Hoppa yfir valmynd
Utanríkisráðuneytið

Afhending trúnaðarbréfs

Hannes Heimisson, sendiherra, og Viktor Jústsjenkó, forseti Úkraínu
Hannes Heimisson, sendiherra, og Viktor Jústsjenkó, forseti Úkraínu

Hannes Heimisson, sendiherra, afhenti 12. þ.m. Viktor Jústsjenkó, forseta Úkraínu, trúnaðarbréf sem sendiherra Íslands í Úkraínu með aðsetur í Helsinki. Fór afhendingin fram í embættisbústað forsetans í höfuðborginni Kiev.

Sendiherra átti einnig fundi með Borys Tarasyuk, utanríkisráðherra Úkraínu og embættismönnum utanríkisráðuneytisins. Á fundinum með utanríkisráðherranum var meðal annars rætt um undirbúning opinberrar heimsóknar Valgerðar Sverrisdóttur, utanríkisráðherra til Úkraínu 6. - 9. nóvember næstkomandi og vaxandi samskipti ríkjanna. Ráðherrann var einnig upplýstur um áherslur Íslands í framboði til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna.

Í för með utanríkisráðherra verður fjölmenn viðskiptasendinefnd. Útflutningsráð og utanríkisráðuneyti vinna að undirbúningi heimsóknar viðskiptasendinefndarinnar í nánu samstarfi við Kostyantyn Malovanyy, kjörræðismann Íslands í Kiev.

Fjárfestingar Íslendinga í Úkraínu hafa aukist mjög að undanförnu, einkum með kaupunum á Bank Lviv, banka í samnefndri borg í vesturhluta Úkraínu undir forystu Margeirs Péturssonar, stjórnarformanns MP fjárfestingarbanka.Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira