Hoppa yfir valmynd
4. maí 2007 Innviðaráðuneytið

Næstu skref eru ítarlegar rannsóknir

Ítarleg úttekt samráðsnefndar samgönguráðherra og borgarstjóra um framtíðarkosti Reykjavíkurflugvallar er nú komin út. Skýrslan er aðgengileg hér á vefnum svo og nokkrar aðrar skýrslur sem tengjast úttekt nefndarinnar.

Skýrsla um framtíðarkosti Reykjavíkurflugvallar kynnt á blaðamannafundi.
Skýrsla um framtíðarkosti Reykjavíkurflugvallar kynnt á blaðamannafundi.

Skýrslan var afhent Sturlu Böðvarssyni samgönguráðherra og Kristbjörgu Stephensen, staðgengli borgarstjóra, í samgönguráðuneytinu í morgun. Síðdegis kynnti svo Helgi Hallgrímsson, formaður samráðsnefndarinnar, og aðrir nefndarmenn skýrsluna á blaðamannafundi.

Verkefni samráðsnefndarinnar var flugtæknileg, rekstrarleg og skipulagsleg úttekt á flugvellinum og fékk hún innlenda og erlenda sérfræðinga til að vinna ákveðin svið úttektarinnar. Nú þegar skýrslan liggur fyrir þarf að ákveða hver verða næstu skref við mótun framtíðarstefnu um Reykjavíkurflugvöll.

Meðal helstu niðurstaðna samráðsnefndarinnar er að núverandi flugvöllur sé á mjög góðum stað frá sjónarmiði flugsamgangna og flugrekenda. Flugvallarsvæðið er hins vegar mjög dýrmætt sem byggingarland. Þjóðhagslegir útreikningar sýna að flugvöllur á Hólmsheiði, Lönguskerjum eða flutningur innanlandsflugs til Keflavíkurflugvallar muni skila miklum ábata.

Í skýrslunni kemur fram að til að unnt sé að ákvarða hvort mögulegt sé og hagkvæmt að reisa nýjan flugvöll á Hólmsheiði eða Lönguskerjum þurfa að fara fram ýtarlegar veðurfarsrannsóknir. Þær hófust í fyrra á Hólmsheiði en taka þarf fleiri atriði til athugunar en gert hefur verið. Einnig þarf að rannsaka veðurfar á Lönguskerjum og á báðum stöðum þarf að meta umhverfisáhrif af flugvallargerðinni og væntanlegri starfsemi.

Samgönguráðuneytið lítur svo á að áfram skuli haldið samstarfi borgaryfirvalda og samgönguyfirvalda varðandi framtíðarskipan innanlandsflugsins. Settur verði á laggirnar vinnuhópur sem leggi fram tillögur um tilhögun, kostnað og verkáætlun nauðsynlegra rannsókna á veðurfari og umhverfisáhrifum sem áður er getið. Nauðsynlegt er að þær tillögur verði mótaðar á næstu vikum til að unnt sé að hrinda rannsóknum af stað þegar í haust. Samgönguráðuneytið telur farsælast að þeir sem skipuðu samráðsnefndina starfi áfram að frekari framvindu málsins.

Ljóst er að þegar hefur verið svarað fjölmörgum spurningum um möguleika á rekstri flugvallar í borgarlandinu eða nágrenni Reykjavíkur. Ljóst er einnig að leita þarf svara við fleiri spurningum og miða áðurnefndar rannsóknir að því. Á meðan verður Reykjavíkurflugvöllur í Vatnsmýri miðstöð innanlandsflugs eins og verið hefur í áratugi.

Samgönguráðuneytið færir formanni samráðsnefndarinnar, Helga Hallgrímssyni, nefndarmönnum og öllum öðrum sem unnu að þessu viðamikla verki bestu þakkir fyrir vel unnin störf.

Hér má sjá skýrsluna í heild.

Skýrsla um framtíðarkosti Reykjavíkurflugvallar afhent.
Samráðsnefnd um framtíð Reykjavíkurflugvallar afhenti samgönguráðherra og staðgengli borgarstjóra skýrsluna í dag.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum