Hoppa yfir valmynd
7. desember 2005 Heilbrigðisráðuneytið

Athugasemdir gerðar við skýrslu um kjör öryrkja

Fjármála- og heilbrigðismálaráðuneytin gera alvarlegar athugasemdir við veigamikla þætti í skýrslu um örorku og velferð á Íslandi sem Stefán Ólafsson hefur sent frá sér. Ráðuneytin sendu frá sér greinargerð og fréttatilkynningu í dag þar sem tiltekin atriði í skýrslu Stefáns Ólafssonar eru gagnrýnd. Í skýrslunni Örorka og velferð á Íslandi og í öðrum vestrænum löndum, eftir Stefán Ólafsson, prófessor, sem kynnt var í liðinni viku eru settir fram útreikningar og samanburður sem sagður er endurspegla kjör og stöðu öryrkja á Íslandi og borið saman við önnur lönd. Stutt skoðun á samantekt höfundar um efnið leiðir í ljós ónákvæman og í sumum tilvikum villandi samanburð og jafnvel misskilning í veigamiklum atriðum. Þetta kemur til dæmis fram þegar borinn er saman kaupmáttur örorkulífeyrisgreiðslna og launavísitala, en þar eru aðeins teknir saman tveir bótaflokkar; grunnlífeyrir og tekjutrygging og horfir höfundur þannig framhjá þeirri kjaraleiðréttingu sem varð með tekjutryggingaraukanum árið 2001 og aldurstengdri örorkuuppbót sem koma til framkvæmda 1. janúar árið 2004.

Af skýrslunni verður ekki annað séð en höfundur hennar hafi misskilið hugsun og útfærslu aldurstengdu örorkuuppbótarinnar. Höfundur heldur því fram að aldurstengda uppbótin nái aðeins til lítils hluta öryrkja. Uppbótin nær hins vegar til allra öryrkja og fer upphæð greiðslunnar eftir því hvenær menn greindust fyrst öryrkjar en lækkar ekki með aldri. Ákveðið hefur verið að fara vandlega yfir talnasamanburð höfundar og kanna áreiðanleika og samanburðarhæfni gagnanna sem liggja til grundvallar niðurstöðum og ályktunum höfundar. Þetta þykir brýnt þar sem samantektin stangast í sumum atriðum á við niðurstöður í skýrslu Tryggva Þórs Herbertssonar um Fjölgun öryrkja á Íslandi,  sem út kom fyrr á árinu, og önnur opinber gögn um stöðu og fjölda öryrkja.

 

Sjá nánar:

Fréttatilkynning - athugasemdir við skýrslu

Greinargerð - athugasemdir við skýrsluna Örorka og velferð á Íslandi og í öðrum vestrænum löndum

 

 

 Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira