Hoppa yfir valmynd
12. október 2005 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Mál nr. 31/2005. Ákvörðun kærunefndar útboðsmála:

Ákvörðun kærunefndar útboðsmála 12. október 2005

í máli nr. 31/2005:

Flugfélag Vestmannaeyja ehf.

gegn

Ríkiskaupum f.h. Vegagerðarinnar

Með bréfi dagsettu 21. september 2005, sem barst kærunefnd útboðsmála sama dag, kærir Flugfélag Vestmannaeyja ehf. þá fyrirætlan Ríkiskaupa f.h. kærðu, að meta Landsflug ehf. sem gildan bjóðanda í útboði nr. 13783, auðkenndu sem „Áætlunarflug á Íslandi".

Kærandi gerir eftirfarandi kröfur í málinu:

Að kærunefnd útboðsmála stöðvi þegar í stað samningsferli í útboðinu og tilboði Landsflugs ehf. verði hafnað sem ógildu.

Að kærunefnd útboðsmála úrskurði kæranda kostnað við kærumálið samkvæmt síðar framlögðum gögnum.

Kærði gerir þá kröfu að málinu að kröfum kæranda verði hafnað.

I.

Í júlí 2005 óskuðu Ríkiskaup f.h. kærða Vegagerðarinnar eftir tilboðum í rekstur á tilteknum sex flugleiðum innanlands. Bjóðendum var gefinn kostur á að bjóða í allar flugleiðirnar eða tiltekinn hluta saman. Um var að ræða opið útboð á EES-svæðinu. Kærandi skilaði inn tilboðum sem og fjórir aðrir aðilar. Tilboð voru opnuð 16. ágúst 2005 að viðstöddum fyrirsvarsmönnum kæranda ásamt fleirum.

Kærandi sendi Ríkiskaupum bréf, dags. 17. ágúst 2005, þar sem fram kom að við opnun tilboða í útboðinu hafi verið meðal annars tilboð frá Landsflugi ehf. Bent var á að félagið hefði aðeins haft flurekandaskírteini í um 14 mánuði en samkvæmt útboðsgögnum skyldi handhafi slíks skírteinis hafa að minnsta kosti tveggja ára reynslu af flugrekstri við vetraraðstæður á norðlægum slóðum. Gögn málsins bera ekki með sér að erindi kæranda hafi verið svarað.

Kærandi kærði tilgreint útboð svo sem að framan greinir með kæru, dags. 21. september 2005. Kærði kom að sjónarmiðum sínum vegna stöðvunarkröfu með bréfi, dags. 4. október 2005.

II.

Kærandi byggir á því einn bjóðanda í hinu kærða útboði, Landsflug ehf., hafi ekki uppfyllt skilyrði útboðsgagna um hæfi bjóðenda. Strangar kröfur hafi verið gerðar til bjóðenda samkvæmt ákvæði 1.2 útboðsgagna, þar sem meðal annars hafi komið fram að gerðar væru kröfur um tveggja ára reynslu af flugrekstri við vetraraðstæður á norðlægum slóðum, minnst tveggja ára reynslu í aðflugum að flugvöllum sem hafi búnað til nákvæmnisflugs og minnst þriggja ára reynslu í aðflugum að flugvöllum sem eru einungis með búnað fyrir grunnaðflug með áherslu á hringvitaflug. Landsflug ehf. hafi aðeins haft tilskilin leyfi í rúmt ár, eða frá 7. júní 2004.

Við lestur greinargerðar Ríkiskaupa í máli kærunefndar útboðsmála nr. 28/2005 hafi kæranda verið ljóst að Ríkiskaup litu á Landsflug ehf. sem gildan bjóðanda en þar hafi sambærilegar kröfur verið gerðar til hæfis bjóðenda og í því útboði sem hér um ræði.

Kærandi bendi á að þau skilyrði sem sett hafi verið í ákvæðum útboðsgagna um hæfi bjóðenda séu eðlileg og málefnaleg. Þau störf sem bjóðendur bjóðist til að inna af hendi krefjist reynslu og þekkingar á sérstökum aðstæðum sem ekki verði aflað nema með tímanum.

III.

Kærðu krefjast þess að stöðvunarkröfu kæranda verði hafnað. Kærufrestur hafi verið liðinn þegar krafa kæranda hafi verið sett fram. Kærandi hafi ritað athugasemdir 17. ágúst 2005 þar sem hann hafi talið Landsflug ehf. ekki uppfylla skilyrði útboðsgagna um hæfi. Þá hafi kærandi vitað um ákvörðun, athöfn eða athafnaleysi sem hann telji brjóta gegn rétti sínum í skilningi 78. gr. laga um opinber innkaup nr. 94/2001.

Erindi kæranda frá 17. ágúst 2005 hafi verið sett fram sem athugasemd og ekki hafi verið óskað svars, enda hafi erindið ekki gefið tilefni til svara. Það sé venja hjá kærða að leggja mat á gildi allra tilboða samtímis og vísa ógildum tilboðum ekki frá sérstaklega.

Kærði mótmæli því að hann hafi tekið afstöðu til tilboðs Landsflugs ehf. í kærumáli sem rekið sé hjá kærunefnd útboðsmála (mál nr. 28/2005). Kærandi hafi verði viðstaddur opnun tilboða í útboði 13788 og hafi þá verið með vitneskju um að Landsflug ehf. væri á meðal bjóðenda og hafi mátt vita að það kæmi til skoðunar þar sem tilboðsfjárhæðir hafi verið lesnar upp og bókaðar á opnunarfundi. Þar hafi Landsflug verði með tvö lægstu tilboðin.

Í útboðsgögnum komi fram að tilgangur með ákvæðum útboðsgagna um hæfi bjóðenda sé að tryggja sem best öryggi notenda þeirrar þjónustu sem boðin sé út og því geti óreyndur aðili ekki komið til greina sem verktaki. Eðli verksins vegna geti hver mistök verið alvarleg og jafnvel kostað mannslíf. Með tilboði Landsflugs ehf. hafi fylgt greinargerð þar sem fram hafi komið upplýsingar um bjóðanda, starfsstöðvar hans, flugvélakost bjóðanda, staðfestingu á því að öllum kröfum til flugvéla sé fullnægt og upplýsingar um reynslu bjóðanda/stjórnanda/undirverktaka sem nýtist við rekstur sjúkraflugs. Þar komi einnig fram að Flugtaxi ehf., sem nú sé Landsflug ehf., hafi verið stofnað árið 2003 í þeim tilgangi að skilja rekstur innanlandsdeildar Íslandsflugs frá erlendri starfssemi félagsins, en við stofnunina hafi Flugtaxi tekið við öllum flugrekstri innanlandsdeildar frá Íslandsflugi og hafi nánast haldið öllum þeim starfsmönnum sem hafi starfað í þeim hluta rekstrarins ásamt tækjum og búnaði. Með erindi, dags. 2. september 2005, hafi Landsflug ehf. umbeðið gert betri grein fyrir hæfi sínu, en þar komi fram að fyrirtækið hafi verið stofnað í þeim tilgangi að skilja í sundur rekstur innanlandsdeildar Íslandsflugs frá erlendri starfssemi félagsins. Hér sé um að ræða þróun sem sé algeng í dag þar sem kröfur hluthafa um að hver og ein rekstrareining innan fyrirtæja skuli vera sjálfbær og geti skilað arði. Þar sem innanlandsdeild Íslandsflugs ehf. hafi verið gerð að sjálfstæðu fyrirtæki, Flugtaxa ehf., síðar Landsflugi ehf., verði að líta svo á að um sama rekstraraðila sé að ræða hvað þetta varði og beri fyrst og fremst að líta á uppsafnaða reynslu innan fyrirtækisins við framkvæmd á útboðinnni þjónustu.

Íslandsflug ehf. hafi verið metið hæft í að undangengnu útboði í september 2000 en í því útboði hafi verið gerðar sömu kröfur til bjóðenda og í hinu kærða útboði til að annast sjúkraflug á Vestfjarðarsvæði og suðursvæði fyrir heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti og Tryggingastofnun ríkisins tímabilið apríl 2001 til loka þessa árs. Með samkomulagi hafi Flugtaxi ehf. og síðar Landsflug ehf. verið samþykktur sem undirverktaki í þeim samningi og annist Landsflug ehf. það flug í dag.

IV.

Kærunefnd útboðsmála telur rétt að taka afstöðu til framkominnar stöðvunarkröfu kæranda en leysa endanlega úr efnisatriðum kærunnar síðar. Samkvæmt 1. mgr. 80. gr. laga um opinber innkaup nr. 94/2001 hefur kærunefnd útboðsmála heimild til að stöðva samningsgerð þar til endanlega hefur verið skorið úr kæru.

Í ákvörðun kærunefndar útboðsmála 5. september 2005 í máli nr. 28/2005, var fallist á kröfu kæranda í því máli, Flugfélags Íslands ehf., að stöðva samningsgerð í útboði nr. 13783, auðkennt „Áætlunarflug á Íslandi". Kærandi krefst í máli þessu að samningsgerð verði stöðvuð í þessu sama útboði. Með vísan til þess augljósa ómöguleika sem stendur í vegi fyrir því að stöðva samningsgerð útboðs, sem þegar hefur verið stöðvuð, verður að vísa framkominni stöðvunarkröfu frá kærunefnd útboðsmála.

Ákvörðunarorð:

Kröfu kæranda, Flugfélags Vestmannaeyja ehf., um stöðvun samningsgerðar í kjölfar útboðs Ríkiskaupa f.h. kærðu, Tryggingastofnun ríkisins og heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu nr. 13783, auðkennt „Áætlunarflug á Íslandi", er vísað frá kærunefnd útboðsmála.

Reykjavík, 12. október 2005

Páll Sigurðsson

Sigfús Jónsson

Stanley Pálsson

Rétt endurrit staðfestir,

Reykjavík, 12. október 2005.

 

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum