Hoppa yfir valmynd
24. apríl 2006 Innviðaráðuneytið

Undirbúa ökugerði á Akranesi

Ökukennarafélag Íslands og Akraneskaupstaður undirrituðu í dag viljayfirlýsingu um formlegt samstarf til að undirbúa stofnun fyrirtækis sem á að sjá um rekstur sérhannaðs ökukennslusvæðis, ökugerðis. Guðbrandur Bogason, formaður Ökukennarafélags Íslands, og Guðmundur Páll Jónsson, bæjarstjóri á Akranesi undirrituðu samkomulagið og Sturla Böðvarsson samgönguráðherra staðfesti það með undirritun sinni.

Ökugerði er lokað og afgirt svæði þar sem ökunemar og aðrir geta æft akstur og viðbrögð sín við ákveðnar aðstæður án þess að hætta sé á að það verði öðrum vegfarendum til truflunar.

Við undirritunina þakkaði ráðherra forráðamönnum Ökukennarafélagsins og bæjaryfirvalda á Akranesi fyrir frumkvæði þeirra í málinu. Verkefninu verður hrint í framkvæmd á næstu mánuðum í samstarfi við samgönguyfirvöld og aðra sem sinna umferðaröryggismálum. Sturla Böðvarsson sagði umferðaröryggisáætlun gerði ráð fyrir því að komið yrði upp ökugerðum þar sem sinnt yrði ákveðnum þáttum ökukennslu og væri það þáttur í aukinni umferðarfræðslu. Sagði hann það aðalatriðið að geta fækkað umferðarslysum með öllum tiltækum ráðum. Ráðherra sagði að í smíðum væri reglugerð um slík aksturskennslusvæði. Miðað er við að ökugerðið standist alþjóðlegar kröfur um slík svæði.

Guðbrandur Bogason, formaður Ökukennarafélags Íslands, sagði það lengi hafa verið baráttumál ökukennara að komið yrði upp ökugerði. Félagið hefði heyrt af áhuga forráðamanna Akranesbæjar og árangurinn væri viljayfirlýsingin nú um að koma upp þessu svæði. Guðbrandur sagði brýnt að geta boðið ökunemum kennslu í ökugerði á lokaferli námsins og raunar einnig á fyrstu stigum þegar þeir væru að venjast ökutækinu. Þá sagði hann ekki síður mikilvægt að geta boðið slíkt æfingasvæði fyrir bifhjólanema og þá sem stunda nám til aukinna ökuréttinda, til dæmis að geta æft þar akstur með eftirvagna.

Guðmundur Páll Jónsson, bæjarstjóri Akraness, sagði að ákveðinn draumur gæti nú orðið að veruleika. Hann minnti á að byggt hefði verið upp öflugt kerfi slysavarna meðal sjómanna og með aukinni umferð væri ekki síður nauðsynlegt að efla fræðslu í umferðarmálum og ökukennslu.

Gert er ráð fyrir að svæðið geti verið komið upp eftir um það bil ár. Það verður um 10 hektarar að stærð með stækkunarmöguleika og verður í útjaðri bæjarins. Guðbrandur Bogason segir hugmyndina að þetta verði eitt helsta ökugerði landsins en síðan sé ætlunin að koma upp nokkrum minni svæðum á fimm til sjö stöðum víðs vegar um landið.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum