Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Mál nr. 5/2007. Ákvörðun kærunefndar útboðsmála:

Ákvörðun kærunefndar útboðsmála 4. apríl 2007

í máli nr. 5/2007:

Nýja leigubílastöðin

gegn

Ríkiskaupum, f.h. hönd áskrifenda að rammasamningskerfi Ríkiskaupa á hverjum tíma.

 

Með ódagsettu bréfi sem barst kærunefnd útboðsmála 29. mars 2007, kærir Nýja leigubílastöðin Ríkiskaup f.h. áskrifenda að rammasamningskerfi Ríkiskaupa á hverjum tíma þá ákvörðun að breyta útboðsskilmálum í rammasamningsútboði nr. 14201 auðkennt „Leigubifreiðaakstur“.

Kærandi gerir þá kröfu í málinu að kærunefnd útboðsmála stöðvi þegar samningsgerð í hinu kærða útboði.  

Kærði gerir þá kröfu að kröfu kæranda verði hafnað.

 

I.

Mál þetta er risið út af rammasamningsútboði kærða nr. 14201 um leigubifreiðaakstur en fyrir liggur í málinu ódagsett útboðslýsing þar sem fram kemur að um sé að ræða opið EES-útboð. Útboðið skiptist í tvo flokka sem bjóðendum gafst kostur á að bjóða í, þ.e. flokk eitt sem var akstur á og frá höfuðborgarsvæðinu eins og það svæði var nánar skýrt í útboðslýsngu og flokk tvö sem var keyrsla á Reykjanesbraut. Fram kom í útboðslýsingu að kærði áskildi sér rétt til að semja við fleiri en einn aðila um viðskipti í hvorum flokki. Í febrúar 2007 tilkynnti kærði að við nánari skoðun á valforsendum útboðsins hafi verið komist að þeirri niðurstöðu að einn valflokkur í gæðamati útboðsins væri ekki hentugur mælikvarði til mats. Þar með hafi verið ákveðið að fella þann lið úr gæðamati.

            Tilboð bjóðenda í útboðinu munu hafa verið opnuð 27. mars sl. Kærandi hafði skilað inn tilboði ásamt Hreyfli og BSR. Niðurstöður útboðs voru þær að í flokki eitt var ákveðið að taka tilboði við Hreyfil og kæranda en í flokki tvö var ákveðið að taka tilboði kæranda. Með kæru sinni freistar kærandi þess að stöðva samningsgerð við sjálfan sig og Hreyfil.            

 

 

II.

Kærunefnd útboðsmála telur rétt að taka afstöðu til fram kominnar stöðvunarkröfu kæranda. Samkvæmt 1. mgr. 80. gr. laga um opinber innkaup nr. 94/2001 hefur kærunefnd útboðsmála heimild til að stöðva samningsgerð þar til endanlega hefur verið skorið úr kæru.

            Kærandi freistar í máli þessu að fá stöðvaða samningsgerð við sjálfan sig og Hreyfil hvað varðar fyrri flokk útboðsins. Ekki verður séð að kærandi geti haft lögvarða hagsmuni af því að fá úrskurð um stöðvun á samningsgerð við hann sjálfan. Samkvæmt útboðsgögnum áskildi kærði sér rétt til að semja við fleiri en einn aðila um viðskipti í hvorum flokki. Kærða er þetta heimilt að lögum. Verður útboðið ekki stöðvað á þeim grundvelli heldur. Með vísan til þessa verður að hafna kröfu kæranda um stöðvun samningsgerðar í hinu kærða útboði.

 

Ákvörðunarorð:

Kröfu kæranda, Nýju leigubílastöðvarinnar, um stöðvun samningsgerðar í kjölfar rammasamningsútboðs kærða nr. 14201, auðkennt „Leigubifreiðaakstur“, er hafnað.

 

Reykjavík, 4. apríl 2007,

                                                               Páll Sigurðsson

                                                               Sigfús Jónsson

                                                               Stanley Pálsson

 

Rétt endurrit staðfestir,

Reykjavík, 4. apríl 2007.Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn