Hoppa yfir valmynd
3. mars 2006 Innviðaráðuneytið

Umsagnir varðandi breytingu á lögum um siglingavernd

Ráðuneytið óskar eftir umsögnum varðandi fyrirhugaða breytingu á lögum nr. 50/2004 um siglingavernd.

Forsaga málsins er sú að þann 12. desember 2002 var samþykkt, innan Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar (IMO), að gera breytingar á alþjóðasamþykktinni (SOLAS) um öryggi mannslífa á hafinu og taka inn í hana ákvæði til að fyrirbyggja hryðjuverk og aðrar ógnanir á höfunum. Til þess að innleiða í íslenskan rétt alþjóðlegar reglur og skuldbindingar á sviði siglinga­­verndar voru á Alþingi sett lög nr. 50/2004 um siglingavernd. Gilda lögin um skip sem notuð eru í millilandasiglingum, nánar tiltekið flutningaskip yfir 500 brúttótonnum og farþegaskip, og aðila sem þjóna þessum skipum.

Breytingarnar sem lagðar eru til í frumvarpinu eru í meginatriðum þessar:

Útvíkkun á gildissviði laganna

Til þess að hægt sé að innleiða reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins nr. 725/2004 er nauðsynlegt að gera breytingu á gildissviði laganna, til þess að reglugerðin hafi næga lagastoð.

Heimildir Siglingastofnunar og aðila á vegum framkvæmdastjórnarinnar

Reglugerð 725/2004/EB kveður á um skoðanir og eftirlit á framkvæmd siglingaverndar í aðildarríkjunum og reglugerð 844/2005/EB hefur að geyma nánari útlistun á framkvæmd og víðtæki þessa eftirlits. Þar er meðal annars kveðið á um að aðildarríkin skuli tryggja eftirlitsaðilum aðgang að skipum, hafnaraðstöðu og fleiri stöðum, aðgang að öllum skjölum sem tengjast siglingavernd og heimildir til að krefja þriðja aðila um nauðsynlega aðstoð við eftirlitið.

Einnig er í lögunum kveðið á um heimildir Siglingastofnunar til þess að bregðast við brotum á reglum um siglingavernd, til dæmis til kyrrsetningar skipa, og aukið er við viðurlaga­ákvæði laganna til samræmis við það.

Drög að lögum um breytingu á siglingavernd (WORD-45KB)

Umsagnir óskast sendar með tölvupósti á [email protected] eða til Samgönguráðuneytis, Hafnarhúsinu v/Tryggvagötu, 150 Reykjavík fyrir 15. mars 2006.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum