Hoppa yfir valmynd
6. október 2006 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Það eru forréttindi að lifa með fötlun

Ágæta Freyja, menntamálaráðherra og aðrir góðir gestir.

Dagurinn í dag er merkilegur og þessi stund sérstaklega ánægjuleg fyrir mig og marga aðra.

Það framtak Freyju sem nú er kynnt er einstaklega gott dæmi um það hve miklu einn einstaklingur í samfélagi okkar getur áorkað hafi hann kjark og þor. Það sýnir okkur líka glöggt hve mikill mannauður getur búið í einni manneskju sem hefur sterka sýn og vill hafa jákvæð áhrif á umhverfi sitt.

Það er ekki víst að margir hafa trúað því að hugmynd þín um að fara um allt land og halda fyrirlestra um það hvernig er að búa við fötlun, yrði nokkurn tíman að veruleika. Ég býst við því að þeir sem ekki trúðu á hugmyndina hafi ekki þekkt þig og þá þrautseigu manneskju sem þú hefur að geyma. Þeir sem þekkja þig vita hins vegar að þú kemur hlutum í framkvæmd.

Með þessu framtaki þínu sem er í dag að verða að veruleika, sýnir þú að þér eru allir vegir færir. Þú ert og verður góð fyrirmynd annarra, jafnt þeirra sem búa við fötlun af einhverjum toga og hinna sem ekki búa við fötlun. Skilaboðin eru einföld: Það er engin hindrun svo stór að ekki megi yfirstíga hana.

Það átak sem nú er að hefjast mun án efa hafa mikil og varanleg áhrif á hugmyndir og viðhorf almennings og verða liður í þeirri jákvæðu og sjálfsögðu uppbyggingu og þróun sem við höfum gengið í gegnum hér á landi undanfarna áratugi.

Yfirskrift fyrirlestra þinna “það eru forréttindi aða lifa með fötlun” vekur upp grundvallarspurningar sem okkur öllum er hollt að leita svara við.

Ég fullyrði að það er mikill fengur fyrir ungt fólk í framhaldsskólum og eins þá sem starfa í skólum þessa lands að fá tækifæri til þess að heyra sögu þína, draga af henni lærdóm og lífsskiling og auka þar með víðsýni sína.

Það er einnig mikilvægt fyrir samfélagið að það geri sér grein fyrir því hvar bæta megi þjónustu við fólk sem býr við fötlun þannig að hægt sé að vinna með markvissum hætti að úrbótum. Í þessu samhengi skipta skoðanir þínar afar miklu máli og fólk mun hlusta á það sem þú hefur að segja.

Ég hef áður sagt að þú sért góður liðsmaður okkar í félagsmálaráðuneytinu þar sem við erum nú að ljúka við stefnumótun ráðuneytisins um þjónustu við þá sem búa við fötlun. Þínar hugmyndir og skoðanir gefa okkur enn frekari byr í seglinn þar sem við stefnum samhent í átt að því markmiði að gera íslenskt samfélag að samfélagi fyrir alla þar sem allir fái notið sín á forsendum eigin getu og geti verið að fullu þátttakendur í lífi þess og starfi. Þar skiptir miklu máli að verið sé að mæta þörfum notenda og fjölskyldna þeirra og að besta fólkið starfi á hverjum tíma á þessu sviði. Ég vona að þú eigir eftir að sá fræjum sem verða til þess að hæfasta fólkið sem nú situr í framhaldsskólum komi til liðs við þig og okkur í framtíðinni.

Við okkur öll vil ég segja að með þessu framtaki mun verða brotið blað í umræðu um stöðu fatlaðra á Íslandi og mörkuð dýpri spor en marga hefði órað fyrir. Því fagna ég.

Við þig, Freyja, vil ég segja, framtak þitt er aðdáunarvert og það er von mín og trú að þér gangi allt í haginn í fyrirlestrarferð þinni um landið og framhaldsskólanemendur og aðrir sem á þig hlýða muni velta fyrir sér grundvallarspurningum um lífið og tilveruna. Það er öllum hollt og reyndar nauðsynlegt til þess að lifa innihaldsríku og gefandi lífi.

Takk fyrir.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum