Dómsmálaráðuneytið

Mannanafnanefnd, úrskurðir 25. nóvember 2005

Fundargerð

Fundur í mannanafnanefnd haldinn föstudaginn 25. nóvember 2005. Mætt voru Kolbrún Linda Ísleifsdóttir (KLÍ) og  Baldur Sigurðsson (BS). Erlendur Jónsson (ES) var fjarverandi en hafði verið í síma- og tölvupóstssambandi við fundarmenn vegna afgreiðslu þeirra mála sem tekin voru fyrir á fundinum.

 

Eftirfarandi mál voru tekin fyrir:

 

mál nr.  109/2005

 

Eiginnafn:                                  Engifer (kk.)


Kveðinn er upp svohljóðandi úrskurður:

 

Öll skilyrði 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn þurfa að vera uppfyllt svo að mögulegt sé að samþykkja nýtt eiginnafn og færa það á mannanafnaskrá. Skilyrðin eru þessi:

- 1. mgr. 5. gr. (a) Eiginnafn skal geta tekið íslenska eignarfallsendingu eða hafa unnið sér hefð í íslensku máli. (b) Nafnið má ekki brjóta í bág við íslenskt málkerfi. (c) Það skal ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls nema hefð sé fyrir öðrum rithætti þess. Um túlkun á hefðarhugtakinu er vísað til vinnulagsreglna sem mannanafnanefnd samþykkti á fundi sínum 1. júlí 2004. Með almennum ritreglum íslensks máls er vísað til auglýsinga nr. 132/1974 og 261/1977 um íslenska stafsetningu.

- 2. mgr. 5. gr. Stúlku skal gefa kvenmannsnafn og dreng skal gefa karlmannsnafn.

- 3. mgr. 5. gr. Eiginnafn má ekki vera þannig að það geti orðið nafnbera til ama.

 

Eiginnafnið Engifer telst ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls og um karlkynsnafn er að ræða þannig að fullnægt er skilyrðum 1. og 2. mgr 5. gr. laga nr. 45/1996. Samkvæmt skýringum og rökstuðningi í umsókn úrskurðarbeiðanda er ætlunin að nafnið hafi svipaða merkingu og Kristó-fer, „sá sem ber Krist“, nema fyrri hlutinn á að vera engill í stað Krists. Í samræmi við þá ætlun úrskurðarbeiðanda ætti nafnið að vera Engil-fer. Nafnið Engifer hefur enga skírskotun til þeirrar merkingar sem úrskurðar-beiðandi ætlar sér með nafninu. Engifer er, eins og kunnugt er, nafn á grænmetis- og kryddtegund og það gæti orðið nafnbera til ama, sbr. 3. mgr. 5. gr. laga nr. 45/1996. Annað hvort er hér einhver misskilningur á ferðinni varðandi samsetningu og merkingu nafnsins eða þá að úrskurðarbeiðanda hefur ekki verið alvara með umsókn sinni.

 

Úrskurðarorð:

 

Beiðni um eiginnafnið Engifer er hafnað.

 

  

mál nr.  110/2005

 

Eiginnafn:                                  Apríl  (kvk.)

 

Kveðinn er upp svohljóðandi úrskurður:

 

Öll skilyrði 1. mgr. 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn þurfa að vera uppfyllt svo að mögulegt sé að samþykkja nýtt eiginnafn og færa það á mannanafnaskrá. Skilyrðin eru þessi: (1) Eiginnafn skal geta tekið íslenska eignarfallsendingu eða hafa unnið sér hefð í íslensku máli. (2) Nafnið má ekki brjóta í bág við íslenskt málkerfi. (3) Það skal ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls nema hefð sé fyrir öðrum rithætti þess.

 

Eiginnafnið Apríl tekur ekki íslenska eignarfallsendingu (Apríl) og hefur ekki unnið sér hefð í íslensku máli. Það telst því ekki uppfylla ákvæði áðurgreindrar lagagreinar. Enn fremur hefur samnafnið apríl, sem er erlent tökuorð, unnið sér hefð sem karlkynsorð en ekki kvenkynsorð í íslensku máli.

 

Þess skal að lokum getið að mannanafnanefnd hefur a.m.k. fimm sinnum hafnað eigin-nafninu Apríl á liðnum árum með úrskurðum nr. 33/1992, 53/1998, 45/2000, 46/2000 og 68/2000 og hefur ekkert nýtt komið fram sem réttlætir samþykki nafnsins.

 

Úrskurðarorð:

 

Beiðni um eiginnafnið Apríl er hafnað.

 

  

mál nr.  111/2005

 

Eiginnafn:                                  Bergrán  (kvk.)

 

Kveðinn er upp svohljóðandi úrskurður:

 

Eiginnafnið Bergrán tekur íslenska eignarfallsendingu (Bergránar) og telst að öðru leyti uppfylla ákvæði 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn.

 

Úrskurðarorð:

 

Beiðni um eiginnafnið Bergrán er samþykkt og skal nafnið fært á mannanafnaskrá.

 

 

mál nr.  112/2005

 

Eiginnafn:                                  Nicolas  (kk.)

 

Kveðinn er upp svohljóðandi úrskurður:

 

Eiginnafnið Nicolas tekur íslenska eignarfallsendingu (Nicolasar) og telst hafa áunnið sér hefð í samræmi við 1. mgr. 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn, sbr. og ákvæði b-liðar 1. gr. vinnulagsreglna mannanafnanefndar frá 1. júlí 2004.

 

Úrskurðarorð:

 

Beiðni um eiginnafnið Nicolas er samþykkt og skal nafnið fært á mannanafnaskrá.

 

  

mál nr.  113/2005

 

Eiginnafn:                                  Aðaldís  (kvk.)

  

Kveðinn er upp svohljóðandi úrskurður:

 

Eiginnafnið Aðaldís tekur íslenska eignarfallsendingu (Aðaldísar) og telst að öðru leyti uppfylla ákvæði 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn.

 

Úrskurðarorð:

 

Beiðni um eiginnafnið Aðaldís er samþykkt og skal nafnið fært á mannanafnaskrá.

 

 

mál nr.  114/2005

 

Eiginnafn:                                  Gabriel  (kk.)


Kveðinn er upp svohljóðandi úrskurður:

 

Eiginnafnið Gabriel tekur íslenska eignarfallsendingu (Gabriels) og telst hafa áunnið sér hefð í samræmi við 1. mgr. 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn, sbr. og ákvæði a-liðar 1. gr. vinnulagsreglna mannanafnanefndar frá 1. júlí 2004. Gabriel telst vera annar ritháttur eiginnafnsins Gabríel og skal fært sem slíkt á mannanafnaskrá.

 

Úrskurðarorð:

 

Beiðni um eiginnafnið Gabriel er samþykkt og skal nafnið fært á mannanafnaskrá sem ritmynd eiginnafnsins Gabríel.

 

 

mál nr.  115/2005

 

Eiginnafn:                                  Liam  (kk.)


Kveðinn er upp svohljóðandi úrskurður:

 

Öll skilyrði 1. mgr. 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn þurfa að vera uppfyllt svo að mögulegt sé að samþykkja nýtt eiginnafn og færa það á mannanafnaskrá. Skilyrðin eru þessi: (1) Eiginnafn skal geta tekið íslenska eignarfallsendingu eða hafa unnið sér hefð í íslensku máli. (2) Nafnið má ekki brjóta í bág við íslenskt málkerfi. (3) Það skal ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls nema hefð sé fyrir öðrum rithætti þess.

 

Með almennum ritreglum íslensks máls er vísað til auglýsinga nr. 132/1974 og 261/1977 um íslenska stafsetningu.

 

Túlkun mannanafnanefndar á hugtakinu hefð í 1. mgr. 5. gr. og 2. og 4. mgr. 6. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn styðst við eftirfarandi vinnulagsreglur sem nefndin setti sér á fundi 1. júlí 2004:

1.  Ungt tökunafn telst hafa unnið sér hefð í íslensku máli ef það fullnægir einhverju

eftirfarandi skilyrða:

  1. Það er nú borið af a.m.k. 15 Íslendingum (með Íslendingum er átt við þá íslensku ríkisborgara sem eiga eða hafa átt lögheimili hér á landi);
  2. Það er nú borið af 10–14 Íslendingum og hinn elsti þeirra hefur náð a.m.k. 30 ára aldri;
  3. Það er nú borið af 5–9 Íslendingum og hinn elsti þeirra hefur náð a.m.k. 60 ára aldri;
  4. Það er nú borið af 1–4 Íslendingum og kemur þegar fyrir í manntalinu 1910;
  5. Það er ekki borið af neinum Íslendingi nú en kemur a.m.k. fyrir í tveimur manntölum frá 1703–1910.

 

Eiginnafnið Liam getur ekki talist ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls. Ekki er hefð fyrir þessum rithætti þar sem aðeins fjórir Íslendingar bera nafnið sem fyrsta eða annað nafn og sá elsti þeirra er fæddur árið 1991. Eiginnafnið Liam uppfyllir þar af leiðandi ekki öll ákvæði tilvitnaðrar greinar laga nr. 45/1996 og því er ekki mögulegt að fallast á það.

 

Úrskurðarorð:

 

Beiðni um eiginnafnið Liam er hafnað.

 

 

mál nr.  116/2005

 

Millinafn:                                   Þrastar
 

Kveðinn er upp svohljóðandi úrskurður:

 

Málið var tekið fyrir en afgreiðslu þess frestað þar til aflað hefur verið frekari upplýsinga frá Hagstofu Íslands – Þjóðskrá.

 

Úrskurðarorð:

 

Beiðni um skráningu millinafnsins Þrastar er frestað.

 

  

- - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - -

Fleira var ekki tekið fyrir og fundi slitið.

 Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn