Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Mál nr. 12/2006. Ákvörðun kærunefndar útboðsmála:

Ákvörðun kærunefndar útboðsmála 13. júlí 2006

í máli nr. 12/2006:

Vegmerking ehf.

gegn

Vegagerðinni

Með bréfi 16. maí 2006 kærir Vegmerking ehf. útboð Vegagerðarinnar auðkennt sem ,,Yfirborðsmerkingar á suðvestursvæði og hringvegur að Selfossi 2006 - 2008“.

Kærandi krefst þess að kærunefnd útboðsmála stöðvi gerð samnings kærða við Monstro ehf. þar til endanlega hefur verið skorið úr kæru, sbr. 1. mgr. 80. gr. laga nr. 94/2001 um opinber innkaup. Þá krefst kærandi þess að ákvörðun kærða um að ætla að semja við Monstro ehf. verði felld úr gildi. Þá er þess krafist að úrskurðað verði að kærða sé óheimilt að semja við Monstro ehf. á grundvelli hins kærða útboðs. Loks er þess krafist að kærða verði gert að greiða kæranda kostnað við að hafa kæruna uppi, sbr. 3. mgr. 81. gr. laga nr. 94/2001.

Kærði krefst þess að kröfum kæranda verði hafnað.

Í athugasemdum kæranda, dags. 12. júní 2006, er gerð krafa um að honum verði afhent öll gögn málsins, s.s. staðfestingar frá EKC AB um ársveltu, verktryggingu, verksamning við Monstro ehf. og samning Monstro ehf. við EKC AB. Kærði mótmælir ekki aðgangi kæranda að öðrum gögnum en skjali sem bar heitið ,,Mat á verktaka - fjármál“ og hafði verið merkt sem trúnaðarskjal. Er þess krafist að skjalið verði ekki afhent kæranda.

Kærunefnd útboðsmála telur rétt að taka afstöðu til framangreindrar kröfu kærenda um afhendingu umrædds skjals þegar í stað. Úrlausn um kröfur kæranda að öðru leyti bíður hins vegar endanlegs úrskurðar.

I.

Kærandi krefst þess að honum verði afhent öll gögn málsins, s.s. staðfestingar frá EKC AB um ársveltu, verktryggingu, verksamning við Monstro ehf. og samning Monstro ehf. við EKC AB. Þá áskilur hann sér rétt til að koma að frekari athugasemdum ef tilefni er til.

II.

           Kærði vísar til þess að umrætt skjal hafi verið merkt sem trúnaðarmál þar sem um sé að ræða upplýsingar um fjárhag viðkomandi fyrirtækja sem sanngjarnt sé og eðlilegt að ekki séu gerðar opinberar án samþykkis þeirra sem upplýsingarnar varði. Sé heimilt og skylt að takmarka aðgang að umræddum upplýsingum þar sem þær varði mikilvæg fjárhagsmálefni og sýni rekstrar og samkeppnisstöðu umræddra aðila. Engir sjáanlegir hagsmunir séu fyrir kæranda að fá þessi gögn afhent til skoðunar. Komi ekkert fram í skjalinu sem nauðsynlegt sé að kærandi geti fengið tækifæri til að tjá sig um. Meginágreiningsefni málsins varði hvort lægstbjóðanda sé heimilt að byggja á fjárhagslegri og tæknilegri getu þriðja aðila. Sé auðvelt fyrir kærunefnd útboðsmála að ganga úr skugga um hvort sá aðili uppfylli kröfur útboðslýsingar um fjárhagslega stöðu í raun án umfjöllunar um það frá kæranda. Í gögnunum komi fram með skýrum hætti hver rekstrar- og fjárhagsstaða viðkomandi aðila sé og þar með hvort uppfylltar séu kröfur útboðslýsingar þar að lútandi. Ekki verði séð að kærandi geti á einhvern hátt veitt upplýsingar um eða skýrt umrædd gögn með neinum hætti. Kærandi hafi ekki sjálfstætt hagsmuni af að fá að kynna sér þessi gögn þar sem það sé ekki nauðsynlegt til úrlausnar meginágreiningsefni málsins. Muni það ekki skaða málsmeðferðina eða koma í veg fyrir að unnt sé að kveða upp úrskurð með réttum hætti þó að ekki verði orðið við kröfu kæranda. Hagsmunum kæranda sé nægilega borgið með því að kærunefnd sinni rannsóknarskyldu og gangi úr skugga um hvort kröfum útboðslýsingar um fjárhagsstöðu sé í raun fullnægt samkvæmt umræddum gögnum.

Til stuðnings kröfu um að gögnin verði ekki afhent er meðal annars  vísað til 5. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996 þar sem lagt er bann við því að veittur sé aðgangur að upplýsingum sem varða mikilvæga fjárhags- og viðskiptahagsmuni fyrirtækja. Af hálfu kærða er á því byggt að þetta ákvæði gildi um veitingu aðgangs að upplýsingum er varða opinber innkaup. Deila megi um hvort ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993 um aðgang að upplýsingum gildi í málinu, sbr. annars vegar 1. gr. laganna, en hins vegar ákvæði 5. mgr. 79. gr. laga nr. 94/2001 um opinber innkaup. Verði ákvæði stjórnsýslulaga talin gilda byggir kærði á því að 17. gr. laganna heimili nefndinni að takmarka aðgang kæranda að þessum upplýsingum, enda um að ræða upplýsingar er snerta fjárhagsmálefni viðkomandi aðila, s.s. rekstrar- og samkeppnisstöðu. Ríkir hagsmunir standi til þess að trúnaður ríki um upplýsingar af þessu tagi en að sama skapi verði ekki séð að ríkir hagsmunir kæranda standi til þess að fá aðgang að gögnunum. Af þeim sökum beri kærunefnd að láta þá sem upplýsingarnar varða njóta vafans og takmarka aðgang að þeim enda verði ekki séð að það skaði hagsmuni kæranda.

 

III.

Kærandi hefur óskað eftir aðgangi að skjali sem hefur meðal annars að geyma upplýsingar um veltu fyrirtækisins EKC Sverige AB, eigið fé þess, eiginfjárhlutfall, lausafjárhlutfall og ársreikninga. Þetta skjal fylgdi greinargerð kærða og telst til málsgagna í því stjórnsýslumáli sem rakið er fyrir kærunefnd útboðsmála á milli málsaðila. Samkvæmt 15. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 á aðili máls almennt rétt á að kynna sér skjöl og önnur gögn er mál hans varða. Hefur óheftur aðgangur að gögnum máls verið talinn nauðsynlegur til að tryggja að réttur aðila til að koma að skýringum og leiðrétta fyrirliggjandi gögn nýtist að fullu. Gerðar eru þröngar undantekningar frá þessari meginreglu í 16. og 17. gr. laganna. Samkvæmt 17. gr. laganna er stjórnvaldi heimilt að takmarka aðgang aðila máls að gögnum ef hagsmunir hans af því að notfæra sér vitneskju úr þeim þykja eiga að víkja fyrir mun ríkari almanna- eða einkahagsmunum. Með einkahagsmunum er meðal annars átt við upplýsingar um fjárhagsmálefni, svo sem upplýsingar um rekstrar- eða samkeppnisstöðu fyrirtækis.

Kemur þá til skoðunar hvort þær upplýsingar sem finna má í umræddu skjali séu þess eðlis að uppfyllt séu skilyrði 17. gr. laga nr. 37/1993 til að takmarka aðgang kæranda að þeim. Að mati kærunefndar útboðsmála hefur skjalið að geyma upplýsingar um mikilvæga einkahagsmuni fyrirtækisins EKC Sverige AB, þ. á m. upplýsingar um rekstrar- og samkeppnisstöðu fyrirtækisins. Þykja hagsmunir kæranda af aðgangi að skjalinu eiga að víkja fyrir mun ríkari einkahagsmunum umrædds fyrirtækis, sbr. 17. gr. laga nr. 37/1993.

Ákvörðunarorð:

Kröfu kæranda, Vegmerkingar ehf., um aðgang að fylgiskjali nr. 4 sem ber heitið ,,Mat á verktaka - fjármál“ og sem fylgdi með greinargerð kærða, Vegagerðarinnar, er hafnað.

 

                                                               Reykjavík, 13. júlí 2006.

                                                               Páll Sigurðsson

                                                               Sigfús Jónsson

                                                               Stanley Pálsson

                                                              

Rétt endurrit staðfestir,

Reykjavík, 13. júlí 2006.Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn