Hoppa yfir valmynd
7. maí 2007 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Opnun reiknistofu Atvinnuleysistryggingasjóðs á Skagaströnd

Frá formlegri opnun nýrrar starfsstöðvar Atvinnuleysistryggingasjóðs á Skagaströnd.
Frá formlegri opnun nýrrar starfsstöðvar Atvinnuleysistryggingasjóðs á Skagaströnd.

Samkvæmt ákvörðun félagsmálaráðherra var umsýsla atvinnuleysistrygginga staðsett á Skagaströnd. Starfsstöðin var opnuð formlega föstudaginn 4. maí síðastliðinn. Sex nýir starfsmenn hafa verið ráðnir til skrifstofunnar en yfirmaður hennar er Líney Árnadóttir.

Skrifstofan annast greiðslur atvinnuleysistrygginga en þjónusta við umsækjendur er sem fyrr hjá þjónustuskrifstofum Vinnumálastofnunar í hverju umdæmi.

Magnús Stefánsson félagsmálaráðherra ávarpaði fjölmenni við formlega opnun skrifstofunnar og sagði það vera gleðiefni að fá tækifæri til að fjölga störfum á landsbyggðinni og renna styrkari stoðum undir atvinnulífið þar. Æskilegt væri að opinberar stofnanir staðsettu sem kostur væri ný verkefni afmarkaðra skipulagseininga á landsbyggðinni.

Með gildistöku nýrra laga um atvinnuleysistryggingar síðastliðið sumar nr. 54/2006 annast Vinnumálastofnun alla stjórnsýslu og umsýslu atvinnuleysistrygginga samkvæmt sérstökum samningi við stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs, sbr. 3. mgr. 6. gr. laganna. Með breytingunum var leitast við að tryggja betur en áður hagræði, samræmi og fagleg vinnubrögð við ákvörðun um rétt innan atvinnuleysistryggingakerfisins.

Reiknistofa Atvinnuleysistryggingasjóðs er til húsa að Túnbraut 1-3 á Skagaströnd. Símanúmer þar er 5824900, faxnúmer 5824920 og netfang [email protected].



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum