Hoppa yfir valmynd
15. nóvember 2006 Innviðaráðuneytið

Hundrað ára afmæli Stórhöfðavita fagnað

Fagnað var í gær eitthundrað ára afmæli Stórhöfðavita í Vestmannaeyjum. Í afmælisathöfn sem Vestmannaeyjabær skipulagði var Óskar J. Sigurðsson vitavörður heiðraður fyrir störf sín við vitavörsluna í áratugi en fjölskylda hans hefur annast vitann svo gott sem í heila öld. Sturla Böðvarsson samgönguráðherra, Elliði Vignisson bæjarstjóri og fleiri fluttu ávörp og farið var í skoðunarferð í Stórhöfða.

Storhofdi0071
Óskar J. Sigurðsson hefur verið vitavörður í Stórhöfða frá 1965.

Fyrsti vitavörður í Stórhöfða var Guðmundur Ögmundsson en árið 1910 tók Jónatan Jónsson, afi Óskars núverandi vitavarðar, við stöðunni. Sigurður, faðir Óskars, var næstur í röðinni en Óskar tók við vitavarðarstarfinu árið 1965. Fram kom í máli Sturlu Böðvarssonar að auk þess að sinna vitavörslu hefur Óskar um árabil annast merkingar á fuglum, einkum lundum.

Ævar Petersen, fuglafræðingur hjá Náttúrufræðistofnun, sagði í ávarpi sínu að elsta lunda í heimi sem merktur hefði verið, hefði Óskar merkt á Stórhöfða. Sagði hann Óskar hafa merkt yfir 85 þúsund fugla. Þá hefur Óskar annast mælingar á mengun í andrúmsloftinu sem Veðurstofa Íslands hefur stýrt.

Verið er að taka efni í heimildarkvikmynd um Óskar og störf hans á Stórhöfða og var sýndur bútur úr myndinni í afmælisathöfninni. Bæjarstjórinn afhenti Óskari myndavél að gjöf frá bænum en Óskar hefur í gegnum árin tekið talsvert af myndum og var hluti þeirra sýndur í afmælisathöfninni. Þá afhenti Sigurbjörg Árnadóttir, formaður Vitafélagsins, Óskari viðurkenningu og ávörp fluttu einnig Hermann Guðjónsson siglingamálastjóri, Friðrik Ásmundsson, Hjálmar Árnason og Árni Johnsen. Kristín Jóhannsdóttir, menningarfulltrúi bæjarins, skipulagði afmælisathöfnina.

Stórhöfði er syðst á Heimaey, 122 metra hár og myndaðist í gosi fyrir um 6 þúsund árum. Veðurstöðin í Stórhöfða er opin fyrir öllum vindáttum og þar hefur mælst mestur vindur á Íslandi, 130 hnútar eða 67 metrar á sekúndu. Meðalvindhraði yfir árið er 11 m/sek. og að meðaltali eru fjórir logndagar á ári á Stórhöfða. Til þess var tekið í afmælishaldinu í gær að veður var mjög kyrrt á Stórhöfða í gær.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum