Dómsmálaráðuneytið

Mannanafnanefnd, úrskurðir 31. október 2005

Fundargerð

Fundur í mannanafnanefnd haldinn mánudaginn 31. október 2005. Mætt voru Kolbrún Linda Ísleifsdóttir (KLÍ) og Baldur Sigurðsson (BS). Erlendur Jónsson (ES) var fjarverandi en hafði verið í síma- og tölvupóstssambandi við fundarmenn vegna afgreiðslu neðan-greindra mála.

Eftirfarandi mál voru tekin fyrir:

 

Ár 2005, mánudaginn 31. október er fundur haldinn í mannanafnanefnd. Fyrir er tekið:

 

mál nr.  98/2005

 

Eiginnafn:                         Dreki (kk.)

 

Kveðinn er upp svohljóðandi úrskurður:

 

Í beiðni er óskað eftir millinafni en í símtali við úrskurðarbeiðanda ( Dagbjart Ingvar Arilíusson, 17. október 2005) kom fram að í reynd er óskað eftir eiginnafni.

 

Eiginnafnið Dreki tekur eignarfallsendingu (Dreka) og telst að öðru leyti uppfylla ákvæði 1. mgr. 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn. Því ber að fallast á eiginnafnið Dreki.

 

Úrskurðarorð:

 

Beiðni um eiginnafnið Dreki er tekin til greina og skal það fært á mannanafnaskrá, en þó ekki fyrr en beiðni um skráningu nafnsins hefur borist Hagstofu Íslands.

  

 

mál nr.  99/2005

 

Eiginnafn:                         Leo (kk.)

  

Kveðinn er upp svohljóðandi úrskurður:

 

Eiginnafnið Leo tekur eignarfallsendingu (Leos) og telst hafa áunnið sér hefð í samræmi við 1. mgr. 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn, sbr. og vinnureglur mannanafna-nefndar frá 1. júlí 2004. Því ber að fallast á eiginnafnið Leo.

 

Úrskurðarorð:

 

Beiðni um eiginnafnið Leo er tekin til greina og skal það fært á mannanafnaskrá.

 

mál nr.  100/2005

 

Eiginnafn:                         Maia  (kvk.)

  

Kveðinn er upp svohljóðandi úrskurður:

 

Öll skilyrði 1. mgr. 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn þurfa að vera uppfyllt svo að mögulegt sé að samþykkja nýtt eiginnafn og færa það á mannanafnaskrá. Skilyrðin eru þessi: (1) Eiginnafn skal geta tekið íslenska eignarfallsendingu eða hafa unnið sér hefð í íslensku máli. (2) Nafnið má ekki brjóta í bág við íslenskt málkerfi. (3) Það skal ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls nema hefð sé fyrir öðrum rithætti þess. Um túlkun á hefðarhugtakinu er vísað til vinnulagsreglna sem mannanafnanefnd samþykkti á fundi sínum 1. júlí 2004. Með almennum ritreglum íslensks máls er vísað til auglýsinga nr. 132/1974 og 261/1977 um íslenska stafsetningu.

 

Ekki hafa komið fram nein þau gögn eða málsástæður sem gefa tilefni til breytinga á fyrri afstöðu mannanafnanefndar til skráningar eiginnafnsins Maia, sbr. úrskurði nr. 43/2001 og 63/1999.

 

Eiginnafnið Maia getur ekki talist ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls og ekki er hefð fyrir þessum rithætti. Eiginnafnið Maia uppfyllir þar af leiðandi ekki öll ákvæði tilvitnaðrar greinar laga nr. 45/1996 og því er ekki mögulegt að fallast á það.

 

Úrskurðarorð:

 

Beiðni um eiginnafnið Maia er hafnað.

 

mál nr.  101/2005

 

Eiginnafn:                         Hnikarr  (kk.)

  

Kveðinn er upp svohljóðandi úrskurður:

 

Á undanförnum árum hafa nokkur eiginnöfn með –rr endingu komið til úrskurðar manna-nafnanefndar. Síðast var fjallað um nafnið Hnikarr í úrskurði nefndarinnar nr. 67/2005 þann 10. ágúst s.l. og var því hafnað. Einnig var fjallað um nafnið Hnikarr í úrskurðum mannanafnanefndar nr. 50/2005 þann 30. maí s.l., nr. 39/2005 þann 4. mars s.l. og nr. 101/1999 þann 4. nóvember 1999. Í öllum tilvikum var nafninu hafnað.

 

Þrátt fyrir ofangreinda úrskurði var ákveðið að fresta afgreiðslu máls þessa til frekari skoðunar og gagnaöflunar.

 

Úrskurðarorð:

 

Beiðni um skráningu eiginnafnsins Hnikarr er frestað. 

   

mál nr.  102/2005

 

Eiginnafn:                         Annarósa (kvk.)

  

Kveðinn er upp svohljóðandi úrskurður:

 

Í beiðni er þess óskað, að úrskurður mannanafnanefndar frá 30. maí 2005, mál nr. 54/2005, verði endurskoðaður af nefndinni og þess farið á leit að heimilað verði að taka upp erlendu nafnmyndina Annarósa sem íslenskt eiginnafn. Til rökstuðnings er vísað til álits umboðsmanns Alþingis frá 2. maí 2005 og úrskurðar mannanafnanefndar frá 16. maí s.á., mál nr. 47/2005.

 

Með beiðninni eru ekki lögð fram nein þau gögn sem gefa tilefni til breytinga á fyrri afstöðu mannanafnanefndar til skráningar eiginnafnsins Annarósa og er því beiðni um endurupptöku málsins hafnað.

 

Úrskurðarorð:

 

Beiðni um endurupptöku málsins er hafnað.

 

mál nr.  103/2005

 

Millinafn:                           Ole (kk.)

  

Kveðinn er upp svohljóðandi úrskurður:

 

Mannanafnanefnd hefur borist beiðni um millinafnið Ole. Um millinöfn gildir 6. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn. Í 2. málslið 2. mgr. 6. gr. laganna segir: Nöfn, sem aðeins hafa unnið sér hefð sem annaðhvort eiginnöfn karla eða eiginnöfn kvenna, eru ekki heimil sem millinöfn.  Nafnið Óli hefur unnið sér hefð sem eiginnafn karla og er skráð á mannanafna-skrá. Rithátturinn Ole (í stað Óli) getur auk þess ekki talist í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls, sbr. ákvæði 4. mgr. 6. gr. Með almennum ritreglum íslensks máls er vísað til auglýsinga nr. 132/1974 og 261/1977 um íslenska stafsetningu. Af framan-greindu leiðir að millinafnið Ole telst ekki uppfylla þau skilyrði sem getið er í 6. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn.

 

Úrskurðarorð:

 

Beiðni um millinafnið   Ole er hafnað.

  

mál nr.  104/2005

 

Eiginnafn:                         Lisbeth  (kvk.)

 

Kveðinn er upp svohljóðandi úrskurður:

 

Um er að ræða beiðni um endurupptöku máls nr. 90/2005 en úrskurður í því máli var kveðinn upp 15. september 2005. Í þeim úrskurði var beiðni um eiginnafnið Lisbeth hafnað þar sem nafnið væri ekki ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls og það hefði ekki unnið sér hefð í skilningi 1. mgr. 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn, sbr. og vinnulagsreglur mannanafnanefndar frá 1. júlí 2004.

 

Í rökstuðningi fyrir endurupptöku málsins segir m.a. að [...] 

[...] 

Eiginnafnið Lisbeth tekur eignarfallsendingu (Lisbethar) og telst hafa áunnið sér hefð í samræmi við 1. mgr. 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn, sbr. og ákvæði d-liðar 1. gr. vinnulagsreglna mannanafnanefndar frá 1. júlí 2004.

 

Úrskurðarorð:

 

Beiðni um eiginnafnið Lisbeth er samþykkt og skal það fært á mannanafnaskrá.

  

mál nr.  105/2005

 

Eiginnafn:                         Kenneth  (kk.)

 

Kveðinn er upp svohljóðandi úrskurður:

 

Öll skilyrði 1. mgr. 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn þurfa að vera uppfyllt svo að mögulegt sé að samþykkja nýtt eiginnafn og færa það á mannanafnaskrá. Skilyrðin eru þessi: (1) Eiginnafn skal geta tekið íslenska eignarfallsendingu eða hafa unnið sér hefð í íslensku máli. (2) Nafnið má ekki brjóta í bág við íslenskt málkerfi. (3) Það skal ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls nema hefð sé fyrir öðrum rithætti þess.

 

Með almennum ritreglum íslensks máls er vísað til auglýsinga nr. 132/1974 og 261/1977 um íslenska stafsetningu.

 

Túlkun mannanafnanefndar á hugtakinu hefð í 1. mgr. 5. gr. og 2. og 4. mgr. 6. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn styðst við eftirfarandi vinnulagsreglur sem nefndin setti sér á fundi 1. júlí 2004:

1.  Ungt tökunafn telst hafa unnið sér hefð í íslensku máli ef það fullnægir einhverju

eftirfarandi skilyrða:

  1. Það er nú borið af a.m.k. 15 Íslendingum (með Íslendingum er átt við þá íslensku ríkisborgara sem eiga eða hafa átt lögheimili hér á landi);
  2. Það er nú borið af 10–14 Íslendingum og hinn elsti þeirra hefur náð a.m.k. 30 ára aldri;
  3. Það er nú borið af 5–9 Íslendingum og hinn elsti þeirra hefur náð a.m.k. 60 ára aldri;
  4. Það er nú borið af 1–4 Íslendingum og kemur þegar fyrir í manntalinu 1910;
  5. Það er ekki borið af neinum Íslendingi nú en kemur a.m.k. fyrir í tveimur manntölum frá 1703–1910.

Eiginnafnið Kenneth getur ekki talist ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls og ekki er hefð fyrir þessum rithætti. Eiginnafnið Kenneth uppfyllir þar af leiðandi ekki öll ákvæði tilvitnaðrar greinar laga nr. 45/1996 og því er ekki mögulegt að fallast á það.

 

Úrskurðarorð:

 

Beiðni um eiginnafnið Kenneth er hafnað.

 

mál nr.  106/2005

 

Eiginnafn:                          Kilian  (kk.)

  

Kveðinn er upp svohljóðandi úrskurður:

 

Um er að ræða beiðni um endurupptöku máls nr. 83/2005 en úrskurður í því máli var kveðinn upp 15. september s.l. Í þeim úrskurði var beiðni um nafnið Kilian hafnað þar sem eiginnafnið Kilian (í stað Kiljan eða Kilían) teldist ekki ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls og uppfyllti þ.a.l. ekki ákvæði 1. mgr. 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn.

 

Í rökstuðningi fyrir endurupptöku málsins er vísað til þess að „Kilian“ sé upphaflegur ritháttur nafnsins og því eðlilegri en aðrar gerðir sem viðurkenndar hafa verið. Rétt er að taka fram að á miðöldum var ekki gerður greinarmunur á stöfunum ‘i’ og ‘j’, fremur en á ‘u’ og ‘v’, með þeim hætti sem nú er. Eftir að sú verkaskipting stafanna komst á sem nú er alsiða, er eðlilegt að rita þetta nafn sem Kiljan.

 

Úrskurðarorð:

 

Beiðni um endurupptöku málsins er hafnað.

 

mál nr.  107/2005

 

Eiginnafn:                         Veróna  (kvk.)

 

Kveðinn er upp svohljóðandi úrskurður:

 

Eiginnafnið Veróna tekur eignarfallsendingu (Verónu) og telst að öðru leyti uppfylla ákvæði 1. mgr. 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn.

 

Úrskurðarorð:

 

Beiðni um eiginnafnið Veróna er tekin til greina og skal það fært á mannanafnaskrá, en þó ekki fyrr en beiðni um skráningu nafnsins hefur borist Hagstofu Íslands.

 

mál nr.  108/2005

 

Eiginnafn:                         Annalei Rosslyn  (Annalea Rosslyn)

Millinafn:                           Chuanhai

  

Kveðinn er upp svohljóðandi úrskurður:

 

Beiðnir um nafngjöf ættleiddra barna frá útlöndum eru teknar til meðferðar hjá dóms- og kirkjumálaráðuneytinu og afgreiddar þaðan við skjalafrágang eftir komu barnanna til landsins. Málinu er því vísað frá mannanafnanefnd og úrskurðarbeiðendum bent á að snúa sér til ráðuneytisins með erindi sitt.

 

Úrskurðarorð:

 

Málinu er vísað frá mannanafnanefnd.

 

  

 Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn