Hoppa yfir valmynd
14. mars 2007 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

„Mótum framtíð“, ráðstefna um félagslega þjónustu

Ljósbrot
Ráðstefnan „Mótum framtíð“ gefur þverskurð af góðum fyrirmyndum í félagslegri þjónustu.

Félagsmálaráðuneytið stendur fyrir ráðstefnu um það sem efst er á baugi og nýstárlegast í félagslegri þjónustu á Íslandi og annars staðar á Norðurlöndum.

Ráðstefnan verður haldin á Nordica hotel dagana 29. og 30. mars nk. í samvinnu við Norrænu ráðherranefndina, Velferðarsvið Reykjavíkurborgar, Rannsóknarsetur í barna- og fjölskylduvernd við Félagsvísindadeild Háskóla Íslands, Rauða kross Íslands, Ís-Forsa og fjölmarga hagsmunaaðila sem láta sig félagslega þjónustu varða.

Fjölbreyttur vettvangur

Á ráðstefnunni verður upplýsingum miðlað um verkefni, rannsóknir og áætlanir sem varða félagslega þjónustu hérlendis sem erlendis. Leitast verður við að skapa fjölbreyttan vettvang upplýsinga um reynslu, þróun og nýjar hugmyndir fyrir þá sem tengjast eða hafa áhuga á félagslegri þjónustu. Kynntar verða góðar fyrirmyndir í þjónustunni, þróunarverkefni í mótun og gerð verður grein fyrir niðurstöðum ýmissa rannsókna á þessu sviði. Sjónum verður sérstaklega beint að samþættingu félagslegrar þjónustu ríkis og sveitarfélaga.

Ný stefna félagsmálaráðuneytisins í málefnum fatlaðra barna og fullorðinna verður kynnt á ráðstefnunni og enn fremur gerð grein fyrir átaki um aukna þjónustu við geðfatlað fólk.

Fjölbreyttir fyrirlestrar verða fluttir á ráðstefnunni og jafnframt verða í boði fyrirlestrar í fimm málstofum fyrri ráðstefnudaginn og sex málstofum þann seinni. Þátttakendur geta því valið úr margvíslegu efni til að hlýða á og taka þátt í umræðum að þeim loknum. Sérstök athygli er vakin á fyrirlestrum norrænna sérfræðinga þar sem fjölmargar nýjungar verða kynntar.

Þeim sem þess óska stendur til boða að efna til kynninga á nýjum verkefnum og viðfangsefnum í forsal aðalráðstefnusalar hótelsins með veggspjöldum eða öðrum hætti í samráði við ráðstefnuhaldara. 

Ráðstefnan öllum opin

Ráðstefnan er opin öllum sem láta sig varða félagslega þjónustu og er aðgangur ókeypis. Unnt er að skrá sig hér. 

Í hléum verður tónlist leikin og aðrir listrænir viðburðir í boði. 

Að lokinni dagskrá á föstudeginum verður móttaka í boði Magnúsar Stefánssonar félagsmálaráðherra.

Skjal fyrir Acrobat ReaderMótum framtíð - Dagskrá



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum