Hoppa yfir valmynd
10. maí 2007 Dómsmálaráðuneytið

Dóms- og kirkjumálaráðherra kynnti löggæsluáætlun 2007-2011 á fundi með lögreglustjórum

Björn Bjarnason dóms- og kirkjumálaráðherra kynnti löggæsluáætlun 2007-2011 á fundi með ríkislögreglustjóra og lögreglustjórum landsins í Þjóðmenningarhúsinu í dag.
Dóms- og kirkjumálaráðherra með lögreglustjórum í Þjóðmenningarhúsi
Löggæsluáætlun 2007-2011 kynnt í Þjóðmenningarhúsinu

Björn Bjarnason dóms- og kirkjumálaráðherra kynnti löggæsluáætlun 2007-2011 á fundi með ríkislögreglustjóra og lögreglustjórum landsins í Þjóðmenningarhúsinu í dag. Er þetta í fyrsta sinn sem langtímalöggæsluáætlun er gerð. Löggæsluáætlunin er byggð á tillögum embættis ríkislögreglustjóra. Er henni ætlað að veita leiðsögn um það hvernig lögregluyfirvöld geta með góðri samvinnu og samhentum vinnubrögðum tekist á við þau fjölbreyttu og krefjandi úrlausnarefni sem lögreglan glímir við með góðum árangri.

Ráðherra segir að virðing fyrir störfum lögreglunnar sé mikil meðal þjóðarinnar. „Hún sprettur ekki af sjálfu sér, heldur á rætur að rekja til þess að lögreglumenn vinna störf sín af alúð og árvekni. Í trausti þess að svo verði enn um langan aldur er áætlun þessi samin með öryggi lands og þjóðar að leiðarljósi.“

Í Löggæsluáætlun 2007-2011 er fjallað ítarlega um framtíðarsýn löggæslumála á Íslandi, skipulag lögreglu, aðferðafræði og mælikvarða á árangur. Áætlunin mun sæta árlegri endurskoðun þótt hún breytist ekki í meginatriðum. Miðað er við að hvert lögregluembætti marki sér eigin leiðir til þess að ná fram markmiðum áætlunarinnar. Embætti ríkislögreglustjóra mun í umboði ráðuneytisins gera samning um árangursstjórnun við hvert lögregluumdæmi í landinu fyrir árslok 2007.

Sjá löggæsluáætlun 2007-2011 (pdf skjal).

Reykjavík, 10. maí 2007



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum