Hoppa yfir valmynd
16. júní 2006 Dómsmálaráðuneytið

Breytingar á lögreglulögum og lögum um framkvæmdavald ríkisins í héraði

Meginbreytingin er sú, að lögregluumdæmum landsins mun við gildistöku laganna, hinn 1. janúar næstkomandi, fækka úr 26 í 15. Það verður gert án þess að lögreglustöðvum fækki.

Fréttatilkynning
23/2006

Alþingi hefur samþykkt þýðingarmiklar breytingar á lögreglulögum og lögum um framkvæmdavald ríkisins í héraði.

Meginbreytingin er sú, að lögregluumdæmum landsins mun við gildistöku laganna, hinn 1. janúar næstkomandi, fækka úr 26 í 15. Það verður gert án þess að lögreglustöðvum fækki, en hins vegar verður samvinna milli umdæma aukin og vaktir samræmdar, hvort tveggja til þess að efla löggæslu og lögreglurannsóknir. Þá verður greiningardeild komið á fót við embætti ríkislögreglustjóra og önnur embætti eftir þörfum.

Ástæða er til að nefna sérstaklega, að við gildistöku laganna verður til nýtt embætti lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu, en umdæmi hans nær yfir Reykjavíkurborg, Seltjarnarneskaupstað, Mosfellsbæ, Kjósarhrepp, Kópavog, Garðabæ, Hafnarfjörð og Sveitarfélagið Álftanes. Í samræmi við bráðabirgðaákvæði í hinum nýju lögum mun dóms- og kirkjumálaráðherra auglýsa laust til umsóknar embætti lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu, en skipað verður í starfið frá 15. júlí næstkomandi og mun lögreglustjórinn fram að áramótum undirbúa stofnun hins nýja embættis, meðal annars í samráði við sveitarfélög á svæðinu.

Dómsmálaráðherra hefur falið Ólafi K. Ólafssyni, sýslumanni Snæfellinga, að fylgja eftir framkvæmd þessara víðtæku breytinga á skipulagi lögreglunnar og lögreglumála, í samvinnu við ríkislögreglustjóra og í nánu samráði við lögreglustjóra, lögreglumenn, sýslumenn og sveitarstjórnir. Hann hefur þegar hafið störf, í leyfi frá embætti sínu.

Reykjavík, 16. júní 2006



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum