaðir,
  2. að ákvörðun Ríkiskaupa, frá 20. júlí 2005, um að HR Sölvason ehf. uppfylli ekki hæfniskröfur útboðsins, verði felld úr gildi,
  3. að ákvörðun Ríkiskaupa, frá 20. júlí 2005, um að ganga til samninga við ISS á Íslandi ehf. verði felld úr gildi og útbjóðanda gert að ganga til samninga við kæranda, til vara að útboðið verði ógilt og bjóðenda gert að bjóða verkið út að nýju, hafi samningar ekki þegar verið undirritaðir, til þrautavara, hafi þegar verið samið við ISS á Íslandi ehf., að nefndin láti í ljós álit sitt á skaðbótaskyldu útbjóðanda á tjóni kæranda,
  4. að útbjóðanda verði í öllum tilvikum gert að greiða kostnað kæranda við gerð tilboðsins auk kostnaðar vegna aðstoðar lögmanns við rekstur málsins fyrir kærunefndinni.

Ríkiskaup gera þá kröfu, f.h. kærða, að hafnað verði kröfu kæranda um stöðvun samningskaupaferilsins og kærunni vísað frá eða hafnað.

I.

Af gögnum málsins verður ráðið að Ríkiskaup f.h. kærða, bauð út í maí 2005 ræstingar á húsnæði kærða. Húsnæðið sem verkið skyldi ná til er 7400 fermetrar að gólffleti. Um var að ræða opið EES-útboð. Opnunartími tilboða skyldi vera 30. júní 2005. Í ákvæði 1.2.1 útboðsgagna kom fram krafa um hæfi bjóðenda. Sagði þar að hæfi bjóðenda yrði metið á grundvelli þeirra upplýsinga sem bjóðendur sendu inn með tilboðum sínum, svo og annarra þeirra upplýsinga sem Ríkiskaup kynnu að óska eftir. Þá kom fram að krafist væri að bjóðendur hefðu að minnsta kosti eins árs reynslu af sambærilegu verki.

Í ákvæði 1.2.3 útboðsgagna kom fram að við mat á tilboðum yrði litið til heildarverðs sem gilti 70% á móti reynslu og áreiðanleika bjóðenda (25%) og tæknilegri getu (5%).

Kærandi var einn bjóðenda í hinu kærða útboði. Með tölvubréfi 20. júlí 2005 var kæranda tilkynnt að ákveðið hefði verið að ganga til skýringarviðræðna við ISS á Íslandi ehf. þar sem tilboð þeirra hefði verið hagstæðast. Tilboð kærenda hefði ekki uppfyllt hæfiskröfur útboðsins og þar af leiðandi ekki komið til mats. Kærandi óskaði rökstuðnings fyrir ákvörðuninni með tölvubréfi 21. júlí. Rökstuðningur barst kæranda 22. júlí 2005 með tölvubréfi. Í tölvubréfinu sagði:

„Í útboðslýsingu kafla 1.2.1 Kröfur um hæfi bjóðenda stendur m.a. "þess er krafist að bjóðendur hafi amk. eins árs reynslu af sambærilegum verkefnum". Bjóðandi er fyrirtækið Ræstingaþjónusta HR Sölvason ehf. kt. 410604-3290. Samkvæmt Hlutafélagaskrá og fyrirtækjaskrá Lánstrausts hf. er dagsetning samþykkta félagsins 03.08.2004 og uppfyllir því félagið ekki áðurnefnda grein í útboðsgögnum."

Kærandi kærði svo tilgreint útboð með bréfi til kærunefndar útboðsmála, dags. 8. september 2005. Kærði kom að sínum sjónarmiðum með bréfi, dags. 26. september 2005, og kærandi sendi sjónarmið sín við bréfi kærða, sbr. bréf, dags. 3. október sl.

II.

Kærandi byggir kröfu sína um að samningsgerð verði stöðvuð um stundarsakir á 80. gr. laga nr. 94/2001 um opinber innkaup. Telji kærandi ljóst, með vísan til þess sem rakið verður síðar að brotið hafi verið gegn lögum um opinber innkaup.

Kærandi gerir kröfu um að ákvörðun Ríkiskaupa, frá 20. júlí 2005, um að kærandi uppfylli ekki hæfniskröfur útboðsins, verði felld úr gildi. Í því sambandi sé vísað til þess að í útboðsgögnum sé fjallað um þær kröfur sem gerðar séu til hæfis bjóðenda í kafla 1.2.1. Þar segi að hæfi bjóðenda verði metið á grundvelli þeirra upplýsinga sem bjóðendur sendi inn með tilboðum sínum og annarra upplýsinga sem Ríkiskaup kunni að óska eftir. Eitt skilyrði sé sett um hæfi bjóðenda, svohljóðandi: „Hafi a.m.k. eins árs ( er þetta nóg ???) reynslu af sambærilegu verkefni."

Í fyrsta lagi verði að telja að framangreint skilyrði í grein 1.2.1. í útboðsgögnum sé ólögmætt þar sem það samræmist ekki skilyrðum um hæfi bjóðenda sem fram koma í 28. gr. laga um opinber innkaup nr. 94 frá 2001. Þar séu tæmandi talin skilyrði sem setja megi um hæfi bjóðenda. Óheimilt og ólögmætt sé því að setja frekari skilyrði um hæfi bjóðenda og vísa tilboðum frá á þeim forsendum. Að auki skuli tekið fram að ekkert af þeim atriðum sem valdið geti frávísun skv. 28. gr. eigi við um kæranda. Þegar af þessum sökum sé augljóst að ólögmætt hafi verið að vísa tilboði kæranda frá.

Fyrst kaupandi hafi talið, þrátt fyrir framangreint, að heimilt hafi verið að vísa tilboði kæranda frá hafi honum borið, skv. 2. mgr. 28. gr. sömu laga, að gefa kæranda tækifæri til að bera hugsanlega frávísunarástæður af sér með opinberu vottorði eða málefnalegum sjónarmiðum.

Í öðru lagi, verði ekki fallist á að umrætti skilyrði sé ólögmætt, telji kærandi augljóst að hann uppfylli skilyrðið enda hafi félagið áratuga reynslu af ræstingum eins og gerð hafi verið grein fyrir í málavaxtalýsingu kæranda og fram hafi komið í fylgiskjölum. Beri orðspor félagsins, sbr. vitnisburð viðskiptavina þess sem fylgdi tilboði kæranda, órækt vitni um reynslu þess og um gæði vinnu félagsins. Breytingar á eignarhaldi og samþykktum breyti auðvitað engu um reynslu kæranda eða starfsmanna hans. Í þessu sambandi megi benda á að viðskiptavinir kæranda virðast ekki líta svo á að þeir hafi átt viðskipti við annað félag þrátt fyrir breytingar á eignarhaldi og samþykktum sbr. orðalag meðmælabréfs Sparisjóðsins í Keflavík, dags. 29. júní 2005. Frávísun tilboðs kæranda sé því einnig ólögmæt af þeim sökum að kærandi hafi augljóslega uppfyllt skilyrði útboðsgagna um eins árs reynslu af sambærilegum verkefnum.

Í þriðja lagi bendi kærandi á að jafnvel þó orðalag greinar 1.2.1 í útboðsgögnum væri túlkað með þeim hætti, eins og ýjað er að í rökstuðningi, þ.e. að fyrirtækið hafi þurft að hafa starfað í eitt ár, þá uppfylli kærandi þá kröfu samkvæmt orðanna hljóðan. Félagið hafi verið stofnað 24. maí 2004 samkvæmt stofngerð og samþykktum og tilkynnt til skráningar þann 29. maí 2004. Rangt sé því að kærandi sé "innan við árs gamalt" félag eins og haldið sé fram í rökstuðningi. Frá maí 2004 hafi félagið starfað að ræstingaþjónustu eins og það hafði gert áratugina áður. Breyting á félagsformi eða eignaraðild breyti engu um þá reynslu sem starfsmenn hafi yfir að ráða en það sé auðvitað það sem hæfi bjóðenda snýst um.

Þá verði að gera þær kröfur til verkkaupa að skilyrði sem lúti að hæfi bjóðenda séu ótvíræð og skýr enda varði þau bjóðendur miklu. Óskýr skilyrði um hæfi verður annað tveggja að túlka bjóðendum í vil eða meta þau sem ógild. Tilvísun í rökstuðningi útbjóðanda um að skilyrðið sé "...sett til að tryggja verkkaupa að væntanlegur verksali hafi samfelldan rekstur yfir nokkurt tímabil." Sé jafn óljós og skilyrðið sjálft. Óljóst sé hvort með því sé verið að vísa til starfsreynslu eða fjárhagslegar getu.

Minnt sé á að við framkvæmd opinberra innkaupa verði bjóðendur að hafa í huga skilin milli hæfis bjóðenda annars vegar og tilboðs þeirra hins vegar. Í kafla 1.2.3 í útboðsgögnum, um val á samningsaðila, sé gert ráð fyrir að reynsla og áreiðanleiki bjóðenda nemi 25% við val á samningsaðila, þ.e. aldur fyrirtækis við ræstingar, umsagnir, meðmæli og gæðastefna. Þá sé samkvæmt kafla 1.2.9, um verktryggingu í útboðslýsingu gert ráð fyrir að til tryggingar á réttum efndum samnings, á grundvelli útboðsins, skuli verksali leggja fram ábyrgð frá banka eða tryggingafélagi að upphæð 10% af samningsfjárhæð. Reynsla kæranda hafi því verið einn þáttur sem vega átt við mat á tilboði þeirra en varðaði ekki hæfi þeirra. Þá verði að telja tryggingu sem hafi verið gert að leggja fram skv. kafla 1.2.9. nægilega til að tryggja kaupenda gegn mögulegu fjárhagstjóni.

Kærandi leggur ennfremur áherslu á að í rökstuðningi fyrir því að félagið hafi ekki verið talið uppfylla ólögmætt hæfisskilyrði útboðsgagna, um a.m.k. eins árs reynslu af sambærilegu verkefni, vísi kærði eingöngu til þess að dagsetning samþykkta kæranda sé 3. ágúst 2004. Af þeirri dagsetningu dragi Ríkiskaup síðan þá ályktun að félagið uppfylli ekki framangreint hæfisskilyrði eða eins og þetta sé orðað í rökstuðningi Ríkiskaupa:

„Samkvæmt Hlutafélagaskrá og fyrirtækjaskrá Lánstrausts hf. er dagsetning samþykkta félagsins 03.08.2004 og uppfyllir því félagið ekki áðurnefnda grein í útboðsgögnum."

Eins og kunnugt sé geti einkahlutafélög breytt samþykktum sínum að vild að uppfylltri málsmeðferð í samræmi við ákvæði laga um einkahlutafélög nr. 138 frá 1994. Slíkar breytingar eða nýjar dagsetningar á samþykktum félags raski í engu hæfi eða stöðu félagsins gagnvart viðskiptavinum sínum í því sambandi sem hér um ræðir. Augljóst sé a.m.k. að af dagsetningu slíkra breytinga eða nýrra samþykkta verði ekki dregnar neinar ályktanir um aldur félags, reynslu af tilteknum störfum, fjárhagslega getu eða "...samfelldan rekstur." Það hafi Ríkiskaup hins vegar gert í tilviki kæranda og útilokaði tilboð hans þar með frá því að koma til skoðunar og kæranda þar með frá því að fá verkið. Ríkiskaup hafi því dregið ranga ályktun af fyrirliggjandi upplýsingum og byggt afstöðu sína um reynslu kæranda á röngum forsendum. Ákvörðunin um að vísa tilboði kærenda frá hafi því ekki eingöngu verið röng heldur jafnframt byggð á ómálefnalegu sjónarmiði. Frávísun tilboðs á slíkum forsendum sé ólögmæt.

Af framangreindu megi ljóst vera að ákvörðun Ríkiskaupa, um að vísa tilboði kærenda frá, sé ólögmæt a.m.k. af fimm ástæðum. Í fyrsta lagi sé hún ólögmæt þar sem sett hafi verið skilyrði um hæfi bjóðenda sem ekki sé í samræmi við 28. gr. laga um opinber innkaup. Í öðru og þriðja lagi þar sem tilboði kæranda hafi verið vísað frá þrátt fyrir að félagið væri hæft samkvæmt skilyrðinu. Í fjórða lagi þar sem telja verði skilyrði ógilt vegna óskýrleika. Í fimmta lagi þar sem ályktun um meint reynsluleysi kæranda og rökstuðningur fyrir frávísun tilboðsins hafi byggt á ómálefnalegum og ólögmætum sjónarmiðum þar sem niðurstaðan hafi byggt á dagsetningu samþykkta sem ekki geti gefið neina vísbendingu um aldur eða reynslu félags.

Kærandi gerir kröfu um að ákvörðun kærða, frá 20. júlí 2005, um að ganga til samninga við ISS á Íslandi ehf. verði felld úr gildi og útbjóðanda gert að ganga til samninga við kæranda, til vara að útboðið verði ógilt og kaupanda gert að bjóða verkið út að nýju, hafi samningar ekki þegar verið undirritaðir, til þrautavara, hafi þegar verið samið við ISS á Íslandi ehf., að kærunefndin láti í ljós álit sitt á skaðbótaskyldu útbjóðanda á tjóni kæranda. Krafan um að fella úr gildi ákvörðunina um að ganga til samninga við ISS á Íslandi ehf. byggi á 1. mgr. 80. gr. laga um opinber innkaup nr. 94 frá 2001. Að auki verði að telja að með því að vísa tilboði kæranda frá hafi kaupandi brotið gegn 50. gr. laga um opinber innkaup nr. 94 frá 2001 þar sem frávísunin hafi leitt til þess að tilboð kæranda hafi ekki komið til mats. Telji kærendur að ef tilboð þeirra hefði komið til mats hefði það verið hagstæðara í skilningi laganna en það tilboð sem tekið hafi verið. Sé þess óskað að kærunefndin að staðreyni hagkvæmni tilboðana. Ólögmæt frávísun tilboðs hljóti annað tveggja að leiða til þess að fella beri úr gildi ákvörðun um að ganga til samninga við aðila sem á þeim forsendum hafi verið ákveðið að semja við eða til ógildingar útboðsins. Ljóst megi vera að tilgangur laganna, sem fram komi í 1. gr. þeirra, um að tryggja jafnræði við opinber innkaup, stuðli að virkri samkeppni og hagkvæmni í opinberum rekstri, næst ekki ef kaupendur geti, þrátt fyrir brot á lögunum, gert þá samninga sem þeim sýnist.

Þrautavarakröfu sína, um að nefndin láti í ljós álit sitt á skaðbótaskyldu útbjóðanda á tjóni kæranda, hafi þegar verið samið við ISS á Íslandi ehf., styðji kærandi við 2. mgr. 81. gr. laga um opiber innkaup nr. 94 frá 2001 og hlutlægu bótaábyrgðarreglu 1. mgr. 84. gr. sömu laga. Um brot á lögunum vísi kærandi til málsástæðna og lagaraka að framan. Kærandi telji að ef tilboði þeirra hefði ekki verið vísað frá hefði tilboð þeirra verið metið hagkvæmara tilboði því sem ákveðið var að taka. Sé óskað eftir að kærunefndin staðreyni það.

Kröfu sína um að kærða verði gert að greiða kostnað kæranda við gerð tilboðsins styðji kærandi við 1. mgr. 84. gr. laga um opinber innkaup nr. 94 frá 2001. Þann hluta kröfunnar, sem líti að kostnaði við rekstur kærumáls fyrir nefndinni, styðji kærandi við 3. mgr. 81. gr. sömu laga. Ljóst sé að með ólögmætum athöfnum sínum hafi kaupandi knúið kæranda til að reka kærumál fyrir nefndinni. Kostnaður kæranda sé þegar orðinn kr. 263.777,-.

III.

Kærði byggir á því að kærufrestur hafi verið liðinn er kæra hafi verið sett fram. Kærandi hafi fengið gögnin 14. júní 2005 og hafi því borið að kæra eigi síðar en 12. júlí það ár, sbr. 78. gr. laga um opinber innkaup nr. 94/2001.

Kærði mótmælir stöðvunarkröfu þar sem samningur við ISS á Íslandi ehf. hafi verið undirritaður 16. ágúst 2005 og hafi þá verið kominn á bindandi samningur sem ekki verði rift.

Kærði byggir á því að ekki sé hægt að fella úr gildi þá ákvörðun Ríkiskaupa að kærandi hafi ekki uppfyllt hæfiskröfur útboðsins, enda hafi sú ákvörðun byggt á útboðslýsingu og upplýsingum í tilboði bjóðanda. Til að unnt sé að meta hæfi bjóðenda þurfi að liggja fyrir upplýsingar þar að lútandi. Í útboðslýsingu hafi komið fram í gr. 1.2.1 að hæfi bjóðenda yrði metið á grundvelli upplýsinga frá bjóðendum. Þess hafi verið krafist að bjóðendur hefðu a.m.k. eins árs reynslu af sambærilegum verkefnum. Heimild til að fara fram á skilyrði um hæfi sé að finna í 31. gr. laga um opinber innkaup nr. 94/2001. Bjóðandi samkvæmt tilboðsblaði hafi ekki verið kærandi heldur einkahlutafélagið Hilmar R. Sölvason, sem samkvæmt upplýsingum úr fyrirtækjaskrá gerði samþykktir 3. ágúst 2004. Öll fylgigögn kæranda byggðust á fyrirtækinu Hilmar R. Sölvason ehf. Samkvæmt fylgigögnum kæru hafi orðið eigendaskipti á félaginu en kærandi hafi ekki lagt fram nein gögn sem hafi stutt fullyrðingar hans um reynslu að ræstingarstörfum. Af því leiðir að kærði hafi engar forsendur haft til að meta reynslu fyrirtækisins því til tekna. Samkvæmt gögnum hafi ekkert bent til þess að kærandi hafi haft eins árs reynslu svo sem áskilið hafi verið.

Þar sem skilyrði hafi verið um eins árs reynslu hafi umbeðið gögn átt að fylgja tilboði og óheimilt sé samkvæmt jafnræðisreglu að gefa bjóðendum kost á að bæta við upplýsingum eftir opnun tilboða. Engar upplýsingar um starfsemi fyrirtækisins hafi fylgt tilboði, ekki heldur upplýsingar um fjölda starfsmanna og reynslu þeirra af ræstingu.

IV.

Kærandi gerir í málinu kröfu um stöðvun samningsgerðar. Fyrir liggur að samningur var gerður við ISS á Íslandi ehf. þann 16. ágúst 2005. Þegar af þeirri ástæðu og með vísan til 83. gr. laga um opinber innkaup nr. 94/2001 verður að hafna kröfu kæranda um stöðvun samningsgerðar.

Kærði byggir á því að kæra kæranda hafi verið sett fram eftir að kærufrestur samkvæmt 78. gr. laga um opinber innkaup nr. 94/2001 rann út. Samkvæmt ákvæðinu skal kæra borin upp skriflega fyrir kærunefnd útboðsmála innan fjögurra vikna frá því að kærandi vissi eða mátti vita um ákvörðun, athöfn eða athafnaleysi sem hann telur brjóta gegn réttindum sínum. Kærandi fékk bréf frá Ríkiskaupum 20. júlí 2005 þar sem tilkynnt var að tilboð félagsins hafi ekki uppfyllt hæfiskröfur útboðsins og hafi þar af leiðandi ekki komið til mats. Kærandi óskaði rökstuðnings fyrir þessari ákvörðun. Rökstuðningur var settur fram 22. júlí 2005. Kæra var send nefndinni 19. ágúst 2005 eða nákvæmlega fjórum vikum eftir að rökstuðningur barst kæranda. Eins og málum er hér háttað verður að líta svo á að upphafi kærufrestst hafi verið 22. júlí 2005 þegar rökstuðningur barst honum. Var því kæran sett fram innan hins lögbundna kærufrests.

Í máli þessu deila aðilar meðal annars um það hvort kærandi hafi uppfyllt þær hæfiskröfur sem kærði setti í útboðsgögnum. Um hæfi bjóðenda er fjallað í VI. kafla laga um opinber innkaup nr. 94/2001. Í 28. gr. laganna er að finna heimild kaupanda til að vísa bjóðanda frá. Sú heimild á einkum við í tilvikum þar sem fjárhagsstaða bjóðanda er augljóslega þess eðlis að hann er ekki fær að standa við skuldbindingar sem felast í samningsgerð að undangengnum útboðum. Í 29. gr. laganna segir að þess megi krefjast að bjóðandi sýni fram á að hann sé skráður í fyrirtækjaskrá, eða sambærilega skrá samkvæmt þeim reglum sem gilda í því landi þar sem hann hefur staðfestu. Í 30. gr. er fjallað um fjárhagsstöðu bjóðanda. Þar segir m.a. að fjárhagsstaða bjóðanda skuli vera það trygg að hann geti staðið við skuldbindingar sínar gagnvart kaupanda, sbr. 1. mgr. ákvæðisins. Þá kemur fram í 2. mgr. efnislega að bjóðandi geti að jafnaði fært sönnur á þessa getu sína með því að leggja fram gögn frá bönkum eða staðfestar veltutölur. Í útboðsgögnum skal koma fram hvaða gögn krafist er að bjóðandi leggi fram eða kunni á síðari stigum að verða beðinn um að leggja fram. Í 31. gr. laganna kemur fram að tæknileg geta bjóðanda skuli vera það trygg að hann geti staðið við skuldbindingar sínar gagnvart bjóðanda. Í þeim tilgangi að sýna fram á hina tæknilegu burði sína getur bjóðandi meðal annars lagt fram vottorð um efndir helstu samninga síðastliðin þrjú ár þegar um er að ræða útboð á vöru og þjónustu, en fimm ár þegar um verk er að ræða, sbr. a-lið 2. mgr. 31. gr. Þá getur hann sýnt fram á tæknilega getu með lýsingu á fjölda starfsmanna, tæknibúnaði og aðferðum til að tryggja gæði, sbr. b-lið, með upplýsingum um menntun og hæfni starfsmanna, sbr. c-lið. Í útboðsgögnum skal koma fram hvaða gögn krafist er að bjóðandi leggi fram eða kunni á síðari stigum að verða beðinn um að leggja fram, sbr. 3. mgr. 31. gr. laganna. Ekki skal krefja um frekari gögn en nauðsynlegt er með hliðsjón af eðli og umfangi þess sem óskað er kaupa á.

Af tilgreindum reglum VI. kafla laga um opinber innkaup leiðir að kaupandi getur gert þá kröfu til bjóðenda að þeir sýni fram á fjárhagslega og tæknilega getu sína til að geta tekist á við skuldbindingar sem felast í samningsgerð um verk, vöru eða þjónustu að undangengnu útboði. Ljóst er, m.a. af ákvæðum 31. gr. laganna, að kaupandi getur gert ríkar kröfur til bjóðenda að þessu leyti. Í þessum heimildum kaupanda felst hins vegar ekki að hann geti farið fram á upplýsingar án þess að bjóðendur viti tilgang þess að þeir þurfi að leggja þær fram. Þannig gilda sambærileg sjónarmið um heimildir kaupanda til að fara fram á upplýsingar og gilda um val hans á tilboði á grundvelli VIII. kafla laga um opinber innkaup, þ.e. að bjóðendur viti fyrirfram hvaða kröfur nákvæmlega eru geðar um hæfi þeirra rétt eins og þeir viti á hvaða forsendum val á hagstæðasta tilboði byggir.

Samkvæmt útboðslýsingu var gerður áskilnaður um reynslu bjóðenda. Sagði í ákvæði 1.2.1:

Hæfi bjóðenda verður metið á grundvelli þeirra upplýsinga sem þeir senda inn með tilboðum sínum, svo og annarra þeirra upplýsinga sem Ríkiskaup kunna að óska eftir.

Þess er krafist að bjóðendur uppfylli eftirfarandi skilyrði:

Hafi a.m.k. eins árs [...] reynslu af sambærilegu verkefni.

Samkvæmt þessu var eini áskilnaðurinn, sem var fyrirsjáanlegur og gegnsær, krafan um eins árs reynslu. Þá kröfu verður að telja nokkuð hóflega í ljósi eðlis og umfangs útboðsins. Önnur tilgreind skilyrði lutu ekki að atriðum sem bjóðendur gátu áttað sig á. Það ákvæði að hæfi bjóðenda yrði „metið á grundvelli þeirra upplýsinga sem þeir senda inn með tilboðum sínum, svo og annarra þeirra upplýsinga sem Ríkiskaup kunna að óska eftir" er óskýrt og í andstöðu við kröfur laga um opinber innkaup um að bjóðendur átti sig á með auðveldum hætti á hverju kaupandi hyggst byggja við mat á hæfni, sbr. 3. mgr. 32. gr. laganna.

Eru samkvæmt framansögðu nokkrir annmarka á þeim hluta útboðsgagna sem lutu að sönnun bjóðenda á hæfi þeirra. Hvað sem því líður verður, svo sem hér að framan er getið, að teljast eðlilegt að kaupandi hafi gert kröfu um nokkra reynslu bjóðenda. Samkvæmt reglum VI. kafla laga um opinber innkaup hvíldi það á kæranda að sýna að hann uppfyllti kröfu kæranda um reynslu. Verður ekki annað ráðið af gögnum málsins en að kærandi hafi ekki gert reka að því að sýna fram á eigin reynslu. Lágu þannig einungis fyrir gögn um félagið Hilmar R. Sölvason ehf. en kennitala þess félags gaf til kynna að það hefði hafið starfsemi árið 1993. Fyrir opnun tilboða stendur það upp á bjóðendur að sýna fram á að þeir uppfylli hæfiskröfur í samræmi við kröfur sem gerðar eru í útboðsgögnum en ekki kaupanda að aðstoða hann í þeim efnum með því að óska eftir frekari gögnum. Breytir engu í þessu sambandi þó kærða hafi verið heimilt að gefa kæranda færi á að auka við framkomin gögn, sem sýna áttu fram á hæfi kæranda, eða skýra þau á hvaða stigi útboðsins sem var, sbr. 32. gr. laga um opinber innkaup. Af gögnum málsins virtum verður því að telja að kærandi hafi ekki sýnt fram á þá reynslu sem af honum var krafist. Breytir heldur ekki niðurstöðu nefndarinnar þó kærði hafi við val á samningsaðila ætlað að miða bæði við hæfni og hagkvæmni tilboða, sbr. ákvæði 1.2.3 útboðsgagna, en það er í brýnni andstöðu við ákvæði laga um opinber innkaup og fyrri úrskurði kærunefndar útboðsmála, sbr. t.d. í máli nr. 2/2005. Með vísan til alls framangreinds er því óhjákvæmilegt að hafna öllum kröfum kæranda í máli þessu.

Úrskurðarorð:

Kröfum kæranda, HR. Sölvasonar ehf., vegna útboðs Ríkiskaupa f.h. Fjölbrautaskóla Suðurnesja nr. 13869, auðkennt sem „Ræsting húsnæðis Fjölbrautaskóla Suðurnesja", er hafnað.

 

Reykjavík, 12. október 2005

Páll Sigurðsson

Sigfús Jónsson

Stanley Pálsson

 

 

Rétt endurrit staðfestir,

Reykjavík, 12. október 2005.

 

 

 Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn