Hoppa yfir valmynd
16. mars 2007 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Mál nr. 24/2006. Ákvörðun kærunefndar útboðsmála:

Ákvörðun kærunefndar útboðsmála 16. mars 2007

í máli nr. 24/2006:

EADS Secure Networks OY

gegn

Neyðarlínunni

Með bréfi 17. nóvember 2006 kærir EADS Secure Networks Oy samningsgerð Neyðarlínunnar við fyrirtækið Motorola ,,um kaup á nýjum Tetra fjarskiptabúnaði sem ætlaður er fyrir öryggis- og neyðarþjónustu um allt land.“

Kærandi krefst þess að kærunefnd útboðsmála stöðvi samningsgerð kærða við Motorola þar til endanlega hefur verið skorið úr kæru, sbr. 80. gr. laga nr. 94/2001 um opinber innkaup. Þá er þess krafist að nefndin felli úr gildi ákvörðun kærða um samningsgerð hafi samningur ekki endanlega verið gerður. Þess er jafnframt krafist að nefndin láti í ljós álit sitt á skaðabótaskyldu kærða gagnvart kæranda, sbr. 2. mgr. 81. gr. lagana. Loks er þess krafist að kærða verði gert að greiða kæranda kostnað við að hafa kæruna uppi, sbr. 3. mgr. 81. gr. laganna. Kærði krefst þess að kröfum kæranda verði hafnað.

Í athugasemdum kæranda, dags. 1. mars 2007, er gerð krafa um að honum verði afhent ljósrit af samningi þeim sem kærandi gerði við Motorola svo og afrit af verðupplýsingum sínum og fyrirtækisins, en umrædd gögn hafi verið afhent kærunefnd útboðsmála með bréfi kærða 5. febrúar 2007. Jafnframt krefst kærandi aðgangs að gögnum sem kærði kallar ,,verðupplýsingar“ og öðrum gögnum sem fylgdu bréfi kærða, þar á meðal gögnum sem kærandi sendi kærða 15. desember 2005 í því skyni að sannreyna að um sé að ræða rétt gögn. Kærði krefst þess að gætt verði trúnaðar um umrædd gögn.

Kærunefnd útboðsmála telur rétt að taka afstöðu til framangreindrar kröfu kæranda um afhendingu gagna þegar í stað. Úrlausn um kröfur kæranda að öðru leyti bíður hins vegar endanlegs úrskurðar.

I.

Kærandi vísar til stuðnings kröfu sinni til 15. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Geti hann ekki komið nauðsynlegum athugsemdum við staðhæfingar sem fram komi í bréfinu á framfæri við nefndina hafi hann ekki aðgang að þessum gögnum. Í því sambandi er vísað til þess að í bréfinu sé upplýst að verð Motorola búnaðarins hafi lækkað verulega eða um 200 milljónir króna þar sem eldri búnaður hafi verið ,,látinn í skiptum fyrir nýjan búnað“. Einnig er bent á að í lok bréfsins komi fram að vandséð sé ,,hvernig flokka megi Tetra búnaðinn undir annað en þráðlausa síma og/eða boðkerfi“. Vísað er til þess að í tölvupósti lögmanns kæranda til lögmanns kærða 7. febrúar 2007 hafi verið spurst fyrir um yfirstandandi sölu 650 Motorola talstöðva og svar borist samdægurs um að sala þessara talstöðva væri kærða óviðkomandi. Nú sé hins vegar Tetra búnaðurinn skilgreindur sem þráðlausir símar og/eða boðkerfi. Sé meðal annars af þessum ástæðum afar mikilvægt fyrir kærða að fá aðgang að nefndum samningi eins og hann eigi rétt á samkvæmt 15. gr. stjórnsýslulaga. Varði það jafnframt kæranda miklu að fá aðgang að gögnum sem kærði kjósi að kalla ,,verðupplýsingar“. Sé ekki ljóst af orðalaginu hvort átt sé við upplýsingar sem kærandi og Motorola hafi sent kærða eða mat kærða á þeim upplýsingum. Sé kæranda ekki kleyft að tjá sig um þessar upplýsingar nema hann hafi aðgang að þeim. Loks er þess krafist að kæranda verði afhent önnur gögn sem fylgdu nefndu bréfi kæranda, þar á meðal gögn sem kærandi sendi kærða 15. desember 2005, í því skyni að sannreyna að um sé að ræða rétt gögn.

II.

Kærði vísar til þess að báðir aðilar, sem hafi gefið verðtilboð í uppfærslu á Tetra fjarskiptakerfum kærða, hafi gert áskilnað um að trúnaðar yrði gætt. Beri kærða að virða þann trúnað og kæranda að taka tillit til þess. Hafi fyrirsvarsmaður Motorola á síðari stigum ítrekað að gögn þeirra væru trúnaðarmál. Vísað er til þess að kærði hafi sent kærunefnd útboðsmála öll gögn sem félagið hafi undir höndum og málið varði, en telji nefndin enn skorta gögn verði reynt að bregðast við því. Tekið er fram að ósk kærða um að gætt verði trúnaðar sé í fullu samræmi við fyrri framkvæmd og málsmeðferð fyrir nefndinni.

III.

Kærandi hefur óskað eftir aðgangi að þeim skjölum sem fylgdu bréfi kærða 15. febrúar 2007. Um er að ræða afrit af samningi sem gerður var á milli kærða og Motorola 28. september 2006, tilboð kæranda og tilboð Motorola sem send voru kærða í kjölfar verðkönnunar hans. Umrædd gögn voru send kærunefnd útboðsmála í kjölfar beiðni hennar á grundvelli 2. mgr. 79. gr. laga nr. 94/2001 og teljast til málsgagna í því stjórnsýslumáli sem rekið er fyrir kærunefnd útboðsmála á milli málsaðila. Samkvæmt 15. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 á aðili máls almennt rétt á að kynna sér skjöl og önnur gögn er mál hans varða. Hefur óheftur aðgangur að gögnum máls verið talinn nauðsynlegur til að tryggja að réttur aðila til að koma að skýringum og leiðrétta fyrirliggjandi gögn nýtist að fullu. Gerðar eru þröngar undantekningar frá þessari meginreglu í 16. og 17. gr. laganna. Samkvæmt 17. gr. laganna er stjórnvaldi heimilt að takmarka aðgang aðila máls að gögnum ef hagsmunir hans af því að notfæra sér vitneskju úr þeim þykja eiga að víkja fyrir mun ríkari almanna- eða einkahagsmunum. Með einkahagsmunum er meðal annars átt við upplýsingar um fjárhagsmálefni, svo sem upplýsingar um rekstrar- eða samkeppnisstöðu fyrirtækis.

Kemur þá til skoðunar hvort þær upplýsingar sem finna má í umræddum gögnum séu þess eðlis að uppfyllt séu skilyrði 17. gr. laga nr. 37/1993 til að takmarka aðgang kæranda að þeim. Hvað varðar samning þann sem gerður var á milli kærða og Motorola telur kærunefnd útboðsmála að veita beri kæranda aðgang að texta hans, en ekki verðlista, sbr. 17. gr. laga nr. 37/1993. Að mati nefndarinnar hefur tilboð Motorola að geyma upplýsingar um mikilvæga einkahagsmuni fyrirtækisins, þ. á m. upplýsingar sem varða samkeppnisstöðu þess. Þykja hagsmunir kæranda af aðgangi að tilboðinu eiga að víkja fyrir mun ríkari einkahagsmunum Motorola., sbr. 17. gr. laga nr. 37/1993. Hins vegar mælir ekkert gegn því að kæranda sé veittur aðgangur að tilboði hans sjálfs og er því fallist á þá kröfu.

 

Ákvörðunarorð:

Kæranda, EADS Secure Networks OY, er veittur aðgangur að texta samnings á milli kærða og Motorola, sem barst nefndinni með bréfi kærða, Neyðarlínunnar, 15. febrúar 2007, en ekki að verðlista.

Kæranda er veittur aðgangur að tilboði sínu sem barst nefndinni með sama bréfi kærða.

Hafnað er kröfu kæranda um aðgang að tilboði Motorola hf, sem barst nefndinni með sama bréfi kærða.

 

                                                               Reykjavík, 16. mars 2007.

                                                               Páll Sigurðsson

                                                               Stanley Pálsson

                                                               Sigfús Jónsson

 

                                                              

Rétt endurrit staðfestir,

Reykjavík, 16. mars 2007.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum