Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Mál nr. 10/2007. Ákvörðun kærunefndar útboðsmála:

Ákvörðun kærunefndar útboðsmála 6. júlí 2007

í máli nr. 10/2007:

Kraftur hf.

gegn

Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins bs.

Með bréfi, dagsettu 12. júní 2007, kærir Kraftur hf. ákvörðun Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins um að samþykkja tilboð Heklu hf. í útboði nr. 10968: Kaup á gámalyftubíl. Kærandi gerir eftirfarandi kröfur:

1.                        Að samningsgerð verði stöðvuð þar til endanlega hefur verið skorið úr kæru.

2.                        Að kærunefnd ógildi ákvörðun sem tilkynnt var með bréfi, dags. 5. júní 2007, um að samþykkja tilboð Heklu hf. í útboði nr. 10968.

3.                        Að kærunefnd leggi fyrir kærða að meta að nýju tilboð í útboði nr. 10968 og til vara að auglýsa útboð á nýjan leik.

Verði ekki fallist á framangreint er þess óskað að kærunefnd láti uppi álit um skaðabótaskyldu kærða gagnvart kæranda. Í öllum tilfellum er þess krafist að kærða verði gert að greiða kostnað kæranda við að hafa kröfur sínar uppi fyrir nefndinni.

Kærði krefst þess að öllum kröfum kæranda verði hafnað. Jafnframt er gerð sú krafa að kærunefndin úrskurði kæranda til greiðslu málskostnaðar.

Í þessum hluta málsins tekur kærunefnd til skoðunar hvort rétt þyki að stöðva samningsgerð í tengslum við útboðið. Um efnisatriði kærunnar og meðferð hennar fyrir kærunefnd fer eftir ákvæðum laga nr. 84/2007 um opinber innkaup, sbr. 106. gr. laganna, þar sem hin nýju lög tóku gildi hinn 16. apríl 2007.

 

I.

Hinn 6. maí 2007 óskaði Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins bs., hér eftir kærði, eftir tilboðum í gámalyftubíl, sem kærði hafði hug á að nýta í starfsemi sinni. Gámalyftubíllinn skyldi fullnægja ákveðnum kröfum sem settar voru fram í útboðsgögnum, m.a. um burðargetu, lengd, vélarstærð, hjólbarða, ökumannshús, dráttarbúnað o.fl. Við mat á tilboðum skyldi fjárhagsleg hagkvæmni vega 50%, gæði (m.a. umboðs- og viðgerðarþjónusta) 40% og afhendingartími 10%.

Tilboð voru opnuð hinn 25. maí 2007 og skiluðu fjórir aðilar inn tilboði, þ.m.t. Hekla hf. og kærandi. Tilboð Heklu hf. varðaði svokallaða Scania/JOAB bifreið og nam tilboðið SEK 1.675.600. Kærandi skilaði inn tveimur tilboðum, annað vegna svokallaðrar MAN-PALFINGER bifreiðar, þar sem tilboðið nam ISK 15.318.352, og hitt vegna svokallaðrar MAN-JOAB bifreiðar, þar sem tilboðið nam ISK 16.789.764. Bæði tilboð kæranda miðuðust við gengi EUR.

Með bréfi Jóns Diðriks Jóhannssonar, dags. 5. júní 2007, til Innkaupa- og rekstrarskrifstofu Reykjavíkurborgar, sem annaðist framkvæmd útboðsins, var ákveðið að taka tilboði Heklu hf. Var á því byggt að Hekla hf. hefði átt lægsta tilboðið og að það tilboð uppfyllti allar kröfur útboðslýsingar. Næstlægsta tilboð var frá kæranda, en í bréfinu var tekið fram að í þeirri bifreið væri ekki sambærileg lyfta og væri í bifreið Heklu hf. Jafnframt kom fram að kærði hefði bæði reynslu af varahluta- og viðgerðarþjónustu Heklu hf. og kæranda og gerði ekki upp á milli þeirra. Afhendingartími tilboða var sagður sambærilegur. Valið virðist þannig fyrst og fremst byggt á því að Hekla hf. byði sambærilega bifreið og þegar var í notkun, m.a. með sama lyftubúnaði, sem talið var fela í sér minni þjálfunarkostnað starfsmanna. Samdægurs var sent bréf til Heklu hf., þar sem tilkynnt var um að tilboði þess væri tekið. Bjarni Arnarson, starfsmaður Heklu hf., staðfesti móttöku og pöntun með tölvupósti, dags. 6. júní 2007.

Kærandi fellst ekki á framangreint val kærða. Varðar mál þetta ágreining aðila um réttmæti þeirrar ákvörðunar kærða að hafa valið að kaupa framangreindan gámalyftubíl af Heklu hf.

 

II.

Kærandi byggir kröfur sínar á því að óverulegur munur hafi verið á tilboðsverði kæranda og Heklu hf. Engar upplýsingar séu fyrir hendi um það hvernig aðrir þættir, sem gilda samtals jafnmikið og verð, hafa verið metnir og hvað lá þar til grundvallar. Þannig séu ekki fyrir hendi upplýsingar um varahlutaþjónustu og ábyrgðartíma fyrirtækjanna.

            Kærandi byggir á því að samkvæmt gr. 4.3. í útboðsskilmálum skuli notkunarleiðbeiningar fylgja með á íslensku, ásamt viðhalds- og þjónustubók. Slík gögn hafi fylgt með gögnum kæranda en ekki gögnum Heklu hf.

            Kærandi vísar til þess að tilboð Heklu hf. hafi ekki haft neinn ákveðinn afhendingartíma, heldur einungis vísað til samkomulags um afhendingu án frekari skilgreiningar. Kærandi byggir á því að slíkt tilboð sé ekki gilt, enda á tilboðsgjafi ekki að geta breytt tilboði sínu eftir opnun tilboða, þegar upplýsingar um önnur tilboð liggja fyrir.

            Kærandi vísar til þess að nánast enginn munur hafi verið á verði milli tilboðs þess sem ákveðið var að taka og tilboðs kæranda. Verð átti að vega 50% við val á tilboði. Kærandi byggir á því að ákvörðun hafi verið tekin án þess að meta gæði tilboðs eða afhendingartíma, sem samtals skyldu vega 50% við val á tilboðum.

            Kærandi byggir á því að ekki sé ágreiningur uppi um það að tilboð hans hafi verið gilt og að sá gámalyftubíll sem hann bauð fram hafi uppfyllt kröfur útboðsskilmála.

            Byggir kærandi þannig á því að ekki hafi verið valið hagkvæmasta tilboðið með vísan til forsendna sem settar hafa verið í útboðsgögnum, sbr. 72. gr., sbr. 45. gr. laga nr. 84/2007. Telur hann það leiða til þess að lagaskilyrði séu til þess að stöðva innkaupaferli og samningsgerð, sbr. 96. gr. laga nr. 84/2007, enda sett fram innan 10 daga frá því ákvörðun var tekin og verulegar líkur á því að brotið hafi verið gegn lögum og reglum við framkvæmd útboðs nr. 10968.

 

III.

Kærði byggir kröfu sína um höfnun fyrst og fremst á því að ekki sé um að ræða útboð sem falli undir lög um opinber innkaup nr. 84/2007. Er á því byggt að kærði sé byggðarsamlag sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu sem að öllu leyti sé í eigu þeirra. Leiði því 2. mgr. 19. gr. laga nr. 84/2007 til þess að ákvæði 2. þáttar laganna eigi ekki við um útboðið. Eigi lögin aðeins við ef útboðið nær þeim viðmiðunarfjárhæðum sem kveðið er á um í 3. þætti laganna, sbr. 78. gr. þeirra.

            Kærði byggir jafnframt á því að útboðið hafi ekki náð viðmiðunarfjárhæðum til þess að falla undir 3. þátt laga nr. 84/2007. Byggir kærði á því að viðmiðunarfjárhæð vegna útboðsins sé kr. 17.430.000,- án virðisaukaskatts, sbr. 1. gr. reglugerðar nr. 1012/2003 um viðmiðunarfjárhæðir vegna opinberra innkaupa á Evrópska efnahagssvæðinu og samkvæmt samningi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO) um opinber innkaup. Kærði byggir á því að bæði kostnaðaráætlun hafi verið undir þessari fjárhæð sem og tilboð allra tilboðsgjafa í útboðinu.

            Kærði byggir á því að samkvæmt 2. mgr. 91. gr. laga nr. 84/2007 sé kærunefnd útboðsmála einungis bær til þess að fjalla um brot á lögum nr. 84/2007 og reglum settum samkvæmt þeim. Þar sem ákvæði laganna taki ekki til útboðsins þá geti kærunefndin ekki skorið úr kæru.

            Kærði mótmælir harðlega kröfum kæranda og sérstaklega kröfum um stöðvun útboðsins, enda sé það skilyrði fyrir beitingu stöðvunar að verulegar líkur séu á því að brotið hafi verið gegn lögunum eða reglum settum samkvæmt þeim. Miðað við fyrirliggjandi gögn og upplýsingar er ljóst að ekki hafi verið brotið gegn lögum nr. 84/2007 eða reglum settum samkvæmt þeim.

            Kærði byggir á því að ákvæði 76. gr. laga nr. 84/2007 um 10 daga biðtíma eigi ekki við þar sem ákvæði laganna eigi almennt ekki við um útboðið.

            Kærði bendir á að mat á tilboðum hafi verið fyllilega í samræmi við allar kröfur útboðsgagna og að rökstuðningur fyrir því mati verði sendur til kæranda þar sem hann hafi óskað þessa.

            Kærði byggir að lokum á því að kæranda beri að greiða kærða málskostnað, enda sé kæran með öllu tilefnislaus og kæranda mátt vera ljóst að kærunefndin hafi ekki lögum samkvæmt heimild til þess að fjalla um kæruna.

 

IV.

Samkvæmt 96. gr. laga um opinber innkaup nr. 84/2007 getur kærunefnd stöðvað innkaupaferli eða gerð samnings þar til endanlega hefur verið skorið úr kæru telji nefndin verulegar líkur á því að brotið hafi verið gegn lögunum, þar á meðal þeim ákvæðum tilskipunarinnar sem vísað er til í lögunum eða reglum settum samkvæmt þeim. Að mati kærunefndar bera gögn málsins ekki með sér að verulegar líkur séu á því að brotið hafi verið gegn ákvæðum laganna eða þeirra reglna sem vísað er til í ákvæðinu. Verður af þessum sökum að hafna kröfu kæranda um stöðvun á gerð samnings vegna útboðs nr. 10968 þar til endanlega hefur verið skorið úr kæru.

 

Ákvörðunarorð:

Kæru Krafts hf. um stöðvun á samningsgerð vegna útboðs nr. 10968 er hafnað.

 

Reykjavík, 6. júlí 2007

Páll Sigurðsson

Stanley Pálsson

Sigfús Jónsson

Rétt endurrit staðfestir

 Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn