Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Mál nr. 25/2006. Ákvörðun kærunefndar útboðsmála:

Ákvörðun kærunefndar útboðsmála 25. janúar 2007.

                            í máli nr. 25/2006:

                            Sportrútan ehf.

                             gegn

                             Eyjafjarðarsveit

Með bréfi 20. nóvember 2006 óskar Sportrútan ehf. eftir því að kærunefnd útboðsmála endurupptaki mál nefndarinnar nr. 13/2006: Sportrútan ehf. gegn Eyjafjarðarsveit, sbr. 1. tl. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Jafnframt er krafist málskostnaðar úr hendi Eyjafjarðarsveitar, sbr. 3. mgr. 81. gr. laga nr. 94/2001 um opinber innkaup.

Kærði krefst þess að beiðni kæranda verði hafnað.

Með bréfi, dags. 18. desember 2006, óskaði nefndin eftir frekari upplýsingum frá málsaðilum með vísan til 2. mgr. 79. gr. laga nr. 94/2001. Svarbréf kæranda var dags. 22. desember 2006 og svarbréf kærða 2. janúar 2007. Með bréfi, dags. 15. janúar 2007, óskaði nefndin eftir nánari upplýsingum frá kærða og bárust þær 19. sama mánaðar.

I.

Málavextir vegna hins kærða útboðs eru raktir í úrskurði kærunefndar útboðsmála í máli nr. 13/2006. Var þar komist að þeirri niðurstöðu að kæra hefði verið borin undir nefndina eftir að kærufrestur samkvæmt 1. mgr. 78. gr. laga nr. 94/2001 um opinber innkaup var liðinn. Var kröfum kæranda því hafnað.

Niðurstaða nefndarinnar var rökstudd með eftirfarandi hætti:

,,Samkvæmt 1. mgr. 78. gr. laga nr. 94/2001 skal kæra borin skriflega undir kærunefnd útboðsmála innan fjögurra vikna frá því að kærandi vissi eða mátti vita um ákvörðun, athöfn eða athafnaleysi sem hann telur brjóta gegn réttindum sínum. Í 3. gr. starfsreglna kærunefndar útboðsmála nr. 982/2001 kemur fram að umræddur frestur miðist við móttökudag hjá skrifstofu nefndarinnar eða póstlagningardag kæru.

Í máli þessu er upplýst að kæranda var tilkynnt um niðurstöðu á úrvinnslu tilboða og að tilboð hans hefði verið dæmt ógilt með bréfi kærða, dags. 4. maí 2006. Með bréfi til kærða, dags. 8. maí 2006, gerði kærandi athugasemdir við þá ákvörðun kærða að meta tilboð hans ógilt og var honum því í síðasta lagi kunnugt um ákvörðunina þann dag. Samkvæmt ótvíræðu orðalagi 1. mgr. 78. gr. laga nr. 94/2001 bar kæranda að bera kæru undir nefndina innan fjögurra vikna frá þeim degi. Kæra var dagsett 8. júní 2006 og var þá liðinn lögmæltur kærufrestur samkvæmt fyrrnefndu ákvæði. Verður því ekki hjá því komist að hafna kröfum kæranda án þess að tekin sé efnisleg afstaða til málsins.

Kærði hefur krafist þess að kæranda verði gert að greiða málskostnað til ríkissjóðs. Samkvæmt 2. málslið 3. mgr. 81. gr. laga nr. 94/2001 getur kærunefnd útboðsmála úrskurðað kæranda til að greiða málskostnað sem rennur í ríkissjóð ef kæra er bersýnilega tilefnislaus eða höfð uppi í þeim tilgangi að tefja fyrir framgangi opinberra innkaupa. Að mati nefndarinnar eru skilyrði ákvæðisins ekki uppfyllt og verður því að hafna kröfunni.“

II.

            Kærandi vísar til þess að með kæru hafi fylgt bréf forsvarsmanns kæranda, Tryggva Sveinbjörnssonar, sem dagsett hafi verið 8. maí 2006 og í því bréfi hafi orðrétt verið tilgreint úr 1. lið fundargerðar 119. fundar skólanefndar kærða frá 4. maí eftirfarandi: ,,Við fyrstu skoðun virðast tveir bjóðendur ekki standast kröfur um starfsreynslu.“ Hafi forsvarsmaður kæranda komist á snoðir um þetta orðalag þegar hann átti samtal við Ingólf Gestsson sem tengist fyrirtækinu Norðlensk hús ehf. og var hinn bjóðandinn sem ,,við fyrstu skoðun“ virtist ekki standast kröfu um starfsreynslu. Í úrskurði kærunefndar útboðsmála segi: ,,Í máli þessu er upplýst að kæranda var tilkynnt um niðurstöðu á úrvinnslu tilboða og að tilboð hans hefði verið dæmt ógilt með bréfi kærða dags. 4. maí 2006.“ Í þessu virðist misskilningurinn liggja, en ekki hafi verið um að ræða formlegt bréf kærða til kæranda heldur hafi hann komist að þeirri stöðu, sem hann var í, í samtali við mann sem var ekki formlegur aðili til að kynna stöðu mála. Þrátt fyrir áðurnefnt orðalag og einmitt vegna orðanna ,,við fyrstu skoðun“ hafi kærandi freistað þess að fá leiðréttan þann misskilning sem hann taldi vera á ferðinni hjá skólanefnd kærða. Hafi hann því rakleiðis snúið sér til sveitarstjórnar og freistað þess að koma að skýringum og óskum um endurskoðun. Það hafi ekki verið fyrr en 16. maí 2006 sem kæranda barst bréf sveitarstjórnar kærða um að hún hefði samþykkt tillögu skólanefndar um að semja við SBA-Norðurleið og hafi fundargerð skólanefndar frá 4. maí 2006 verið heft við það bréf. Hafi kæranda þá fyrst orðið ljóst að engin frekari athugun hefði verið gerð og að sveitarstjórn kærða myndi í engu svara bréfi hans frá 8. maí 2006.

Sé aðstaða kæranda algjörlega sambærileg aðstöðu hins kærandans Norðlenskra húsa ehf., en kærunefnd útboðsmála hafi í úrskurði frá 23. ágúst 2006 talið kærða vera skaðabótaskyldan gagnvart fyrirtækinu. Ekki verði betur séð en að öll atvik séu sambærileg. Vísað er til þess að kærandi hafi haft eðlilegar væntingar um að staða hans yrði skoðuð frekar í ljósi upplýsinga í bréfi hans frá 8. maí 2006 og hafi hann ekki fyllilega áttað sig á stöðu sinni fyrr en honum barst bréf kærða 16. maí sama ár. Hafi kæra hans, dags. 8. júní 2006, því verið nægilega snemma fram komin, sbr. 1. mgr. 78. gr. laga nr. 94/2001.

            Tekið er fram að tilvísun kærða til úrskurðar kærunefndar útboðsmála í máli nr. 4/2001 eigi ekki við. Í því máli hafi verið um að ræða gögn sem beiðandi um endurupptöku hafði átt kost á að leggja fyrir nefndina en ekki gert. Í þessu máli sé verið að koma að skýringum á þegar framlögðum gögnum, þar sem kærunefnd sýnist hafa talið að vitneskja, sem kærandi hafi komist á snoðir um meðan á úrvinnslu tilboða stóð, hefði verið tilkynnt honum með einhverjum hætti. Svo hafi hins vegar ekki verið og hafi nú verið gefnar skýringar á gangi mála. Vísað er til þess að málflutningur fyrir kærunefnd útboðsmála sé skriflegur og geti atriði sem væri frekar hnykkt á við munnlegan málflutning skolast til. Sé eðlilegt að heimila endurupptöku til að nefndin geti skoðað málið á ný með þessar skýringar í huga. Mótmælt er að frestur til endurupptöku sé liðinni, enda beiðni kæranda dagsett 20. nóvember 2006 og ekki liðnir fullir þrír mánuðir frá því að nefndin kvað upp úrskurði í málinu.

            Kærunefnd útboðsmála óskaði eftir upplýsingum frá kæranda um hvenær hann hefði fengið fyrrgreinda fundargerð skólanefndar í hendur og var í því sambandi bent á að í kæru, dags. 8. júní 2006, segi orðrétt: ,,Eftir að umbj.m. varð kunnugt um að boð hans hefði verið dæmt ógilt fékk hann þessa fundargerð í hendur og ritaði 8. maí 2006 Sveitarstjórn Eyjafjarðarsveitar bréf, þar sem hann gerði alvarlegar athugasemdir við afgreiðslu skólanefndar...“. Kærandi svaraði þessu svo að hann hefði í fyrst fengið sjálfa fundargerðina í hendur 16. maí 2006. Hins vegar hefði kunningi forsvarsmanns kæranda, sem tengdist Norðlenskum húsum ehf., fengið fregnir um að tveir bjóðenda væru ekki taldir hæfir vegna skorts á starfsreynslu. Hefði sami maður upplýst forsvarsmann kæranda um að fyrirtæki hans væri einn þessara bjóðenda og tók hann tilvitnuð orð úr fundargerðinni orðrétt niður eftir honum. Með bréfi forsvarsmanns kæranda til kærða 8. maí 2006 hafi hann freistað þess að upplýsa nánar um starfsreynslu fyrirtækisins, enda ljóst að sveitarstjórn hefði síðasta orðið um hvaða tilboði eða tilboðum yrði tekið og vald til að vísa málinu til frekari úrvinnslu skólanefndar eða starfshóps á hennar vegum. Hefði kæranda ekki verið kunnugt um hvernig málið yrði endanlega afgreitt fyrr en honum barst fyrrgreint bréf 16. maí 2006.

III.

Kærði vísar til úrskurðar kærunefndar útboðsmála í máli nr. 4/2001 þar sem eftirfarandi komi fram: ,,Heimildir stjórnsýslulaga nr. 37/1993 til endurupptöku verður að skýra á þá leið að úrskurðir nefndarinnar verði ekki teknir upp með vísan til nýrra gagna, sem sá sem kæra beinist að leggur fram, nema þegar dráttur á framlagningu slíkra gagna er afsakanlegur, enda ber að öðrum kosti að meta tómlæti hans í þessu efni honum í óhag við úrlausn málsins, sbr. 2. mgr. 79. gr. laga nr. 94/2001 um opinber innkaup.“ Þá er vísað til þess að í 24. gr. stjórnsýslulaga komi fram að beiðni um endurupptöku verði ekki tekin til greina nema að fengnu samþykkti frá öðrum aðilum máls eftir að þrír mánuðir séu liðnir frá því að aðila var tilkynnt um ákvörðun eða mátti vera kunnugt um breytingu á atvikum þeim sem ákvörðun var byggð á. Tekið er fram að kærði samþykki ekki endurupptöku málsins og ítreki kröfu um að þeirri ósk verði hafnað. Um þessi atriði hafi verið fjallað í úrskurði kærunefndar og allar staðreyndir málsins legið fyrir í kæru. Hafi því ekkert nýtt komið fram og beri í samræmi við það að hafna kröfunni.

Kærunefnd útboðsmála óskaði eftir upplýsingum frá kærða um hvenær kæranda hefði verið tilkynnt um niðurstöðu á úrvinnslu tilboða og að tilboð hans hefði verið dæmt ógilt. Í svarbréfi kærða kemur fram að kæranda hafi verið tilkynnt um afgreiðslu sveitarstjórnar og skólanefndar með bréfi kærða 16. maí 2006. Hins vegar væri ljóst með vísan til bréfs kæranda, dags. 8. maí 2006, og þess að fundargerðir eru birtar á vef kærða daginn eftir að fundir eru haldnir að kæranda hafi verið fullkunnugt um afgreiðslu málsins 9. maí sama ár. Nefndin óskaði eftir frekari upplýsingum frá kærða um hvenær kæranda hefði verið send niðurstaða vinnuhóps, dags. 4. maí 2006, um úrvinnslu tilboða þar sem fram kom að tilboð hans hefði verið dæmt ógilt. Í svarbréfi kærða kom fram að umrætt bréf hefði fylgt ofangreindu bréfi sem sent var kæranda 16. maí 2006.

IV.

Samkvæmt 1. málsl. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 á aðili máls rétt á því að mál sé endurupptekið ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik. Vegna úrlausnar á beiðni kæranda um endurupptöku máls nr. 13/2006 kemur til skoðunar hvort umrætt skilyrði sé uppfyllt.

Eins og að framan greinir var niðurstaða kærunefndar útboðsmála í ofangreindu máli byggð á því að kæranda hefði verið tilkynnt um niðurstöðu á úrvinnslu tilboða og að tilboð hans hefði verið dæmt ógilt með bréfi kærða, dags. 4. maí 2006. Með vísan til bréfs kæranda til kærða, dags. 8. sama mánaðar, var talið að kæranda hefði í síðasta lagi þann dag verið kunnugt um þá ákvörðun kærða að meta tilboð hans ógilt. Var því talið að kæra, dags. 8. júní 2006, hefði verið of seint fram komin, sbr. 1. mgr. 78. gr. laga nr. 94/2001. Hefur nú verið upplýst að kærandi fékk fregnir af því að skólanefnd kærða taldi hann ekki standast kröfur um starfsreynslu við fyrstu skoðun á fundi sínum 4. maí 2006 frá öðrum manni, sem tengdist bjóðandanum Norðlenskum húsum ehf., og að það var tilefni bréfs hans til kærða 8. maí 2006. Kærði hefur upplýst að kæranda var ekki sent bréf, dags. 4. maí 2006, þar sem fram kom niðurstaða vinnuhóps um úrvinnslu tilboða og að tilboð hans hefði verið metið ógilt fyrr en 16. maí 2006 er það var sent sem fylgiskjal með tilkynningu kærða um afgreiðslu sveitarstjórnar og skólanefndar. Samkvæmt framangreindu telur kærunefnd útboðsmála að ákvörðun hennar um að hafna kröfum kæranda í máli nr. 13/2006 með vísan til þess að kæra hafi verið of seint fram komin, sbr. 1. mgr. 78. gr. laga nr. 94/2001, hafi byggst á röngum eða ófullnægjandi upplýsingum um málsatvik. Eru því uppfyllt skilyrði 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga um endurupptöku málsins og verður samkvæmt því fallist á kröfu kæranda.

 

Ákvörðunarorð:

Fallist eru á kröfu kæranda, Sportrútunnar ehf., um endurupptöku máls nr. 13/2006: Sportrútan ehf. gegn Eyjafjarðarsveit.

 

 

                                                               Reykjavík, 25. janúar 2007.

                                                                          

                                                                          

 

 

 

 

Rétt endurrit staðfestir,

Reykjavík, 25. janúar 2007.

 

 Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn