Hoppa yfir valmynd
7. maí 2007 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Væntanleg viðbygging Fjöliðjunnar

Magnús Stefánsson félagsmálaráðherra segir stækkun húsnæðis Fjöliðjunnar gerbylta þjónustunni.
Við kynningu á áformum um viðbyggingu Fjöliðjunnar á Akranesi.

Væntanleg 497 fermetra viðbygging myndi því sem næst tvöfalda húsnæði Fjöliðjunnar á Akranesi og gerbylta þjónustunni að mati Magnúsar Stefánssonar félagsmálaráðherra.

„Atvinna er meginþáttur í lífi sérhvers manns,“ sagði ráðherra við kynningu á væntanlegri viðbyggingu í Fjöliðjunni í morgun. „Hún er hluti af sjálfsmynd hans og ímynd hans gagnvart öðrum, vettvangur fyrir sköpunar- og athafnaþörf og þátttöku í samfélaginu á borð við aðra. Atvinna felur þannig í sér annað og meira en fjárhagslegan ávinning. Hún er grundvöllur félagslegrar stöðu og sjálfstæðs lífs, eins konar lífæð við samfélagið.

Drög að væntanlegri viðbyggingu Fjöliðjunnar á Akranesi.Þessi viðbygging mun sérstaklega auka rými fyrir þá hæfingu sem hér er stunduð og gefa möguleika á því að tengja hana betur við þau almennu vinnuverkefni sem unnið er að hér í Fjöliðjunni. Þeir sem hér eru í hæfingu munu því í auknum mæli fá tækifæri til þess að reyna sig í fjölbreytilegri verkefnum sem væntanlega mun auka við og styrkja almenna vinnufærni þeirra. Jafnframt mun viðbyggingin auka möguleika Fjöliðjunnar til þess að bjóða nýjum starfsmönnum verndaða vinnu.

Tíu til fimmtán geðfatlaðir einstaklingar gætu hugsanlega nýtt aðstöðuna hér til vinnutengdra verkefna af ýmsum toga. Loks verður möguleiki á því að bjóða öryrkjum hér á svæðinu sem ekki hafa haft atvinnu upp á ýmis vinnutengd verkefni. Segja má að þessi viðbygging muni því gjörbreyta þjónustu við þá sem þurfa á hæfingu eða verndaðri vinnu að halda. Viðbyggingin mun verða jafnmikil breyting og varð þegar flutt var í þetta húsnæði á sínum tíma.“

Áætlað er að taka nýtt húsnæði í notkun haustið 2008.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum