Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Fréttabréf stjórnenda ríkisstofnana 23. maí 2006

2. tbl. 8. árg.
Útgefið 23. maí 2006
Útgefandi: Fjármálaráðuneytið
Ábyrgðarmaður: Baldur Guðlaugsson, ráðuneytisstjóri
Vefur:
www.fjarmalaraduneyti.is
Tölvupóstfang:
[email protected]

Fréttabréfið er einnig fáanlegt á PDF-formi sem er afar hentugt til útprentunar og sem unnt er að lesa með forritinu Adobe Acrobat Reader.

Ný launatafla er bundin breyttum eða nýjum stofnanasamningum

Vegna fjölda fyrirspurna er varða yfirfærslu á nýja launatöflu vill starfsmannaskrifstofa leggja sérstaka áherslu á að ný launatafla, sem gildir frá 1. maí 2006 samkvæmt flest öllum kjarasamningum ríkisins, er bundin því að gerð nýrra stofnanasamninga eða aðlögun stofnanasamninga að nýju launatöflunni sé lokið áður en hún er tekin í notkun. Það er þess vegna óheimilt að stytta sér leið og varpa launum yfir í hina nýju launatöflu án undanfarandi röðunar starfa í launaflokka.

Þetta kemur m.a. fram í samkomulagi ríkisins við SFR – stéttarfélag í almannaþjónustu um breytingar á kjarasamningi frá 5. mars 2005. Í 3. grein þess segir að aðlögun stofnanasamninga að nýrri launatöflu skuli vera lokið þegar ný launatafla tekur gildi 1. maí 2006. Sambærileg ákvæði eru í samningum annarra stéttarfélaga sem sömdu á sömu nótum og SFR.

Hjá aðildarfélögum Bandalags háskólamanna og þeirra félaga sem sömdu á sömu nótum og BHM er á sama hátt óheimilt að stytta sér leið. Ljúka þarf gerð stofnanasamninga áður en hægt er að greiða laun samkvæmt nýrri launatöflu enda gildir hið sama og fram kemur hér að ofan.

Eldri launatöflur verða áfram opnar í launavinnslukerfinu þannig að hægt verður að greiða laun eftir þeim eitthvað fram á haustið ef ekki tekst að ljúka gerð stofnanasamninga fyrir sumarleyfi.

_______________

Margir náðu að ljúka gerð stofnanasamninga fyrir 1. maí 2006

Samkvæmt upplýsingum frá Fjársýslu ríkisins voru laun u.þ.b. 2.000 einstaklinga hjá 108 stofnunum ríkisins greidd samkvæmt nýjum launatöflum 1. maí sl. Ýmist er um að ræða einstaklinga innan stéttarfélaga BSRB (Bandalags ríkis og bæja), BHM (Bandalags háskólamanna), KÍ (Kennarasambands Íslands) eða stéttarfélaga utan bandalaga.

Fjöldi þeirra starfsmanna sem fengu greidd laun skv. nýjum stofnanasamningum er u.þ.b. 12% af heildarfjölda starfsmanna ríkisins en þegar þetta er skoðað verður að gæta þess að stór hluti ríkisstarfsmanna fær laun sín greidd eftir á. Það er því ljóst að hjá mörgum stofnunum náðist að gera nýja stofnanasamninga eða aðlaga gildandi stofnanasamninga að þeim eldri fyrir 1. maí sl.

_______________

Frábær árangur við flokkun starfa Ístarf – 95

Í tengslum við innleiðingu á Oracle fjárhags- og mannauðskerfum ríkisins var stofnunum uppálagt að stofna svo kölluð lýsandi starfsheiti yfir þau störf sem hjá þeim eru unnin. Tæplega 95% stofnana höfðu 1. maí sl. skráð starfsheiti starfsmanna sinna í launakerfinu og jafnframt flokkað störfin samkvæmt Íslenskri starfaflokkun – Ístarf- 95. Hagstofa Íslands hefur aðstoðað stofnanir við flokkunina og mun hafa virkt eftirlit með flokkuninni í framtíðinni.

Þess má geta í þessu sambandi að nú eru laun allra starfsmanna ríkisins afgreidd í einu og sama launakerfinu nema hjá Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri sem bætist við á næstunni.

_______________

Nýtt efni um starfsmannamál á vefsíðum fjármálaráðuneytisins og Fjársýslu ríkisins

Á vefsíðu fjármálaráðuneytisinsins eru birtir allir nýir kjarasamningar sem fjármálaráðherra hefur gert fyrir hönd ríkissjóðs við stéttarfélög og sambönd stéttarfélaga.

Samningar á samningstímabilinu 2004 - 2008 eru komnir á vefsíðuna en nú er gerð kjarasamninga að mestu lokið. Þar má líka sjá kjarasamninga frá eldri samningstímabilum og samninga sem gefnir hafa verið út í bókarformi. Þar er einnig að finna ýmsar hagnýtar upplýsingar við gerð stofnanasamninga 2006.

Á vefsíðu Fjársýslu ríkisins, fjs.is, er yfirlit yfir launatöflur einstakra stéttarfélaga. Töflurnar eru á Excel-formi. Þar eru allar nýjustu launatöflurnar svo og yfirlit yfir eldri launatöflur frá árunum 2003 – 2005. Þar er einnig bréf, dags. 7. apríl 2006, sem sent var öllum stofnunum ríkisins vegna þeirra breytinga sem urðu á launatöflum flestra stéttarfélaga opinberra starfsmanna 1. maí sl. með hagnýtum leiðbeiningum um hvernig launatöfurnar eru settar upp og númeraðar. Á vefsíðu Fjársýslunnar er ennfremur að finna yfirlit yfir launatengd gjöld 2006, fjarvistaskrá ársins svo og ýmis eyðublöð vegna starfsmannamála.

_______________

Kjaramál

Tímabil sumarorlofs
Sérstök athygli stofnana er vakin á því að frá 1. maí 2006 er tímabil sumarorlofs frá 1. maí til 15 september ár hvert samkvæmt flest öllum kjarasamningum ríkisins. Þetta er breyting frá því sem verið hefur en tímabil sumarorlofs hefur nú að mestu verið samræmt í kjarasamningunum.

Laun ungmenna
Samkvæmt samkomulagi við SFR – stéttarfélag í almannaþjónustu og Starfsmannafélag Ríkisútvarpsins við lok samningsgerðarinnar á síðasta ári hefur verið gerð breyting á greinum 1.4.3 – 1.4.4 um laun ungmenna í kjarasamningunum. Ný grein 1.4.3 um laun ungmenna tók gildi 1. maí 2006 og hljóðar svo:

1.4.3
Laun ungmenna skulu vera sem hér segir:
16 ára 80 % af lfl. 01 1. þrepi
17 ára 85 % af lfl. 01 1. þrepi

Tímakaup í dagvinnu er 0,615% af sama launaflokki og þrepi og í sömu hlutföllum eftir aldri.
Ungmenni skulu taka laun skv. þeim aldursflokki sem þeir tilheyra í lok almanaksársins.

_______________

Ýmislegt fréttnæmt

Framsækinn ríkisrekstur – árangursstjórnun í tíu ár
Fimmtudaginn 18. maí var haldin ráðstefna á vegum fjármálaráðuneytisins í tilefni þess að tíu ár eru síðan hafin var innleiðing árangursstjórnunar í ríkisrekstri.

Svo sem fram kom í ræðu fjármálaráðherra Árna M. Mathiesen við setningu ráðstefnunnar var tilgangur hennar að ræða reynsluna af þeim breytingum sem hafa verið innleiddar hjá ríkinu á undanförnum árum undir merkjum árangursstjórnunar og hvetja þá sem vinna hjá ráðuneytum og ríkisstofnunum til þess að halda áfram á þeirri braut sem mörkuð hefur verið.

Frá því að skipuleg innleiðing árangursstjórnunar hófst hefur fjármálaráðuneytið staðið fyrir vali á ríkisstofnun til fyrirmyndar annað hvert ár. Að þessu sinni var það Umferðarstofa sem fékk viðurkenningu sem ríkisstofnun til fyrirmyndar 2006 og flutti framkvæmdastjóri rekstrarsviðs Umferðarstofu erindi á ráðstefnunni. Einnig fluttu erindi skólameistari Borgarholtsskóla, sem fékk hvatningarviðurkenningu ársins, og ríkisskattstjóri, sem fékk viðurkenningu fyrir góðan árangur. Fjöldi annarra áhugaverðra erinda voru flutt á ráðstefnunni en hægt er að skoða þau á Stjórnendavefnum.

Ráðstefnan var haldin í Súlnasal Hótel Sögu og sóttu hana um 150 manns.

Stjórnunarmat hjá opinberum stofnunum
Nýlega var haldið námskeið hjá Endurmenntun Háskóla Íslands í samvinnu við Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála við Háskóla Íslands sem bar nafnið Stjórnunarmat opinberra stofnana.

Á námskeiðinu var m.a. fjallað um: Hvað er stjórnunarmat, hver er gagnsemi þess og hvernig tengist það öðrum umbótaverkefnum hins opinbera? Kjarni stjórnunarmatsins er spurningakönnun sem allir starfsmenn stofnunarinnar taka þátt í, aðrir en æðsti stjórnandi. Spurningarnar beinast að næsta yfirmanni, æðsta stjórnanda og stjórnun og starfsumhverfi stofnunarinnar í heild.

Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála er að vinna að handbók í samráði við fjármálaráðuneytið um stjórnunarmat hjá opinberum stofnunum. Verður handbókin kynnt síðar.

Skattrannsóknarstjóri ríkisins valin stofnun ársins af SFR
SFR- stéttarfélag í almannaþjónustu stóð á dögunum fyrir leit að stofnun ársins með könnun á meðal félagsmanna sinna. Í könnuninni var m.a. spurt um starfsskilyrði og líðan starfsmanna á vinnustað. Framkvæmd könnunarinnar var unnin í samstarfi við VR og sá fyrirtækið IMG Gallup um könnunina en það hefur séð um slíka könnun fyrir VR undanfarin ár.

Skattrannsóknarstjóri ríkisins var valin stofnun ársins 2006. Í öðru sæti var Biskupsstofa, í þriðja sæti Kirkjugarðar Reykjavíkurprófastsdæma, í fjórða sæti Sjálfsbjargarheimilið og í fimmta sæti Skattstofa Suðurlands.

_______________

Norræn starfsmannaskipti

Norræna ráðherranefndin hefur frá árinu 1979 veitt styrki til að gera ríkisstarfsmönnum kleift að stunda tímabundið störf eða starfsnám á starfsvettvangi sínum hjá ríkisstofnunum á hinum Norðurlöndunum. Styrkurinn er nú 8.000 danskar krónur á mánuði. Ráðherranefndin greiðir einnig ferðakostnað til og frá dvalarstað samkvæmt sérstökum reglum.

Starfsmannaskiptin eins og þau eru nefnd eru ekki bundin því að um eiginleg skipti milli stofnana sé að ræða, heldur sækir hver starfsmaður um á sínum forsendum og er ekki háð þvi að annar komi hingað til lands í staðinn. Skiptin eru ekki bundin við sérstök störf eða starfshópa en starfið eða starfsnámið verður þó að vera í faglegum tengslum við verksvið umsækjanda og teljast bæði stofnun og starfsmanni til gagns. Á meðan á dvölinni stendur skal starfsmaðurinn njóta venjulegra mánaðarlauna á sínum fasta vinnustað. Þetta er ein af forsendum þess að starfsmaðurinn hljóti styrkveitingu

Á síðasta ári fengu níu Íslendingar styrk til þess að dvelja við störf eða starfsnám á hinum Norðurlöndunum og fóru flestir til Danmerkur en einn fór til Noregs og annar til Svíþjóðar. Þegar styrkþegarnir koma heim skrifa þeir skýrslu um dvölina sem þeir skila yfirmönnum sínum og senda einnig fjármálaráðuneytinu eintak sem stendur skil á skýrslunum til Norrænu ráðherranefndarinnar. Á vefsíðu fjármálaráðuneytisins er að finna sýnishorn af skýrslu frá einum styrkþega og úrdráttur úr nokkrum skýrslum er einnig á vef Norrænu ráðherranefndarinnar.

Við lestur á skýrslum styrkþeganna kemur skýrt fram að sá tími sem þeir dvelja erlendis nýtist þeim vel. Þeir auka þekkingu sína, öðlast nýja sýn og skilning á ýmsum málum. Auk þess skapast ný tengsl sem nýtast bæði starfsmönnunum sem styrkinn hlutu og ekki síður þeim stofnunum sem þeir starfa hjá vegna þess að þeir miðla þeirri þekkingu sem þeir öðlast bæði til yfirmanna og samstarfsmanna sinna.

Við bendum forstöðumönnum á að kynna starfsmönnum sínum þennan möguleika en umsóknarfrestur vegna ársins 2007 er til 30. nóvember 2006. Upplýsingar um starfsmannaskiptin er að finna á vefsíðu fjármálaráðuneytisins.

_______________

Frá Alþingi

Nokkur fjöldi stjórnarfrumvarpa sem varða starfsemi og starfsmannamál ríkisstofnana hefur verið lagður fram á löggjafarþinginu 2005 – 2006. Flest þeirra eru enn til meðferðar hjá þinginu en sem stendur er hlé á þingstörfum vegna sveitarstjórnarkosninga.

Meðal þeirra laga sem hafa verið samþykkt eru lög um Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar. Í þeim er kveðið á um starfsemi og stjórnsýslu íslenskra flugmálayfirvalda á Keflavíkurflugvelli. Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar mun sem fyrr annast stjórn og rekstur flugvallarins en til stofnunarinnar færast ýmsir rekstrarþættir sem hafa verið á hendi varnarliðsins, svo sem slökkvilið og rekstur flugbrauta og mannvirkja og kerfa sem tengjast flugvellinum. Þá hafa lög um stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins verið samþykkt en nokkur önnur frumvörp til laga um hlutafélagavæðingu ríkisstofnana hafa verið lög fram á yfirstandandi þingi. Frumvörp þessi taka til starfsemi ÁTVR, RÚV, Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins, Matvælarannsókna Keldnaholti, rannsóknastofu Umhverfisstofnunar og flugleiðsöguþjónustu og flugvallarreksturs Flugmálastjórnar Íslands.

Eitt frumvarp hefur verið lagt fram til laga um nýja ríkisstofnun, þ.e. Náttúruminjasafn Íslands. Nokkuð er um að frumvörp hafi verið lögð fram til nýrra laga um eldri stofnanir. Það á t.d. við Landhelgisgæslu Íslands, Veiðimálastofnun, Landmælingar Íslands, Vinnumálastofnun og Flugmálastjórn Íslands. Að auki hafa verið lögð fram þrjú frumvörp um sameiningu eldri stofnana í nýjar, þ.e. Heyrnar-, tal- og sjónstöð (sameining Heyrnar- og talmeinastöðvar og Sjónstöðvar), Nýsköpunarmiðstöð Íslands (sameining Iðntæknistofnunar Íslands, Rannsóknastofnunar byggingariðnaðarins og Byggðastofnunar) og Stofnun íslenskra fræða – Árnastofnun (sameining Stofnunar Árna Magnússonar á Íslandi, Íslenskrar málstöðvar, Örnefnastofnunar Íslands, Orðabókar Háskóla Íslands og Stofnunar Sigurðar Nordals). Þá eru nokkur frumvörp sem fela í sér breytt skipulag og tilfærslu á starfsemi milli stofnana. T.d. um fækkun tollembætta, breytingar á umdæmaskipan lögreglu og á verkaskiptingu milli einstakra sýslumannsembætta og um flutning á starfsemi Þjóðskrár og almannaskráningar frá Hagstofu Íslands til dómsmálaráðuneytisins. Að lokum er rétt að geta hér frumvarps til laga um kjararáð sem er ætlað að leysa af hólmi Kjaradóm og kjaranefnd.

Hér að neðan eru beinar krækjur á nefnd lög á vefsíðu Alþingis. Nefnd frumvörp og upplýsingar um framvindu þeirra er hægt að nálgast á alþingi.is.


- Svör við þingmannafyrirspurnum -

Hér að neðan er að finna skrifleg svör fjármálaráðherra og forsætisráðherra við nokkrum fyrirspurnum þingmanna er lúta að starfsmannamálum ríkisins og nefndastarfi á vegum ráðuneytanna.

_______________


Frá Félagi forstöðumanna ríkisstofnana

„Einni ríkisbúðinni færra“

Fyrir nokkrum mánuðum birtist í dagblaði leiðari sem bar heitið „Einni ríkisbúðinni færra“. Var í leiðaranum fjallað um þá ákvörðun sem tekin hafði verið að aðskilja samkeppnishluta Landmælinga Íslands frá annarri starfsemi stofnunarinnar. Af leiðaranum mátti skilja að ákvörðunin gæti verið umdeild þar sem hún gæti dregið úr atvinnu á þeim stað sem stofnunin er staðsett en slíkt yrði að líða þar sem ríkisumsvif ættu í eðli sínu ekki að skapa uppbótarstörf á landsbyggðinni.

Óhætt er að segja að leiðarahöfundur hafi með þessu hreyft viðkvæmu máli en um leið komist að kjarna þess með málefnalegum hætti þótt í heiti leiðarans kunni að hafa falist óþarflega niðrandi tónn. Ríkisstofnanir starfa samkvæmt lögum og geta ekki og eiga ekki að verða til sjálfs síns vegna eða vegna einhverra þarfa annarra en þeirra sem orðið hafa til með lögmætum og hlutlægum hætti. Með lögum eru stofnunum hins opinbera, hvort sem það eru ráðuneyti eða sjálfstæðar ríkisstofnanir, falinn tilgangur og hlutverk. Í tímans rás breytist hlutverk slíkra aðila eftir þörfum þjóðfélags á hverjum tíma. Það sem eitt sinn þótti sjálfsagt að hið opinbera sinnti, kann að vera í annarra höndum á öðrum tímum. Án efa hefur sala Landmælinga Íslands á kortum komið til vegna þess að það hafi þótt sjálfsagt út frá eðli stofnunarinnar og eins hitt að sala korta var hugsuð sem sértekjuleið stofnunarinnar til að fjármagna rekstur sinn. Þegar á leið og samkeppnisumhverfi fór að myndast var það viðkomandi stofnun, Landmælingar Íslands, sem átti frumkvæði að breyttum rekstri stofnunarinnar hvað þetta varðaði.

Endurskoðun verkefna stofnana er sjálfsögð og eðlileg. Þar kann úthýsing verkefna að vera skynsamleg ráðstöfun. Er það sífellt að aukast að stofnanir færi verkefni út fyrir veggi sína og fleiri þættir í rekstri stofnana séu unnir af verktökum. Þannig eru tiltekin verkefni stofnana falin einkaaðilum, annað hvort með lögum eða samningi viðkomandi stofnana við hlutaðeigandi. Úthýsing lögbundinna verkefna getur á hinn bóginn kallað á breytt skipulag stofnana því að það er viðkomandi stofnun sem í reynd ber ábyrgð á störfum einkaaðila í sínu umboði. Þannig þarf stofnunin að geta sinnt eftirlitshlutverki sínu með hlutaðeigandi aðila, meta hvort staðið sé við lagaskyldur og loks árangur. Þá þarf að taka ákvörðun um hvort halda beri áfram á þessari braut. Auk Landmælinga hafa fjölmargar stofnanir farið þessa leið með einum eða öðrum hætti. Þar má nefna Barnaverndarstofu, Orkustofnun, Veðurstofuna, Námsgagnastofnun, Umferðarstofu o.fl.

Færsla verkefna frá ríkisstofnunum til einkaaðila dregur úr beinum ríkisumsvifum en það er ekki þar með sagt að kostnaður samfélagsins verði endilega minni, kostnaðurinn hefur jafnvel aukist í einstökum tilfellum, auk þess sem á stundum lækka sértekjur stofnana sem kallar aftur á hærri fjárveitingar. Þegar úthýsing verkefna á sér stað er undanfari þess oft á tíðum viðleitni hlutaðeigandi stofnunar sem þannig er jafnvel leiðandi með ráðuneyti sínu í þessu verkefni. Aukin markaðs- og samkeppnisvitund ásamt því viðhorfi að ríkisstofnanir eigi ekki að vera í beinum rekstrarverkefnum hefur ýtt undir þessa þróun á síðustu árum.

Auk beinnar úthýsingar fer það einnig í vöxt að tilteknar stofnanir, t.d. eftirlitsstofnanir, ráði sjálfstætt starfandi sérfræðinga í tiltekin verkefni, svo sem endurskoðendur, lögmenn og aðra ráðgjafa. Slíkt gefur starfsmönnum stofnana víðari sjóndeildarhring og er í sjálfu sér akkur fyrir stofnanir ef þær hafa tök á slíku. Sígilt dæmi er þegar rekstur tölvukerfa er í umsjá annarra en starfsmanna stofnunar. Þá er bókhald, fjárhagsmálefni og ráðningar starfsmanna iðulega í höndum annarra en starfsmanna viðkomandi stofnunar.

Úthýsing verkefna er því af hinu góða og sennilega oftar en ekki að frumkvæði viðkomandi stofnunar. Hitt er jafn mikilvægt að haft sé í huga að slíkt getur haft í för með sér meiri kostnað fyrir samfélagið.


F.h. félagsstjórnar FFR
Skúli Eggert Þórðarson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn