Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Máli nr. 12/2006. Ákvörðun kærunefndar útboðsmála:

Ákvörðun kærunefndar útboðsmála 22. maí 2006

í máli nr. 12/2006:

Vegmerking ehf.

gegn

Vegagerðinni

Með bréfi 16. maí 2006 kærir Vegmerking ehf. útboð Vegagerðarinnar auðkennt sem ,,Yfirborðsmerkingar á suðvestursvæði og hringvegur að Selfossi 2006 - 2008“.

Kærandi krefst þess að kærunefnd útboðsmála stöðvi gerð samnings kærða við Monstro ehf. þar til endanlega hefur verið skorið úr kæru, sbr. 1. mgr. 80. gr. laga nr. 94/2001 um opinber innkaup. Þá krefst kærandi þess að ákvörðun kærða um að ætla að semja við Monstro ehf. verði felld úr gildi. Þá er þess krafist að úrskurðað verði að kærða sé óheimilt að semja við Monstro ehf. á grundvelli hins kærða útboðs. Loks er þess krafist að kærða verði gert að greiða kæranda kostnað við að hafa kæruna uppi, sbr. 3. mgr. 81. gr. laga nr. 94/2001.

Kærði krefst þess að kröfum kæranda verði hafnað.

Kærunefnd útboðsmála telur rétt að taka afstöðu til kröfu kæranda um stöðvun samningsgerðar þegar í stað. Úrlausn um kröfur kæranda að öðru leyti bíða hins vegar endanlegs úrskurðar.

I.

Í mars 2006 bauð kærði út sprautuplöstun og mössun á yfirborði vega á suðvestursvæði og hringvegi að Selfossi. Verkið var boðið út til þriggja ára með möguleika á framlengingu verksamnings um tvö ár til viðbótar. Kostnaðaráætlun nam kr. 146.990.000. Tilboð voru opnuð 11. apríl 2006 og bárust þrjú boð í verkið. Tilboð Monstro ehf. var lægst að fjárhæð og nam kr. 141.990.000, en tilboð kæranda nam kr. 154.104.800 og tilboð Vegamáls ehf. kr. 156.141.700. Undirritaður var verksamningur á milli kærða og Monstro ehf. um hið kærða verk 17. maí 2006.

II.

Kærandi vísar til þess að í lið 1.8 í útboðslýsingu sé tekið fram að til að koma til álita við val á verktaka skuli bjóðanda hafa áður unnið sambærileg verk fyrri verkkaupa eða annan aðila á síðastliðnum fimm árum. Með sambærilegum verkum sé átt við verkefni svipaðs eðlis og að upphæð verksamninga hafi að lágmarki verið 80% af tilboði í þetta verk. Jafnframt hafi verið gerð sú krafa að ársvelta fyrirtækis bjóðanda hafi að lágmarki verið sem nemur 75% af tilboði hans í verkið síðastliðin þrjú ár.

Kærandi telur óumdeilt að Monstro ehf. fullnægi ekki þessum kröfum. Fyrirtækið hafi ekki áður unnið sambærilegt verk fyrir kærða eða annan aðila á síðastliðnum fimm árum. Þá nái árvelta þess ekki 75% af tilboði í verkið síðastliðin þrjú ár. Fullnægi tilboð Monstro ehf. því ekki lögmætum skilmálum útboðsins, einkum lið 1.8, og væri í andstöðu við ákvæði ÍST 30, einkum 9. kafla, ef kærði gengi til samninga við fyrirtækið um framkvæmd verksins. Kærandi telur þá ætlun kærða að semja við Monstro ehf. um verkið vera ólögmæta, brjóta gegn lögum nr. 94/2001, einkum 26. og 50. gr. laganna, útboðsskilmálum og ákvæðum ÍST 30. Jafnframt muni fyrirhugaður samningur brjóta gróflega gegn lögmætum hagsmunum kæranda.

Kærandi telur skilyrði 80. gr. laga nr. 94/2001 til stöðvunar samningsgerðar vera uppfyllt. Hafi hann mikla hagsmuni af því að gerð samningsins verði þegar stöðvuð, enda vænti hann þess að kærða verði gert skylt að fylgja skilmálum útboðsins og fara að ákvæðum laga nr. 94/2001.

III.

Kærði tekur fram að undanfarin ár hafi aðeins tveir aðilar keppt í útboðum á yfirborðsmerkingum á vegum kærða, þ.e. kærandi og Vegamál ehf. Hafi það því verið fagnaðarefni að Monstro ehf. væri tilbúið til að taka þátt í útboðinu og auka þannig samkeppni á markaðnum. Verði mjög öflugur sænskur aðili, EKC Sverige AB, samstarfsaðili Monstro ehf. við framkvæmd verksins og hafi fyrrnefnt fyrirtæki langa reynslu af merkingum og unnið fyrir ýmis af stærstu verktakafyrirtækjum í Skandinavíu og víða í Evrópu. Tekið er fram að þegar fyrir lá að Monstro ehf. væri lægstbjóðandi í verkið hafi verið kallað eftir gögnum um fjárhagslega og tæknilega getu fyrirtækisins og samstarfsaðila þess. Hafi að mati kærða enginn vafi verið á að þessir aðilar gætu staðið við skuldbindingar samkvæmt útboðslýsingu. Hafi því verið ákveðið að semja við lægstbjóðanda um framkvæmd verksins, enda skylt að taka hagstæðasta tilboði samkvæmt 50. gr. laga nr. 94/2001. Þann 17. maí 2005 eða samdægurs og kæra barst hafi verið undirritaður verksamningur við Monstro ehf. Hafi ekki mátt tæpara standa við samningsgerðina þar sem hefja eigi verkið í síðasta lagi í þeirri viku sem nú sé að líða og tímatakmörk fyrsta verkþáttar mjög naum, sbr. lið 1.2 í útboðslýsingu. Vakin er athygli á því að rösklega fimm vikur hafi liðið frá því að kæranda var ljóst að Monstro ehf. væri lægstbjóðandi og þar til hann gerði athugasemdir við þátttöku fyrirtækisins í útboðinu. Kunni að vera tilefni til frávísunar málsins af þessum ástæðum.

Þar sem samningsgerð sé lokið og fyrir liggi bindandi samningur um framkvæmd verksins sé ekki unnt að verð við kröfu kæranda um stöðvun samningsgerðar. Af því leiði að ekki sé unnt að verða við öðrum kröfum kæranda í málinu en kröfu hans um greiðslu kostnaðar við að hafa uppi kæru í málinu og muni kærði gera grein fyrir sjónarmiðum sínum varðandi þá kröfu á síðari stigum.

IV.

Kærandi hefur í máli þessu krafist stöðvunar samningsgerðar, sbr. heimildir kærunefndar útboðsmála samkvæmt 80. gr. laga nr. 94/2001. Í 1. mgr. 54. gr. laganna kemur fram að tilboð skuli samþykkja skriflega innan gildistíma þess og er þá kominn á bindandi samningur á grundvelli útboðsgagna og tilboðs bjóðanda. Þó skal gera sérstakan samning um kaup á vöru, þjónustu eða verki á grundvelli útboðsins þegar við á eða annar aðili óskar þess. Í 1. mgr. 83. gr. laganna kemur fram að eftir að samningur hefur verið gerður verði hann ekki felldur úr gildi eða honum breytt þótt ákvörðun kaupanda um framkvæmd útboðs eða gerð samnings hafi verið ólögmæt. Í 3. mgr. sömu greinar segir að um gildi samninga, sem stofnað er til samkvæmt lögunum, fari að öðru leyti eftir almennum reglum.

Í máli þessu liggur fyrir verksamningur á milli kærða og Monstro ehf. um hið kærða verk. Samningurinn er dagsettur 17. maí 2006. Líta verður svo á að á því tímamarki hafi verið kominn á bindandi samningur milli kærða og Monstro ehf. Brestur kærunefnd útboðsmála því heimild til að verða við kröfu kæranda um stöðvun samningsgerðar á grundvelli hins kærða útboðs. Með vísan til framangreinds verður að hafna kröfu kæranda um stöðvun samningsgerðar.

 

Ákvörðunarorð:

Kröfu kæranda, Vegmerkingar ehf., um stöðvun samningsgerðar vegna útboðs kærða, Vegagerðarinnar, auðkennt sem ,,Yfirborðsmerkingar á suðvestursvæði og hringvegur að Selfossi 2006-2008“, er hafnað.

 

 

                                                               Reykjavík, 22. maí 2006.

                                                               Sigfús Jónsson

                                                               Stanley Pálsson

                                                               Auður Finnbogadóttir

 

 

 

Rétt endurrit staðfestir,

Reykjavík, 22. maí 2006.

 

 Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn