Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Mál nr. 17/2006. Úrskurður kærunefndar útboðsmála:

Úrskurður kærunefndar útboðsmála 26. september 2006

í máli nr. 17/2006:

Logaland ehf.

gegn

Ríkiskaupum

Með bréfi dagsettu 30. júní 2006, sem barst kærunefnd útboðsmála sama dag, kærir Logaland ehf. ákvörðun kærða, í útboði nr. 14018, auðkennt sem „Bleiur, netbuxur, undirlegg, fæðingar- og dömubindi og svampþvottaklútar“ að taka, samhliða tilboði kæranda, tilboði Rekstrarvara ehf., þrátt fyrir að kærandi uppfyllti öll þau skilyrði sem í útboðsskilmálum voru gerð.

Kærandi gerir eftirfarandi kröfur í málinu:

1.                       Að ákvörðun kærða, að taka einnig, samhliða tilboði kæranda, tilboði Rekstrarvara ehf, í útboði nr. 14018, verði breytt, sbr. 81. gr. laga um opinber innkaup nr. 94/2001 og viðurkennt verði að einvörðungu beri að semja við kæranda á grundvelli tilboðs hans.

2.                       Að kærunefndin gefi álit sitt á því hvort hin kærða ákvörðun eða framkvæmd útboðsins að öðru leyti, leiði til skaðabótaskyldu kærða gagnvart kæranda.

3.                       Í öllum tilfellum er þess krafist að í niðurstöðu kærunefndar verði kærða gert að greiða kostnað kæranda við að hafa kæruna uppi.

 

Kærði gerir þá kröfu að hafnað verði öllum kröfum kæranda.

 

 

I.

Í mars 2006 stóð kærði, f.h. Tryggingastofnunar ríkisins, fyrir útboði vegna kaupa á ýmsum gerðum af bleium, netbuxum, undirleggjum, dömu- og fæðingarbindum og svampþvottaklútum, sem nota ætti á heilbrigðisstofnunum og af skjólstæðingum Tryggingastofnunar ríkisins.

Í útboðslýsingu kom fram að óskað væri eftir tilboðum í tvo vöruflokka. Í öðrum flokknum væru venjulegar bleiur, buxnableiur, lekableiur, barnableiur, netbuxur og undirlegg en í hinum flokknum væru dömubindi og fæðingarbindi auk svampþvottaklúta. Í útboðslýsingu var þess getið að ekki væri ljóst hvaða magn yrði keypt á grundvelli útboðsins þar sem  rammasamningar yrðu gerðir um tiltekna vöruflokka í tiltekinn tíma, án þess að magntölur væru þekktar. Þetta orsakaðist af því hvernig kaupendahópurinn yrði samsettur á hverjum tíma.

            Í útboðslýsingu, grein 1.1.1, kom fram að stefnt væri að því að semja við sem fæsta um þessi viðskipti. Stefnt væri að því að samið yrði við einn til tvo aðila um vöruflokk eitt og einn aðila um vöruflokk tvö væri þess kostur. Tekið yrði tillit til mismunandi þarfa skjólstæðinga Tryggingastofnunar ríkisins um nauðsynlegt úrval vöru innan flokka þar sem þess væri kostur. Auk þess væri áskilinn réttur til að kaupa, vegna sérstakra aðstæðna, allt að 5% viðkomandi vöruflokks utan samninga í þeim tilgangi að uppfylla sérþarfir einstakra skjólstæðinga og til að prófa nýjar vörur.

            Í grein 1.2.1 útboðslýsingarinnar komu fram lágmarkskröfur um hæfi bjóðenda. Sagði þar að hæfi bjóðenda yrði metið á grundvelli þeirra upplýsinga sem þeir sendu inn með tilboðum sínum, svo og annarra upplýsinga sem kærði kynni að óska eftir. Í grein 1.2.2 sagði að kærði myndi taka hagstæðasta tilboði eða hagstæðustu tilboðum eða hafna öllum. Þá kom fram að kærði áskildi sér rétt til að taka hluta tilboðs og að taka tilboði frá fleiri en einum aðila. Markmið með útboðinu væri að tryggja sem lægst vöruverð samfara gæðum og góðri þjónustu en um leið að tryggja að fjölbreytni í vöruvali uppfyllti fjölbreyttar þarfir skjólstæðinga kaupenda.

            Í útboðslýsingu, grein 1.2.4, kom fram að aðeins kæmu til greina þeir bjóðendur, sem uppfylltu lágmarkskröfur um hæfi, sbr. ákvæði 1.2.1. Þá kom fram að sérstakur faghópur myndi yfirfara tilboð bjóðenda og myndi mat hans ráða einkunn til stiga. Verð skyldi vega 40% við mat á hagkvæmni tilboða, gæði og tæknilegir eiginleikar 35%, breidd vöruúrvals 10% og afhendingaröryggi og þjónusta 15%.

            Með tölvubréfi kærða til „væntanlegra bjóðenda“ kom fram að gerðar væru tvær breytingar á útboðsgögnum. Meðal annars var boðað að grein 1.1.1 breyttist þannig að stefnt væri að því að samið yrði við einn til tvo aðila í vöruflokkum I og II væri þess kostur.

            Opnunarfundur tilboða var 27. apríl 2006. Kom í ljós að 11 tilboð höfðu borist frá sjö aðilum.

            Með tölvubréfum 6. júní sl. var tilkynnt um niðurstöður kærða í útboðinu. Kom fram að ákveðið hefði verið að taka tilboði kæranda og Rekstrarvara ehf. Kærandi gerði athugasemdir við niðurstöðuna með bréfi til kærða, dags. 14. júní 2006. Kærði svaraði kæranda með bréfi 15. júní 2006. Kærandi kærði svo ákvörðun kærða um að taka tilboði Rekstarvara með kæru, dags. 30. júní sl.

           

 

 

 

II.

Kærandi krefst þess að ákvörðun kærða um að taka tilboði Rekstarvara ehf. samhliða tilboði kæranda verði felld úr gildi. Byggir kærandi á því að ólögmætt hafi verið að taka tilboði Rekstrarvara. Kærandi vísar til 1. gr., 3. mgr. 22. gr. og 50. gr. laga um opinber innkaup nr. 94/2001. Telur kærandi að ef bjóðandi uppfylli þær kröfur sem gerðar hafi verið í útboðslýsingu og væri jafnframt með lægsta tilboðið þá verði að taka hans tilboði, enda sé annað óþarft og andstætt tilgangi útboðsins.

            Kærandi fer fram á að kærunefnd útboðsmála gefi álit sitt á hugsanlegri skaðabótaskyldu kærða gagnvart kæranda. Bendir kærandi á að hann hafi lagt kapp á að bjóða vöruúrval sem uppfyllti skilyrði útboðsins þar sem það atriði hafi ráðið úrslitum um hvort einn eða tveir yrðu valdir sem samningsaðilar. Samkvæmt 1. mgr. 84. gr. laga um opinber innkaup nr. 94/2001 sé kaupandi skaðabótaskyldur vegna þess tjóns sem brot á lögunum hafi í för með sér fyrir bjóðanda. Kærandi byggir á því að hann hafi sannað að hann hafi átt raunhæfa möguleika á að verða valinn einn og að möguleikar hans hafi skerst við brot kærða.

            Kærandi kveðst til stuðnings kröfum sínum vísa til 26. gr. laga um opinber innkaup þar sem áréttuð sé sú grunnregla að forsendur fyrir vali tilboðs komi fram í útboðsgögnum, sbr. einnig 23. gr. laganna. Þá vísar kærði til 11. gr. laganna.

 

 

III.

Kærði byggir á því að kæra kæranda hafi verið sett fram eftir að fjögurra vikna kærufrestur samkvæmt 78. gr. laga um opinber innkaup hafi liðið. Kæranda hafi verið ljóst 22. mars 2006, er hann móttók útboðsgögn, að til greina kæmi að semja við tvo aðila.

Kærði bendir á að ástæða þess að samningnum hafi verið skipt á milli tveggja aðila hafi verið sú að þegar einn birgir hafi verið með samning við Tryggingastofnun ríkisins hafi stofnunin oft þurft að fara út fyrir samninginn við að útvega skjólstæðingum sínum betri bleiur en aðili að samningnum hafi haft upp á að bjóða. Forsendur fyrir að samið sé við tvo aðila séu þær að aðilar, sem versli innan tilgreinds rammasamnings, séu með margvíslegar og mismunandi þarfir. Það séu bæði sjúkrahús og heilbrigðisstofnanir svo og einstaklingar sem versli við stofnunina. Kærði byggir á því að þátttakendum útboðsins hafi verið strax fullkomlega ljós áskilnaður útboðsgagna um að ganga mætti til samninga við tvo aðila. Því hafi útboðsgögn fullnægt skilyrðum laga um opinber innkaup að því er varðar gegnsæi og jafnræði.

 

 

IV.

Kærandi heldur því fram í kæru sinni að tilboð hans hafi verið hagstæðast af þeim tilboðum sem bárust í hinu kærða útboði. Kærði hefur hvorki mótmælt því né lagt fram nein gögn sem gefa til kynna að svo sé ekki. Verður því gengið út frá því að staðhæfing kæranda að þessu leyti sé rétt.

            Málatilbúnaður kæranda byggir á því að óþarft og ólögmætt hafi verið af kærða að semja við annan aðila auk kæranda. Í grein 1.1.1 útboðslýsingar kom upphaflega fram að stefnt væri að því að semja við sem fæsta um téð viðskipti. Stefnt væri að því að semja við einn til tvo aðila um vöruflokk I og einn aðila um vöruflokk II væri þess kostur. Þessu ákvæði var síðar breytt með tilkynningu kærða 31. mars 2006 þar sem fram kom að stefnt væri að því að semja við einn til tvo aðila í báðum vöruflokkum væri þess kostur. Í svörum við fyrirspurnum var þess ennfremur getið af hálfu kærða að stefnt væri að semja við einn til tvo aðila. Kærunefnd útboðsmála telur að þær leikreglur, sem settar voru fram í útboðslýsingu, og laut að áskilnaði um að taka tilboði tveggja bjóðenda hafi verið heimilar að því gefnu að ástæður þess að semja ekki við einungis einn aðila hafi verið málefnalegar. Þær ástæður, sem kærði hefur teflt fram til stuðnings því að taka tilboði tveggja bjóðenda, eru að mati nefndarinnar málefnalegar þegar hafðir eru í huga hagsmunir þeirra sem koma til með að nýta þær vörur sem boðnar voru fram. Eru ástæðurnar settar fram af fenginni reynslu við sambærileg innkaup og rökstuddar með vísan til þess. Var því að mati kærunefndarinnar heimilt að semja við tvo aðila eins og kærði gerði í kjölfar útboðsins. Með vísan til þessa verður að hafna öllum kröfum kæranda og er þá óþarft að taka afstöðu til þess hvort kæra hans hafi verið sett fram eftir að kærufrestur laga um opinber innkaup leið.

 

 

 

Úrskurðarorð:

Kröfum kæranda, Logalands ehf., vegna útboðs kærða, Ríkiskaupa, nr. 14018, auðkennt sem „Bleiur, netbuxur, undirlegg, fæðingar- og dömubindi og svampþvottaklútar“, er hafnað.

 

Reykjavík, 26. september 2006

                                                               Páll Sigurðsson

                                                               Sigfús Jónsson

                                                               Stanley Pálsson

 

Rétt endurrit staðfestir,

Reykjavík, 26. september 2006.

 

 

 Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn