Hoppa yfir valmynd
22. nóvember 2006 Innviðaráðuneytið

Full rök fyrir stórátaki í vegamálum

Stórátak í vegamálum var yfirskrift fundar Samtaka verslunar og þjónustu og Viðskiptaráðs Íslands í dag þar sem fjallað var um stórátak, nýjar lausnir og einkaframkvæmd í vegamálum. Sturla Böðvarsson samgönguráðherra var meðal ræðumanna og sagði hann að þjóðarsátt væri að skapast um stórátak í vegamálum og full rök væru fyrir því að blása til slíks stórátaks.

Storatak i vegamalum
Sturla Böðvarsson flytur ræðu á fundi um stórátak í vegamálum.

Með stórátaki í vegamálum sér samgönguráðherra fyrir sér að þjóðvegurinn milli Reykjavíkur og Akureyrar verði í áföngum á næstu árum byggður upp með fullu burðarþoli sem tveggja akreina vegur í hvora átt. Á sama hátt verði leiðin milli Reykjavíkur og Markarfljótsbrúar byggð upp. Sturla Böðvarsson sagði mögulegt að fjármagna átak sem þetta með auknum framlögum úr ríkissjóði, með einkaframkvæmd eða með langtíma lánum ríkissjóðs sem yrðu greidd niður á 20-25 árum.

Samgönguráðherra ræddi nokkuð fjármögnun í vegagerð og sagði að í dag væri fjármögnun tryggð með mörkuðum tekjum, sem væru af bensíngjaldi, olíugjaldi, þungaskatti og leyfisgjöldum svo og með sérstökum framlögum úr ríkissjóði. Hann nefndi að þegar horft væri til framtíðar væri meðal nýrra leiða í fjármögnun vegaframkvæmda að tengja veggjöld stað og stund; að notkun væri greidd samkvæmt mælingum á akstri ökutækja með tölvubúnaði og víða um lönd væri einnig til dæmis rætt um að leggja á mengunarskatt. Ráðherra sagði brýnt að tryggja samgönguáætlun næstu ára, sem nú væri í endurskoðun, með framlögum úr óskertum tekjustofnum vegasjóðs.

Miklar framkvæmdir síðustu árin

Í ræðu sinni minnti samgönguráðherra á að miklar vegaframkvæmdir hefðu verið síðustu árin en margt væri enn ógert og víða verk að vinna. Of víða væri ekki bundið slitlag og of víða væri burðarþol ekki nægilegt. Hann sagði framlög til nýbygginga vega á síðustu árum hafa verið 5,5 til 10 milljarðar króna á ári og kringum 5 milljarðar á ári hefðu farið í viðhald vega og þjónustu. Nokkur dæmi um viðamiklar framkvæmdir síðustu ára sagði ráðherra vera nýja brú yfir Þjórsá, Fáskrúðsfjarðargöng, göng undir Almannaskarð, tvöföldun Reykjanesbrautar með mislægum gatnamótum, breikkun vegarkafla á Hellisheiði, Vatnaleið, flutningur Hringbrautar, nýbygging vegar um Tjörnes og framkvæmdir í Ísafjarðardjúpi.

Ráðherra sagði beint samhengi milli hagvaxtar og samgangna. Í góðæri væri mikið um að vera í atvinnulífinu og í einkalífi kæmi góðærið fram með meiri neyslu, til dæmis auknum ferðalögum. ,,Umferðin eykst, álagið eykst og samgöngumannvirkin verða að mæta þessari aukningu. Við verðum að tryggja afköst og við verðum að tryggja fullt öryggi.”

Sturla Böðvarsson sagði einnig að stórátak í vegamálum snerist ekki aðeins um greiðari samgöngur, burðarmeiri vegi og styttri vegalengdir. ,,Allar umbætur í vegakerfinu hafa einnig aukið umferðaröryggi í för með sér. Betri umferðarmannvirki geta þýtt færri slys. Þótt ökumaðurinn sé í mjög mörgum tilvikum orsakavaldur slyss þá er unnt að draga úr áhrifum þess með því að gera umhverfið þannig úr garði að það leiði ekki til frekari skaða,” sagði ráðherra.

Auk samgönguráðherra töluðu Sigurður Jónsson, framkvæmdastjóri SVÞ, sem sagði samtökin leggja mikla áherslu á greiðar og síopnar samgönguleiðir, Þór Sigfússon, forstjóri Sjóvár, sem greindi frá nýjum lausnum í vegamálum sem snerust um mögulega aðkomu einkaframtaksins og Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Suðurlandsvegar ehf., sem fjallaði um einkaframkvæmd í vegamálum.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum