Dómsmálaráðuneytið

Mannanafnanefnd, úrskurðir 5. maí 2006

Fundargerð

Ár 2006, föstudaginn 5. maí, var haldinn fundur í mannanafnanefnd. Fundurinn fór fram í Lögbergi, húsi lagadeildar Háskóla Íslands. Mætt voru Kolbrún Linda Ísleifsdóttir, Baldur Sigurðsson og Ágústa Þorbergsdóttir.

Eftirfarandi mál voru tekin fyrir:

1.   Mál nr. 24/2006. 1

2.     Mál nr. 25/2006. 2

3.     Mál nr. 26/2006. 2

4.     Mál nr. 27/2006. 3

5.     Mál nr. 28/2006. 3

6.     Mál nr. 29/2006. 4

7.     Mál nr. 30/2006. 5

8.     Mál nr. 31/2006. 5

9.     Mál nr. 32/2006. 6

 

1.         Mál nr. 24/2006

Eiginnafn:                       Apríl (kvk.)

 

Kveðinn er upp svohljóðandi úrskurður:

Mannanafnanefnd hefur a.m.k. sex sinnum fengið beiðni um kvenmannsnafnið Apríl og í öll skiptin hafnað beiðninni, sbr. úrskurði nefndarinnar nr. 33/1992, 53/1998, 45/2000, 68/2000 og 110/2005. Höfnun nefndarinnar hefur fyrst og fremst verið reist á þeim rökum að tökuorðið apríl sem mánaðarheiti hafi áunnið sér hefð í íslensku máli sem karlkynsorð og taki ekki venjulegri beygingarendingu í eignarfalli. Því uppfyllir orðið ekki öll þau skilyrði sem sem lög nr. 45/1996 setja um mannanöfn.

Við endurupptöku málsins ákvað mannanafnanefnd að endurskoða fyrri úrskurð sinn í ljósi þess markmiðs laga um mannanöfn nr. 45/1996 að auka frelsi í nafngiftum með því að heimila aðlöguð erlend nöfn, jafnvel þótt þau styðjist ekki við hefð í íslensku máli.

Nefndin lítur svo á að þótt mánaðarheitið apríl sé karlkyns og taki ekki beygingarendingu í eignarfalli (*apríls) þurfi slíkt hið sama ekki að gilda sé orðið notað sem eiginnafn. Dæmi má finna í málinu um að samnöfn eru ekki í sama kyni þegar þau eru notuð sem eiginnöfn, t.d. Auður og Ilmur, og aðlöguð erlend nöfn geta haft annað kyn en búast má við, t.d. kvenmannsnafnið Dagmar, sbr. karlmannsnöfnin Sigmar og Þórmar.

Öll heiti hinna tólf mánaða eru tökuorð úr latínu og hafa unnið sér hefð sem óbeygð karlkynsorð í íslensku; líklega þegið kyn sitt af orðinu mánuður. Mánaðarheitin mars, júlí, og ágúst eru á mannanafnaskrá sem eiginnöfn karla. Þótt mánaðaheitin beygist ekki taka eiginnöfnin Júlí og Ágúst eignarfallsendingu eins og önnur sambærileg nöfn (til Júlís/Ágústs) en Mars getur ekki bætt við sig eingarfalls s-i af hljóðfræðilegum ástæðum.

Orðið apríl í nefnifalli er endingarlaust og ber engin augljós merki þess að vera karlkyns­orð fremur en kvenkynsorð. Sem eiginnafn getur það tekið eignarfallsendingu, annaðhvort sem karlkynsorð, til Apríls, eða sem kvenkynsorð, til Aprílar.

Erlendis hefur mánaðarheitið apríl áunnið sér hefð sem kvenmannsnafn. Heiti mánaðarins er aðlagað íslenskum rithætti og getur tekið íslenskri beygingarendingu þegar það er notað sem eiginnafn. Mannanafnanefnd telur að ekki verði hjá því komist að fallast á að eiginnafnið Apríl verði heimilað í íslensku og þá sem kvenmannsnafn í samræmi við þá hefð sem skapast hefur hjá nágrannaþjóðum okkar.

Eiginnafnið Apríl (kvk.) tekur íslenska eignarfallsendingu, Aprílar, og telst að öðru leyti uppfylla ákvæði 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn.

Úrskurðarorð:


Beiðni um eiginnafnið Apríl (kvk.) er samþykkt og skal nafnið fært á mannanafnaskrá ásamt eignarfallsmynd þess, Aprílar.


 

2.         Mál nr. 25/2006

Millinafn:                           Hergils

  

Kveðinn er upp svohljóðandi úrskurður:

Millinafnið Hergils uppfyllir ekki ákvæði 2. mgr. 6. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn, þar sem nafnið hefur unnið sér hefð sem eiginnafn karls og er skráð á mannanafnaskrá sem slíkt. Nafnið fæst því ekki samþykkt sem almennt millinafn og verður þ.a.l. ekki fært á mannanafnaskrá.

Hins vegar uppfyllir millinafnið Hergils ákvæði 3. mgr. 6. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn, þar sem [...] Í þessu tilviki er um svokallað sérstakt millinafn að ræða sem verður ekki fært á mannanafnaskrá.

Úrskurðarorð:

Beiðni um millinafnið Hergils er samþykkt en nafnið skal ekki fært á mannanafnaskrá.

 

 

 

3.         Mál nr. 26/2006

Eiginnafn:                         Hugbjört (kvk.)

 

Kveðinn er upp svohljóðandi úrskurður:

Eiginnafnið Hugbjört (kvk.) tekur íslenska eignarfallsendingu (Hugbjartar) og telst að öðru leyti uppfylla ákvæði 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn.

Úrskurðarorð:

Beiðni um eiginnafnið Hugbjört (kvk.) er samþykkt og skal það fært á mannanafnaskrá.

 

 

4.         Mál nr. 27/2006

Eiginnafn:                         Maria (kvk.)

 

Kveðinn er upp svohljóðandi úrskurður:

Eiginnafnið Maria (kvk.) tekur íslenska eignarfallsendingu (Mariu) og telst hafa áunnið sér hefð í samræmi við 1. mgr. 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn, sbr. og 1. gr. vinnu-lagsreglna mannanafnanefndar frá 1. júlí 2004. Samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands bera 29 íslenskar konur eiginnafnið Maria sem fyrsta, annað eða þriðja nafn og er sú elsta fædd árið 1943. Með íslenskum konum er hér átt við þá íslensku ríkisborgara sem eiga eða hafa átt lögheimili á Íslandi. Maria telst vera annar ritháttur eiginnafnsins María og skal fært sem slíkt á mannanafnaskrá.

Úrskurðarorð:

Beiðni um eiginnafnið Maria (kvk.) er samþykkt og skal nafnið fært á mannanafnaskrá sem ritmynd eiginnafnsins María.

 

 

5.         Mál nr. 28/2006

Eiginnöfn:                         Conny (kvk.)  og  Elinor (kvk.)

 

Kveðinn er upp svohljóðandi úrskurður:

Öll skilyrði 1. mgr. 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn þurfa að vera uppfyllt svo að mögulegt sé að samþykkja nýtt eiginnafn og færa það á mannanafnaskrá. Skilyrðin eru þessi: (1) Eiginnafn skal geta tekið íslenska eignarfallsendingu eða hafa unnið sér hefð í íslensku máli. (2) Nafnið má ekki brjóta í bág við íslenskt málkerfi. (3) Það skal ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls nema hefð sé fyrir öðrum rithætti þess. Með almennum ritreglum íslensks máls er vísað til auglýsinga nr. 132/1974 og 261/1977 um íslenska stafsetningu.

Túlkun mannanafnanefndar á hugtakinu hefð í 5. og 6. gr. laga nr. 45/1996 um manna-nöfn styðst við eftirfarandi vinnulagsreglur sem nefndin setti sér á fundi 1. júlí 2004 og sem byggðar eru á greinargerð með frumvarpi að mannanafnalögum:

1.  Ungt tökunafn telst hafa unnið sér hefð í íslensku máli ef það fullnægir einhverju

eftirfarandi skilyrða:

  1. Það er nú borið af a.m.k. 15 Íslendingum (með Íslendingum er átt við þá íslensku ríkisborgara sem eiga eða hafa átt lögheimili hér á landi);
  2. Það er nú borið af 10–14 Íslendingum og hinn elsti þeirra hefur náð a.m.k. 30 ára aldri;
  3. Það er nú borið af 5–9 Íslendingum og hinn elsti þeirra hefur náð a.m.k. 60 ára aldri;
  4. Það er nú borið af 1–4 Íslendingum og kemur þegar fyrir í manntalinu 1910;
  5. Það er ekki borið af neinum Íslendingi nú en kemur a.m.k. fyrir í tveimur manntölum frá 1703–1910.

2.  Tökunafn getur verið hefðað, þó að það komi ekki fyrir í manntölum, ef það hefur

unnið sér menningarhelgi. Nafn telst hafa unnið sér menningarhelgi komi það fyrir

í alkunnum ritum, frumsömdum og þýddum, í nafnmynd sem ekki brýtur í bág við

íslenskt málkerfi.

Eiginnafnið Conny (kvk.) getur ekki talist ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls. Samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands ber aðeins ein íslensk kona eigin-nafnið Conny samkvæmt þjóðskrá og er hún fædd árið 1988 og því er ekki hefð fyrir þessum rithætti, sbr. ofangreindar vinnulagsreglur.

Eiginnafnið Elinor (kvk.) getur ekki talist ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls. Samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands ber engin íslensk kona eiginnafnið Elinor samkvæmt þjóðskrá en hins vegar eru karl og kona (íslenskir ríkisborgarar), fædd á Norðurlandi á þriðja og fjórða áratug 20. aldar, með kenninöfnin Elinorsson og Elinors-dóttir og hefur nafnið Elinor því verið notað sem karlmannsnafn á sínum tíma. Því er ekki hefð fyrir þessum rithætti, sbr. ofangreindar vinnulagsreglur.

Eiginnöfnin Conny og Elinor uppfylla þar af leiðandi ekki öll ákvæði 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn og því er ekki mögulegt að fallast á þau.

Úrskurðarorð:

Beiðni um eiginnöfnin Conny (kvk.) og Elinor (kvk.) er hafnað.

 

 

6.         Mál nr. 29/2006

 

Eiginnafn:                         Heiðarr (kk.)

 

Kveðinn er upp svohljóðandi úrskurður:

Eiginnafnið Heiðarr (kk.) tekur íslenska eignarfallsendingu (Heiðars) og telst ritháttur þessi hafa áunnið sér hefð í samræmi við 1. mgr. 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn, sbr. og ákvæði c-liðar 1. gr. vinnulagsreglna mannanafnanefndar frá 1. júlí 2004.

Samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands bera 6 íslenskir karlar eiginnafnið Heiðarr að síðara nafni og er elsti þeirra fæddur árið 1941. Með íslenskum körlum er hér átt við íslenska ríkisborgara sem eiga eða hafa átt lögheimili á Íslandi. Heiðarr telst vera annar ritháttur eiginnafnsins Heiðar og skal fært sem slíkt á mannanafnaskrá.

Úrskurðarorð:

Beiðni um eiginnafnið Heiðarr (kk.) er samþykkt og skal nafnið fært á mannanafnaskrá sem ritmynd eiginnafnsins Heiðar.

 


 

7.         Mál nr. 30/2006

Millinafn:                           Kort


Kveðinn er upp svohljóðandi úrskurður:

Í beiðni er þess óskað, að úrskurður mannanafnanefndar í máli nr. 14/2006 frá 4. mars 2006, verði endurskoðaður og ítrekuð sú krafa að nafnið Kort verði samþykkt sem milli-nafn. Til rökstuðnings kröfunni er m.a. vísað til þess að úrskurðarbeiðendur hafi heyrt þess getið að nafnið Kort hafi verið notað sem millinafn kvenna á árum áður.

Með beiðninni eru ekki lögð fram nein þau gögn eða málsástæður sem gefa tilefni til breytinga á fyrri afstöðu mannanafnanefndar til skráningar millinafnsins Kort og er því beiðni um endurupptöku málsins hafnað.

Úrskurðarorð:

Beiðni um endurupptöku málsins er hafnað.

 


 

8.         Mál nr. 31/2006

Eiginnafn:                         Erykah (kvk.)

 

Kveðinn er upp svohljóðandi úrskurður:

Öll skilyrði 1. mgr. 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn þurfa að vera uppfyllt svo að mögulegt sé að samþykkja nýtt eiginnafn og færa það á mannanafnaskrá. Skilyrðin eru þessi: (1) Eiginnafn skal geta tekið íslenska eignarfallsendingu eða hafa unnið sér hefð í íslensku máli. (2) Nafnið má ekki brjóta í bág við íslenskt málkerfi. (3) Það skal ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls nema hefð sé fyrir öðrum rithætti þess. Með almennum ritreglum íslensks máls er vísað til auglýsinga nr. 132/1974 og 261/1977 um íslenska stafsetningu.

Túlkun mannanafnanefndar á hugtakinu hefð í 5. og 6. gr. laga nr. 45/1996 um manna-nöfn styðst við eftirfarandi vinnulagsreglur sem nefndin setti sér á fundi 1. júlí 2004 og sem eru byggðar á greinargerð með frumvarpi að mannanafnalögum:

1.  Ungt tökunafn telst hafa unnið sér hefð í íslensku máli ef það fullnægir einhverju

eftirfarandi skilyrða:

  1. Það er nú borið af a.m.k. 15 Íslendingum (með Íslendingum er átt við þá íslensku ríkisborgara sem eiga eða hafa átt lögheimili hér á landi);
  2. Það er nú borið af 10–14 Íslendingum og hinn elsti þeirra hefur náð a.m.k. 30 ára aldri;
  3. Það er nú borið af 5–9 Íslendingum og hinn elsti þeirra hefur náð a.m.k. 60 ára aldri;
  4. Það er nú borið af 1–4 Íslendingum og kemur þegar fyrir í manntalinu 1910;
  5. Það er ekki borið af neinum Íslendingi nú en kemur a.m.k. fyrir í tveimur manntölum frá 1703–1910.

2.  Tökunafn getur verið hefðað, þó að það komi ekki fyrir í manntölum, ef það hefur

unnið sér menningarhelgi. Nafn telst hafa unnið sér menningarhelgi komi það fyrir

í alkunnum ritum, frumsömdum og þýddum, í nafnmynd sem ekki brýtur í bág við

íslenskt málkerfi.

Eiginnafnið Erykah (kvk.) telst ekki geta tekið íslenska eignarfallsendingu, nafnið brýtur í bág við íslenskt málkerfi og telst ekki ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls. Samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands er aðeins ein kona skráð með nafnið Erykah að síðara nafni í þjóðskrá og er hún fædd árið 1969. Því er ekki hefð fyrir þessum rithætti, sbr. ofangreindar vinnulagsreglur. Eiginnafnið Erykah uppfyllir þar af leiðandi ekki öll ákvæði 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn og því er ekki mögulegt að fallast á það, sbr. einnig úrskurð mannanafnanefndar í máli nr. 7/2005, frá 3. febrúar 2005.

Að endingu skal bent á ákvæði 2. mgr. 10. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn varðandi nafnrétt manna af erlendum uppruna en þar segir: „Sé annað foreldri barns erlendur ríkisborgari eða hafi verði það er heimilt að barninu sé gefið eitt eiginnafn og/eða milli-nafn sem víkur frá ákvæðum 5.-7. gr. ef unnt er að sýna fram á að hið erlenda nafn sé gjaldgengt í heimalandi hins erlenda foreldris. Barnið skal þó ávallt bera eitt eiginnafn sem samrýmist 5. gr.“ Í tilvikum sem þessum þarf ekki atbeina mannanafnanefndar til skráningar umbeðins nafns í þjóðskrá þar sem nafnið fer ekki á mannanafnaskrá.

Úrskurðarorð:

Beiðni um eiginnafnið Erykah (kvk.) er hafnað.

 

 

 

9.         Mál nr. 32/2006

Millinafn:                           Amlín

 

Kveðinn er upp svohljóðandi úrskurður:

Ákveðið var að fresta afgreiðslu málsins til frekari skoðunar og gagnaöflunar.

Úrskurðarorð:

Beiðni um skráningu millinafnsins Amlín er frestað.

 

 

- - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - -

Fleira var ekki tekið fyrir og fundi slitið.

 

 Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn