Hoppa yfir valmynd
14. júní 2006 Innviðaráðuneytið

Hert á eftirlitsákvæðum umferðarlaga

Alþingi samþykkti nokkrar breytingar á umferðarlögum á síðustu starfsdögum sínum í vor og miða þær einkum að því að auka umferðaröryggi. Ein helsta breytingin er að styrkja lagastoðir ákvæða um akstur og hvíld bílstjóra farmflutninga- og hópferðabíla og að setja nýjar reglur um ökurita og eftirlit með notkun þeirra.

Lagabreytingarnar eru einnig liður í því markmiði samgönguráðuneytisins að auka umferðaröryggi í landinu í samræmi við umferðaröryggisáætlun sem Alþingi samþykkti vorið 2005 sem þingsályktun. Með henni er meðal annars stefnt að því að fækka banaslysum í umferðinni og að fjöldi látinna í á hverja 100 þúsund íbúa verði sambærilegur við það sem lægst gerist í heiminum árið 2016.

Ein þýðingarmesta breytingin á lögunum er að styrkja lagastoðir ákvæða um aksturs- og hvíldartíma ökumanna farmflutninga- og hópbíla í atvinnurekstri. Er hún meðal annars tilkomin vegna dóms Hæstaréttar í málinu nr. 251/2004 þar sem bílstjóri var sýknaður af ákæru fyrir brot á reglu um aksturs- og hvíldartíma ökumanna. Með breytingunni verður nú unnt að framfylgja þessum reglum. Auk valds til að stöðva för hópferða- og farmflutningabíla sem var fyrir í umferðarlögunum ef gera þarf athugasemdir við hvíldartíma, heildarþyngd ökutækis, ásþunga eða frágang farms hafa eftirlitsmenn Vegagerðarinnar nú vald til að banna frekari för ef meðan beðið er lögreglu.

Þá eru í lögunum ný ákvæði er varða bann við stjórn ökutækis undir áhrifum ávana- og fíkniefna sem bönnuð eru á íslensku yfirráðasvæði. Er þar meðal annars það nýmæli að ökumanni sé skylt að láta í té munnvatnssýni að kröfu lögreglu hafi vaknað grunur um brot gegn lögnum vegna neyslu ávana- og fíkniefna.

Við samningu frumvarpsins, sem samgönguráðuneytið annaðist, var leitað umsagnar ýmissa aðila, svo sem Ríkislögreglustjóra, lögreglustjórans í Reykjavík, ríkissaksóknara og dóms- og kirkjumálaráðuneytis.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum