Hoppa yfir valmynd
Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Ríkisreikningur 2006

Fjármálaráðuneytið, fréttatilkynning nr. 13/2007

Lokið hefur verið við gerð ríkisreiknings fyrir árið 2006. Hér verður gerð grein fyrir helstu niðurstöðum reikningsins og samanburði við fyrra ár.

Afkoma ríkissjóðs

Undanfarin ár hafa einkennst af miklum umsvifum í efnahagslífinu og hagvexti. Á mælikvarða landsframleiðslunnar mældist hagvöxturinn 2,6% á árinu 2006 en hann var rúmlega 7% næstu tvö ár á undan. Þessi umsvif birtast glöggt í rekstri ríkisjóðs sem skilaði góðri afkomu á árinu 2006. Samkvæmt niðurstöðutölum ríkisreiknings fyrir árið 2006 nam afgangur á rekstrarreikningi 82 milljörðum króna samanborið við 113 milljarða afgang árið áður. Þegar afkoman er skoðuð án tilfallandi liða eins og eignasölu, lífeyrisskuldbindinga og afskrifta skattkrafna er afgangur af venjubundinni starfsemi 91 milljarður króna á meðan afgangur ársins á undan nam 63 milljörðum.


Í milljónum króna
Reikningur 2006
Fjárlög / fjáraukalög 2006
Frávik, fjárhæð
Frávik %
Reikningur 2005
 
Tekjur samtals
421.963
379.248
42.714
11,3
421.166
- þar af venjubundnar tekjur
405.252
375.721
29.531
7,9
347.054
- þar af tilfallandi tekjur
16.711
3.527
13.184
74.112
     
Gjöld samtals
340.166
334.637
5.529
1,7
308.395
- þar af venjubundin gjöld
314.228
320.214
-5.986
-1,9
284.531
- þar af tilfallandi gjöld
25.938
14.423
11.515
23.863
     
Tekjur umfram gjöld
81.797
44.612
37.185
112.771
- þar af vegna venjubundinnar starfsemi
91.024
55.508
35.516
62.523
- þar af vegna tilfallandi liða
-9.227
-10.896
1.669
50.249
     
Handbært fé frá rekstri
87.728
43.807
43.921
35.057
Lánsfjárjöfnuður
-31.798
-80.493
37.185
76.584


Handbært fé frá rekstri og lánsfjárjöfnuður

Handbært fé frá rekstri, þ.e. það fjármagn sem rekstur ríkissjóðs skilar til að bæta eignastöðu sína, nam 88 milljörðum króna á árinu samanborið við 35 milljarða árið á undan. Ríkissjóður nýtti þessa góðu greiðsluafkomu til að lækka skuldir og bæta sjóðstöðu sína hjá Seðlabankanum í því skyni að vega á móti þenslu og eftirspurn í hagkerfinu. Undanfarin tvö ár hefur ríkissjóður aukið við innstæður sínar í Seðlabankanum og námu þær 81 milljarði króna í lok árs 2006. Aukningin nam 17 milljörðum á árinu 2005 og rúmum 47 milljörðum á árinu 2006. Þess utan voru 32 milljarðar af söluandvirði Landsímans lagðir inn til Seðlabankans á árinu 2005. Samhliða þessu lækkuðu hreinar skuldir og skuldbindingar ríkissjóðs, þ.e. staða heildarskulda að meðtöldum lífeyrisskuldbindingum umfram stöðu veittra lána, úr 24,6% af landsframleiðslu í árslok 2005 í 22,8% í árslok 2006.

Í lok síðasta árs tók ríkissjóður erlent lán að jafnvirði einum milljarði evra til að styrkja gjaldeyrisforða þjóðarbúsins. Andvirði lánsins var endurlánað til Seðlabankans á svipuðum vaxtakjörum og í sömu gjaldmiðlum til að eyða vaxta- og gjaldeyrisáhættu. Lántakan breytir þannig ekki hreinni skuldastöðu og hún hefur óveruleg áhrif á afkomu ríkissjóðs þar sem vaxtatekjur koma á móti vaxtagjöldum. Með þessum aðgerðum stuðlar ríkissjóður að styrkari stöðu Seðlabankans á þessu sviði.

Á undanförnum árum hefur hluta af lánsfjárafgangi verið ráðstafað til sérstakra innborgana hjá opinberu lífeyrissjóðunum. Hefur það verið gert til að gera þá betur í stakk búna til að takast á við framtíðarskuldbindingar sínar. Á árinu 2006 námu þessar greiðslur tæpum 6 milljörðum króna og í lok árs var uppsöfnuð staða innborgana að meðtalinni ávöxtun alls 126 milljarðar króna.

Tekjur ríkissjóðs

Tekjur ársins 2006 urðu alls 422 milljarðar króna á árinu en það er um 37% af landsframleiðslu samanborið við rúm 41% árið á undan. Tekjur af sköttum á sölu vöru og þjónustu nema 186 milljörðum króna og eru þær 44% af heildartekjum. Það er hækkun um 21 milljarð frá fyrra ári og vegur þar þyngst að tekjur af virðisaukaskatti hækka um 18 milljarða. Tekjur ríkisjóðs af fjármagnstekjum og tekjuskatti á einstaklinga og lögaðila nema alls 138 milljörðum króna samanborið við 117 milljarða árið áður. Skattar á tekjur einstaklinga nema 81 milljarði og hækka um 12,8%, skattar á fyrirtæki nema 32 milljörðum og hækka um 38,5% og skattur á fjármagnstekjur eru 24 milljarðar og nemur hækkun þeirra 9,6%. Ef frá er taldar fjármagnstekjugreiðslur ríkissjóð, sem voru óvenjumiklar á árinu 2005 vegna sölu Landsímans, þá nemur hækkunin tæplega 54%.

Gjöld ríkissjóðs

Gjöld ársins 2006 nema 340 milljörðum króna en það er 29,8% af landsframleiðslunni. Árið 2005 voru gjöldin 308 milljarðar eða 30,2% af landsframleiðslunni. Gjöldin hækka því um 32 milljarða króna eða 3,3% að raungildi miðað við breytingar neysluverðsvísitölunnar. Heilbrigðismál eru sem fyrr stærsti útgjaldaliður ríkisins og var 86 milljörðum króna varið til þeirra. Þau nema 25,2% af útgjöldum ríkisins og er hækkun frá fyrra ári 9 milljarðar eða 4,5% að raungildi. Hér vega sjúkrahúsaþjónusta og heilsugæsla þyngst eða 79%. Gjöld vegna almannatrygginga og velferðarmála nema 74 milljörðum og eru 21,8% af gjöldum ríkisins. Undir þennan málaflokk falla meðal annars útgjöld vegna tryggingamála 48 milljarðar, barna og vaxtabætur 12 milljarðar, fæðingarorlof 7 milljarðar og málefni fatlaðra 8 milljarðar. Gjöld til menntamála námu 34 milljörðum og hækka um 4,4% að raungildi. Hér er einkum um að ræða útgjöld til háskóla og framhaldsskóla. Gjöld til efnahags og atvinnumála nema 46 milljörðum og hækka um 6% að raungildi. Hér er m.a. um að ræða 16 milljarða útgjöld til samgöngumála og 11 milljarðar til landbúnaðarmála. Gjöld vegna annarra málaflokka nema samtals 101 milljarði. Af veigamestu útgjöldum sem hér falla undir eru menninga-, íþrótta- og trúmál 15 milljarðar, löggæslu og öryggismál 14 milljarðar, afskriftir skattkrafna 11 milljarðar, lífeyrisskuldbindingar 11 milljarðar og fjármagnskostnaður 15 milljarðar króna.

Reikningurinn fyrir árið 2006 er settur fram í tveimur hlutum. Annars vegar er samstæðureikningur um fjármál A-hluta ríkissjóðs. Hins vegar eru einstakir reikningar stofnana í A-hluta, ríkisfyrirtækja í B-hluta, lánastofnana í C-hluta, fjármálastofnana í D-hluta og hlutafélaga og sameignarfélaga sem eru að hálfu eða meira í eigu ríkisins í E-hluta. Ríkisreikningur 2006 verður aðgengilegur á veraldarvefnum og er slóðin www.fjs.is.

Fylgiskjöl:


Reykjavík 10. ágúst 2007Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira