Velferðarráðuneytið

Úrskurður nr. 167 Uppbót/styrkur til bifreiðakaupa

Þriðjudaginn 8. ágúst 2006

 

167/2006

 

 

 

A

 

gegn

 

Tryggingastofnun ríkisins

 

 

 

 

 

 

 

Ú r s k u r ð u r.

 

Mál þetta úrskurðuðu Friðjón Örn Friðjónsson, hrl., Guðmundur Sigurðsson, læknir og Hjördís Stefánsdóttir, lögfræðingur.

 

Með ódags. bréfi til úrskurðarnefndar almannatrygginga mótteknu 7. júní 2006 kærir A synjun Tryggingastofnunar ríkisins dags. 29. maí 2006 á umsókn um uppbót/styrk vegna kaupa á bifreið.

 

Óskað er endurskoðunar.

 

Málavextir eru þeir að kærandi sótti um styrk/uppbót til Tryggingastofnunar vegna kaupa á bifreið.  Umsókn var synjað með bréfi dags. 29. maí 2006 þar sem kærandi er eldri en 75 ára.

 

Í rökstuðningi fyrir kæru segir:

 

 Ég tel að Tryggingastofnun ríkisins beri að leggja sérstakt mat á hverja umsókn fyrir sig þar sem löggjafinn hefur fengið stjórnvöldum mat til að taka ákvörðun sem best hentar í hverju máli með tilliti til aðstæðna og er stjórnvöldum þar af leiðandi óheimilt, í samræmi við reglu stjórnsýsluréttar um skyldubundið mat stjórnvalda, að afnema matið með því að setja fastmótaða reglu sem tekur til allra tilvika og skylt að meta hvert tilvik fyrir sig.

 

Að auki skal litið til aðstæðna minna eins og þær greinir í umsókn minni til Tryggingastofnunar ríksins og fylgiskjala með henni. Er vísað til læknisvottorðs í því sambandi. Verður ekki séð í ljósi þessara sérstöku aðstæðna að ég hafi fjárhagslegt bolmagn til að standa undir mér nauðsynlegum bílakaupum með öðrum hætti. Vísast hér til þess sem áður sagði um regluna um skyldubundið mat stjórnvalda og jafnræðisreglu sem bundin er í stjórnarskrá.

 

Úrskurðarnefndin óskaði með bréfi dags. 8. júní 2006 eftir greinargerð Trygginga­stofnunar.  Greinargerðin er dags. 16. júní 2006.  Þar er vísað til 33. gr. laga nr. 117/1993 um almannatryggingar og 11. gr. laga nr. 118/1993 um félagslega aðstoð.  Þá segir m.a. í greinargerðinni:

 

Uppbót er eingöngu heimilt að veita að nánar tilteknum skilyrðum uppfylltum, sem ekki eru háð sérstöku mati Tryggingastofnunar. Eitt af þeim skilyrðum er að hinn hreyfihamlaði sé undir 75 ára aldri, eins og fram kemur í l. tl. 2. mgr. 4. gr. og 1. tl. 2. mgr. 5. gr. rgl. Það liggur fyrir í málinu að kærandi er yfir þeim aldursmörkum sem sett eru svo heimilt sé að fallast á umsókn um uppbót/styrk vegna bifreiðakaupa. Þegar af þessari ástæðu telur Tryggingastofnun ekki heimilt að fallast á kröfur kæranda.”

 

Greinargerðin var send kæranda með bréfi dags. 19. júní 2006 og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum og/eða viðbótargögnum.  Slíkt barst ekki.

 

 

Niðurstaða úrskurðarnefndar:

Mál þetta varðar synjun Tryggingastofnunar ríkisins á umsókn um uppbót/styrk vegna kaupa á bifreið.

 

Í rökstuðningi fyrir kæru vísar kærandi til þess að löggjafinn hafi fengið stjórvöldum mat til að taka ákvörðun sem best hentar í hverju máli með tilliti til aðstæðna.  Stjórnvöldum sé óheimiltað afnema matið með því að setja fastmótaða reglu sem tekur til allra tilvika.

 

Í greinargerð Tryggingastofnunar segir að kærandi eigi hvorki rétt á styrk né uppbót þar sem hann sé yfir aldursmörkum sem ákveðin eru í reglugerð.

 

Lagaheimild fyrir veitingu styrks til kaupa á bifreið er að finna í a. lið 1. mgr. 33. gr. laga nr. 117/1993. Skilyrði er að bifreiðin sé nauðsynleg vegna þess að líkamsstarfsemi sé hömluð eða líkamshluta vanti.

 

Lagaheimild fyrir veitingu uppbótar til kaupa á bifreið sem bótaþega er nauðsynlegt að hafa vegna hreyfihömlunar ef sýnt er að bótaþegi kemst ekki af án uppbótarinnar er í 1. mgr. 11. gr. laga nr. 118/1993.

 

Með stoð í 3. mgr. 33. gr. laga nr. 117/1993 og 2. mgr. 15. gr. laga nr. 118/1993 hefur ráðherra sett reglugerð nr. 752/2002 um styrki og uppbætur Tryggingastofnunar ríkisins til hreyfihamlaðra einstaklinga vegna bifreiða. Reglugerðinni hefur tvívegis verið breytt, með reglugerðum nr. 109/2003 og 462/2004.

 

Fram kemur í 1. gr. áðurnefndrar reglugerðar að markmið hennar sé m.a. að gera hreyfihömluðum kleift að stunda vinnu eða skóla, njóta endurhæfingar eða læknismeðferðar. Að mati nefndarinnar eru reglur sem miða að þessu á málefnalegum rökum reistar.

 

Samkvæmt 4. gr. reglugerðarinnar er unnt að veita uppbót að fjárhæð kr. 250.000 vegna kaupa á bifreið að uppfylltum nánar tilgreindum skilyrðum. Hærri uppbót eða kr. 500.000 er veitt að uppfylltum sömu skilyrðum til þeirra sem eru í fyrsta skipti að kaupa bifreið.

 

Þá er samkvæmt 5. gr. reglugerðarinnar veittur styrkur að fjárhæð  kr. 1.000.000 að  uppfylltum tilgreindum skilyrðum. En þar segir:

 

  Veita skal sjúkratryggðum styrk til að afla bifreiðar sem nauðsynleg er vegna þess að líkamsstarfsemi er hömluð eða vantar líkamshluta.

   Styrkur skal vera kr. 1.000.000 og skal eingöngu veittur þegar eftirfarandi skilyrði eru uppfyllt:

1.      Hinn hreyfihamlaði er undir 75 ára aldri.

2.      Hinn hreyfihamlaði hefur sjálfur ökuréttindi.

3.   Nauðsyn á bifreið vegna hreyfihömlunar er ótvíræð og mat á hreyfihömlun liggi fyrir.

4.  Hinn hreyfihamlaði notar tvær hækjur og/eða er bundinn hjólastól að staðaldri.

5.  Mat á ökuhæfni liggi fyrir.”

 

Strangari skilyrði eru sett fyrir greiðslu styrks en uppbótar, enda styrkurinn verulega hærri. Málefnaleg sjónarmið búa þar að baki, þar sem greiðslur eru inntar af hendi af almannafé, en einungis takmörkuðu fé er veitt til greiðslu bóta almannatrygginga og því mikilvægt að nýta það vel.

 

Við skýringu á lagaákvæðum um greiðslu styrks eða uppbótar vegna bifreiðakaupa horfir nefndin til þess að almenna reglan er uppbót að uppfylltum ákveðnum skilyrðum, en þeir sem fái styrk eru meira fatlaðir og í meiri þörf fyrir aðstoð.

 

Við mat á því hvort skilyrði eru uppfyllt þarf að meta aðstæður í hverju tilviki. Samkvæmt vottorði B, hjartalæknis, dags. 15. maí 2006 eru sjúkdómsgreiningar COPD (J44) og króniskur ischaemiskur hjartasjúkdómur (125.9).  Kærandi er sagður með skerta áreynslugetu bæði vegna hjartasjúkdóms og lungnasjúkdóms.  Hann geti ekki gengið meira en 300 metra á jafnsléttu án þess að mæðast. 

 

Í 2. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 752/2002 eru talin upp fimm skilyrði sem þurfa öll að vera uppfyllt til að lagaskilyrði greiðslu hærri fjárhæðar en almennt er veitt séu fyrir hendi.  Meðal sérstakra skilyrða fyrir 1.000.000- króna styrk samkvæmt 4. tl. 5. gr. er að hinn hreyfihamlaði noti tvær hækjur og/eða sé bundinn hjólastól að staðaldri.

 

Umrætt reglugerðarákvæði er sett með stoð í 3. mgr. 33. gr. laga nr. 117/1993 um almannatryggingar með síðari breytingum en þar segir:

 

,, Ráðherra setur reglugerð um greiðslur samkvæmt ákvæði þessu.”

 

Það hefur verið gert með reglugerð nr. 752/2002, þar sem m.a. er mælt fyrir um fjárhæð uppbótar og styrks til bifreiðakaupa. Eðlilegt er að stjórnvöld ákveði með þessum hætti fjárhæð aðstoðarinnar og hafi með þeim hætti stjórn á því hveru miklu af almannafé er varið til þessa málaflokks.

 

Við setningu stjórnvaldsreglna eins og umræddrar reglugerðar má hins vegar aldrei missa sjónar á efni lagaákvæðis og tilgangi lagasetningarinnar. Í 33. gr. laga nr. 117/1993 segir:

 

 ,,Hlutverk Tryggingastofnunar ríkisins er að annast sjúkratryggingar, sbr. 2.  gr. og skal hún veita þá styrki sem hér segir:

a    Styrk til að afla hjálpartækja og bifreiða sem nauðsynlegar eru vegna þess að líkamsstarfsemi er hömluð eða vantar líkamshluta.”

                                                                                                                                                

Þegar litið er yfir þau ákvæði sem gilt hafa um aðstoð vegna bifreiðakaupa, hafa frá upphafi verið veittar misháar upphæðir eftir því hversu mikil og hvers eðlis fötlunin er. Þannig hafa þeir sem eru mikið fatlaðir og af þeim sökum í aukinni þörf fyrir t.d. stærri og dýrari bíla en almennt gerist fengið hærri styrk en aðrir fatlaðir. Slíkar reglur eru málefnalegar og gætt að jafnræðisreglu við setningu þeirra.

 

Í 4. tl. 5. gr. rg. 752/2002 eru sett skilyrði fyrir styrk að fjárhæð krónur ein milljón, annað hvort að viðkomandi sé bundinn hjólastól að staðaldri og/eða að hann noti tvær hækjur að staðaldri. Fyrra skilyrðið telur úrskurðarnefndin reist á málefnalegum sjónarmiðum þar sem þeir sem þurfa að nota hjólastól eru mikið fatlaðir og hjálpartækið sem slíkt kallar á stærri og rúmbetri bíl fyrir hinn fatlaða, bæði til að komast inn í og út úr og til að geta komið hjálpartækinu fyrir. Hins vegar er vandséð, hvers vegna notkun tveggja hækja er sett sem skilyrði, nema til að undirstrika, að um mikla fötlun sé að tefla.

 

Það er mat úrskurðarnefndar að fram hjá skýru orðalagi 4. tl. 5. gr. verði ekki vikið nema í undantekningartilvikum þegar hreyfihömlun er svo alvarleg að umsækjandi uppfyllir í raun tilgreind skilyrði en er vegna fötlunar eða veikinda ómögulegt að nota tilgreind hjálpartæki.

 

Af fyrirliggjandi læknisfræðilegum gögnum ræður úrskurðarnefndin sem m.a. er skipuð lækni, að hreyfiskerðing kæranda sé ekki þess eðlis að henni verði jafnað til þeirrar fötlunar/sjúkdóms sem hefur í för með sér nauðsyn á stærri og rúmbetri bíl vegna hjálpartækja.  Af þeirri ástæðu að kærandi uppfyllir ekki skilyrði 4. tl. 5. gr. þá staðfestir úrskurðarnefndin synjun Tryggingastofnunar ríkisins á styrk vegna kaupa á bifreið.

 

Hins vegar telur úrskurðarnefndin að vegna fortakslauss orðalags 33. gr. laga nr. 117/1993 um að Tryggingastofnun skuli veita styrki til að afla hjálpartækja og bifreiða sem nauðsynlegar séu vegna þar tilgreindra ástæðna, þá séu áhöld um heimild stjórnvalda til að setja stjórnvaldsreglu sem útilokar ákveðinn aldurshóp frá styrk vegna kaupa á bifreið.

 

Í 2. og 3. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 752/2002, með síðari breytingum, segir:

 

,, Uppbót er eingöngu heimilt að veita þegar eftirfarandi skilyrði eru uppfyllt:

1.      Hinn hreyfihamlaði er undir 75 ára aldri.

2.      Hinn hreyfihamlaði hefur sjálfur ökuréttindi eða annar heimilismaður.

3.      Nauðsyn á bifreið vegna hreyfihömlunar er ótvíræð og mat á hreyfihömlun liggi    fyrir.

4.      Mat á ökuhæfni liggi fyrir."

 

Lagagrundvöllur 4. gr. reglugerðar varðandi uppbót er í 11. gr. laga nr. 118/1993 um félagslega aðstoð.  Þar segir að heimilt sé að greiða uppbót að þar tilgreindum skilyrðum uppfylltum.  Um heimildarákvæði er því að ræða sem veitir stjórnvöldum rýmri rétt til að setja skilyrði fyrir greiðslum.  Það er því álit úrskurðarnefndar að hlutaðeigandi stjórnvaldi sé heimilt að setja aldurstengt skilyrði fyrir greiðslu uppbótar vegna kaupa á bifreið.  Kærandi er yfir þeim aldursmörkum sem sett eru fyrir úthlutun uppbótar vegna bifreiðakaupa.  Synjun Tryggingastofnunar um uppbót er því staðfest.

 

Synjun Tryggingastofnunar á umsókn um styrk/uppbót til kaupa á bifreið er staðfest.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

 

Synjun Tryggingastofnunar ríkisins frá 29. maí 2006 á umsókn A um uppbót/styrk vegna bifreiðakaupa er staðfest.

 

 

F.h. úrskurðarnefndar almannatrygginga

 

_____________________________________

Friðjón Örn Friðjónsson,

formaður

 Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn