Hoppa yfir valmynd
14. september 2006 Innviðaráðuneytið

Öryggisvika sjómanna haldin í lok september

Siðustu vikuna í september verður haldin öryggisvika sjómanna í þriðja sinn. Þema vikunnar er tæknileg samvinna útgerða, áhafna og aðila í landi.

Öryggisvikan verður sett formlega mánudaginn 25. september um borð í Sæbjörgu sem hýsir Slysavarnaskóla sjómanna og verður Sturla Böðvarsson samgönguráðherra viðstaddur. Meðal dagskráratriða má nefna að miðvikudaginn 27. september verður efnt til ráðstefnu þar sem öryggismál sjómanna verða í brennidepli.

Meðal efnis á ráðstefnunni má nefna umfjöllun Gísla Viggóssonar, forstöðumanns hjá Siglingastofnun Íslands, um áætlun um öryggi sjófarenda sem er hluti af samgönguáætlun 2007 til 2018 sem nú er verið að leggja lokahönd á. Einnig mun Ingimundur Valgeirsson, verkfræðingur hjá Slysavarnafélaginu Landsbjörgu, ræða um öryggisstjórnun. Í framhaldi af því eru erindi um viðhorf útgerða til öryggisstjórnunar í fiskiskipum, um heilsuvernd sjómanna, eldvarnir, rannsóknir á vatnsþéttleika, hávaða, loftgæðum og fleira.

Fimmtudaginn 28. september verða stjórnendur og áhafnir íslenskra fiskiskipa hvött til að efna til björgunaræfinga um borð í skipunum. Vaktstöð siglinga mun senda skipunum hvatningu til að efna til æfinganna kl. 13 þann dag og hún mun einnig taka við staðfestingum frá skipunum um að æfingar hafi verið haldnar.

Á öryggisviku sjómanna sem er haldin annað hvert ár er ýmis efnt til ráðstefnu og björgunaræfinga eða raða málfunda um öryggismál víða um landið.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum