Dómsmálaráðuneytið

Mannanafnanefnd, úrskurðir 14. september 2006

Fundargerð

Ár 2006, fimmtudaginn 14. september, var haldinn fundur í mannanafnanefnd. Fundurinn fór fram í Lögbergi, húsi lagadeildar Háskóla Íslands. Mætt voru Kolbrún Linda Ísleifsdóttir, Baldur Sigurðsson og Ágústa Þorbergsdóttir.

Eftirfarandi mál voru tekin fyrir:

 

 

1.         Mál nr. 49/2006.      Millinafn:        Kjarrval

  

Mál þetta var tekið fyrir á fundi mannanafnanefndar þann 14. júlí 2006 og var afgreiðslu þess þá frestað þar til aflað hefði verið frekari upplýsinga.

 

Afgreiðslu málsins er frestað áfram til frekari skoðunar og gagnaöflunar.

  

  

2.         Mál nr. 64/2006.      Eiginnafn:      Búri  (kk.)

  

Kveðinn er upp svohljóðandi úrskurður:

 

Eiginnafnið Búri (kk.) tekur íslenska eignarfallsendingu, Búra, og telst að öðru leyti uppfylla ákvæði 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn.

 

Úrskurðarorð:

 

Beiðni um eiginnafnið Búri (kk.) er samþykkt og skal nafnið fært á mannanafnaskrá.

 

 

 

3.         Mál nr. 65/2006.      Eiginnafn:      Filipía  (kvk.)

 

Afgreiðslu málsins er frestað þar til aflað hefur verið frekari upplýsinga.

 4.         Mál nr. 66/2006.      Eiginnafn:      Rannva  (kvk.)

 

Kveðinn er upp svohljóðandi úrskurður:

 

Eiginnafnið Rannva (kvk.) tekur íslenska eignarfallsendingu, Rönnvu, og telst að öðru leyti uppfylla ákvæði 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn. Nafnið beygist þannig: Rannva – Rönnvu – Rönnvu – Rönnvu:

 

Úrskurðarorð:

 

Beiðni um eiginnafnið Rannva (kvk.) er samþykkt og skal nafnið fært á mannanafna-skrá ásamt eignarfallsmynd þess, Rönnvu.

   

 

5.         Mál nr. 67/2006.      Eiginnafn:      Aleta  (kvk.)

 

Kveðinn er upp svohljóðandi úrskurður:

 

Eiginnafnið Aleta (kvk.) tekur íslenska eignarfallsendingu, Aletu, og telst að öðru leyti uppfylla ákvæði 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn.

 

Úrskurðarorð:

 

Beiðni um eiginnafnið Aleta (kvk.) er samþykkt og skal nafnið fært á mannanafnaskrá.

 

 

6.         Mál nr. 67/2006.      Eiginnafn:      [...]

 

Afgreiðslu málsins er frestað þar til aflað hefur verið frekari upplýsinga.

 

 

7.         Mál nr. 69/2006.      Eiginnafn:      Hector  (kk.)

 

Kveðinn er upp svohljóðandi úrskurður:

 

Öll skilyrði 1. mgr. 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn þurfa að vera uppfyllt svo að mögulegt sé að samþykkja nýtt eiginnafn og færa það á mannanafnaskrá. Skilyrðin eru þessi: (1) Eiginnafn skal geta tekið íslenska eignarfallsendingu eða hafa unnið sér hefð í íslensku máli. (2) Nafnið má ekki brjóta í bág við íslenskt málkerfi. (3) Það skal ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls nema hefð sé fyrir öðrum rithætti þess. Með almennum ritreglum íslensks máls er vísað til auglýsinga nr. 132/1974 og 261/1977 um íslenska stafsetningu.

 

Túlkun mannanafnanefndar á hugtakinu hefð í 5. og 6. gr. laga nr. 45/1996 um manna-nöfn styðst við eftirfarandi vinnulagsreglur sem nefndin setti sér á fundi 1. júlí 2004 og sem byggðar eru á greinargerð með frumvarpi að mannanafnalögum:

 

1.  Ungt tökunafn telst hafa unnið sér hefð í íslensku máli ef það fullnægir einhverju eftirfarandi skilyrða:

  1. Það er nú borið af a.m.k. 15 Íslendingum (með Íslendingum er átt við þá íslensku ríkisborgara sem eiga eða hafa átt lögheimili hér á landi);
  2. Það er nú borið af 10–14 Íslendingum og hinn elsti þeirra hefur náð a.m.k. 30 ára aldri;
  3. Það er nú borið af 5–9 Íslendingum og hinn elsti þeirra hefur náð a.m.k. 60 ára aldri;
  4. Það er nú borið af 1–4 Íslendingum og kemur þegar fyrir í manntalinu 1910;
  5. Það er ekki borið af neinum Íslendingi nú en kemur a.m.k. fyrir í tveimur manntölum frá 1703–1910.

2.  Tökunafn getur verið hefðað, þó að það komi ekki fyrir í manntölum, ef það hefur unnið sér menningarhelgi. Nafn telst hafa unnið sér menningarhelgi komi það fyrir í alkunnum ritum, frumsömdum og þýddum, í nafnmynd sem ekki brýtur í bág við íslenskt málkerfi.

 

Eiginnafnið Hector (kk.) getur ekki talist ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls þar sem bókstafurinn ‘c’ er ekki í íslensku stafrófi sbr. Stafsetningarorðabókina 2006, bls. 675. Samkvæmt upplýsingum frá Þjóðskrá bera aðeins þrír íslenskir karlar eiginnafnið Hector að fyrra eða síðara nafni og er hinn elsti fæddur árið 1959. (Bent skal á að með íslenskum körlum er hér átt við þá karla sem eru íslenskir ríkisborgarar og sem eiga eða hafa átt lögheimili hér á landi). Því er ekki hefð fyrir þessum rithætti, sbr. ofan-greindar vinnulagsreglur. Eiginnafnið Hector uppfyllir þar af leiðandi ekki ákvæði 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn og því er ekki mögulegt að fallast á það.

 

Úrskurðarorð:

 

Beiðni um eiginnafnið Hector (kk.) er hafnað.

  

 

8.         Mál nr. 70/2006.      Eiginnafn:      Jovina  (kvk.)

 

Kveðinn er upp svohljóðandi úrskurður:

 

Mannanafnanefnd hefur tvisvar fjallað um eiginnafnið Jovina (kvk.) á fundum sínum, annars vegar þann 4. mars sl. með úrskurði nr. 12/2006 og hins vegar þann 25. maí sl. með úrskurði nr. 42/2006. Í báðum tilvikum hafnaði nefndin beiðninni með ítarlegum rökstuðningi þar sem eiginnafnið Jovina teljist ekki að mati nefndarinnar ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls og nafnið telst ekki hafa áunnið sér hefð í málinu.

 

Úrskurðarbeiðendur hafa ekki lagt fram nein gögn sem gefa tilefni til endurupptöku málsins og er málinu því vísað frá.

 

Úrskurðarorð:

 

Beiðni um eiginnafnið Jovina (kvk.) er vísað frá.

 

 

- - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - -

 

Fleira var ekki tekið fyrir og fundi slitið.

 Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn