Hoppa yfir valmynd
22. mars 2006 Innviðaráðuneytið

Flugmálastjórar aðildarlanda ICAO fjalla um aðgerðir í öryggismálum

Alþjóða flugmálastofnunin, ICAO, kallaði flugmálastjóra aðildarlanda sinna til ráðstefnu í aðalstöðvunum í Montreal í Kanada 20. til 22. mars til að brýna þá til endurnýjaðrar stefnumótunar og undirbúnings aðgerða á sviði flugöryggis og flugslysavarna.

Þorgeir Pálsson flugmálastjóri og Ásgeir Pálsson framkvæmdastjóri flugumferðarsviðs.
Þorgeir Pálsson flugmálastjóri og Ásgeir Pálsson framkvæmdastjóri flugumferðarsviðs.

Til ráðstefnunnar var meðal annars boðað þar sem fleiri banaslys í áætlunarflugi urðu á síðasta ári en tvö árin þar á undan eða 21 en slysin voru 10 árið 2003 og 12 í fyrra. Mörg árin þar á undan hafði slysunum fækkað jafnt og þétt. Árið 2004 fórust 208 í flugslysum en í fyrra 710, það er í áætlunarflugi véla sem eru þyngri en 2.250 kg.

Fulltrúar Íslands á ráðstefnunni eru Þorgeir Pálsson flugmálastjóri og Ásgeir Pálsson, framkvæmdastjóri flugumferðarsviðs. Yfir 150 af 189 aðildarlöndum eiga fulltrúa sína á fundinum auk þess sem hann sitja áheyrnarfulltrúar frá 25 stofnunum og samtökum sem tengjast flugstarfsemi.

Nokkur banaslys í ágúst, október og desember á síðasta ári urðu ráðamönnum í flugheiminum áhyggjuefni og sagði Assad Kotaite, forseti ICAO, að á ferli sínum hjá stofnuninni hefði honum fundist hvert og eitt banaslys vera einu slysi of mikið. Hann sagði brýnt að flugheimurinn héldi áfram að vinna að fækkun flugslysa og sagði að þótt að til fundarins hefði verið boðað í framhaldi af slysunum á síðari hluta síðasta árs væri ekki ætlunin að vekja upp ótta heldur aðeins að brýna aðildarlöndin til ítrustu aðgerða í þágu flugöryggis. Á vegum ICAO væri unnið að margháttuðum verkefnum á sviði forvarna og með þessum fundi væri hnykkt á stöðunni og þannig væri unnt að viðhalda trausti almennings á því að flug væri öruggur ferðamáti.

Lawrence Cannon, samgönguráðherra Kanada, sagði í ávarpi sínu við upphaf fundarins að flugöryggi kæmi öllum við og það yrði að hafa forgang bæði í stjórnarherbergjum flugfélaga sem og í flugskýlum. Hann sagði flugmálastjóra heimsins bera mikla ábyrgð í því forystuhlutverki sínu í þessu alheims verkefni.

Á ráðstefnunni kom fram að brýnt sé að koma í veg fyrir fjölgun flugslysa um leið og flugumferð fer jafnt og þétt vaxandi. Til að bæta úr verði að grípa til víðtækra aðgerða og aðildarlönd og flugrekendur um heim allan verði að sameina krafta sína á þessum vettvangi. Meðal þess sem fjallað er um eru úttektir á starfsemi flugfélaga og hvernig miðlað er milli aðildarlanda upplýsingum og niðurstöðum slíkra úttekta og hvort og hvernig birta á slíkar upplýsingar opinberlega. Einnig var lögð áhersla á þýðingu Safety Management Systems, SMS, eða öryggisstjórnunarkerfa. Markmiðið er kerfisbundin og dagleg söfnun upplýsinga og yfirferð á öllum þáttum flugrekstrar til að unnt sé að fylgjast með frávikum sem gætu haft áhrif á öryggi. Slík kerfi má einnig nota til að meta starfsemi flugvalla.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum