Hoppa yfir valmynd
19. september 2006 Innviðaráðuneytið

Efla þarf umferðaröryggismat og taka upp úttektir

Vinna þarf áfram að lagfæringu slysastaða í vegakerfinu, efla þarf umferðaröryggismat og taka verður upp umferðaröryggisúttektir. Þetta er meðal tillagna í skýrslu sem verkfræðistofan Línuhönnun vann fyrir samgönguráðuneytið um umferðaröryggi vegakerfa.

Í tengslum við gerð nýrrar samgönguáætlunar sem nú er á lokastigi og nýjar viðmiðunarreglur Evrópusambandsins fól samgönguráðuneytið Línuhönnun að taka saman skýrslu um umferðaröryggi vegakerfa á þrjá vegu: Aðferðafræði, stöðu hérlendis og leggja fram tillögur um úrbætur. Verkefnisstjóri var Haraldur Sigþórsson, verkfræðingur hjá Línuhönnun.

Í inngangi skýrslunnar segir að orsökum umferðarslysa sé oft skipt í þrennt, ökumanninn, ökutækið og veginn. Hérlendis hafi athyglin að mörgu leyti beinst að ökumanni og ökutæki, reynt sé að hafa áhrif á ökumenn með eftirliti, bættri ökukennslu og áróðri. Þá fari ökutækin sífellt batnandi með margs konar öryggisbúnaði. Í skýrslunni verði fjallað um veginn og þótt mannleg mistök séu iðulega meginorsök slysa verði þau oft vegna keðjuverkandi áhrifa. Vegurinn sé meðvirkandi orsök í um þriðjungi tilvika. Sem dæmi megi taka árekstur bíla á blindhæð sem verði vegna þess að ökumenn hafi ekki ekið á sínum vegarhelmingi. Með miðeyju megi girða fyrir afleiðingar slíkra mistaka.

Í tillögum um úrbætur segir í skýrslunni að vinna þurfi áfram að lagfæringu slysastaða. Vegagerðin vinni að lagfæringum í ár og þegar liggi fyrir áætlun næstu tveggja ára. Mikilvægt sé að ekki falli úr ár og að sveitarfélög geri einnig áætlanir um lagfæringar á þessum sviðum. Þá segir að Umferðarstofa þurfi að hafa enn betra eftirlit með þessum þætti.

,,Umferðaröryggismat þarf að efla,? segir í skýrslunni, einnig að auka þurfi kröfur um umferðaröryggismat við mat á umhverfisáhrifum framkvæmda. Þá kemur fram að umferðaröryggisrýni sé í nokkuð góðu lagi en tengja ætti sérfræðinga utan Vegagerðarinnar í rýnihópa til að tryggja hlutleysi. Einnig segir að taka þurfi upp umferðaröryggisúttekt og ætti Vegagerðin að setja saman reglur, verklýsingu og gátlista fyrir slíkar úttektir sem fyrst. Mikilvægt sé einnig að fá úttektir óháðra aðila eins og EuroRap hafi þegar gert og rétt að styðja við slíkar úttektir.

Einnig er meðal tillagna að endurvakin verði tilmæli til sveitarfélaga með fleiri en þúsund íbúa að þau leggi fram umferðaröryggisáætlanir. Þær mætti til dæmis tengja gerð aðalskipulags.

Skýrsluna má sjá hér (PDF ? 254 KB).



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum