Hoppa yfir valmynd
19. apríl 2006 Innviðaráðuneytið

Breytingar á reglugerðum um ökuskírteini og skráningu ökutækja

Breytingar á tveimur reglugerðum er varða umferðarmál eru nú í undirbúningi. Annars vegar er það reglugerð um ökuskírteini og hins vegar reglugerð um skráningu ökutækja. Þeir sem óska eftir að koma á framfæri ábendingum vegna breytinganna eru beðnir að gera það skriflega við samgönguráðuneytið. Umferðarstofa hefur annast samningu draga að umræddum breytingum.

Breytingin á fyrrnefndu reglugerðinni, nr. 501/1997, tekur annars vegar til ökukennara sem kennir nemendum í æfingaakstri á bifhjóli, þar á meðal léttu bifhjóli. Í 29. grein gildandi reglugerðar segir að ökukennari megi kenna mest tveimur nemendum í senn við æfingaakstur á bifhjóli. Hefur þess orðið vart að ökukennarar hafa ekki virt þessa reglu og kennt allt að fimm nemendum í senn. Umferðarstofa telur að rýmka mætti regluna og miða við þrjá nemendur í stað tveggja en sú breyting yrði í samræmi við danskar reglur. Því er lagt til að í stað ,,tveimur” í 1. tölulið 1. mgr. 29. greinar komi: þremur.

Hins vegar er um að ræða breytingu á III. viðauka reglugerðarinnar sem varðar gerð og búnað ökutækja sem nota skal til ökukennslu. Þar er breytt setningu sem hljóða skal þannig: ,,Hópbifreið í flokki D1 eða D, a.m.k. 5,0 m að lengd, með leyfða heildarþyngd á bilinu frá 5.000 til 7.500 kg og gerð fyrir a.m.k. 80 km/klst. hraða.” Áður var þyngdin takmörkuð við 5.000 kg.

Þessi breyting er nauðsynleg í kjölfar breytinga á reglum um nám og próf ökumanna til ökuréttinda samkvæmt flokkum C1 og D1, sem veita réttindi til að aka bíl sem er 7.500 kg eða minna að leyfðri heildarþyngd eða bíl fyrir að hámarki 16 farþega án þess að um sé að ræða flutninga í atvinnuskyni. Komið hefur í ljós að einungis eru til í landinu um 40 bílar sem fullnægja kröfum að því er varðar flokk D1, flestar á höfuðborgarsvæðinu. Með breytingunni getur skilgreiningin náð til um 130 bíla í landinu.

Hin reglugerðin, nr. 751/2003, fjallar um skráningu ökutækja. Þar er lagt til að settur verði inn nýr liður þar sem fjallað er um skráningarmerki (númeraplötur) í því skyni að auðkenna ökutæki sem hafa heimild til að nota gjaldfrjálsa litaða olíu sem eldsneyti. Er lagt til að skráningarmerki þeirra verði með gulum grunni með svörtum stöfum og brúnum.

Í framhaldi af breytingu á lögum um olíugjald og kílómetragjald 2004 og 2005 telur fjármálaráðneytið nauðsynlegt að kveða á um að auðkennd verði sérstaklega þau ökutæki sem skráð eru til sérstakra nota til þess að á þau megi segja gjaldfrjálsa og litaða olíu. Mat fulltrúa fjármálaráðuneytis, ríkisskattstjóra og Vegagerðarinnar er að slík ökutæki verði best auðkennd með sérstökum skráningarmerkjum. Umferðarstofa leggur til að bætt verði við nýjum lið í 19. gr. reglugerðarinnar en hún fjallar um frávik sem lúta að reglum innskatt vegna virðisaukaskatts og sérbyggðar keppnisbifreiðar til rallaksturs sem hafa verið undanþegar álaningu vörugjalds. Lagt er til að nýi liðurinn verði c-liður í 19. grein og orðist svo: ,, Á skráningarmerkjum bifreiðar sem ætluð er til sérstakra nota, sbr. 6. og 7. tölulið 1. mgr. 4. gr. laga um olíugjald og kílómetragjald o.fl. nr. 87/2004, sbr. lög nr. 136/2005, og er undanþegin gjaldskyldu vegna olíugjalds, skal grunnur vera dökkgulur en brúnir, stafir, bandstrik og tígullaga flöturinn vera svört.”



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum