Hoppa yfir valmynd
21. júní 2006 Innviðaráðuneytið

Efla á samstarf Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna

Rætt var um samgöngustefnu í Evrópu, upplýsingakerfi í samgöngum og eflingu samstarfs Norðurlandanna og Eystrarsaltsríkja á fundi samgönguráðherra Norðurlanda og Eystrarsaltslanda í Balestrand í Noregi sem lauk í dag. Sturla Böðvarsson samgönguráðherra sat fundinn fyrir hönd Íslands.

Aðlögun rekstrarumhverfis þeirra sem stunda flutninga í Evrópu með ríkisstyrkjum að samkeppnisumhverfi var meðal annars til umræðu en innan Evrópusambandsins hefur síðustu misserin verið unnið að tillögum um að auka frelsi og samkeppni á þessu sviði. Sturla Böðvarsson sagði á fundinum að afstaða Íslands til þessa máls væri jákvæð enda hefðu verið tekin upp á Íslandi útboð á sérleyfisakstri og flugi markaðsöflin verið nýtt á fleiri sviðum samgöngumála.

Varðandi samgöngustefnu var talið mikilvægt að hefta ekki hreyfanleika í samgöngum til að hefta ekki samkeppnishæfni Evrópu eða hagvöxt. Jafnframt var lögð áhersla á að draga sem mest úr neikvæðum áhrifum samgangna og flutninga, svo sem mengandi útblæstri og slysum á öllum sviðum samgangna. Sturla Böðvarsson tók undir það í ávarpi á fundinum að tengsl samgangna og efnahagslegra framfara væru sterk og ekki mætti rjúfa þau tengsl. Sagði hann Ísland munu fylgjast vel með umræðu um endurskoðun á stefnu Evrópusambandins um samgöngumál.

Norrænt samstarf á sviði samgöngumála er frá og með árinu 2006 ekki lengur hluti af starfsemi Norrænu ráðherranefndarinnar, en ráðherrarnir voru engu að síður sammála um bæði mikilvægi áframhaldandi samstarfs og skipulag þess til framtíðar litið.

Þar sem Evrópusambandið (ESB) hefur fært út kvíarnar nær stefna þess í samgöngumálum nú til nær alls Eystrasaltssvæðisins, þó að Rússlandi undanteknu. ,,Mörg þeirra mála sem við höfum hingað til fjallað um í tvíhliða eða marghliða samningum falla nú undir stjórn ESB. Þess vegna eykst mikilvægi samstarfs okkar stöðugt en því er ætlað að styrkja enn frekar Norðurlöndin og Eystrarsaltssvæðið. Það er mér þar af leiðandi mikið ánægjuefni að ákveðið hefur verið að styrkja samstarfið enn frekar”, sagði norski samgönguráðherrann, Liv Sign Navarsete, í lok fundarins.

Finnar kynntu á fundinum þá þætti sem þeir hyggjast gefa forgang þegar þeir taka við formennsku í Evrópusambandinu 1. júlí 2006. Ýmis önnur málefni sem varða ESB voru líka rædd. Á fundinum for einnig fram kynning á vegum Norðmanna á möguleikum við nýtingu tölvuvæddra stoðkerfa í samgöngumálum.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum