Hoppa yfir valmynd
6. apríl 2006 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 1/2006: Dómur frá 6. apríl 2006

Ár 2006, fimmtudaginn 6. apríl, var í Félagsdómi í málinu nr. 1/2006.

Alþýðusamband Íslands

f.h. Starfsgreinasambands Íslands,

vegna Afls, starfsgreinafélags Austurlands

f.h. Sveins Brimis Björnssonar

(Bergþóra Ingólfsdóttir hdl.)

gegn

Fjarðabyggð og

(Ívar Pálsson hdl.)

Félagi opinberra starfsmanna á Austurlandi.

(Gísli G. Hall hdl.)

kveðinn upp svofelldur

D Ó M U R :

 

Mál þetta var dómtekið að loknum munnlegum málflutningi 29. mars sl.

Málið dæma Eggert Óskarsson, Gylfi Knudsen, Kristjana Jónsdóttir, Gísli Gíslason og Lára V. Júlíusdóttir.

 

Stefnandi er Alþýðusamband Íslands, kt. 420169-6209, Sætúni 1, Reykjavík f.h. Starfsgreinasambands Íslands, kt. 601000-3340, vegna Afls, starfsgreinafélags Austurlands, kt. 560101-3090, f.h. Sveins Brimis Björnssonar, kt. 180171-4879.

Stefndi er Fjarðabyggð, kt. 470698-2099, Hafnargötu 2, Reyðarfirði og Félag opinberra starfsmanna á Austurlandi, kt. 580687-1729, Stekkjarbrekku 8, Reyðarfirði.

 

Dómkröfur stefnanda

Að viðurkennt verði að Afl, starfsgreinafélag fari með samningsaðild fyrir Svein Brimi Björnsson, kt. 180171-4879, við gerð kjarasamnings við Fjarðabyggð vegna starfa hans sem tækjamanns við Þjónustumiðstöð Fjarðabyggðar.

Að viðurkennt verði að um laun og kjör Sveins Brimis Björnssonar hafi frá og með ráðningu hans til Fjarðabyggðar farið samkvæmt kjarasamningi Launanefndar sveitarfélaga og Starfsgreinasambands Íslands sem gerður var í maímánuði 2005.

Loks er þess krafist að stefndi verði dæmdur til greiðslu málskostnaðar auk álags er nemi virðisaukaskatti.

 

Dómkröfur stefnda, Félags opinberra starfsmanna á Austurlandi

Krafist er sýknu af kröfum stefnanda. Þá er krafist málskostnaðar úr hendi stefnanda að skaðlausu samkvæmt mati Félagsdóms og að við ákvörðun málskostnaðar verði gætt að skyldu stefnda til að greiða virðisaukaskatt af þóknun lögmanns síns.

 

Dómkröfur stefnda Fjarðarbyggðar

Stefndi, Fjarðarbyggð, tekur ekki afstöðu til dómkrafna stefnanda að öðru leyti en því að krafist er sýknu af málskostnaðarkröfu stefnanda. Þá er krafist málskostnaðar að mati dómsins úr hendi stefnanda. Taki tildæmdur málskostnaður mið af því að stefndi er ekki virðisaukaskattsskyldur.

 

Málavextir

Sveinn Brimir Björnsson réðst til starfa hjá Fjarðabyggð sem tækjamaður þann
1. september 2005. Sveinn Brimir hafði þá um sumarið lokið námskeiði sem veitti honum réttindi til að stjórna vinnuvélum en áður hafði hann starfað við fiskvinnslu. Starfar Sveinn Brimir nú við akstur og notkun vinnuvéla og tækja sveitarfélagsins undir verkstjórn Þorvaldar Jónssonar, starfsmanns stefnda Fjarðabyggðar, sem jafnframt er formaður stefnda, Félags opinberra starfsmanna á Austurlandi, FOSA.

Við ráðninguna var Sveini greint frá því að um launakjör hans skyldi farið samkvæmt kjarasamningi Launanefndar sveitarfélaganna og Samflots bæjarstarfsmannafélaga. Óskaði Sveinn þá sérstaklega eftir því að stéttarfélagsgjöld hans yrðu þó áfram greidd til Afls, starfsgreinafélags, en þar hefur Sveinn verið félagi um árabil og gegnir nú embætti gjaldkera félagsins. Þá óskaði hann og eftir því að iðgjald hans í lífeyrissjóð yrði áfram innt af hendi til Lífeyrissjóðs Austurlands. Var þá gengið frá skriflegum ráðningarsamningi um ráðningu Sveins til þriggja mánaða á fyrir fram útfylltu eyðublaði. Á því var ekki gert ráð fyrir að unnt væri að merkja við Afl, sem stéttarfélag, en aðeins FOSA og strikaði Sveinn Brimir því yfir það og skrifaði þess í stað Afl, starfsgreinafélag. Sveinn fékk ekki afhent afrit þess samnings við það tækifæri og er hann leitaði eftir því við stefnda síðar var honum tjáð að skjalið væri glatað.

Við fyrstu útborgun launa kom í ljós að þrátt fyrir óskir Sveins var félagsgjaldi hans skilað til Félags opinberra starfsmanna á Austurlandi og lífeyrissjóðsiðgjaldi til Lífeyrissjóðs starfsmanna sveitarfélaga. Gerði hann þegar athugasemdir við það en Fjarðabyggð neitaði að inna þessi gjöld af hendi í samræmi við óskir Sveins og var því borið við að starfið sem hann gegndi væri „eign FOSA“. Í framhaldinu gerði Afl, starfsgreinafélag athugasemdir við þennan framgangsmáta f.h. Sveins við forstöðumann fjármála- og stjórnsýslusviðs Fjarðabyggðar. Viðbrögð stefnda, Fjarðabyggðar, við því voru að vísa til þess að Fjarðabyggð væri bundin af samningi við FOSA um starf Sveins Brimis. Starfið hefði verið auglýst sem slíkt og því þyrfti Sveinn Brimir að óska eftir leyfi frá FOSA til að félagsgjald hans yrði greitt til Afls. Í framhaldi af því sendi Afl til FOSA þau tölvupóstsamskipti sem höfðu verið milli Afls og Fjarðabyggðar og vörðuðu félagsaðild Sveins Brimis. Var þess farið á leit við FOSA að félagið setti sig ekki á móti ósk hans um félagsaðild. Viðbrögð FOSA voru þau að FOSA teldi starf Sveins Brimis á samningssviði sínu og samþykkti engar breytingar þar á.

Með bréfi lögmanns stefnanda, dags. 20. október 2005, var skorað á stefnda Fjarðabyggð að láta af afskiptum af félagsaðild Sveins Brimis og vísað til þess að stefndi hefði gert kjarasamning við Afl, starfsgreinafélag, um starf það er Sveinn gegnir hjá stefnda. Þá væri réttur hans til félagafrelsis varinn í 74. gr. stjórnarskráinnar, sbr. lög nr. 33/1944, auk þess sem atvinnurekendum væri óheimilt að reyna að hafa afskipti af aðild starfsmanna sinna að stéttarfélögum, sbr. 4. gr. laga nr. 80/1938. Með bréfi stefnda, Fjarðabyggðar, til lögmanns stefnanda, dags. 25. nóvember 2005, tilkynnti stefndi að hann hefði fyrir sitt leyti vísað þessum ágreiningi, sem stefndi taldi vera milli FOSA og Afls, til Launanefndar sveitarfélaganna. Hinn 20. desember 2005 var samráðsnefndunum sent bréf þar sem áréttaður var skilningur stefnanda þess efnis að aðild einstaklings að stéttarfélagi gæti ekki verið komin undir ákvörðun slíkrar nefndar.

Fjarðabyggð hefur, þrátt fyrir óskir Sveins Brimis, haldið áfram að greiða félagsgjöld til FOSA og iðgjald í lífeyrissjóð til Lífeyrissjóðs starfsmanna sveitarfélaga. Af þeim sökum telur stefnandi nauðsynlegt að leggja málið fyrir Félagsdóm til úrlausnar.

 

Málsástæðurstefnanda og lagarök

Stefnandi byggir í fyrsta lagi á því að stefndu sé óheimilt að hafa afskipti af félagsaðild Sveins Brimis Björnssonar. Í því felist að stefndu sé óheimilt að þvinga hann til þátttöku í öðru stéttarfélagi en hann sjálfur kýs. Réttur stefnanda í þessu efni sé tryggður með 74. gr. stjórnarskrárinnar sem og 11. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Af reglu 11. gr. MSE leiði að atvinnurekendum sé óheimilt að setja aðild að tilteknu stéttarfélagi að starfsgengisskilyrði, sbr. t.d. dóm mannréttindadómstóls Evrópu frá 11. janúar 2006 í málunum nr. 52562/99 og 52620/99. Þá sé og í 4. gr. laga nr. 80/1938 lagt bann við því að atvinnurekendur, verkstjórar eða aðrir trúnaðarmenn atvinnurekenda reyni að hafa áhrif á afstöðu starfsmanna og afskipti af stéttar- eða stjórnmálafélögum, t.d. með uppsögnum eða loforðum um hagnað, og af þeirri reglu megi leiða svipaða reglu hvað varðar aðild að tilteknu stéttarfélagi sem starfsgengisskilyrði.

Í öðru lagi byggir stefnandi á því að Sveinn Brimir hafi, þegar hann var ráðinn, verið félagi í stéttarfélagi og það stéttarfélag hafi gert samning við Fjarðabyggð um það starf er hann réð sig til. Af þeirri ástæðu hafi engin ástæða verið til þess að Sveinn Brimir færði félagsaðild sína til FOSA. Kjarasamningur Launanefndar sveitarfélaga f.h. Fjarðabyggðar við Afl, starfsgreinafélag, sé í öllum aðalatriðum sama efnis og samningur Fjarðabyggðar við Samflot vegna sömu starfa og sem dæmi megi taka að röðun í grunnlaunaflokka sé hin sama. Af þessari ástæðu sé ljóst að þau rök að aðeins annar þessara kjarasamninga eigi við um starf Sveins standast ekki og því ekki rök fyrir aðild hans að FOSA fremur en Afli þess vegna.

Þá byggir stefnandi á því að Fjarðabyggð geti ekki, hvað varðar aðild einstakra starfsmanna að stéttarfélögum, byggt á stefnu sinni eða vilja í starfsmannamálum, þar sem sú stefna fari gegn grundvallarréttindum stefnanda, sbr. starfsmannastefnu Fjarðabyggðar sem liggi fyrir í málinu, en þar segi í 49. gr. berum orðum „Þrátt fyrir félagafrelsi er það markmið sveitarfélagsins að samskonar störf hjá sveitarfélaginu tilheyri öll sama stéttarfélaginu, enda sé um að ræða sömu starfsstétt og einungis einn kjarasamningur sé í gildi um starfið.“ Samkvæmt þessu sé það vilji og yfirlýst stefna Fjarðabyggðar að beita sér fyrir því að starfsmenn sveitarfélagsins njóti ekki félagafrelsis í reynd heldur skuli miðað að því að starfsmenn sveitarfélagsins séu allir í sama félaginu, sveitarfélaginu til hagræðis. Slík stefna standist að mati stefnanda enga skoðun en hún byggi auk þess á þeirri forsendu að aðeins sé í gildi einn samningur um viðkomandi starf sem ekki sé raunin í tilviki því sem hér um ræði.

Af sömu ástæðu standist ekki þær fullyrðingar Fjarðabyggðar að ósk Sveins um áframhaldandi aðild að Afli gæti leitt til þess að honum yrði gert að greiða félagsgjald bæði til Afls og FOSA samkvæmt 2. mgr. 7. gr. laga nr. 94/1986. Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga nr. 94/1986 gildi þau um alla starfsmenn sem séu félagar í stéttarfélögum sem samkvæmt 4. og 5. gr. laganna hafi rétt til að gera kjarasamninga samkvæmt þeim og séu ráðnir hjá ríkinu. Samkvæmt 3. tl. 2. mgr. 1. gr. laganna taki lögin hins vegar ekki til starfsmanna stofnana og fyrirtækja ríkis og sveitarfélaga þegar kaup þeirra og kjör fari eftir kjarasamningum stéttarfélaga þeirra og vinnuveitenda, sbr. lög nr. 80/1938, eins og í þessu tilviki og verði því slík greiðsluskylda ekki lögð á Svein Brimi með vísan til laga nr. 94/1986, þar sem um starf hans sé í gildi samningur við Afl, starfsgreinafélag. Af ákvæðum laga nr. 94/1986 verði ekki leidd regla sem kveði á um lögbundinn forgangsrétt FOSA eða Samflots til kjarasamningsgerðar en Félagsdómur hafi áður leyst úr ágreiningi um það hvort áskilnaður 4. gr. laga nr. 94/1986 feli í sér slíka einokun í dómum í málum nr. 18/1998 og nr. 9/1999.

Loks byggir stefnandi á því að Sveini Brimi hafi þegar frá fyrsta degi sínum í starfi hjá Fjarðabyggð verið heimil aðild að Afli, starfsgreinafélagi. Sveinn Brimir hafi verið félagsmaður og stjórnarmaður í Afli þegar hann réð sig til Fjarðabyggðar og mál þetta snúist ekki um heimild hans til að skipta um stéttarfélag heldur um heimild hans til að vera áfram félagsmaður í því sama stéttarfélagi, stéttarfélagi sem hafi þá þegar verið með gildan kjarasamning við stefnda, Fjarðabyggð. Bar Sveini því í samræmi við þá staðreynd, frá öndverðu réttur til þess að Afl, starfsgreinafélag, færi með samningsumboð fyrir hann.

Málatilbúnaður stefnanda byggist á Stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, sbr. lög nr. 33/1994, mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, lögum nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur, lögunum um kjarasamninga opinberra starfsmanna nr. 94/1986, og varðandi málskostnað á lögunum nr. 91/1991 um meðferð einkamála í héraði.

 

Málsástæður stefnda, Félags opinberra starfsmanna á Austurlandi, og lagarök

Stefndi kveðst vera stéttarfélag opinberra starfsmanna á Austurlandi, m.a. Fjarðabyggðar, og sé aðildarfélag í Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja (BSRB). Félagið hafi rétt til að gera kjarasamninga við Fjarðabyggð samkvæmt 4. gr. laga nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna og sé nú í gildi kjarasamningur sem FOSA og Fjarðabyggð séu aðilar að. Stefnandi sé hins vegar stéttarfélag, sem starfi á grundvelli laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur og hafi gert kjarasamninga samkvæmt þeim lögum.

Samkvæmt ráðningarsamningi réð Sveinn Brimir sig til starfa hjá Fjarðabyggð og kjarasamningur FOSA gilti um starfið. Stéttarfélagsgjaldi var haldið eftir af launum Sveins Brimis og skilað til FOSA. Samkvæmt 4. gr. laga FOSA skuli allir starfsmenn, sem taki laun samkvæmt kjarasamningi félagsins, greiða félagsgjöld til þess. Úrsögn úr félaginu leysi engan undan greiðsluskyldu, sbr. 7. gr. laga FOSA og 7. gr. laga nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna.

Stefnandi hafi uppi málsástæður sem lúti að því að Sveinn Brimir njóti félagafrelsis og stefndu sé óheimilt að þvinga hann til þátttöku í stéttarfélagi. Ekki sé ágreiningur um rétt Sveins Brimis til að standa utan stéttarfélaga og hvorki stefndi né aðrir geti haft áhrif á félagsþátttöku Sveins Brimis. Kröfur stefnanda lúti hins vegar að öðrum atriðum.

Stefndi byggir á því að starf Sveins Brimis hjá Fjarðabyggð, sem deilt sé um í máli þessu, sé á samningssviði FOSA en ekki stefnanda. Um laun fyrir starfið hafi verið samið í kjarasamningi. Því sé mótmælt að því til viðbótar hafi verið samið um starfið í kjarasamningi Launanefndar sveitarfélaga og Starfsgreinasambands Íslands. Bent sé á eftirfarandi í því sambandi:

 

  1. Það sé óumdeilt að Fjarðabyggð hafi alla tíð litið svo á að um umrætt starf hafi verið samið í kjarasamningi Launanefndar sveitarfélaga og Samflots bæjarstarfsmannafélaga. Þessu sé lýst í bréfi Fjarðabyggðar til Launanefndar sveitarfélaganna, dags. 25. nóvember 2005, undirrituðu af Gunnari Jónssyni, forstöðumanni fjármála- og stjórnsýslusviðs, og komi heim og saman við önnur skjöl.
  2. Fjarðabyggð hafi auglýst starfið þannig að um laun og kjör færi samkvæmt kjarasamningi Launanefndar sveitarfélaga og Samflots bæjar­starfsmannafélaga.
  3. Fram komi í ráðningarsamningi Sveins Birnis og Fjarðabyggðar að um starfið gildi kjarasamningur Launanefndar sveitarfélaga og Samflots bæjar­starfsmannafélaga.
  4. Í málinu sé lagt fram endurnýjað starfsmat, sem Fjarðabyggð hafi farið yfir með fyrirsvarsmönnum Afls og FOSA, m.a. á fundi 6. janúar 2005. Fundargerðin liggi einnig fyrir. Starfsmatið hafi falið í sér leiðréttingar og viðbætur við eldri starfsmöt, sem höfðu verið í gildi. Þetta starfsmat hafi legið fyrir er kjarasamningarnir voru undirritaðir og telur stefndi af og frá að í kjarasamningi Launanefndar og Starfsgreinasambands Íslands hafi verið samið um fleiri störf en þau sem samkvæmt starfsmatinu voru á samningssviði stefnanda.
  5. Í starfsmatinu komi m.a. fram vinnustaður, stéttarfélag, fyrri hluti í kennitölu starfsmannsins sem starfinu gegnir og starfsheiti. Starfið, sem Sveinn Brimir var ráðinn til, hafi verið starf „tækjamanns 2“, sem Andrés Gunnlaugsson, kt. 201147-2989 hafði áður gegnt og fram komi í starfsmatinu. Í starfsmatinu komi fram að starfið væri á samningssviði stefnda FOSA.

 

Samkvæmt grunnreglu 1. málsgr. 6. gr. laganna nr. 94/1986 sé meginregla að einungis eitt félag hafi rétt til samningsgerðar fyrir sama vinnuveitanda fyrir sömu starfsstétt. Hvergi í starfsmatinu sé gert ráð fyrir að sama starfið kunni að vera háð samningsfyrirsvari fleiri en eins stéttarfélags. Sé það í samræmi við starfsmannastefnu Fjarðabyggðar. Stefnandi virðist telja það fyrirkomulag ólögmætt en stefndi, FOSA ,sé því ósammála, með vísan til grunnreglunnar í 6. gr. laganna nr. 94/1986. Þessi grunnregla sé sett m.a. til að koma í veg fyrir glundroða á vinnumarkaði, sem hljótist af því að sveitarfélög þyrftu að semja við fleiri en eitt stéttarfélag um hvert einstakt starf og að starfsmenn gætu „hoppað“ á milli kjarasamninga eftir því hvernig vindar blása og hvað þeir telji henta sér hverju sinni.

Þær málsástæður og lagarök, sem hér hafi verið gerð grein fyrir, eigi við um allar kröfur stefnanda. Til viðbótar, hvað varðar síðari kröfu stefnanda um viðurkenningu á því að um laun hans hafi farið samkvæmt kjarasamningi Launanefndar og Starfsgreinasambands Íslands frá og með ráðningu hans, bendi stefndi á að útilokað sé að verða við þeirri kröfu, a.m.k. á meðan kjarasamningur FOSA við Launanefnd sveitarfélaga sé í gildi. Vísist til 2. málsgr. 3. gr. laga nr. 80/1938, 4. málsgr. 6. gr. laga nr. 94/1986 og fordæmis í dómi Félagsdóms í máli nr. 18/1998 um þetta, auk framangreindra málsástæðna.

Krafa stefnda um málskostnað er reist á 65. gr. laga nr. 38/1980 um stéttarfélög og vinnudeilur, sbr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Krafa um að tekið verði tillit til skyldu stefnanda til að greiða virðisaukaskatt af lögmannsþóknun sé skaðleysiskrafa. Stefndi sé ekki virðisaukaskattsskyldur og eignast því ekki frádráttarrétt við greiðslu skattsins.

 

Málsástæður stefnda, Fjarðarbyggðar, varðandi málskostnaðarkröfu

Sýknukröfu af málskostnaðarkröfu stefnanda og kröfu um málskostnað byggir stefndi á því að dómkröfum í þeirri mynd sem þær séu nú lagðar fyrir dóminn hafi ekki verið beint gegn stefnda, Fjarðarbyggð, fyrr en með stefnu. Málskostnaðarkrafa stefnda eigi sér stoð í 69. gr., sbr. IV. kafla laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur, sbr. og 129. gr. og 130. gr. laga um meðferð einkamála. Krafa um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun sé reist á lögum nr. 50/1988. Stefndi sé ekki virðisaukaskattsskyldur og því nauðsynlegt að taka tillit til virðisaukaskattsins við ákvörðun málskostnaðar.

 

Niðurstaða

Meginágreiningur máls þessa varðar fyrirsvar vegna Sveins Brimis Björnssonar, tækjamanns í þjónustu stefnda, Fjarðabyggðar, við kjarasamningsgerð við Launanefnd sveitarfélaga vegna Fjarðabyggðar. Telur stefnandi, Afl, starfsgreinafélag Austurlands, sem er stéttarfélag samkvæmt lögum nr. 80/1938, um stéttarfélög og vinnudeilur, að samningsaðild vegna Sveins Brimis sé á hendi þess, sbr. fyrri kröfulið í dómkröfum stefnanda. Af hálfu stefnda, Félags opinberra starfsmanna á Austurlandi, sem er stéttarfélag samkvæmt lögum nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna, sbr. 1. mgr. 4. gr. þeirra laga, er því hins vegar haldið fram að það félag fari með fyrirsvar vegna greinds Sveins Brimis. Sé starf það sem hann gegni hjá Fjarðabyggð á samningssviði félagsins, sbr. gildandi kjarasamning sem annars vegar er milli Launanefndar sveitarfélaga og hins vegar Samflots bæjarstarfsmannafélaga er tók gildi 1. apríl 2005 og gildir til 30. nóvember 2008. Mótmælir hið stefnda stéttarfélag því að um starf Sveins Brimis hafi verið samið í kjarasamningi annars vegar milli Launanefndar sveitarfélaga og hins vegar Starfsgreinasambands Íslands er tók gildi 1. maí 2005 og gildir til 30. nóvember 2008.          

Samkvæmt gögnum málsins var Sveinn Brimir Björnsson ráðinn til starfa hjá stefnda, Fjarðabyggð, sem tækjamaður II frá og með 1. september 2005, sbr. óundirritað og ódagsett afrit ráðningarsamnings sem liggur fyrir í málinu. Í skjali þessu er tilgreint að stéttarfélag sé FOSA, þ.e. stefndi, Félag opinberra starfsmanna á Austurlandi. Óumdeilt er að þegar Sveinn Brimir var ráðinn til starfa hjá stefnda, Fjarðabyggð, var hann félagsmaður í stefnanda, Afli, starfsgreinafélagi Austurlands, og í stjórn stéttarfélagsins. Í stefnu kemur fram að við ráðninguna hafi Sveinn Brimir óskað eftir því að félagsgjöld hans yrðu áfram greidd til stefnanda og jafnframt að lífeyrissjóðsiðgjöld vegna hans rynnu til Lífeyrissjóðs Austurlands. Hann hafi strikað yfir tilgreiningu á hinu stefnda stéttarfélagi sem hlutaðeigandi stéttarfélagi og tilfært stefnanda í þess stað sem stéttarfélag, enda hefði ekki verið gert ráð fyrir að unnt væri að merkja við annað stéttarfélag en hið tilgreinda. Þetta eintak ráðningarsamningsins hafi hins vegar glatast úr fórum stefnda, Fjarðabyggðar. Í greinargerð hins stefnda stéttarfélags í málinu kemur fram að lýsing málavaxta í stefnu sé ágreiningslaus. Verður því byggt á því að greind atvik, þar á meðal fyrirvarar Sveins Brimis varðandi stéttarfélagsaðild við ráðninguna, séu óumdeild og verða þau því lögð til grundvallar við úrlausn málsins. Af því leiðir og að ekki verður talið að Sveinn Brimir hafi í neinn tíma eftir ráðningu sína í umrætt starf hjá stefnda, Fjarðabyggð, talist félagsmaður í hinu stefnda stéttarfélagi, enda er ljóst að ekki var fyrir að fara neinum atbeina Sveins Brimis til inngöngu í það félag.

Samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga nr. 80/1938 eru stéttarfélög lögformlegur samningsaðili um kaup og kjör meðlima sinna, enda hafi félagið í samþykktum sínum ákveðið að láta starfsemi sína taka til slíkra málefna. Hliðstætt ákvæði er í 1. mgr. 4. gr. laga nr. 94/1986. Af hálfu hins stefnda stéttarfélags kemur fram að enginn ágreiningur sé gerður varðandi rétt Sveins Brimis til að „standa utan stéttarfélaga og að hvorki [stefndi] né aðrir geta haft áhrif á félagsþátttöku Sveins Brimis“, eins og þar segir. Samkvæmt þessu verður ekki talið að nein deila sé um félagsaðild Sveins Brimis, heldur einungis ágreiningur um samningsfyrirsvar vegna þess starfs sem hann var ráðinn í hjá stefnda, Fjarðabyggð. Varðar ágreiningurinn þannig samningsaðild þegar svo stendur á að sami vinnuveitandi hefur gert kjarasamninga við tvö stéttarfélög, í þessu tilfelli annars vegar stéttarfélag opinberra starfsmanna samkvæmt lögum nr. 94/1986 og hins vegar almennt stéttarfélag samkvæmt lögum nr. 80/1938, þar sem sömu störfunum kann að vera til að dreifa.

Eins og fram er komið hefur hið stefnda stéttarfélag mótmælt því að samið hafi verið um starf Sveins Brimis með kjarasamningi Launanefndar sveitarfélaga við Starfsgreinasamband Íslands er tók gildi 1. maí 2005. Er á því byggt af hálfu hins stefnda stéttarfélags að starfið sé á samningssviði félagsins. Þegar litið er til eðlis starfsins og þeirra kjarasamninga tveggja, sem í málinu greinir, þar á meðal öldungis sambærilegra launaflokka og launafjárhæða, og enn fremur haft í huga að samkvæmt fyrirliggjandi gögnum eru tækjamenn í þjónustu stefnda, Fjarðabyggðar, ýmist í almennum stéttarfélögum eða stéttarfélögum opinberra starfsmanna, verður ekki fallist á greinda málsástæðu hins stefnda stéttarfélags. Þá þykir ekki hald í öðrum málsástæðum stéttarfélagsins er lúta að því að greint starf sé á samningssviði félagsins, þar á meðal skírskotunum til starfsmats, er ekki getur haft þýðingu í þessu sambandi, og tilgreiningum í auglýsingum um starfið.

Samkvæmt framansögðu ber að taka fyrri kröfulið í dómkröfum stefnanda til greina, sbr. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 80/1938, enda er megininntak réttar manna til aðildar að stéttarfélögum samningsfyrirsvar félaganna við kjarasamningsgerð. Verður ekki talið að ákvæði 1. mgr. 6. gr. laga nr. 94/1986 standi í vegi fyrir þeirri niðurstöðu, eins og kjarasamningsgerð var háttað og rakið hefur verið.

Vegna síðari kröfuliðar í dómkröfum stefnanda og sérstakra málsástæðna hins stefnda stéttarfélags varðandi þann lið er þess að geta að samkvæmt 2. mgr. 3. gr. laga nr. 80/1938, sbr. og þá undirstöðureglu sem fram kemur í 4. mgr. 6. gr. laga nr. 94/1986, hættir meðlimur stéttarfélags að vera bundinn af samþykktum félags síns og sambands þess, þegar hann samkvæmt reglum félagsins er farinn úr því, en samningar þeir, sem hann hefur orðið bundinn af, á meðan hann var félagsmaður, eru skuldbindandi fyrir hann, meðan hann vinnur þau störf, sem samningurinn er um, þar til þeir gætu fyrst fallið úr gildi fyrir uppsögn. Eins og fram er komið verður byggt á því í málinu að Sveinn Brimir hafi ekki gerst félagsmaður í hinu stefnda stéttarfélagi, heldur áfram verið félagsmaður í stefnanda eftir að hann hóf störf hjá stefnda, Fjarðabyggð. Af því og málsúrslitum að öðru leyti leiðir að síðari kröfuliður í dómkröfum stefnanda verður tekinn til greina.            

Dæma ber stefnda, Félag opinberra starfsmanna á Austurlandi, til að greiða stefnanda 250.000 krónur í málskostnað, en rétt þykir að málskostnaður falli niður að því er varðar stefnda, Fjarðabyggð.

 

D Ó M S O R Ð :

Viðurkennt er að Afl, starfsgreinafélag fari með samningsaðild fyrir Svein Brimi Björnsson, kt. 180171-4879, við gerð kjarasamnings við Fjarðabyggð vegna starfa hans sem tækjamanns við Þjónustumiðstöð Fjarðabyggðar.

Viðurkennt er að um laun og kjör Sveins Brimis Björnssonar hafi frá og með ráðningu hans til Fjarðabyggðar farið samkvæmt kjarasamningi Launanefndar sveitarfélaga og Starfsgreinasambands Íslands sem gerður var í maímánuði 2005.

Stefndi, Félag opinberra starfsmanna á Austurlandi, greiði stefnanda, Alþýðusambandi Íslands f.h. Starfsgreinasambands Íslands vegna Afls, starfsgreinafélags Austurlands, f.h. Sveins Brimis Björnssonar, 250.000 krónur í málskostnað. Málskostnaður fellur niður að því er varðar stefnda, Fjarðabyggð.

 

 

Eggert Óskarsson

Gylfi Knudsen

Kristjana Jónsdóttir

Gísli Gíslason

Lára V. Júlíusdóttir



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum