Hoppa yfir valmynd
7. júní 2007 Innviðaráðuneytið

Sturla Böðvarsson fær heiðursverðlaun Samstöðu

Samstaða, áhugahópur um slysalausa sýn í umferðinni, afhenti í gær Sturlu Böðvarssyni, fyrrverandi samgönguráðherra, fyrstu heiðursverðlaun samtakanna fyrir framlag hans til umferðaröryggismála. Um leið færði Sturla nýjum samgönguráðherra, Kristjáni L. Möller, kefli fyrir hönd Samstöðu til merkis um að halda áfram starfi samgönguyfirvalda að fækkun umferðarslysa.

Samstaða afhendir heiðursverðlaun og kefli.
Samstaða afhendir heiðursverðlaun og kefli. Frá vinstri: Kristján L. Möller, Sturla Böðvarsson og Steinþór Jónsson.

Steinþór Jónsson, formaður Samstöðu, afhenti Sturlu heiðursverðlaunin í athöfn sem fór fram í Forvarnahúsi Sjóvár. Sagði Steinþór hann verðugan þeirra fyrir góðan árangur og nýjar áherslur í umferðaröryggismálum. Verðlaunin eru pennasett með áletruninni: Heiðursverðlaun Samstöðu – þakklæti fyrir góð verk í þágu umferðaröryggis. Við sama tækifæri afhenti fulltrúi áhugahóps um tvöfalda Reykjanesbraut ráðherranum fyrrverandi samsetta mynd frá baráttunni um að koma því verkefni í kring og voru þær myndir teknar frá árinu 1999 til dagsins í dag.

Steinþór Jónsson afhenti Sturlu Böðvarssyni einnig kefli með áletruninni: Samstaða – slysalaus sýn, og bað hann að afhenta nýjum samgönguráðherra, Kristjáni L. Möller, sem tákn um áframhaldandi baráttu samgönguyfirvalda í góðu samstarfi við Samstöðu og aðra velunnarra í baráttunni um fækkun banaslysa og alvarlegra slysa í umferðinni.

Kristján L. Möller tók við keflinu og tók undir að Sturla ætti heiður skilinn fyrir forgöngu hans á sviði umferðaröryggismála. Sagði hann keflið verða sett á veglegan stað í samgönguráðuneytinu til áminningar um verkefnið. Kvaðst hann líta á keflið sem kyndil sem bera ætti áfram og halda áfram þeim umferðaröryggisverkefnum sem stofnað hefði verið til. Samgönguráðherrann sagði framundan þann árstíma sem umferð ykist mikið og brýnt væri að ökumenn héldu vöku sinni. Þrennt væri sér efst í huga í því sambandi: Að aka með gát, að menn ækju allsgáðir og að allir stefndu að því að aka heilir heim.

Samgönguráðherra fær afhent kefli Samstöðu.
Kristján L. Möller samgönguráðherra tekur við kefli Samstöðu, grasrótarsamtaka um slysalausa sýn, úr hendi Sturlu Böðvarssonar, fyrrverandi samgönguráðherra. Steinþór Jónsson, formaður samstöðu fylgist með.
Sturla Böðvarsson fær viðurkenningu frá áhugahópi um tvöföldun Reykjanesbrautar.
Sturla Böðvarsson tekur við viðurkenningu frá fulltrúa áhugahóps um tvöföldun Reykjanesbrautar, Berki Birgissyni.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum