Dómsmálaráðuneytið

Mannanafnanefnd, úrskurðir 14. júlí 2006

Fundargerð

Ár 2006, föstudaginn 14. júlí, var haldinn fundur í mannanafnanefnd. Fundurinn fór fram á skrifstofu Baldurs Sigurðssonar í Kennaraháskóla Íslands. Mætt voru Baldur Sigurðsson og Ágústa Þorbergsdóttir en Kolbrún Linda Ísleifsdóttir var í símasambandi og fékk alla úrskurði til umsagnar.

Eftirfarandi mál voru tekin fyrir:

1.    Afgreiðsla án tölusetningar. Eiginnafn: Sæan (kk.)1

2.     Mál nr. 48/2006. Millinafn: Gilsfjörð. 1

3.     Mál nr. 49/2006. Millinafn, nafnbreyting: Kjarrval2

4.     Mál nr. 50/2006. Eiginnafn: Eberg (kk.)2

5.     Afgreiðsla án tölusetningar. Eiginnafn, nafnbreyting: Búri (kk.)2

 

1.           Afgreiðsla án tölusetningar. Eiginnafn: Sæan (kk.)

Þar sem úrskurðarbeiðendur eru með lögheimili í Svíþjóð eru þeir utan lögsögu mannanafnanefndar á Íslandi. Þegar íslensk fjölskylda, sem búsett er erlendis, flytur til Íslands með börn sín sem ekki hafa verið skráð áður á Íslandi, verða nöfn þeirra skráð í Þjóðskrá. Sé nafn ekki á mannanafnaskrá er málinu skotið til mannanafnanefndar skv. 22. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn.

Erindið er endursent úrskurðarbeiðendum en afrit sent Þjóðskrá. 

 

 2.           Mál nr. 48/2006. Millinafn: Gilsfjörð

Kveðinn er upp svohljóðandi úrskurður:

Millinafnið Gilsfjörð er dregið af íslenskum orðstofnum og hefur ekki nefnifallsendingu. Það hefur hvorki unnið sér hefð sem eiginnafn kvenna né sem eiginnafn karla. Nafnið er ekki heldur ættarnafn í skilningi 7. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn. Millinafnið Gilsfjörð uppfyllir þannig ákvæði 6. gr. fyrrnefndra laga.

Úrskurðarorð:

Beiðni um millinafnið Gilsfjörð er samþykkt og skal nafnið fært á mannanafnaskrá.

 

3.           Mál nr. 49/2006. Millinafn, nafnbreyting: Kjarrval

Ekki liggja fyrir nein óyggjandi formleg gögn um að nafnið Kjarrval hafi verið skráð sem nafn í fjölskyldu úrskurðarbeiðanda. Þá er átt við [...] (Kjarrval?) [...]. Nafnið er ekki skráð í manntölum 1910 og 1845. Líkindi í framburði við nafnið Kjarval gera það að verkum að upp getur komið árekstur við það nafn sem notað hefur verið sem ættarnafn og því óheimilt öðrum en þeim sem hafa rétt til nafnsins, sbr. 7. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn.

Afgreiðslu málsins er frestað þar aflað hefur verið frekari upplýsinga.

 

4.           Mál nr. 50/2006. Eiginnafn: Eberg (kk.)

Kveðinn er upp svohljóðandi úrskurður:

Eiginnafnið Eberg (kk.) tekur íslenskri beygingu í eignarfalli, Ebergs, og telst að öðru leyti uppfylla ákvæði 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn.

Úrskurðarorð:

Beiðni um eiginnafnið Eberg (kk.) er samþykkt og skal nafnið fært á mannanafnaskrá.

 

5.           Afgreiðsla án tölusetningar. Eiginnafn, nafnbreyting: Búri (kk.)

Umsókn um nafnbreytingu barst mannanafnanefnd frá úrskurðarbeiðanda án þess að séð væri að dóms- og kirkjumálaráðuneytið hefði veitt beiðninni viðtöku með formlegum hætti. Sækja skal til dóms- og kirkjumálaráðuneytisins um nafnbreytingu skv. 13. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn, sjá einnig Meginreglur um mannanöfn á vef dóms- og kirkjumálaráðuneytisins. Ráðuneytið leitar síðan álits mannanafnanefndar, sbr. 22. gr. laga nr. 45/1996. Gögn umsækjanda eru hér með framsend til ráðuneytisins í samræmi við 2. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 en afrit sent úrskurðarbeiðanda.

 

-------------------------------------------------

Fleira var ekki tekið fyrir og fundi slitið.

 Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn