Hoppa yfir valmynd
2. september 2006 Innviðaráðuneytið

Embætti flugmálastjóra auglýst

Samgönguráðuneytið hefur auglýst laust til umsóknar embætti flugmálastjóra til fimm ára. Skipað verður í stöðuna frá 1. janúar 2007.

Í auglýsingunni kemur fram að umsækjendur skuli hafa háskólamenntun, til dæmis á sviði rekstrar- eða verkfræði eða embættispróf í lögfræði. Þá er krafist þekkingar á flugmálum, stjórnunarreynslu og reynslu úr opinberri stjórnsýslu. Einnig skulu umsækjendur vera liprir í mannlegum samskiptum, hafa reynslu af alþjóðlegu samstarfi og vera færir um að tjá sig á erlendu tungumáli, einkum ensku, en önnur tungumálaþekking er kostur.

Samgönguráðherra skipar flugmálastjóra en hlutverk hans er að stjórna rekstri Flugmálastjórnar Íslands og hann ræður annað starfsfólk stofnunarinnar. Flugmálstjóri situr í samgönguráði og hann situr einnig fundi flugráðs. Fram kemur í auglýsingunni að hlutverk Flugmálstjórnar sé annars vegar virk þátttaka í stefnumótun í flugmálum og hins vegar eftirlit með því að öllum öryggiskröfum sé fullnægt.

Eins og fram hefur komið verður sú breyting á Flugmálastjórn Íslands frá næstu áramótum að opinbera hlutafélagið Flugstoðir, sem stofnað var í júlí, tekur við rekstri flugumferðarþjónustu og flugvalla af Flugmálastjórn en hlutverk Flugmálastjórnar verður áfram stjórnsýsla, útgáfa skírteina vegna flugstarfsemi og hvers kyns eftirlit með öllum sviðum flugrekstrar. Þorgeir Pálsson, sem verið hefur flugmálstjóri frá árinu 1992, hefur verið ráðinn forstjóri Flugstoða ohf. og tekur hann við því starfi um næstu áramót.

Umsóknarfrestur um stöðu flugmálastjóra er til 25. september. Skipað verður í stöðuna frá 1. janúar 2007 en æskilegt er að viðkomandi geti hafið undirbúningsstörf 1. nóvember næstkomandi. Upplýsingar um stöðuna veitir Halldór S. Kristjánsson, skrifstofustjóri í samgönguráðuneytinu í síma 545 8200. Umsóknir skulu sendar á tölvunetfangið [email protected]. eða í bréfi til samgönguráðuneytisins, Hafnarhúsinu við Tryggvagötu, 150 Reykjavík.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum