Hoppa yfir valmynd
6. júlí 2006 Innviðaráðuneytið

Flugstoðir ohf. taka við flugvallarekstri og flugleiðsöguþjónustu

Gengið hefur verið frá stofnun opinbera hlutafélagsins Flugstoðir ohf. sem er að öllu leyti í eigu ríkisins. Stofnfundurinn fór fram í samgönguráðuneytinu í dag, fimmtudaginn 6. júlí.

Frá stofnfundi Flugstoða ohf.
Frá stofnfundi Flugstoða ohf.

Félaginu er ætlað að sinna flugleiðsöguþjónustu og flugvallarekstri og er með stofnun þess skilið á milli stjórnsýslu og eftirlit Flugmálastjórnar Íslands annars vegar og flugvallarekstrar og flugleiðsöguþjónustu hins vegar. Er það í samræmi við lög sem samþykkt voru á Alþingi í byrjun júní. Breytingin á að taka gildi um næstu áramót.

Stofnfundinum í dag stýrði Andri Árnason hæstaréttarlögmaður og kynnti hann í upphafi stofngerð félagsins sem Sturla Böðvarsson samgönguráðherra undirritaði. Samþykktir félagsins voru síðan kynntar og undirritaði ráðherra þær jafnframt. Félagið er stofnað með hlutafé að fjárhæð 10 milljónir króna en síðar verða frekari eignir lagðar til félagsins sem stofnfé.

Á stofnfundinum voru eftirtalin kjörin í stjórn: Ólafur Sveinsson hagverkfræðingur, Reykjavík, sem kjörinn var stjórnarformaður. Aðrir stjórnarmenn verða: Arnbjörg Sveinsdóttir alþingismaður, Seyðisfirði, Gunnar Finnsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri hjá ICAO, Reykjavík, Hilmar Baldursson, flugrekstrarstjóri, Reykjavík og Sæunn Stefánsdóttir viðskiptafræðingur, Reykjavík. Varamenn eru: Bergþór Ólason, aðstoðarmaður samgönguráðherra, Sigrún Björk Jakobsdóttir, bæjarfulltrúi, Akureyri og Áslaug Alfreðsdóttir hótelstjóri, Ísafirði.

Stofnfundinum var síðan frestað og verður honum fram haldið síðar þegar mat á eignum liggur fyrir.

Auk samgönguráðherra og fundarstjóra voru viðstödd stofnfundinn þau Ragnhildur Hjaltadóttir ráðuneytisstjóri, Bergþór Ólason, aðstoðarmaður ráðherra, Svanhvít Axelsdóttir, lögfræðingur í ráðuneytinu sem var fundarritari, Þorgeir Pálsson flugmálastjóri, Ólafur Sveinsson, sem var formaður umbreytingahópsins sem undirbjó lagafrumvarp vegna breytinganna, Loftur Jóhannsson, formaður Félags flugumferðarstjóra, Hallgrímur Hallgrímsson, formaður Félags flugmálastarfsmanna ríkisins, Karl Alvarsson, skrifstofustjóri í samgönguráðuneytinu og Jón Eðvald Malmquist, lögfræðingur í samgönguráðuneytinu.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum